Leggur til lögleiðingu gjaldeyrisfölsunar
23.2.2015 | 20:32
Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp, sem felur beinlínis í sér tillögu um að lögleiða nokkuð sem hingað til hefur verið ólöglegt, það er að segja gengistryggð lán. Þau hafa verið ólögleg frá því að heimildir til verðtryggingar miðað við gengisvísitölur voru felldar brott úr vaxtalögum árið 2001. Hinsvegar hefur verið leyfilegt að lána í erlendum gjaldeyri, og myndi verða það áfram að óbreyttu. Því er vandséð þörfin fyrir slíkt frumvarp.
Annað sem er einkennilegt við frumvarpið er það hefur að geyma afvegaleiðandi málfræðivillur og jafnvel ranga hugtakanotkun. Sjáum dæmi:
2. gr.
- Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Erlend lán, með einni nýrri grein, 16. gr. a, sem orðast svo:
- Ákvæði þessa kafla gilda um erlend lán. Erlent lán er lán í erlendum gjaldmiðli eða gengistryggt lán. Lán í erlendum gjaldmiðli er lán í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Gengistryggt lán er lán í íslenskum krónum þar sem höfuðstóll, greiðsla afborgana og/eða greiðsla vaxta er háð breytingum á gengi erlends gjaldmiðils eða gengisvísitölu, þ.m.t. samsettra gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir.
- Heimilt er, nema lög mæli á annan veg, að veita erlend lán. Um erlend lán til neytenda gilda lög um neytendalán.
Um þetta er ýmislegt að segja. Til að byrja með er lagt til að nýr kafli bætist við lög um vexti og verðtryggingu, sem gildi um erlend lán. Því næst er svo hugtakið "erlent lán" beinlínis endurskilgreint sem "lán í erlendum gjaldmiðli eða gengistryggt lán í íslenskum krónum". Fyrir utan það að vera bæði málvilla og rökvilla, er þetta beinlínis villandi.
Í uppgjörsleiðbeiningum Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja er erlent lán skilgreint (réttilega) sem: "Bein erlend lántaka hjá erlendri lánastofnun eða öðrum erlendum aðila." Samkvæmt orðasafni Financial Times þýðir "erlent lán" (foreign loan), "lán sem er veitt af erlendri ríkisstjórn eða fjármálastofnun" (A loan to a country or organization made by a foreign government or financial institution).
Þessi skilgreining er sú sama allsstaðar í heiminum. Til að taka fjarlægt dæmi er hér tilvitnun í leiðbeiningar Seðlabanka Filippseyja til lánastofnana um gjaldeyrismál:
"Foreign loans refer to all obligations (regardless of currency of denomination and form, i.e., cash or in kind) owed by Philippine residents to non-resident entities, including advances from foreign parent companies, shareholders and affiliates and peso- denominated loans from non-residents. Foreign currency denominated loans refer to obligations owed by Philippine residents to FCDUs of banks operating in the Philippines."
Lán þarf sem sagt að hafa verið tekið erlendis hjá erlendum aðila, til þess að teljast vera erlent. Það hefur hinsvegar ekkert með að gera í hvaða gjaldmiðli lánið er. Til dæmis er lán frá þýskum banka jafn erlent hvort sem það er í evrum, dollurum, eða jafnvel þó það væri í krónum. Lán sem eru tekin innanlands, eru hinsvegar innlend lán, sama hvaða gjaldmiðli þau eru í. Til dæmis ef Íslendingur tekur lán hjá Landsbanka Íslands, þá er það innlent lán, alveg sama hvort það er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldeyri. Uppruni láns er ekki það sama og gjaldmiðillinn sem lánaður er. Svo dæmi sé tekið þá verður reiðhjól ekki að bifreið þó það sé keypt með lánsfé frá bílasölu!
Ekki skánar það þegar lengra líður á frumvarpið, þar sem lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands til að gera ráð fyrir erlendum lánum, en þar segir í 2. mgr. tillögu skv. 3. gr:
- Í reglunum er heimilt að binda erlend lán skilyrðum sem varða tekjur lántaka, tegund trygginga, upplýsingaskyldu lánveitanda, lengd lánstíma og tilhögun endurgreiðslna. Heimilt er að ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lántaka, svo sem tiltekna hópa einstaklinga eða lögaðila, sveitarfélög og aðila sem opinberir aðilar eru í ábyrgð fyrir.
Samkvæmt þessu virðist eiga að búa til reglur sem kveði á um mismunun, þannig að fólki verði skipt upp í flokka eftir því hvort og í hvaða mæli það fái heimildir til að taka gengisbundin neytendalán. Erfitt er að sjá að þetta geti samræmst 65. gr. stjórnarskrár þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.
Þar sem það er bundið í núgildandi stjórnarsáttmála að draga úr vægi verðtryggingar í neytendalánum, skýtur það jafnframt mjög skökku við að fjármálaráðherra skuli leggja fram frumvarp um auknar heimildir til verðtryggingar, þ.e.a.s. miðað við gengisvísitölur.
Helstu góðu fréttirnar eru þó þær tillögur sem gerðar eru um breytingar á lögum um neytendalán, en þar segir meðal annars:
5. gr.
- Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
- a. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
- Ef höfuðstóll, greiðsla afborgana og/eða greiðsla vaxta er í öðrum gjaldmiðli eða er háð gengi annars gjaldmiðils en þeim sem lántaki er með tekjur í, að hluta til eða að öllu leyti, skal þrátt fyrir 2. mgr. ávallt framkvæma greiðslumat. Óheimilt er að veita lántaka slíkt lán nema greiðslumat leiði í ljós að hann hafi augljóslega fjárhagslega burði til að standast verulegar breytingar á gengi þess gjaldmiðils sem tekjur lántaka eru í samanborið við þann gjaldmiðil sem lánið er í eða tekur mið af.
Þetta er athyglivert, ekki síst ef litið er til þess að langflest lán neytenda eru í raun í öðrum gjaldmiðli en þeir hafa tekjur í, þ.e. verðtryggðum krónum. Það er kannski bara fagnaðarefni ef á að stemma stigu við þeim? (Muna 65. greinina um bann við mismunun! ;)
Athyglisverðust af öllum er samt 1. gr. frumvarpsins:
1. gr.
- Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Það á þó ekki við um neytendalán.
Til þess að skilja hvað þetta þýðir er nauðsynlegt að gera grein fyrir því hvað 2. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu segir, en samkvæmt henni hefur hingað til verið heimilt að miða verðtryggingu lánsfjár við hlutabréfavísitölur. Sú heimild hefur lítið verið nýtt og er nánast óþekkt á almennum neytendamarkaði. Það er því alls ekki órökrétt að kveða á um bann við slíkum lánum til almennra neytenda, enda geta þau verið gríðarlega áhættusöm.
Það sem er þó öllu merkilegra er hversu einföld sú breyting er að banna þessa tegund verðtryggingar í neytendalánum sérstaklega. Ekki síst þegar litið er til þeirrar miklu umræðu sem verið hefur og sérfræðivinnu um afnám verðtryggingar miðað við vísitölu neysluverðs, sem er mjög útbreidd í neytendalánum, en hún er einmitt heimiluð með 1. mgr. 14. gr., næst á undan þeirri sem fjallar um hlutabréfavísitölur.
Þarna er því komin í ljós mjög einföld leið til að afnema verðtryggingu neytendalána, sem væri hægt að framkvæma strax á þessu þingi með breytingartillögu við frumvarp þetta, þess efnis að á undan 1. gr komi ný grein svohljóðandi:
- Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Það á þó ekki við um neytendalán.
Þannig væri hægt að banna verðtrygginguna strax. Reyndar hefur frumvarp þess efnis nú þegar verið lagt fram, en það var gert á síðasta kjörtímabili:
http://www.althingi.is/altext/141/s/1138.html
Þar eru útfærðar með miklu ítarlegri hætti þær heildarbreytingar sem gera þyrfti á umgjörð íslensks lánamarkaðar til þess að særa verðtrygginguna út með öllu. Einkum er þar um að ræða breytingar á lagaumhverfi opinberra lánastofnana á borð við Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna, svo dæmi séu tekin.
Ekkert er því til fyrirstöðu að endurflytja frumvarp þetta núna!
Greiðslumat vegna erlendra lána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Gengistrygging, Stjórnmál og samfélag, Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 20:43 | Facebook
Athugasemdir
Við fyrstu sín þá er þetta frumvarp lygilega undarlegt í ljósi þess sem gerðist árið 2008 þegar lánastofnanir voru búnar að búa til 2300 milljarða ójafnvæi í gengistryggingarbókhaldi bankana. Nema að ég sé auðvitað að misskilja þetta eitthvað.
Látum það liggja á milli hluta að gengistrygging hefur ekkert með frjálst flæði fjármagns að gera (lántaka í erlendri mynt hefur það hins vegar) en maður hefði haldið að í framhaldinu af hruninu að menn myndu leitast við að tryggja verðtryggingar og gengistryggingarjafnvægi innan fjármálakerfisins. M.ö.o. að skylda lánastofnanir til þess að hafa jafnvægi á milli t.d. gengistryggðra innlána og útlána. Ef það er ekki gert þá liggur gríðarleg freisting falin í því fyrir fjármálastofnanir að fella gengi krónunnar.
Benedikt Helgason, 23.2.2015 kl. 21:06
Nákvæmlega.
Eins og þú bendir réttilega á er það haldlaus rökstuðningur að þetta brjóti gegn frjálsu flæði fjármagns því gengistrygging er alfarið einskorðuð við lán í íslenkum krónum. Lán sem raunverulega eru veitt í erlendum gjaldeyri eru alls ekki bönnuð heldur leyfileg. Til þess að veita þau þarf lánveitandinn hinsvegar að eiga raunverulegan gjaldeyri til að lána. Það er eina sjáanlega ástæðan fyrir þessu, að leyfa bönkum að lána út sýndargjaldeyri í stað raunverulegas gjaldeyris, en það er í raun gjaldeyrisfölsun sem ætti aldrei í lög að leiða í neinu landi.
Verði þetta leyft er verið að fara með ófriði gegn öðrum ríkjum og gjaldmiðlum þeirra, sem samkvæmt íslenskum lögum eru landráð.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2015 kl. 21:19
Já, og ef ég man rétt þá var upphaflega gengistryggingarbannið sett árið 2001 til þess að bregðast við ábendingum frá AGS um að það væri hola í íslenskri löggjöf sem gæti leitt af sér prentun á gervi gjaldeyri. Stjórnvöld eiga bara að mæta ESA fyrir dósmsstólum og láta á þetta reyna í stað þess að lepja þetta upp því þetta hljómar eins og mistök í hugtaka þýðingu á google translate.
Benedikt Helgason, 23.2.2015 kl. 21:34
Einmitt. Ísland er meðal stofnríkja Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og samkvæmt stofnsáttmála hans er aðildarríkjum óheimilt að halda úti hliðarmyntum eða hafa fleiri en opinberan gjaldmiðil. Auk þess er það beinlínis brot gegn fullveldisrétti annarra þjóðríkja að falsa gjaldmiðla þeirra, og þar sem slíkt athæfi getur komið íslenska ríkinu í alvarlega klípu að alþjóðarétti getur það flokkast undir skilgreiningu almennra hegningarlaga á landráðum.
Að sjálfsögðu á að gefa frat í ESA og taka slaginn fyrir EFTA-dómstólnum. Það myndu allir með bein í nefinu gera ef þeir væru með svo gott sem unnið mál í höndunum eins og þetta. Það var gert í Icesave málinu með góðum árangri, einmitt gegn sama mótaðila. Það eina sem þarf til að vinna slíkt mál í þessu tilfelli væri einfaldar oðrskýringar til að leiðrétta þennan misskilning fyrir útlendingum sem ekki kunna að lesa eða hafa ekki aðgang að réttum þýðingum.
Fjármálaráðherra virðist vera svo huglaus að þora ekki að taka slaginn. Spurningin er: hvað veldur? Getur verið að hann vilji jafnvel hafa leyfi til að falsa gjaldmiðla erlendra ríkja? Er það kannski liður í afnámi gjaldeyrishafta, að falsa snjóhengjuna í burtu með því að búa til falskar "erlendar" eignir á móti og vona að með því muni vandamálið hverfa? Aftur til ársins 2007 ???
Þetta er í það minnsta afar tortryggilegt frumvarp!
Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2015 kl. 21:51
...fleiri en einn opinberan gjaldmiðil...
Hefði ég viljað sagt hafa.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2015 kl. 21:51
Hann leggur til að í þetta sinn verði betur kannað hversu miklu er hægt að stela af lántakanum. Síðasta rántilraun heppnaðist ekki alveg.
Toni (IP-tala skráð) 23.2.2015 kl. 22:10
Vill kannski geta tekið stöðu gegn krónunni og grætt svo á því að fella hana? Aftur og einu sinni enn...
Þetta er sama spiladósin og hefur verið trekkt upp á nokkurra ára fresti frá því að Ísland fékk sjálfstæðan gjaldmiðil, og þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir "óstöðugleika" hans. Þar eru engu um að kenna nema ósvífni og afglöpum þeirra sem fara með stjórnina.
Ef þetta blessað fólk myndi hætta að haga sér eins og smákrakkar í sandkassa væri kannski möguleiki á því einhverri skynsemi í stjórn efnahags- og peningamála. Með þessu er ekki að sjá slíkar breytingar heldur bara meira af sömu vitleysunni og áður hefur verið í boði.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2015 kl. 22:23
Margt gott í þessum pælingum en mig langar að mótmæla því að með því að gengistryggja íslenskt lán, þ.e. binda verðmæti þess við gengi annars gjaldmiðils að þá sé verið að falsa viðkomandi gjaldmiðil. Slík gengistrygging hefði engin áhrif á viðkomandi gjaldmiðil, einungis á íslensku krónuna.
Svo er þetta með jafnræðisreglu stjórnarskrár. Ég sé ekki betur en að lögjafinn sé að reyna að koma því inn að ólíkt sé að lána "saklausum" neytendum sem litla aðstöðu hafa til að meta áhættu, eða stórum aðilum sem hafa fjölda sérfræðinga á sínum snærum. Allavega sýnist mér að ólíku hafi verið saman að jafna þegar einstaklingar svo sem eldriborgarar voru plataðir til að fjárfesta í hlutabréfasjóðum fyrir Hrun eða þegar fjármálastofnanir álpuðust í hið sama. Átti alltaf erfitt með að horfa á viðskiftahákarla, lífeyrissjóði eða sveitarfélög sem fórnarlömb nema þó fórnarlömb eigin græðgi og vanhæfni.
Ég sé ekki betur en að hugmyndin sé að auka jafnræði með smá mismunun ;-)
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.2.2015 kl. 09:14
Sæll Bjarni.
Það er rétt hjá þér að gengistrygging ein og sér felur ekki í sér gjaldeyrisfölsuns. Með þeim reglum sem seðlabankinn hefur sett um gjaldeyrisjöfnuð hefur hann hinsvegar heimilað bönkunum að bókfæra slík lán sem "erlendar gjaldeyriseignir". Það er gjaldeyrisfölsun, að láta líta út fyrir að banki eigi gjaldeyri, sem er ekki til.
Varðandi jafnræðisregluna og þau sjónarmið sem þú nefnir um misjafna þekkingu einstaklinga á fjármálaviðskiptum, þá eru þau góð og gild. Það eru einmitt nú þegar í gildi reglur og hafa verið það frá a.m.k. 2007 um fjárfestavernd (MiFID) sem eiga sér stoð í lögum um verðbréfaviðskipti. Samkvæmt er nú þegar skylt að leggja mat á hæfi fjárfesta til viðskipta með fjármálagjörninga, meðal annars með hliðsjón af þekkingu þeirra og reynslu á því sviði, til þess að ákvarða hversu ríkrar verndar þeir skuli njóta.
Vissulega geta verið málefnaleg sjónarmið til að heimila lögaðilum að vissum skilyrðum uppfylltum að taka erlend lán. Eðlilegast væri hinsvegar að fjármálastofnanir hefðu milligöngu um slíkt enda samrýmist það tilætluðu hlutverki þeirra. Um þær gilda líka reglur sem gera að verkum að þeim ber að veita upplýsingar um stöðu eigna og skulda sinna í erlendum gjaldeyri og breytingar á henni.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2015 kl. 09:31
"Með þeim reglum sem seðlabankinn hefur sett um gjaldeyrisjöfnuð hefur hann hinsvegar heimilað bönkunum að bókfæra slík lán sem "erlendar gjaldeyriseignir". Það er gjaldeyrisfölsun, að láta líta út fyrir að banki eigi gjaldeyri, sem er ekki til."
Þetta er náttúrulega fullkomnlega ótækt ef rétt er, takk fyrir að benda á það.
Nóg er nú samt sem bankakerfið hefur fengið að gefa út af íslenskum krónum án innistæðna að það sé ekki líka að gefa út erlendan gjaldeyri án innistæðna.
Kaupi semsagt (með innistæðulausum viðurkenningarkrónum) þessi rök!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 24.2.2015 kl. 09:38
Hér geturðu lesið reglurnar og sannfært þig enn frekar.
Leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 2/2004 um framkvæmd á lausafjárstýringu gengisbundinna liða hjá fjármálafyrirtækjum:
http://www.fme.is/log-og-tilmaeli/leidbeinandi-tilmaeli/nr/918
"9. Gengisbundin útlán. Halda skal sérstaklega utan um umfang gengisbundinna eigna/útlána til aðila sem ekki hafa tekjur í erlendum gjaldmiðlum."
Reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð:
http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=f1c106ea-bcef-4524-b98e-9a0154e3bf2c
http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=f7e55542-83d5-4517-9f69-ca697c89ce34
http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=54e7c579-8841-4d00-805a-4278ddfe414a
http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=afe3e339-fbb9-477a-9814-5ca722e54887
2. gr. Skilgreiningar:
"Eignir og skuldir í erlendum gjaldmiðlum: Eignir og skuldir, svo og liðir utan efnahagsreiknings, sem eru í erlendum gjaldmiðli og svo liðir í íslenskum krónum sem taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla."
Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2015 kl. 09:50
Er ekki nóg fyrir bankana að geta búið til krónur? Er nauðsynlegt fyrir þá að geta einnig búið til erlendann gjaldmiðil?
Sé ekki betur en að verið sé að lögleiða það sem átti stórann hlut að bankahruninu. Að gera næsta bankahrun löglegt.
Gunnar Heiðarsson, 24.2.2015 kl. 14:24
Það er einmitt tilfellið.
Þess vegna þarf að mótmæla þessari fyrirætlan.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2015 kl. 14:33
Almættið algóða hjálpi okkur öllum, hvar í flokki sem við höfum fengið bankaræningja/lífeyrissjóða-úthlutað bankaveiðileyfisrænandi-tilverustæði, hér á spillta Íslandinu.
Þrælahald er bannað.
Ekki einu sinni banka/lífeyrissjóðs-ræningjar geta breytt þeirri staðreynd.
Annað get ég ekki sagt.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.2.2015 kl. 18:57
Eftir dóm Hæstaréttar á glæpamönnum, sem voru í
forsvari fyrir Kaupþing, er þá nokkur furða, að restin
af þeirra "fora svars mönnum" í pólitík, reyni allt til
þess, að mál fari ekki lengra í rannsóknum en nú er..??
Og það vafningalaust....??
En alltaf góður Guðmundur með þínar greiningar.
Og alltaf réttar, að mínu áliti.
B.kv.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 25.2.2015 kl. 20:31
Takk fyrir það Sigurður.
Greiningardeild heimilanna er alltaf á vaktinni. ;)
Talandi um Kaupþingsmenn, hér er merkileg saga af þeim:
Drómi hf. (sá hrikalegi óskapnaður) stefndi þeim fyrir dóm til greiðslu gengistryggðs láns sem þeir tóku hjá SPRON á sínum tíma til þess að kaupa sér laxveiðiá í Borgarfirðinum.
Heldurðu að málsvörn þeirra hafi ekki aðallega byggst á því að lánið væri ólöglega gengistryggt? Hafandi sjálfir stýrt banka sem veitti tugþúsundir slíkra lána sem voru jafn ólögleg!!!
Nú hafa þeir verið dæmdir í fangelsi og munu líklega aldrei endurgreiða lánið þannig að Drómi eignast kannski laxveiðiá? Drómi mun svo væntanlega selja ánna til þess að geta borgað Arion banka fyrir innstæðurnar sem hann tók yfir eftir að þessir spjátrungar voru búnir að keyra bæði Kaupþing og SPRON í þrot.
Þetta er ekki hringekja heldur alíslensk hringavitleysa.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.2.2015 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.