Dugar ekki fyrir lágmarksframfærslu

Starfsgreinasamband Íslands ætlar að krefjast þess í komandi kjarasamningum að lágmarkslaun verði innan þriggja ára 300.000 krónur á mánuði. Skoðum af þessu tilefni aðeins hvað þetta myndi gefa í ráðstöfunartekjur (og lífsgæði) fyrir einstakling.

Einstaklingur með þær tekjur lendir í neðsta skattþrepi og þarf því að greiða 37,3% í skatt, 4% í lífeyrissjóð (sem aldrei munu fást til baka) og einnig í verkalýðsfélag en hjá VR sem er stærsta verkalýðsfélagið eru það 0,7%. Samtals eru því 42% dregin af strax við útborgun en á móti kemur persónuafsláttur 50.902 kr. á mánuði, þannig að heildarfrádráttur verður 75.098 kr. og útborguð laun samkvæmt því verða 224.902 kr. á mánuði.

Samkvæmt neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins fyrir barnlausan einstakling eru heildarútgjöld án húsnæðiskostnaðar samtals kr. 234.564 á mánuði. Einstaklingur á lágmarkslaunum er því strax kominn í -9.662 (í mínus) sé aðeins miðað við opinber viðmið um framfærslu. Þar af leiðandi verður augljóslega ekkert eftir til að standa straum af húsnæðiskostnaði, og því ljóst að einstaklingur á 300.000 kr. launum á mánuði þarf að velja milli húsaskjóls eða framfærslu, en hann getur alls ekki valið bæði.

Ímyndum okkur svo að þessi sami einstaklingur hafi áður um ævina gert samfélaginu þann óleik að fjölga þegnum þess og skattgreiðendum framtíðarinnar, með því að eignast fleiri börn en þau tvö sem hvert par þarf að geta til þess eins að viðhalda mannfjölda þjóðarinnar. Gefum okkur svo að þakkirnar sem sá einstaklingur hafi fengið fyrir þetta framlag sitt til samfélagsins hafi verið hjónaskilnaður. Hámarksmeðlag er þrefalt eða samtals 80.589 kr. sem gefur 144.313 í útborguð laun eða um 60% af framfærslukostnaði án húsnæðis.

Okkar maður þarf einhversstaðar að búa. Gefum okkur að þar sem hann á 3 börn þurfi hann 4 herbergja íbúð en þær eru jafnframt í lægsta flokki fermetraverðs í Reykjavík sem er nú um 1.761 kr/m2. Hann getur því leigt 82 m2 íbúð en 4 herbergja íbúðir af þeirri stærð eru sjaldgæfar og ljóst að í slíkum íbúðum eru barnaherbergin á stærð við kústaskápa.

Einstaklingur í þessari stöðu þarf því að velja á milli þess hvort hann hafi í sig og á sjálfur (því þá er ekkert eftir handa börnunum) eða hvort hann veiti sjálfum sér og börnunum húsaskjól í þröngri kompu þar sem er hvorki matur, lyf, læknisþjónusta, né samgöngur eða önnur samskipti við umheiminn. Aðra valkosti hefur hann ekki og það er alveg gjörsamlega útilokað að hann geti skaffað bæði, þ.e. húsaskjól og framfærslu.

Það er alveg morgunljóst að einstaklingar sem eru í slíkri stöðu geta beinlínis þurft að velja milli þess hvort þeir verði a) heimilislausir (sem eykur alls ekki atvinnumöguleikana) eða b) svelti bæði sig og börnin sín. Slík staða er augljóslega alveg ómöguleg!

Þetta sem að framan greinir er tiltölulega einfalt reikningsdæmi, sem allir ættu að geta reiknað sjálfir hafi þeir lokið grunnskólaprófi og kunni að fletta grunntölum upp á veraldarvefnum, líkt og kannanir benda til þess að eigi við um meirihluta þjóðarinnar. Útkoman hinsvegar, getur einfaldlega ekki gengið upp í neinum veruleika sem líkist þeim sem við viljum að sé við lýði hér á landi.

Þess vegna eru það vægast sagt mjög hóflegar kröfur, að fara aðeins fram á 300.000 krónur í lágmarkslaun. Reyndar er vandséður ávinningurinn af því að vera í verkalýðsfélagi sem gerir þá kröfu að maður þurfi að velja á milli þess að borða, eða njóta húsaskjóls, en að á sama tíma sé það gert með öllu útilokað að búa við bæði fæði og húsaskjól.

Einhverntímann var sagt að glæpir borguðu sig ekki. Hér á landi fá fangar hinsvegar bæði frítt fæði og húsaskjól, svo varla er lengur hægt að halda því fram lengur að það eigi við.

Viljum við búa í þjóðfélagi þar sem glæpir bókstaflega borga sig?


mbl.is Lægstu laun verði 300 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Skattleysismörk ætti ávallt að miða við lægstu laun, að mínu mati. Þar sem kvikyndið, sem hér ritar, er ekki hagfræðimenntað, né reiknikúnstaséní, telst svona þankagangur sennilega lítils verður, en það varðar mig ekkert um. Að bjóða fólki laun, sem ekki duga fyrir salti í grautinn, er ekki ásættanlegt, hvernig sem á það er litið og skapar endalausa úlfúð og djöfulgang. Undarlegur fjandi hve margir hafa ekki enn áttað sig á ártalinu 2015.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan. 

Halldór Egill Guðnason, 26.1.2015 kl. 23:10

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Halldór.

Það má vel fallast á með þér að skattleysismörk skuli miða við lægstu laun. Ef við göngum útfrá því, hvað finnst þér þá að eigi að miða lægstu launin við?

A) Svelti eða B) heimilisleysi?

Það eru nefninlega valkostirnir sem standa til boða núna!

Guðmundur Ásgeirsson, 26.1.2015 kl. 23:26

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hvorki svelti né heimilisleysi er það sem til boða stendur núna. Á ekki eftir að semja? Hvað er samningur? Sleppum upphrópunum og sleggjudómum og hundskumst til að hafa vit á því að gera kjarasamninga þannig úr garði, að þetta eilífðardeilumál falli á þann veg að allir geti lifað sómasamlegu lífi. Forysta verkalýðshreifingarinnar á Íslandi hefur einfaldlega ekki staðið sig sem ætti að vera, áratugum saman, en þar er engum öðrum um að kenna en félögum hreyfingarinnar, því miður. Stend á því fastar en fótunum, engu að síður, að lágmarkslaun skuli vera viðmið skattleysismarka. Allt annað er hreinlega galið. Ef ekki er hægt að lifa á lægstu launum, því ætti þá ríkið að skatttleggja þau í ofanálag?

Farinn suður, með kærri kveðju.

Halldór Egill Guðnason, 27.1.2015 kl. 01:23

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"...að allir geti lifað sómasamlegu lífi."

Um það markmið getum við verið fyllilega sammála.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.1.2015 kl. 01:28

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ég er einmitt með launaútreikning fyrir framan mig núna.
M.a. er þar launþegi sem fær útborguð mánaðarlaun kr. 235.226 þegar launatengd gjöld og skattar hafa verið frádregnir.  Þar eru engir aukafrádrættir; meðlag eða þess háttar.

Vinnuveitandinn greiðir hins vegar kr. 365.800 að meðtöldum launatengdum gjöldum. 

Kolbrún Hilmars, 27.1.2015 kl. 12:26

6 identicon

Neysluviðmið velferðarráðuneytisins eru ekki "það sem þarf". Neysluviðmið velferðarráðuneytisins eru einhverskonar meðaltal neyslu þar sem útgjöld voru talin en ekki framfærslukostnaður mældur. Þannig að sama hvernig laun og kjör breytast þá verður ætíð stór hluti undir og annar hluti yfir neysluviðmiðum, meðaltali, velferðarráðuneytisins. Alvöru mat á raunverulegum framfærslukostnaði hefur ekki verið gert.

Jos.T. (IP-tala skráð) 27.1.2015 kl. 14:57

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess vegna þarf að leggja mat á kostnað við sómasamlega grunnframfærslu og tryggja að allir fái hana að minnsta kosti. Annars er einfaldlega verið að svelta tiltekna þjóðfélagshópa sem er bæði ómannúðleg og mjög óhagkvæm leið til að reka þjóðfélag.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.1.2015 kl. 15:49

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Þá er spurningin hvort launþeginn ætti að fá heildarlaunin óskert í sinn vasa, eða hvort það þurfi milligönguaðila/ríkið - sem fyrst tekur 36% af umsamdri (stéttarfélaga) launaupphæð, og rjátlar því svo í launþegann.  Eftir atvikum, þ.e. kannski og kannski ekki.

Neysluskattar ættu að duga hinu opinbera!

Kolbrún Hilmars, 27.1.2015 kl. 17:22

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ríkið þyrfti aldrei að innheimta skatta ef það myndi sjálft gefa út sína eigin peninga, í staðinn fyrir að fela bönkunum það verkefni og leyfa þeim að rukka okkur öll fyrir afnot af þeim.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.1.2015 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband