Verðtrygging veldur verðbólgu

Talsverð umræða hefur verið að undanförnu um verðbólgu og vexti í tengslum við kjarasamninga. Í þeirri umræðu hefur verið haldið fram kenningum sem eiga ekki við nein rök að styðjast, og hafa samtök atvinnurekenda, með samtök fjármálafyrirtækja innanborðs, farið þar einna fremst í flokki.

Þau hafa staðið fyrir endurflutningi á gömlu þjóðsögunni um að launahækkanir valdi verðbólgu og þar með hækkunum verðtryggðra lána, til þess að reyna að hræða launþega frá því að gera kröfur um hærri laun. Ekki hefur verið látið þar við sitja enda hafa mörg heimili nú þegar yfirgefið verðtryggða lánakerfið, og hefur því einnig verið haldið fram að launahækkanir muni valda vaxtahækkunum á óverðtryggðum lánum.

Varla verður annað séð en að um beinar hótanir sé að ræða, þar sem innan vébanda þessara samtaka eru bæði þeir atvinnurekendur sem eru í stöðu til að hafa áhrif á verðlag og vexti. Það geta þeir gert með því einfaldlega að hækka verð á vörum og þjónustu sem þeir selja, og á það einnig við um bankana hvað vaxtakjör varðar.

Þessum villandi málflutningi hefur nú verið svarað af hálfu VR sem hefur sýnt fram á það með skýrum hætti að ekki er beint samband milli kjarasamninga og verðlagsbreytinga. Því ber að fagna, enda orðið löngu tímabært að rétta við þá öfugsnúnu umræðu sem allt of lengi hefur tíðkast um efnahagsmál hér á landi.

Af þessu tilefni er rétt að minna á að eins og margoft hefur verið fjallað um hér á þessum síðum, þá er einn orsakavaldur verðbólgu sem hefur sögulega verið vanmetinn hér á landi, en það er verðtrygging útlána bankakerfisins. Hér er ekki um neina kenningu að ræða, heldur einfaldlega fyrirliggjandi staðreynd.

Orsakasambandið er að finna í því hvernig verðtryggðu lánin eru útfærð. Annars vegar með því að vísitölubinda höfuðstól lánanna og annars vegar að bókfæra allar þannig uppreiknaðar en ógreiddar framtíðar verðbætur sem eign í nútímanum. Með þessum hætti myndast fölsk eign úr ókomnum tekjum sem engin innstæða er fyrir, en það jafngildir í reynd peningaprentun sem hefur jafnan í för með sér verðbólgu.

Þannig byggjast rökin fyrir því að afnema verðtryggingu í lánakerfinu ekki aðeins á því að slík lán séu varasöm fyrir neytendur, heldur einnig að sjálft fyrirkomulagið sé beinlínis efnahagslega skaðlegt. Hagfræðingastéttin hefur lengst af upp til hópa litið algjörlega framhjá þessari skaðsemi í blindri hrifningu sinni af þessu séríslenska fyrirbæri, með vissum undantekningum þó.

Nú eru hinsvegar ýmis teikn á lofti um að vakning sé að verða, ekki aðeins meðal hagfræðinga, heldur þjóðarinnar allrar, um mikilvægi þess að taka til endurskoðunar ýmsar þrálátar hugmyndir sem lengi hefur verið haldið á lofti og eiga ef til vill ekki við rök að styðjast. Því ber að fagna og vekur það jafnframt von um að með breyttu hugarfari verði jafnvel hægt að ná viðunandi tökum á stjórn efnahagsmála hér á landi.

Afnám verðtryggingar er nauðsynlegt skref í þá átt.


mbl.is Leiðir ekki sjálfkrafa til verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Svo má lengi brýna að bíti!

Erlingur Alfreð Jónsson, 13.2.2015 kl. 13:50

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Hárrétt Guðmundur. En þessar augljósu staðreyndir hefur aldrei mátt ræða.

Þórir Kjartansson, 13.2.2015 kl. 21:58

3 Smámynd: Jóhann Kristinsson

10% þjóðarinnar sem er auðvitað í áhrifa miklum stöðum í banka og möppudýra kerfinu vilja græða á þeim sem minna meiga sín eins mikið og hægt er.

Ofur vextir með verðtryggingu, þetta getur ekki verið betra.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 14.2.2015 kl. 03:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband