Verðtryggingarsnjóhengjan
9.5.2013 | 16:24
Þrátt fyrir að verðbólgan hafi farið lækkandi að undanförnu eru ýmsir undirliggjandi þættir líklegir til að viðhalda verðbólguþrýstingi, að mati sérfræðinga sem benda m.a. á að allar líkur séu á að gengi krónunnar gefi eftir í haust.
Það sem þeir segja þó ekki frá er að: Verðtryggingin er hinn undirliggjandi vandi
Hún prentar pening og eykur þannig peningamagn í umferð, sem leiðir til rýrnunar á verðgildi krónunnar og samsvarandi verðhækkana sem hækka vísitölu neysluverðs. Það veldur svo hækkun á verðtryggðum lánum sem prenta meiri froðupeninga fyrir bankana og knýja þannig verðbólguskrúfuna áfram.
Til þess að stöðva verðbólgu verður því að afnema verðtryggingu á lánsfé.
Hér má sjá hvernig verðtryggingarfroðan féll saman haustið 2008:
En hvað varð um afskriftina á þessari snjóhengju? Hefur hún skilað sér á innheimtuseðla neytenda? Hefur hún skilað sér í lækkun húsnæðiskostnaðar sem er stór þáttur í vísitölu neysluverðs? Nei það hefur hún í fæstum tilvikum gert, þrátt fyrir að landsmenn hljóti að eiga réttmæta heimtingu á því að njóta góðs af þessari afskrift. Þetta ættu þeir að skoða vel sem segjast vera áhugasamir um hagsmuni neytenda og þann ávinning sem þeir gætu fengið af lægra vöruverði með minni verðbólgu í umhverfi án peningaprentunar af völdum verðtryggingar.
Þetta ættu þeir líka að skoða sem spyrja hvað kosti að leiðrétta tjónið og hver eigi að borga fyrir þá aðgerð. Svarið er einfalt: það kostar aðeins nokkra músarsmelli að færa tölur á innheimtuseðlum niður til samræmis við þá afskrift sem búin er að eiga sér stað þegar froðan féll saman haustið 2008 eins og myndin að ofan sýnir. Þeir hinir sömu mættu svo gjarnan svara þeirri spurningu hvað það kostar að gera það ekki, því það er öðru fremur umframmagn peninga í umferð af völdum þessarar verðtryggingar sem er orsök verðbólgu hér á landi. Verðbólgan snertir alla, ekki aðeins þá sem taka húsnæðislán þó hún snerti þá af tvöföldum þunga.
Með því að leiðrétta þessa kerfisvillu gætum við dregið stórlega úr peningamagni í umferð og þannig snúið verðbólgunni til baka og fengið lægra og stöðugra vöruverð. Eins undarlegt og það kann að virðast eru þeir til sem segjast vera mótfallnir afnámi verðbólgu. Það hlýtur að verða að teljast undarleg afstaða, að vilja viðhalda verðbólgu. Miklu skynsamlegra væri að losna við hana með því að afleggja hið úr sér gengna fyrirkomulag verðtryggingar og leiðrétta tjónið sem það hefur valdið.
Þrýsta á verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 18:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.