Hræsni og fordómar!

Athyglisvert hvaða skilaboð er verið að senda þeim sem segjast þó ætla að fara að lögum og reglum, þeim er engu að síður úthýst og reynt að setja stein í götu þeirra. Þarna hefur verið þverbrotin sú grundvallarregla lýðræðislegra réttarríkja að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð, af hreinum geðþótta er þessu fólki úthýst áður en það hefur einu sinni haft tækifæri til þess að gerast á nokkurn hátt brotlegt hérlendis. Ef einhver telur að um glæpamenn sé að ræða hefði frekar átt að bjóða þá velkomna og gera því næst lögreglu viðvart, sem hefði þá verið í góðri aðstöðu til að sannreyna hvort þetta fólk hafi eitthvað óhreint í pokahorninu, en nú er búið að gera út um þann möguleika og sannleikurinn mun sennilega aldrei koma í ljós. Ég get fúslega viðurkennt hér og nú að hafa einhverju sinni viljugur litið klámefni augum, þýðir það þá að ég sé ekki velkominn á Hótel Sögu eða hvað? Ef hótelið vill gæta samræmis í aðgerðum sínum hlýtur það í framhaldinu að þurfa að útskúfa öllum sem tengjast beint eða óbeint vafasömu athæfi, sem á með nákvæmlega sömu rökum t.d. við allt starfslið stóru þriggja olíufélaganna, starsfólk Flugleiða, Landsvirkjunar, Símans o.m.fl. (Öll þessi fyrirtæki og þar með tilteknir starfsmenn þeirra, hafa gerst sek um ólöglegt athæfi skv. íslenskum lögum!) Spurning hvort það yrði ekki einhver tekjumissir fyrir hótelreksturinn... en óraunhæfir siðgæðisstaðlar eru líka oftast frekar dýrkeyptir. Ég er alls ekki að reyna að verja skuggahliðar klámbransans sem geta verið ansi dökkar, aðeins að árétta að þetta fólk sem þarna er á ferð hefur ekki verið staðið að lögbrotum, svo vitað sé a.m.k. Allavega hefur það hvergi komið fram í öllu fárinu út af þessari ráðstefnu.

Ef við ætlum að útskúfa þeim sem okkur þykir tengjast vafasömu athæfi, afhverju einbeitum við okkur þá ekki frekar að þeim sem sannanlega hafa verið staðnir að ólöglegum aðgerðum? T.d. CIA sem fyrir hönd bandaríkjastjórnar hefur troðið fótum fullveldi margra Evrópuríkja og líklega okkar líka, með mannránum sínum, ólöglegum fangaflutningum og leynifangelsum. Ef við ættum að viðhafa sömu siðgæðiskröfur væri réttast að slíta strax stjórnmálasambandi við Bandaríkin, fordæma aðgerðir þeirra opinberlega og banna för útsendara þeirra á íslensku yfirráðasvæði. Þetta eru jú glæpamenn sem hafa gerst sekir um: persónu- og iðnaðarnjósnir, mannrán, pyntingar og fleiri mannréttindabrot, vopna- og fíkniefnasölu, peningaþvætti, og jafnvel verið orðaðir við pólitísk morð og aftökur. Fá útsendarar þeirra gistingu á Hótel Sögu??? Ég bara spyr...


mbl.is Hætt við klámráðstefnu hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sem hélt að þjóðin væri svo frjálslynd og nútímaleg, greinilega margfalt íhaldssamari en ég hélt. Oft gerum við grín að öfgatrú/öfgasiðferði sem finnst í suðurríkjum Bna, en erum svo sjálf ekkert skárri. Þetta viðbjóðslega ástand virðist tengjast þeirri forsjárhyggju og bannæði sem hefur farið vaxandi seinustu árin. Það eru tugir þúsunda fasista hér á landi sem sjá ekkert að því að þröngva eigin siðferði yfir aðra,

Svo finnst mér furðulegt að engir pólitíkusar þori að taka afstöðu með ráðstefnunni (eða einfaldlega afstöðu með eðlilegu ferðafrelsi fólks). Það eru örugglega einhverjir þingmenn sem hafa leynilega gaman af klámi, hlutföllin eru allavega slík að það er mjög ólíklegt að þeir séu allir á móti því. En hræðslan við pólitíska rétthugsun er mikil, sérstaklega rétt fyrir kosningar. 

Geiri (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband