Ólögmætur samningur ekki sanngjarn

Af fyrirsögn hinnar tilvísuðu fréttar mætti draga þá ályktun að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði dæmt á þá leið að sá verðtryggði lánssamningur sem um var deilt fyrir dómnum, hafi að mati dómsins talist sanngjarn. Þetta er hinsvegar algjörlega kolrangt.

Hvergi í umræddum dómi kemur fram að samningurinn sé sanngjarn að mati dómsins, enda var ekki gerð krafa um neitt slíkt í málinu. Þessi staðhæfing á sér einfaldlega ekki stoð í dómsorðinu. Þvert á móti kemur fram í því að viðurkennt sé að lánssamningurinn hafi verið ólöglega gerður þannig að brotið hafi gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Með því var í raun fallist á þessa megin málsástæðu sem málatilbúnaður neytenda byggðist á.

Dómararnir töldu hinsvegar þrátt fyrir þetta að samningurinn ætti að halda gildi sínu.

Svo má velta því fyrir sér hvað sé eiginlega á seyði hjá þeim sem geta komist að þeirri niðurstöðu að lán sem er ólöglegt geti samt talist lögmætt. Málflutningur um það álitaefni mun hinsvegar fara fram fyrir Hæstarétti Íslands, en ekki á bloggsíðum.

Tilgangur þessara skrifa er fyrst og fremst að leiðrétta fréttaumfjöllun um málið þar sem haldið hefur verið fram röngum fullyrðingum um niðurstöðuna, og að útskýra hver sú niðurstaða raunverulega er. Ekki að færa rök með eða gegn henni.

Það hlýtur að þurfa að gera þá lágmarkskröfu til fjölmiðla að þegar þeir fjalli um niðurstöður dómstóla, þá skýri þeir rétt frá staðreyndum um þær niðurstöður.


mbl.is Verðtryggður lánssamningur sanngjarn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til að átta sig á greiðslubyrði lána er hið eina rétta að miða við 0% verðbólgu vegna þess að þannig eru allar greiðslur uppfærðar til núvirðis.

Það er alveg út í hött að reikna út td að mánaðargreiðsla hafi kannski fjórfaldast eftir 20 ár. Hver króna hefur þá aðeins verðgildi sem er 1/4 af verðgildi krónu í dag. Greiðslubyrðin hefur því ekkert þyngst þó að fjöldi króna hafi fjórfaldast. Útkoman verður því mjög villandi.

Þegar um er að ræða verðtryggingu eða verðbólgu er nauðsynlegt að núvirða allar upphæðir til að átta sig á raunvirði þeirra. Við útreikninga á framtíðargreiðslum af lánum er það gert með því að miða við 0% verðbólgu í útreikningum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 17:31

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Ásmundur.

Það er nú einmitt þetta sem menn greinir á um.

Hvort sem þér finnst persónulega sjálfum betra að miða við 0% verðbólgu, þá er það hinsvegar bara alls ekki það sem lög kveða á um að skuli gera. Þar eru fyrst og fremst Lög um neytendalán nr. 121/1994 en þau gilda um lán tekin á tímabilinu 1994-2013.

Samkvæmt lögum um neytendalán, og með hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, er óheimilt að miða við 0% því þá er ekki sýndur neinn kostnaður við verðtrygginguna.

Lög um neytendalán kveða skýrt á um að þegar veittar eru upplýsingar um lánskostnað skuli miða þær við útreikninga byggða á þeim forsendum sem uppi eru á þeim tíma. Það á einnig við um verðtryggingu, ef það er til dæmis 5% verðbólga á lántökudegi á að reikna verðbætur samkvæmt því og vexti líka því þeir reiknast þá af verðbættum höfuðstól og verða þannig hærri en ella. Þetta samspil verðbóta og vaxta er alls ekkert víst að sé öllum neytendum fyllilega ljóst og þess vegna á skilyrðislaust að sýna þeim lánskostnaðinn reiknaðan og sundurliðaðan í formi greiðsluáætlunar miðað við þessar forsendur svo þeir geti glögglega áttað sig á umfangi greiðslubyrðinnar af láninu.

Samkvæmt þessum lögum á neytandi að geta borið saman mismunandi lánakjör óháð lánsformi og þeirri aðferð sem lánveitandinn kýs að nota til að ákvarða þann kostnað sem neytandinn þarf að greiða. Til þess að gera það sem einfaldast og samræmdast eru tvö hugtök í lögunum sem skipta höfuðmáli: heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar. Heildarkostnaðurinn segir einfaldlega til um hversu margar krónur þarf að greiða til baka á lánstímanum, miðað við framangreindar grunnforsendur, og árleg hlutfallstala kostnaðar segir til um vaxtaígildið sem svarar til þeirra gjalda sem falla á lánið á lánstímanum, alveg óháð því hvað lánveitandinn kýs að kalla þau gjöld, hvort þau heita vextir, verðbætur, lántökugjald og jafnvel stimpilgjöld líka ef um er að ræða þinglýsingarskylt bréf eða samning. Þess vegna þetta einmitt nothæfur mælikvarði til að bera saman lánakosti, vegna þess að hann gerir allan kostnaðinn gegnsæan og samanburðarhæfan.

Þessi upplýsingaskylda er ekki ný af nálinni, heldur á rætur að rekja til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands (forvera FME) sem frá því a.m.k. á níunda áratug síðustu aldar hafði mælst til þess við stjórnvöld og Alþingi að slík upplýsingaskylda yrði lögfest, eins og má lesa um í umsögn bankans frá 1992 um frumvarp til laga um neytendalán: https://www.scribd.com/doc/196615391/1992-SI-Umsogn-Frumvarp-Neytendalan

Þar kemur skýrt fram sú tillaga bankans sem er ítarlega útlistuð, að veita skuli lántakendum upplýsingar um allan kostnað við lántöku, þar á meðal verðbætur verðtryggðra lána, sem og virka ávöxtun sem er í raun aðeins annað orð yfir árlega hlutfallstöla kostnaðar. Slíkar reglur voru lögfestar með lögum nr. 30/1993 sem fólu jafnframt í sér innleiðingu á tilskipun 87/102 um neytendalán og tengdust þau þannig lögfestingu EES-samningsins.

Þessi lög hafa nokkrum sinnum verið endurnýjuð, og í öll skiptin sem það hefur verið gert hefur verið skerpt á þessum reglum og gildissvið þeirra útvíkkað svo það nær núorðið til nánast allra tegunda lána sem almenningi standa til boða. Íslenski löggjafinn hefur jafnframt iðulega gengið lengra og veitt neytendum meiri og víðtækari vernd heldur en samkvæmt þeim lágmarkskröfum sem EES-tilskipanir gera til aðildarríkjanna.

Núna síðast voru þau endurnýjuð með lögum nr. 33/2013, en samkvæmt tillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis (þskj. 1233 141. lþ.) var fært í þau ákvæði um sérstaka upplýsingaskyldu vegna fasteignaveðlána. Samkvæmt því er ekki aðeins skylt að miða útreikning á lánskostnaði við ársverðbólgu á þeim tíma sem samningur er gerður, heldur einnig miðað við meðalverðbólga undangenginna 10 ára. Um þetta segir orðrétt í nefndarálitinu: "Þá leggur meiri hlutinn til þá breytingu að lánveitandi skuli veita neytanda greiðsluyfirlit til upplýsinga þar sem miðað skuli við meðaltal ársverðbólgu síðustu 10 ára fyrir gerð samnings en tilgangur þess er að neytandi geti betur áttað sig á líklegri greiðslubyrði verðtryggðs láns."

Það er því alveg kristaltært hver vilji löggjafans er um þetta. Alveg sama hvaða persónulegar skoðanir maður kann að hafa á því, þá kveða lögin skýrt á um það eigi að miða við raunverulega verðbólgu í þeim dæmum sem sýnd eru um kostnað við lántöku. Það er því ekki fullnægjandi að miða við 0% verðbólgu og sleppa því alveg að gefa upplýsingar um kostnaðinn við verðtrygginguna.

Hinsvegar er ekkert í þessum lögum sem bannar það að einnig fylgi upplýsingar sem eru reiknaðar miðað við 0% verðbólgu og er ekkert því til fyrirstöðu að neytandi geti fengið slíkan útreikning gerðan ef hann óskar eftir því. Það er þá bara einfaldlega reiknað eins og um óverðtryggt lán sé að ræða með umsömdum vöxtum. Ef það væru hinsvegar einu upplýsingarnar sem væru veittar þá væri með því verið að leyna kostnaðinum við verðbæturnar fyrir neytandanum. Það má alls ekki gera, og kveða lögin skýrt á um viðurlög við vanrækslu á þessari upplýsingaskyldu, sem eru þau að þá sé óheimilt að innheimta kostnað umfram þann sem veittar voru upplýsingar um. Refsing við slíku broti felst sem sagt í því að þá missir lánveitandi rétt sinn til að krefja neytanda um kostnað sem ekki var upplýst um, og er tjón neytanda af völdum þess jafnframt skaðabótaskylt.

Loks má einnig benda á að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu leyfa alls ekki þá aðferð við verðtryggingu sem notuð er í reynd af lánveitendum, það er að segja að reikna verðbætur inn í höfuðstól og miða svo útreikning á afborgunum og vöxtum við sífellt vaxandi vísitölutengdan höfuðstól, heldur er aðeins heimilt að verðtryggja greiðslurnar sjálfar. Rétt eins var lagt til grundvallar í dómum um gengistryggð lán, er óheimilt að nota aðra tegund verðtryggingar heldur en þá sem er sérstaklega kveðið á um í vaxtalögum og aðrir skilmálar en þeir eru óskuldbindandi. Það sama ætti að gilda um höfuðstólsverðtrygginguna, sem á sér enga viðhlítandi lagastoð. Það er því ekki heldur afsökun fyrir lánveitendur að þeir séu aðeins að beita lögákveðnum samningsskilmála sem þeim sé þar með heimilt að byggja á, þegar sá skilmáli er ekki lögkveðinn í raun og veru.

Þetta er í raun mjög einfalt.

Ef áhrifum verðtryggingar er leynt, má ekki heldur innheimta hana.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.2.2015 kl. 19:13

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Hér á Íslandi eru starfandi stofnanir sem kallast víst á viðskipta-"vina"-tungumáli, "bankar"!

Þeir "bankar" notast við afborgunar-mafíuokurvexti á útlán til almennra launþeganeytenda á Íslandi.

Svo leyfa þessir "bankar" sér að hafa þar til viðbótar verðtryggingu á lánum til verafólkslánþega með óverðtryggð laun. Laun sem eru undir lágmarks framfærsluviðmiðum landsins, þar sem "bankinn" er starfandi, okurlánandi og sýslumannarænandi.

Óskiljanleg vísitölutenging við verðbólgusveiflandi heimsmarkaðs-vöruverð er svo enn ein skreytingin á okurlána-afborganir frá þessum "bönkum". Vísitölutenging, sem einhverra hluta vegna virkar venjulega bara, þegar eitthvað hækkar úti í hinum stóra heimi, og virkar ó-venjulega ekki, þegar eitthvað lækkar úti í hinum stóra heimi?

Og síðast en ekki síst er mikilvægt að minna á að verðtryggingin hefur frá upphafi verið vitlaust og ólöglega útreiknuð á afborganir af útlánum. Það hefur með skilgreiningu á milli höfuðstóls og afborgana. Löggæslan í viðkomandi landi ætti að athuga það bankaafbrot Seðlabanka Íslands aðeins betur en hefur verið gert hingað til. Það er að segja ef svokölluð verndandi löggæsla almennings á að standa undir nafni á Íslandi. (Ath: þetta er áratuga uppsafnaður vanræksluvandi lögverndara almennings á Íslandi).

Lögmenn og dómstólar á Íslandi sjá ekkert athugavert við svona ofurvaxna, skepnulega og villimannslega bankaglæpastarfsemi í landinu. Bankastjórnarmenn og sýslumenn landsins sameinast í að fremja lögmanna/dómsstólavörð og siðlaus bankarán. Og virðast ætla að halda áfram á sömu villimannsbraut?

Allt stjórnsýslukerfið á Íslandi er í gíslingar-heljargreipum þessara lögmanna/dómsstólavörðu, siðlausu, rænandi og skepnulegu mafíubanka.

Eru lögmenn og dómstólastarfsmenn við því búnir, að þurfa að horfast í augu við almenning á Íslandi með þetta á samviskunni, og horfa á afleiðingar dauðadæmandi gjörða sinna í samfélaginu á Íslandi? Geta þeir gengið fram hjá bankarændum, kerfissviknum, fötluðum, heimilislausum, sveltandi, sjúkum og deyjandi landsmönnum, án þess að finna til í samviskunni?

Hversu mikils virði er það fyrir löglærða að verja glæpabankana á Íslandi, og víðar í heiminum?

Þeir lögmenn sem stilla sér áfram upp með bönkunum, eiga ekkert annað skuldlaust hér á jörð, heldur en skömmina. Og þá skömm taka þeir með sér í gröfina, ef þeir halda þeirri siðblindu græðgistefnu. Heilbrigðiskerfið ber reyndar ábyrgð á siðblindum, valdagráðugum og samfélagshættulegum einstaklingum, sem starfa innan kerfisins. Og hvað gera lögmenn/dómsstólar í því? Þeir verja þá sem mestu völdin hafa, með því að taka þátt í að hylma yfir læknamistök (sjá í nýjustu bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar: ,,Í krafti sannfæringar").

Hvert er markmið þeirra sem misnota menntun sína og yfirburðastöðu, vopnaðir dauðhættulegum verkfallssprautum og siðblindum dómsstólum?

Almættið algóða, alvitra og kærleiksríka hjálpi siðblindum, og öllum öðrum, við að sjá raunveruleikann eins og hann er og hvað þarf að gera.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.2.2015 kl. 19:51

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

...afsakið að það vantar nokkur orð í enda tveggja setninga, en ég reikna með að flestir skilji samt merkingu setninganna...

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.2.2015 kl. 20:02

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við þetta má bæta að samkvæmt ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli E-25/13 ber dómstól sem kemst að þeirri niðurstöðu að skilmáli í neytendasamningi sé óréttmætur, að tryggja að neytandinn verði ekki bundinn af slíkum skilmála, til dæmis með því að ógilda þann skilmála eða víkja honum til hliðar.

Samkvæmt ítrekaðri dómaframkvæmd Evrópudómstólsins teljast upplýsingar um lánskostnað vera órjúfanlegur hluti af verðskilmálum neytendalána. Það þýðir að ef upplýsingar um lánskostnað eru ekki réttar, þá telst sá verðskilmáli óréttmætur og óskuldbindandi sem myndi hafa í för sér með sér hærri kostnað en getið var um.

Það má lesa ítarlega um þetta í fjölda slíkra dóma sem gerðar hafa verið löggildar þýðingar af á íslensku. Á mörgum þeirra var m.a. byggt í ráðgefandi álitum EFTA-dómstólsins. Sjá hér:

https://www.scribd.com/collections/4377812/Evropurettur

Guðmundur Ásgeirsson, 7.2.2015 kl. 20:32

6 identicon

Sæll Guðmundur.

Fyrir það fyrsta langar mig, að þakka þér fyrir þína

endalausu elju og fórnfýsi, í því að reyna, að upplýsa

illa upplýstan almenning um það, hvað í rauninni

gengur á í þessu þjóðfélagi.

Þú ert ekki öfundsverður af því sem þú ert að gera, og

sérstaklega vegna þeirra, fyrir fjármagnsins hönd,

sem tilbúnir eru með öllum ráðum, að rakka þig niður í þinum

skoðunum, vegna þess eins að þú bendir á sannleikan.

En ef með lögum skal land byggja,...???

Og ekkert eftir þeim farið...?????

Þarf þá nokkuð dómstóla, ef lögin skipta ekki meira máli

en svo, að dómstóllin kemst að þeirri niðurstöðu,

að þrátt fyrir það að lánið sé ólöglegt, þá er

það bara í lagi, vegna þess bara..!!!

Hvert eigum við að leyta, ef dómstólar geta ekki farið

að lögum..?? Eigum við að trúa því, að hér á Íslandi sé

hægt að kaupa niðurstöðu dómstóla..???

Er ekki sagt að allt sé falt fyrir fé...???

Af hverju ætti íslenska dómskerfið/sýslumannaembættin/

stjórnmálastéttinn, að vera öðruvísi hvað það varðar,

heldur en embættismannastéttin í Zimbabwe.

Sú stjórnmála/embættismannastétt sem þar situr,

hefur komist upp með allt sem hún vill í rúm 30 ár

og hefur það bara fínt.

Fyrirsögnin af fréttinni, hentar einmitt umræðunni

fyrir þá, sem vilja helst sjá hér óbreytt ástand.

M.b.kv.

Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 7.2.2015 kl. 21:05

7 Smámynd: Benedikt Helgason

@Ásmundur. "Til að átta sig á greiðslubyrði lána er hið eina rétta að miða við 0% verðbólgu vegna þess að þannig eru allar greiðslur uppfærðar til núvirðis".

Þetta er að sjálfsögðu rugl Ásmundur.  Hvað á þá að gera í sambandi við heildarkostnað óverðtryggðra lána?  Á að reikna lántökukostnaðinn á þeim í verðtryggðum krónum?

Tilgangur þessara tilskipanna er eins og Guðmundur segir að auðvelda lántakanda að bera saman heildarlántökukostnað við mismunandi lánaform en þar fyrir utan að tryggja sanngjarna samkeppni á lánamarkaði. Það stendur þeim lánveitanda næst sem velur að bjóða upp á verðtryggða lánasamninga að sýna fram á hver hinn raunverulegi kostnaður af þeim er.  

Benedikt Helgason, 7.2.2015 kl. 21:41

8 identicon

Guðmundur, það er engin raunverulegur ágreiningur um að það þurfi að núvirða upphæðir til að þær verði samanburðarhæfar.

Það er enginn raunverulegur ágreiningur um það að krónan eftir tuttugu ár hefur allt annað verðgildi en í dag og þess vegna verði að núvirða greiðslu þess tíma til að fá fram rétt mat.

Málið er hins vegar að margir virðast ekki skilja þetta eða þykjast ekki skilja það til að búa til ágreining.

Menn geta gert ágreining um skoðanir. En hér erum við að tala um staðreyndir. Staðreyndir eiga að vera hafnar yfir allan ágreining.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 13:40

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þá getum við vonandi verið sammála um það líka að núvirða allar upphæðir á nafnvirði eins og lög kveða á um.

Sú staðreynd er hafin yfir allar ágreining í mínum huga, hvað svo sem aðrir kynnu að þykjast ekki skilja.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2015 kl. 14:03

10 identicon

Það er ekkert sem heitir að núvirða á nafnverði.

Allavega getur núvirðing á ákveðinni upphæð hvort sem er í fortíð eða framtíð aldrei gefið nema eitt svar.

Ef verðlag hefur tvöfaldast frá því fyrir ákveðnum árafjölda þá núvirðir þú greiðslu frá þeim tíma með því að tvöfalda hana.

Á sama hátt er núvirðing á greiðslu eftir ákveðinn árafjölda helmingur af upphæðinni ef verðlag tvöfaldast.

Hvernig viltu blanda nafnverði inn í dæmið?

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 17:01

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú ert að rugla saman núvirði og raunvirði.

Algeng mistök, og jafnvel kennd í Háskóla Íslands.

Ertu kannski útskrifaður úr hagfræðideildinni þar?

Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2015 kl. 18:41

12 identicon

Nei, alls ekki.

Núvirði er raunvirðið núna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.2.2015 kl. 21:38

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvernig beitirðu þá þeirri aðferð á óverðtryggð lán?

M.ö.o. hvernig reiknarðu "raunvirði" nafnvirtra lána?

Ath. Til þess að fá rétt fyrir svar við þessari spurningu þarf að sýna bæði formúlur og dæmi um útreikninga.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2015 kl. 21:47

14 identicon

Við vorum að tala um núvirðingu á upphæðum.

Flækjum ekki málin með því að fara að tala um raunvirði, hvað þá raunvirði nafnvirtra lána, sem er eitthvað sem hreinlega stenst ekki.

Ég er þegar búinn að útskýra hvernig upphæðir eru núvirtar. Þær eru hækkaðar eða lækkaðar í prósentum eins og verðlagsvísitala.

Þetta kemur þannig út að með því að reikna með 0% verðbólgu í útreikningum verða allar greiðslur af láninu núvirtar.

Gerum ekki einföld mál flókin.

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.2.2015 kl. 17:43

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Flækjum ekki málin með því að fara að tala um raunvirði, hvað þá raunvirði nafnvirtra lána, sem er eitthvað sem hreinlega stenst ekki.

Nákvæmlega.

Það stenst einmitt ekki.

Þetta kemur þannig út að með því að reikna með 0% verðbólgu í útreikningum verða allar greiðslur af láninu núvirtar.

Nei, þannig raunvirði reiknað, sem er ekki það sama og núvirði, að minnsta kosti ekki í skilningi laga um neytendalán.

Eins og ég hef rækilega útskýrt hér að ofan þá eru lögin alveg skýr um hvernig eigi að gera þetta. Alveg sama hvort þér finnst betra eða réttara að gera það þannig eða einhvernveginn öðruvísi.

Það hafa allir fullt leyfi til þess að hafa skoðun á því hvort að lög eigi að vera eins og þau eru eða ekki, en það þurfa samt allir að fara eftir þeim hvort sem þeir eru sammála lögunum eða ekki.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2015 kl. 18:11

16 identicon

Að núvirða fjárupphæðir er stærðfræði, reyndar mjög einföld stærðfræði.

Þú breytir ekki stærfræðinni með lögum. Það væri svipað og að ákveða með lögum að jörðin sé flöt og þá verði hún flöt.

Ásmundur (IP-tala skráð) 11.2.2015 kl. 00:04

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég kann alveg þessa sömu stærðfræði, sömu formúlur og útreikninga eins og þú ert að vísa til og veit hvernig þær virka.

Ekkert af þessu sem ég er að fjalla um breytir þeirri stærðfræði. Hún er sú sama hvaða hugtök svo sem við notum yfir hana.

Þú segir að lög geti ekki breytt stærðfræði. Það er hárrétt, en þau geta hinsvegar ákvarðað tiltekin hugtök og merkingu þeirra eins og þau eru notuð innan laganna. Að kalla bíl bifreið í umferðarlögum breytir því til dæmis ekki að það er samt bíll. Umferðarljós og götuviti eru líka eitt og sama fyrirbærið.

Til þess að sneiða hjá öllum ágreiningi um hugtakanotkun þá skulum við einfaldlega nota það hugtak sem lögin kveða á um: árleg hlutfallstala kostnaðar. Seðlabanki Íslands vildi á sínum tíma að þetta yrði kallað virkir vextir, en það breytir því ekki að bæði hugtökin þýða það sama. Hvað löggjafinn kaus svo að kalla fyrirbærið breytir ekki stærðfræðilegri merkingu þess.

Í 1. mgr. 21. gr. laga um neytendalán segir:

http://www.althingi.is/lagas/144a/2013033.html#G21

"Árleg hlutfallstala kostnaðar er það vaxtaígildi sem jafnar núvirðið af greiðsluskuldbindingum lánveitanda annars vegar og neytanda hins vegar samkvæmt lánssamningi þeirra. Árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal lýst sem árlegu hlutfalli af heildarfjárhæð sem neytandi greiðir. Skal hún reiknuð út í samræmi við stærðfræðilíkan sem nánar er mælt fyrir um í reglugerð1) er ráðherra setur."

Í 2. málsl. 3. mgr. 21. gr. segir:

"Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans."

Þarna kemur skýrum stöfum fram að miða skuli við raunverðbólgu.

Á grundvelli 1. mgr. hefur svo verið sett reglugerð nr. 965/2013 um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Í 2. gr. hennar eru settar fram stærðfræðiformúlur sem skal svo reikna samkvæmt, en þar er einmitt um að ræða núvirðingaraðferð. Í 3. gr. eru forsendur útreikningsins endursagðar frá lagaákvæðunum.

Taktu sérstaklega eftir e. liðnum Ásmundur, og útskýrðu svo gjarnan fyrir okkur hvernig þú færð út að "ársverðbólga" geti verið 0% þegar hún hefur aldrei verið það á Íslandi?

http://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=12522310-1a30-43ae-954d-a3cf9d9da3bb

2. gr.

Útreikningur á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

Árleg hlutfallstala kostnaðar skal reiknuð út í samræmi við eftirfarandi stærðfræðijöfnu:

Jafna sem sýnir árlega hlutfallstölu kostnaðar

Merking stafa og tákna:

 

X

er árleg hlutfallstala kostnaðar,

 

m

er númer síðustu notkunar á láni neytanda,

 

k

er númer notkunar á láni neytanda, þannig að 1≤k≤m,

 

Ck

er fjárhæð sem hefur verið notuð af láni k,

 

tk

er tímabilið, í árum og hlutum úr ári, milli dagsetningar þegar lánið er notað í fyrsta sinn og dagsetningar þegar lánið er næst notað þar á eftir, þannig að t1 = 0,

 

m'

er númer síðustu endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu til lánveitanda,

 

l

er númer endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu,

 

D1

er fjárhæð endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu,

 

sl

er tímabilið, í árum og hlutum úr ári, milli dagsetningar þegar lán er fyrst notað og dagsetningar eða kostnaðargreiðslu.

Athugasemdir:

    Fjárhæðir sem báðir aðilar greiða á mismunandi tíma þurfa ekki nauðsynlega að vera jafnháar og endurgreiðast ekki nauðsynlega með jöfnu millibili.

    Upphafsdagsetning er dagsetning þegar lánið er fyrst notað.

    Tímabilin milli dagsetninga, sem eru notaðar við útreikningana, skulu tilgreind í árum eða hlutum úr ári. Ár telst vera 365 dagar (eða 366 dagar á hlaupári), 52 vikur eða 12 jafnir mánuðir. Jafn mánuður telst vera 30,41666 dagar (þ.e. 365/12), án tillits til þess hvort um hlaupár er að ræða eða ekki.

    Niðurstöður útreikninganna skulu gefnar upp með nákvæmni upp á minnst einn aukastaf. Ef næsti aukastafur er 5 eða hærri skal hækka þann tiltekna aukastaf um einn.

    Unnt er að umskrifa jöfnuna að ofan með því að nota eina summu og hugtakið um hreint flæði (Ak), sem verður jákvætt eða neikvætt, með öðrum orðum annaðhvort greitt út eða móttekið á tímabilum l til k, og gefið upp í árum, þ.e.:

    Jafnan skrifuð með því að nota eina summu og hugtakið um hreint flæði

    S er þá núverandi staða flæðisins. Ef markmiðið er að viðhalda jafngildi flæðis er virðið núll.

    3. gr.

    Forsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.

    Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skv. 2. gr. skal gert ráð fyrir eftirfarandi forsendum:

      Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal ákvarða heildarlántökukostnað neytanda. Ekki skulu meðtalin í útreikningi möguleg viðurlög eða sektargreiðslur vegna vanefnda. Slíkt hið sama á við um kostnað sem fylgir kaupum á vöru eða þjónustu, hvort sem kaupin fara fram gegn staðgreiðslu eða láni.

      Kostnaður við að viðhalda reikningi þar sem bæði greiðslufærslur og færslur um nýtingu lána eru skráðar, kostnaður við notkun greiðsluleiða fyrir bæði greiðslufærslur og nýtingu lána og annar kostnaður í tengslum við greiðslu­færslur skal vera innifalinn í heildarkostnaði af láni til neytanda nema valfrjálst sé að opna reikn­ing og kostnaður við reikninginn sé sérstaklega og greinilega tekinn fram í láns­samn­ingi eða öðrum samningi sem gerður er við neytanda. Möguleg viðurlög eða sektar­greiðslur vegna vanefnda skulu ekki meðtalin í útreikningi. Sama á við um kostnað sem fylgir kaupum á vöru eða þjónustu, hvort sem kaupin fara fram gegn stað­greiðslu eða láni.

      Ganga skal út frá þeirri forsendu að lánssamningurinn haldist í gildi þann tíma sem samið er um og að lánveitandinn og neytandinn muni rækja skyldur sínar samkvæmt þeim skilmálum og dagsetningum sem eru tilgreind í lánssamningnum.

      Ef lánssamningur heimilar breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal ganga út frá þeirri forsendu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostn­aðar að verðlag, vextir og önnur gjöld verði miðað við upphafsstöðu sem þá eigi óbreytt við til loka lánstímans.

      Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neyslu­verðs eins og hún er í síðustu mælingu Hagstofu Íslands og þá forsendu að árs­verðbólga miðist við upphafsstöðu vísitölunnar sem þá eigi óbreytt við til loka láns­tímans.

      Guðmundur Ásgeirsson, 11.2.2015 kl. 00:34

      18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

      3,5% núvirðingarprósenta er ekki sama og ávöxtunarkrafa

      12. mars 2015

      Að gefnu tilefni vilja Landssamtök lífeyrissjóða taka eftirfarandi fram.

      Bankastjóri Arion banka blandar lífeyrissjóðum inn í umræðu um vaxtamun bankanna í viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Í viðtalinu lýsir bankastjórinn þeirri skoðun sinni að ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna setji ákveðið vaxtagólf.

      Ummæli bankastjórans byggjast á misskilningi og eru óheppileg. Núvirðingarprósenta lífeyrissjóða, 3,5%, sem notuð er til að núvirða eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum er ekki krafa um raunávöxtun. Ávöxtun lífeyrissjóða ræðst af ávöxtun eigna sjóðanna svo sem skuldabréfa, hlutabréfa og innlána. Sjóðirnir kaupa skuldabréf á markaði þar sem ávöxtunarkrafa ræðst fyrst og fremst af framboði og eftirspurn. Á undanförnum mánuðum hefur til dæmis ávöxtunarkrafa á löngum ríkisskuldabréfum lækkað niður fyrir 3% m.a. vegna takmarkaðs framboðs.

      Í nýjasta tölublaði Vísbendingar (9. tölublað, 33. árgangur) er fjallað um 3,5% núvirðingarprósentuna. Í greininni er m.a. að finna eftirfarandi texta. ,,Alltaf skýtur upp kollinum umræðan um hvaða prósenta sé eðlileg þegar meta skal núvirði á skuldbindingum lífeyrissjóða. Reyndar er algengt að misskilningur ríki um þessa prósentu og hún kölluð ávöxtunarkrafa, en svo er ekki heldur er hún tilgáta um hvaða raunávöxtun sé líklegast að lífeyrissjóðirnir nái um langa framtíð.“ 

      Þessi texti lýsir vel notkun á núvirðingarprósentunni sem er fyrst og fremst notuð til að meta eignir og skuldbindingar lífeyrissjóðanna og núvirða framtíðarréttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum. Núvirðingarprósentan er ekki krafa um raunávöxtun og er því ekki vaxtagólf.

      Guðmundur Ásgeirsson, 14.3.2015 kl. 23:52

      Bæta við athugasemd

      Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

      Innskráning

      Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

      Hafðu samband