Sjá umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna eru steinhissa á því að undanfarna daga hafa fjölmiðlar landsins verið með síbyljandi umfjöllun um þær umsagnir sem borist hafa efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila. Það sem vekur mesta furðu samtakanna er að eingöngu er fjallað um þær umsagnir sem er neikvæðar í garð áætlunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Samtökin velta því jafnvel alvarlega fyrir sér hvort að ekki sé nóg komið, þó að fjölmiðlarnir stilli sér ekki líka í lið með fjármálafyrirtækjunum gegn heimilum landsins?

Af þessu tilefni sendu samtökin frá sér fréttatilkynningu síðdegis í dag. En í kvöldfréttum var ekki fjallað um hana, Stöð 2 fjallaði meira að segja um enn eina neikvæða umsögnina fyrir heimilin, í þetta sinn frá meira að segja frá úglöndumog það ekki merkilegri stofnun en OECD sem hefur aldrei nokkurntíma staðið fyrir hvorki efnahagslegri velsæld né framförum, hvað þá að hún sé að veita heimilunum samvinnu þegar hún leggst gegn hagsmunamálum þeirra. Reyndar er stofnunin á hálum ís því samkvæmt Vínarsáttmálanum eru slík afskipti utanaðkomandi aðila af innanríkismálum óheimil, en hér er ekki um að ræða fjármál ríkisins heldur innlendra einkaheimila.

Vakin er athygli á því að í umsögn Hagsmunasamtakanna heimilanna sem má finna hér: http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?lgt=142&dbnr=57 er ekki aðeins lýst yfir stuðningi við þá áætlun sem þar er lögð fram, heldur bætt um betur og lögð fram sjö atriði til viðbótar við þau tíu sem framlögð áætlunin felur í sér. Þau helstu eru:

  1. Stöðvun á óréttmætum fullnustum og nauðungarsölum, án tafar!

  2. Lög um endurupptöku óréttmætra fullnustu- og gjaldþrotamála

  3. Aukin réttarúrræði fyrir neytendur og samtök þeirra

  4. Nýtt embætti sem sinni raunverulegri neytendavernd á fjármálamarkaði

  5. Framfærsluvandinn, finna þarf út hvað kostar að lifa hófsömu mannsæmandi lífi

  6. Samræma þarf aðgerðir fyrir þá sem þurfa á þeim að halda þrátt fyrir leiðréttingu

  7. Hvað mun það kosta þjóðfélagið að gera ekki nóg fyrir heimilin?

Lesendur eru hvattir til að kynna sér umsögnina, sem er sú viðamesta af öllum innsendum erindum vegna málsins eða alls 13 blaðsíður, en til samanburðar eru umsagnir samtaka fjármálafyrirtækja og atvinnulífsins upp á tíu blaðsíður hvor, íbúðalánasjóður níu og seðlabankinn sjö, en hinar eru flestar einblöðungar. Þessir aðilar eru auk þess allir á háum launum við ritun þessara umsagna en HH eru sjálfboðaliðasamtök með einn og hálfan starfsmann á meðallaunum skrifstofufólks, en hvorki greiningardeildir, lögfræðisvið né fjölmiðlafulltrúa á sínum snærum.

Áskorunin stendur nú upp á fjölmiðla að gæta betra jafnvægis í umfjöllun sinni, og láta öll sjónarmið fá að heyrast vel. Til dæmis hljóta heimilin, sem eru aðalstyrktaraðilar heillar sjónvarpsstöðvar og tveggja hljóðvarpsrása Ríkisútvarpsins, að geta gert kröfu um vandaðan fréttaflutningí þágu sinna hagsmuna. Heimilin eiga þess nefninlega ekki kost að beina fjármunum sínum til annars fjölmiðils, eins og auglýsendur á frjálsum markaði geta gert, og farið þangað sem best þjónar hagsmunum þeirra.


mbl.is Senda stjórnvöldum gula spjaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband