Hæst bylur í götóttri tunnu

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar heldur því fram að orð forsætisráðherra verði sífellt illskiljanlegri. Nú veit ég ekki alveg hvað veldur, nema kannski ef ske kynni að það stafi af því að forsætisráðherrann nýbakaði talar ekki mikla evrópsku, sem þessir tungumálaörðugleikar eru uppi.

En Árni Páll er hugsanlega ein síðasta sálin í þingheimi sem hefur efni á slíkum ummælum. Við hann eru kennd lög sem áttu að bæta úr skák hjá þeim sem stóðu frammi fyrir tvöföldum til þreföldum lánum sem hafði hlaupið ofvöxtur í sökum ólögmætra skilmála.

Hvort sem sérstök þörf var á því að hlutast til um lausn fyrir þennan hóp, þá kom fram "lausn" í formi lagafrumvarps sem kennt er við manninn, svo snúið, tyrfið, óljóst, illa orðað og opið fyrir allskyns mismunandi túlkanir, að það var auðvitað það sem gerðist næst. Bankarnir sneru út úr þessum lögum sér í hag og í skjóli þess endurreiknuðu þeir lánin þannig að fólk myndi bara samt þurfa að borga þau hátt í fullu verði.

Skuldarar kveinkuðu sér auðvitað og nokkrir þeirra hófu málaferli um svokölluð Árna Páls lög sem standa sum enn yfir, nú þremur árum og nýju kjörtímabili eftir að þau voru sett. Ljóst er nú þegar að þetta var algjörlega ógilt og kolólöglegt. Það er að segja aðferðin sem notuð var til að endurreikna lánin. Enn þann dag í dag er hinsvegar deilt um það hvort að um sé að kenna lögunum eða rangtúlkunum bankanna á þeim

Bankarnir halda sig fast við þá skýringu að þeir hafi bara fylgt lögum nr. 151/2010, kenndum við Árna Pál, við framkvæmd endurútreikninganna. Þeir sem hafa raunverulega rannsakað málið og kafað ofan í útfærsluna vita hinsvegar að svo er ekki. Aftur á móti gaf þessi breyting bönkunum að því er virðist nothæfa átyllu til að túlka "óvissuna" eftir sínu höfði og útfæra endurútreikning samkvæmt því.

Staðreyndin málsins er nefninlega sú að áður en Árni Páll fór höndum um þau, innihéldu vaxtalögin skýr ákvæði um það hvernig skyldi fara með endurmat og endurgreiðslu á því sem skuldarar kunni að hafa hafi ofgreitt af lánum sínum komi til þess. Þannig má vel færa rök fyrir því að umrædd breyting samkvæmt lögum Árna Páls hafi verið óþörf með öllu.

Að minnsta kosti er á hreinu að með þessu var skýrleika fórnað fyrir flækjustig, sem hefur aldrei verið útskýrt hvers vegna var talin þörf á. Þetta flækjustig hefur svo reynst vera skuldurum mjög í óhag, burtséð frá hvað telst vera rétt og rangt um túlkun þessara laga eða skilning á þeim. Ekki sér enn fyrir endann á úrlausn þeirra mála þegar þetta er skrifað.

Formaður Samfylkingarinnar ætti því að líta í eigin garð eftir óskýrleika.


mbl.is Ummæli Sigmundar óskiljanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrafn Arnarson

Á móðurmálinu: hæst bylur í tómri tunnu ;)

Hrafn Arnarson, 6.10.2013 kl. 15:52

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála, þessi maður hefur síst efni á að gagnrýna aðra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.10.2013 kl. 16:47

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Minnisblað Fjármálaeftirlitsins til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þann 5. júlí 2013 um framkvæmd endurútreiknings lána á grundvelli laga nr. 151/2010 er mjög athyglisverð lesning: http://www.scribd.com/doc/173901029/2013-FME-Minnisblað-EVN-Endurutreikningar-Dromi

“Fjármálaeftirlitið vinnur nú að sérstakri athugun sem snýr m.a. að viðskiptaháttum Dróma hf. Í tengslum við þá athugun hefur Fjármálaeftirlitið óskað eftir frekari upplýsingum frá stærstu lánastofnunum til að unnt sé að leggja mat á þá almennu framkvæmd við endurútreikning lána samkvæmt lögum nr. 151/2010 sem tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.”

Þá segir þar jafnframt:

"Fjármálaeftirlitið hefur ekki upplýsingar um fjölda þeirra fyrirtækja sem gerðu fyrirvara almennt við endurútreikninga á lánum samkvæmt lögum nr. 151/2010 eða fjölda þeirra fyrirtækja sem gerðu ekki slíkan fyrirvara. Í tengslum við framangreinda athugun Fjármálaeftirlitsins hefur stofnunin hins vegar óskað upplýsinga frá stærstu lánastofnununum um það hvort þær hafi gert fyrirvara við endurútreikninga lána á grundvelli laga nr. 151/2010. Fram hefur komið að Drómi hf. hefur í tengslum við endurútreikninga á tilteknum lánssamningum gert fyrirvara við endurútreikninga sína.

Þá hefur Fjármálaeftirlitíð eins og áður hefur komið fram óskað eftir því við Neytendastofu að hún kanni hvort tilteknir fyrirvarar við endurútreikninga á lánum samkvæmt lögum nr. 151/2010 samræmist lögum nr. 121/1994 um neytendalán.

Fjármálaeftirlitið vísar að öðru leyti til framangreindrar umfjöllunar um athugun stofnunarinnar á viðskiptaháttum í tengslum við framkvæmd endurútreikninga lána á grundvelli laga nr. 151/2010."

Með öðrum orðum þá virðist Fjármálaeftirlitið svo seint sem á þessu ári 2013, ekki sjálft hafa verið með það á hreinu hvernig framkvæmd endurútreikninga samkvæmt þessum lögum hefði í raun verið háttað og hvort hún hafi yfirhöfuð verið í samræmi við þau eða önnur gildandi lög!

Hér má sýnishorn af bréfi um sama álitaefni frá Dróma til viðskiptavina SPRON, Frjálsa fjárfestingarbankans og nb.is sem voru svo óheppnir að taka "fjölmyntalán" frekar en "myntkörfulán", eins og venjulegir neytendur eigi einhvernveginn að geta þekkt muninn á þessu tvennu:

http://www.scribd.com/doc/173870752/2013-Dromi-Gjaldeyrislan-Logmæti

"Af dómafordæmum réttarins verður ráðið að það atriði sem einkum ræður niðurstöðu um hvort lán verður talið löglegt lán í erlendri mynt eður ei er tilgreining lánsfjárhæðar í skuldaskjali. Sé lánsfjárhæð tilgreind með nákvæmum hætti í fjárhæðum hinna erlendu gjaldmiðla viðkomandi láns er um lán í erlendum gjaldmiðli að ræða. Einnig hefur Hæstiréttur litið til fyrirsagnar viðkomandi skuldskjala, skilmálabreytinga og hvort lánið ber LIBOR vexti."

Það skal tekið fram að þessi túlkun á fordæmisgildi umræddra dómafordæma er þarna sett algjörlega einhliða af hálfu Dróma, gegn andmælum þeirra sem kynnt hafa sér löggjaf á sviði neytendaréttar, þar á meðal Hagsmunasamtök heimilanna.

Hér er annað eins bréf frá Íslandsbanka til viðskiptavina, þar á meðal þeirra sem tóku lán hjá Byr á sínum tíma eða fyrirtækjum úr þeirri samsteypu:

http://www.scribd.com/doc/173873532/2013-Islandsbanki-Gjaldeyrislan-Logmæti

"Við úrlausn þess hvort um lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum er að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum ber að líta til eftirfarandi atriða:
1) Heiti skuldabréfsins, en fyrirsögn þess er: „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum."
2) Að lánsfjárhæðin er samkvæmt orðalagi skuldabréfsins fyrst tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, þ.e. svissneskum frönkum, japönskum yenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum.
3) Vextir samkvæmt skuldabréfinu eru til vitnis um að um erlent lán sé að ræða enda eru Libor- og Euribor vextir tilgreindir.
4) Fyrirsögn skilmálabreytingar er: „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum/mynteiningum" og er jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum þar ekki getið."

Aftur skal tekið fram að um er að ræða einhliða framsetningu Íslandsbanka á þeim skilningi sem bankinn kýs að leggja í meint dómafordæmi, gegn andmælum þeirra sem kynnt hafa sér málin út frá öndverðum hagsmunum, einkum og sér í lagi sjónarmiðum neytendaréttar.

- Vitið þér enn, eða hvað? 

Svo virðist sem Fjármálaeftirlitið hafi að mestu látið fjármálafyrirtækjunum eftir að túlka þá dóma sem fallið hafa og hvernig þau kjósa að beita (meintum) niðurstöðum þeirra á heilu lánasöfnin, jafnvel þó að dómur hafi í raun ekki fallið um þorra þeirra samninga sem í þeim eru. Er rétt að treysta Dróma og Íslandsbanka til að segja rétt frá því hvaða lán tiltekinna viðskiptavina teljist lögleg og hver ekki? Gleymum því ekki að þessir aðilar eða forverar þeirra eru þeir sem báru ábyrgð á ólöglegum skilmálum í lánssamningum til að byrja með. Er eðlilegt að láta þá sem frömdu brotin sjá um að ákvarða og framkvæma "leiðréttingu" þeirra brota?

P.S. Hrafn: á mínu ástkæra ylhýra móðurmáli er frekar ósennilegt að það bylji í tunnu nema einhversstaðar sé á henni gat. Samanber það hversu götóttur sá málflutningur er einmitt sem hér um ræðir. Þetta útilokar þó alls ekki að sú tunna geti einnig verið tóm, enda bylur þá líka þeim mun hærra í henni eins og á einmitt við í því tilviki sem hér um ræðir. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 6.10.2013 kl. 18:58

4 identicon

Hún er orðin nokkuð gömul þessi vísa. Ég hafi séð hana fyrst í Þjóviljanum fyrir nokkrum áratugum. þá hljóðaði hún þannig:::

Glymur hæst í tómri tunnu,

bankamenn þegar berja þær utan.

Eigi skal súta þótt einn maður hrapi,

og milljónagróði verði að tapi.

Ekki veit ég hver orti vísuna.

En mér finnst hún góð,og á við á öllum tímum. Finst ykkur það ekki líka ????

Jóhanna (IP-tala skráð) 6.10.2013 kl. 22:08

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Guðmundur þú ert einn af þeim sem alltaf hafa komið fram samkvæmt sannfæringu og með visku til að setja hlutina í rétt samhengi, ykkur verður þakkað síðar, þegar rykið hefur sjatnað og menn sjá það sem hefur verið reyndar pínlega augljós þeim sem hugsa út fyrir kassan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.10.2013 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband