Varð eitt eftir á Laugarvatni?

Hér eru þau tíu níu atriði sem forsætisráðherra nefndi í stefnuræðu sinni að yrði að finna í þingsályktunartillögu sem hann muni flytja um aðgerðir fyrir heimilin:

  1. Undirbúningur almennrar skuldaleiðréttingar, höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, hugsanlega með sk. leiðréttingarsjóði
  2. Lyklalög
  3. Sérfræðihópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum
  4. Verkefnisstjórn um endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins
  5. Flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimila
  6. Kannaðir verða möguleikar á að beita sektum vegna tafa á endurútreikningum
  7. Afnám stimpilgjalda
  8. Fella niður eða aðstoða við fjármögnun kostnaðar vegna gjaldþrotaskipta
  9. Heimildir fyrir Hagstofuna til upplýsingaöflunar um fjárhagsstöðu heimila
  10. ?

Það er líklega allt í lagi að það komi fram að #2 verður auðvitað óþarft um leið og #1  kemur til framkvæmda, en ásamt #3, #5, #7, er þar jafnframt aðeins um að ræða endurflutninga frá síðasta þingi eða þingum. Það er samt fagnaðarefni að sjá þarna fyrirheit um að þó verði ráðist í þessi verkefni, hvað sem tímasetningum og fyrirkomulagi líður þá er þetta allt í rétta átt.

Afnám stimpilgjalda er skilyrði sem íslenskum stjórnvöldum hefur verið gert skylt samkvæmt EES-reglum að fylgja, sem er nýmæli að gera að sérstakri stefnu stjórnvalda hér á landi, það að fylgja settum reglum. Þetta er ekki meint til neinnar háðungar heldur er rétt að fagna þessu fordæmi þar sem reynsla fyrri ára hefur leitt í ljós talsverða vöntun á því á að stjórnvöld fylgi settum lögum og reglum sem gilda hér á landi.

Auk afnáms stimpilgjalda hefði verið enn betra að sjá fyrirheit um afnám dulins vaxtaálags í formi hlutfallslegra lántökugjalda, a.m.k. á jafngreiðslulánum, og fullnaðarafnám uppgreiðslugjalda verðtryggðra lána í ljósi þess að verðbætur séu í raun breytilegur lánskostnaður sem sé að því leyti sambærilegur breytilegum vöxtum, eins og hefur í raun verið viðurkennt að áliti þingnefndar.

Gott er að sjá fyrirheit um afnám skiptakostnaðar einstaklinga sem óska sjálfir gjaldþrots beinlínis vegna fjárskorts. Hinsvegar hefði væri mjög æskilegt að meira jafnræðis verði gætt og slík réttaraðstoð veitt öllum þeim sem gætu fengið úrlausn skuldavanda síns eftir réttarfarslegum leiðum, meðal annars í formi aukinna gjafsóknarheimilda, fjárveitinga til Neytendastofu í því skyni að koma á fót raunverulegri þjónustu við neytendur vegna brota á þeim í tengslum við lánssamninga, og loks endurupptökuheimilda fullnustumála, nauðungarsalna, vörslusviptinga og gjaldþrota.

Sérfræðihópurinn um afnám verðtryggingar neytendalána er algjörlega óþarfur, þar sem frumvarp í þá veru hefur þegar verið lagt fram en það var á síðasta þingi. Með minniháttar yfirferð og uppfærslu vegna nýlegra lagabreytinga væri hægðarleikur að endurflytja það, en samkvæmt beinum heimildum frá höfundi frumvarpsins er ekkert því til fyrirstöðu að undirbúa frumvarpið til endurflutnings fyrst nú liggur fyrir yfirlýstur vilji til þess að ráðist verði í slíkt verk. Þetta er eins manns verk í dagstund og þarf engan fjölda fólks, enga nefnd eða neinn starfshóp til að framkvæma það.

Það er góðra gjalda vert að Hagstofan fái heimildir til að rannsaka fjárhagsstöðu heimila með ítarlegum hætti. Aftur á móti hefði verið enn betra ef því hefðu fylgt fyrirheit um að heimilin fái heimildir til að rannsaka fjárhagsstöðu fjármálafyrirtækja sem beina að þeim kröfum, með jafn ítarlegum hætti. Það er einkum þar sem hnífurinn hefur nefninlega staðið í kúnni þegar kemur að upplýsingaflæði frá þeim aðilum sem hér eiga í hlut.

Svo virðist vera eitt atriði sem hreinlega vantar á þennan lista, enda eru þau alls ekki tíu talsins heldur í raun níu. Það er þó aldrei að vita nema hægt sé að bæta úr því, sjáum hvað setur. Til að mynda er afar brýnt, eins og Píratar mæltu fyrir um í sínum stefnuræðum, að ólögmætar nauðungarsölur, útburðir og aðrar fullnustugerðir, án undangenginna dómsúrskurða þrátt fyrir að skýrt liggi fyrir ágreiningur um lögmæti þeirra réttinda sem um er deilt, verði stöðvaðar án tafar. Þar er einnig um að ræða atriði sem Íslandi er hreinlega skylt að virða samkvæmt EES-rétti, en um það féll dómur nýlega sem hefur fordæmisgildi hér á landi og hefur verið gefinn út í löggildri þýðingu á íslensku á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þrátt fyrir útlit fyrir stutt sumarþing virðist strax ætla að draga til tíðinda, því eitt af ofangreindum málum hefur þegar verið lagt fram, framlenging á flýtimeðferð vegna ágreinings um verðtryggða lánasamninga sem hefur verið í gildi frá 5. apríl sl. og átti að gilda til 1. sept. nk. en verður samkvæmt frumvarpi innanríkisráðherra framlengd til 1. jan 2015. Reyndar hefði verið enn betra að sleppa því einfaldlega að takmarka gildistíma slíks ákvæðis, sem að sjálfsögðu ætti að vera varanlegt í öllum málum er varða mikilvæga og mögulega fordæmisgefandi persónuhagsmuni.

Góðar stundir.


mbl.is Leggur fram 10 skrefa áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðmundur minn.

Það hefur lítinn tilgang, að koma með einhverjar framtíðar-hugmyndafræði-stjórnsýslu, ef hugarfar almennings, ríkisfjölmiðla-starfsfólks og stjórnar/stjórnarandstöðu-starfsfólks er fast í fortíðar-forarpytta-hjólförum.

Hugarfarsbreyting er I stig til bóta. Ef enginn vill ná I stigi, þá er ekkert annað stig.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.6.2013 kl. 18:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Svo þegar hugarfarsbreytingunni hefur verið náð þarf hún að birtast á prenti ekki satt? Annars verður hún ekki að lögum:

http://www.althingi.is/altext/142/s/0009.html

Guðmundur Ásgeirsson, 11.6.2013 kl. 18:53

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðmundur minn. Að sjálfsögðu er hugarfarsbreyting á prenti, það árangursríkasta sem er í boði.

Án hugarfarsbreytingar, verða engar aðrar breytingar.

Öll veraldarinnar lög munu ekki öðlast gildi, ef hugarfar fylgir ekki með.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.6.2013 kl. 19:54

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Guðmundur: Geturðu sett í pistilinn hlekk á síðu HH þar sem þýðinguna á dómnum er að finna?

Ég hef verið viðstaddur fyrirtöku á nauðungarsölu og það er aumkunarvert að sjá færibandavinnuna sem þar fer fram. Enginn mætir til að mótmæla aðgerðum sem beinast að heimilum þeirra. Þó mótmæli séu höfð uppi tekur fulltrúi sýslumanns ekki tillit til þeirra og heldur fyrirtökunni áfram. Og það sem var broslegast, sumir lögfræðingarnir vissu ekkert hvað mál þeir voru með, og höfðu ekki einu sinni umboð til að sanna og sýna fram á að þeir væru mættir í löglegum erindagjörðum fyrir hönd sinna skjólstæðinga. Það var nóg að segja: "Já, ég er með þetta mál!" og fulltrúi sýslumanns tók það gott og gilt (enda sjálfsagt búinn að sjá sömu andlitin oftar en einu sinni). En formið er stórlega gallað.

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.6.2013 kl. 20:05

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Erlingur Alfreð.

Almenningur þessarar þjóðar er vanvirtur og svikinn á svívirðilegan/ólöglegan hátt, af SÝSLUMANNS-EMBÆTTUM!

Það þarf að rannsaka SÝSLUMANNSEMBÆTTIS-VERKIN á Íslandi.

Það er óhjákvæmilegt verkefni.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.6.2013 kl. 20:34

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hlekkurinn er kominn í textann.

Erlingur ég hef verið viðstaddur fjölda uppboða en aldrei nokkurntíma séð lögmann framvísa umboði og stundum ekki eina einustu sönnun fyrir nokkurri einustu aðild viðkomandi að því máli sem fyrir er tekið. Súrrealískasta dæmið var uppboð á eign sjálfri, þar sem enginn sagði deili á sér, enginn var merktur og enginn framvísaði skilríkjum. Dregin voru fram ljósrit gagna sem hver sem er gæti fengið afrituð hjá sýslumanni á hvaða eign sem er, og einhverjum hamri sem allteins hefði getað verið keyptur í partíbúðinni slegið þrisvar í borð. Að því loknu hurfu þau á braut, en á myndbandinu er þetta eins og leiksýning, þetta fólk sem þóttist vera þarna frá banka og sýslumanni hefði allt eins getað verið leikhópur að fremja gjörning. Það eina sem var lögformlega í lagi við atburðarásina, var þegar aðstandandi gerðaþola kallaði til lögreglu sem kom á vettvang og tók skýrslu af þessum óvæntu húsgestum þannig að nöfn og kennitölur væru a.m.k. þekkt svo hægt yrði að kæra þau, sem var gert.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.6.2013 kl. 20:35

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Guðmundur minn.

Sýslumannsembætti framkvæma ólögleg athæfi á Íslandi.

Fólk á Íslandi er ólöglega borið út af heimilum sínum, í boði Húsnæðismálstofnunar/lífeyrissjóða/banka, án undangenginna lagalegra réttarhalda, og án réttláts uppgjörs RÉTTAR-RÍKIS-DÓMSSTÓLA.

Athyglivert réttarríki, þetta Íslands-"réttarríki?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.6.2013 kl. 22:33

8 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Já gott fólk. Þetta er sorglegt ferli en svona er Ísland í dag. Ísland best í heimi? Ónei, keisarinn er alsnakinn!

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.6.2013 kl. 23:25

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég er bara ennþá að reyna að fatta það hvernig sýslumenn geta starfað innan sveitarfélaga lögum samkvæmt. Ég get ekki séð að þeir geti það. Samkvæmt lögum um framkvæmdavald ríkis í héraði (eins þversagnakennt og bara sjálft heiti þeirra er) þá eru sýslmannsembætti ríkisstofnanir. Aftur á móti hafa sveitarfélög stjórnarskrárvarinn rétt til sjálfsyfirráða. Þannig getur ríkisstofnun ekki haft neitt umboð til að skipta sér af lifnaðarháttum íbúa í sveitarfélagi, heldur myndi þurfa að beina erindum sínum til sveitarstjórnarinnar. Þ.e.a.s. miðað við þá forsendu að um ríkisstofnun sé að ræða, þá getur hún ekki talist rétthærri en sveitarfélag sem er stofnun heldur skipulagsheild og stjórnsýslusvæði á landi. Þar sem allt land er í sveitarfélögum, hvar er þá yfirráðasvæði sýslumanns? Jú þar sem hann er ríkisstofnun þá afmarkast yfirráðasvæði han raunverulega af lóðamörkum þeirrar byggingar þar sem hann hefur starfsstöðvar sínar. Fyrir utan lóðina sem er einkaeign, er það sveitarfélagið sem ræður ríkjum á sínu landssvæði. Þessa einföldu skiptingu sem er ekkert öðruvísi en landamæri á korti, virðast hinsvegar margir eiga erfitt með að skilja, þar á meðal sýslumenn og sveitarstjórnirnar sjálfar.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.6.2013 kl. 12:42

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

sveitarfélag sem er ekki stofnun heldur skipulagsheild

...er það sem átti að standa þarna.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.6.2013 kl. 12:43

11 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er nokkuð athyglisvert sjónarmið þegar þú nefnir það. Þú ert þá í rauninni að segja að sýslumenn séu umboðslausir til uppboðsstarfa innan hvers sveitarfélags. (Og kannski einnig að hvert sveitarfélag eigi þar með að reka sjálfstætt sína eigin lögreglu?)

Við stutta athugun finnst mér reyndar orka mjög tvímælis að framkvæmd sýslumanna á naðungarsölum standist kröfur um aðskilnað framkvæmdavalds og dómsvalds, og ákvæði friðhelgi heimilis í stjórnarskrá.

Skv. ákvæðum laga um nauðungarsölu skal beiðnum um nauðungarsölu beint til sýslumanna í hverju umdæmi. Ekki héraðsdómstóla. Sýslumenn hafa síðan sjálfdæmi um að ákveða hvort forsendur uppboðsbeiðnar séu gildar eður ei, og gerðarþoli á litla og veika möguleika á að véfengja rétt kröfuhafa til slíkrar beiðnar; hvað þá að halda uppi vörnum um lögmæti hennar á meðan sýslumaður athugar málið til að reyna að koma í veg fyrir hana. Síðan fer sami sýslumaður, eða fulltrúi hans, með framkvæmd uppboðsins líka, inná heimilum fólks á forsendum sinna eigin ákvarðana, eftir eigin athugun, án sjálfstæðs dómsúrskurðar.

Þetta gengur náttúrulega ekki þegar málið er skoðað.

Ákvörðun um nauðungarsölu ætti ekki að vera í höndum sama aðila og framkvæmir hana, heldur ætti dómari að ákveða lögmætið, og annar aðili framkvæmdina.

Því meira sem ég hugsa um þetta því meira verð ég hneykslaður á fyrirkomulaginu!

Það væri áhugavert að láta reyna á þetta fyrir dómi, og þá að sjálfsögðu helst fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.6.2013 kl. 15:28

12 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Fyrir miðjum texta á átti að standa: ....; hvað þá að halda uppi vörnum um lögmæti hennar, á meðan sýslumaður athugar málið, til þess að reyna að koma í veg fyrir hana.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.6.2013 kl. 15:31

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Erlingur, það vill nú svo til að það hefur einmitt fallið dómur um þetta, og það hjá Evrópudómstólnum, sem við erum einmitt bundin af að EES-rétti.

Hér er sá dómur í löggildri íslenskri þýðingu:

Neytendavernd og nauðungarsölur - íslensk þýðing Evrópudóms - Hagsmunasamtök heimilanna

Þeir sem vilja styrkja framtakið (svona þýðing kostar pening) er bent á að leggja sanngjarna fjárhæð inn á reikning Hagsmunasamtaka heimilanna. Annars eru afnot af þessu öllum frjáls sem það vilja sér til gagns.

Svo ætla ég að negla þetta heim með sveitarfélögin og ríkisvaldið:

Endilega segðu mér hvar á landakortinu þú finnur stað sem er ekki yfirráðasvæði sveitarfélags, og þar með lögvarið samkvæmt stjórnarskrá?

78. gr. Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Ég veit um þrjá slíka staði utan Íslands: Washington DC, City of London og Vatikanið. Ég veit ekki um neina slíka staði á Íslandi nema lóðir og lönd sem eru í eigu ríkisins, t.d. lóðin sem sýsluskrifstofan stendur á.

Dæmi: nýlega ætlaði Alþingi að setja lög sem hefðu fært því skipulagsvald á "Alþingisreitnum" og þannig í raun breytt honum í Vatikan. Þessi tillaga vakti strax úlfúð hjá borgaryfirvöldum vegna þess að með því hefðu völd yfir þessu landssvæði verið tekin úr höndum þeirra. Lyktir málsins urðu þær að tillagan eða hugmyndin fékk alls ekki neitt brautargengi, og er góð ástæða fyrir því:

Ofangreint stjórnarskrárákvæði er nefninlega í mannréttindakaflanum, þannig að brot á því eru jafnframt mannréttindabrot, og það er almennt ekki vænlegt til frama í stjórnmálum að leggja blessun sína yfir slíkt framferði.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.6.2013 kl. 23:59

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Tillaga um áskorun um frestun nauðungarsalna er komin fram. Annars vegar á Evrópuþinginu þar sem hún var samþykkt og hinsvegar á Alþingi Íslendinga í formi þingsályktunartillögu:

http://www.althingi.is/altext/142/s/0012.html

Það merkilega við hana er að hún er flutt af þingmanni til margra ára sem hefur undanfarin tvö og hálft ár gegnt stöðu innanríkisráðherra og því verið í lykilstöðu til að veita sýslumönnum fyrirmælu í þessa veru. Til þess hefði hann ekki þurft neina þingsályktun heldur hafði það vald í hendi sér allan tímann.

Getur verið að tillagan hafi eitthvað með þá staðreynd að gera að tillöguflytjandinn sé nýkominn í minnihluta, og stjórnarandstöðu? Yrði þá ekki tillagan líka að skoðast í ljósi þess að samkvæmt henni er lagt til að beint verði til velferðarráðherra að fyrirskipa Íbúðalánasjóði að hæta að senda út beiðni rum nauðungarsölur, og að skorað verði á lífeyrissjóði á sama veg. Hvergi er minnst á bankana í þessu orðalagi, og algjörlega er skautað framhjá því lykilhlutverki sem innanríkisráðherra gegnir sem yfirmaður sýslumanna.

Já, eins ótrúlegt og það kann að virðast þá er svona ógeðispólitík ennþá iðkuð á löggjafarsamkundum á 21. öld, en er þó vonandi á undanhaldi.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.6.2013 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband