Hómer Simpson á Hressó
5.5.2013 | 17:11
Eins og komið hefur fram í fréttum að undanförnu mun Ísland verða sögusvið lokaþáttar yfirstandandi þáttaraðar Simpson fjölskyldunnar, sem er jafnframt sú næstsíðasta sem mun verða framleidd að sögn höfundar þáttanna.
Þátturinn verður frumsýndur vestanhafs þann 19. maí næstkomandi. Líklega verða allir sem hafa áhuga á Simpsons á Íslandi búnir að sækja þáttinn á netinu og horfa á hann áður en einhver sjónvarpsstöð nær að koma honum á öldur ljósvakans í umdæmi Gullbringusýslu á því herrans ári 2013.
Smám saman hafa verið að birtast skjámyndir úr þættinum, og er mjög skemmtilegt að sjá þá Hómer og félaga spóka sig hér landi í umhverfi sem er nánast kunnuglegt. Þeir fóru að sjálfsögðu í Klothing (Kaupthing?) til að kaupa sér lopapeysur:
Hér vantar ekkert nema lagið úr Dressman auglýsingunni (í flutningi Sigur Rósar?).
Svo virðast þeir hafa komið við á Hressingarskálanum, meira að segja gert sig heimankomna og sest við gluggaborðið fjær innganginum til að smakka þorramat:
Hómer ógnar Carl með kæstum hákarli á tannstöngli.
Hljómsveitin Sigur Rós og tónlist hennar spilar stórt hlutverk í þættinum, sem mun hefjast á hinu vel þekkta stefi eftir Danny Elfman, í flutningi hljómsveitarinnar:
Jónsi, Orri og Georg.
Svona samvinnuverkefni er líklega eitthvað sem engum óbrjáluðum hefði dottið í hug, jafnvel ekki eftir að hljómsveitin varð heimsþekkt. En miðað við hversu mikinn listrænan metnað og sæmd liðsmenn sveitarinnar leggja í öll verk sem þeir koma nálægt er allt útlit fyrir að þátturinn geti orðið með bestu Simpsons þáttum frá upphafi.
Ekki hefur mikið verið upplýst um efni þáttarins, enda engin ástæða til að spilla fyrir þeim sem vilja fá að njóta þess að upplifa hann í heild sinni þegar þar að kemur. Meðal annars verður spennandi að sjá hvort að hluti af brandaranum verður gullfiskaminni Íslendinga en síðast þegar landinu brá fyrir í þáttunum stóðu yfir mótmæli við bankana eftir að Hómer tók valréttarlán með 100% veðsetningu á heimili fjölskyldunnar og kom af stað húsnæðislánakrísu með hnattrænar afleiðingar:
Túlkun Matt Groening á atburðarás Búsáhaldabyltingarinnar.
Heimili Simpsons fjölskyldunnar að 742 Evergreen Terrace í Springfield, N-Takóma.
Þetta er reyndar hið eigulegasta hús. Sennilega hefði verið lítið mál að fá lán út á veð í því hjá íslenskum banka á árunum fyrir 2008, og eftir á að hyggja jafnvel raunhæfara en ýmis viðskipti sem þar fóru fram á þeim tíma.
Hómer borðar hákarl og hangikjöt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Mótmæli, Spaugilegt, Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:52 | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur Ásgeirsson, 18.5.2013 kl. 12:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.