Flott: gefið ykkur þá fram!

Haft er eftir ónefndum "vini" svokallaðra erlendra kröfuhafa í Financial Times að þeir séu tilbúnir til viðræðna við íslensk stjórnvöld, þar sem þeir muni krefjast þess að fá kröfur sínar greiddar að fullu. Ekki fylgir þó sögunni hvernig slíkar kröfur gætu einhvernveginn beinst að íslenskum stjórnvöldum, þar sem í raun er um að ræða kröfur á hendur einkareknum fyrirtækjum sem eru flest meira eða minna gjaldþrota.

Aðkoma íslenskra stjórnvalda getur því varla orðið nema í besta falli sem milligönguaðila og sjá til þess að þeir fái þó það litla sem hægt sé að koma í verð af eftirstandandi eignum þessara þrotabúa, sem allt útlit er fyrir að verði af mjög skornum skammti þegar hæstiréttur mun hafa lokið mjög sértækri yfirferð sinni um undirliggjandi lánasöfn.

Nægir þar að nefna fleiri hundruð milljarða sem ekki er neitt merkilegt á bak við nema lánasamningar sem eru ólöglegir, enda er þegar búið að gefa helmingsafslátt af þeim í bankakerfinu innanverðu. Þegar sá afsláttur birtist út á við ætti kröfuhöfum að verða ljóst við hvað er að eiga og er þá hætt við að annað hljóð komi í strokkinn.

En góðu fréttirnar eru þær að fyrst kröfuhafarnir eru alveg komnir að dyrakarminum á hurðinni sem liggur að herberginu með "samningsborðinu", þá hlýtur að fara styttast í að sjáist framan í smettin á þessu fólki. Þá fáum við loksins að vita hverjar þær eru þessar hrægammagrýlur sem eiga að hafa staðið í vegi fyrir flestum þjóðþrifaverkum hér á landi undanfarið kjöratímabil eða svo.

Persónulega mun ég tilnefna þann fjölmiðil sem fyrstur birtir nöfn kröfuhafanna þegar þeir sýna sig, til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins á næsta ári.

P.S. Það sama gildir um nafn þess sem er "vinur kröfuhafanna".


mbl.is Erlendir kröfuhafar opnir fyrir viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar

Það er nú að koma í ljós hve glórulaust þetta kosningaloforð framsóknarflokksins var. Kröfuhafar sem menn hér hafa uppnefnt hrægamma og þú gerir meðal annars í þessu bloggi, eru einfaldlega menn og fyrirtæki í viðskiptum og eru ekki að gera neitt ólöglegt, nema það sé orðið ólöglegt yfirhöfuð að hagnast á viðskiptum.

Það hefur verið bent á það áður að ef íslensk stjórnvöld ætla að beita bolabrögðum til að kúga þessa aðila þá getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjárfestingar erlendra aðila í landinu í framtíðinni. Þið í torfkofavinadeildinni haldið að útlendingar séu eingöngu fæddir til þess að níðast á Íslendingum svo ég geri ekki ráð fyrir því að þið skiljið þetta eða viljið skilja það.

Óskar, 2.5.2013 kl. 16:39

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lastu yfir höfuð pistilinn Óskar?

Að hverju ert þú eiginlega að beina þessari athugasemd?

Hverjir eru þessir "þið í torfkofa..." eitthvað sem þú vísar til?

Svo kannast ég ekki við að hafa uppnefnt neinn þó ég hafi vísað til uppnefna sem aðrir hafa notað yfir kröfuhafana. Eins og ég bendi á hafa þeir verið kallaðir hrægammar og sagðirstanda í vegi fyrir öllu góðu.

Mig langar einfaldlega að sjá farman í þá til að vita hverjir þeir eru svo ég geti sjálfur myndað mér skoðun á þeim og þurfi ekki að hlusta á tröllasögur.

Hvaða skilning varst þú annars að leggja í þetta?

Guðmundur Ásgeirsson, 2.5.2013 kl. 18:33

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þeir sem kaupa kröfur á gjaldþrota (eða því sem næst) fyrirtæki/þjóðir undir þeim forsendum að ólíklegt sé að þær innheimtist og þar af leiðandi verðgildi þeirra lágt og ætla að hámarka innheimtuvirði þeirra, eru kallaðir hrægammasjóðir. Vegna þess að þeir ráðast á fyrirtæki/þjóðir þegar þau/þær geta síst varið, eru að þrotum komin/komnar. Eins og alvöru hrægammar gera þegar dýr (eða menn) eru að dauða komin/komnir í eyðimörkinni.

Þetta er hugtak sem hefur unnið sér fastan sess í tungumálum flestra vestrænna ríkja og það er hægt að fletta upp orðasambandinu vulture fund á alfræðiorðabók netsins, Wikipedia og fá nákvæmlega þessa skilgreiningu.

Þannig að það er ekkert niðrandi við að kalla þessa aðila hrægammasjóði, ekki frekar en að kalla þá sem hafa gengið til liðs við KR Kr-inga. Það er almennt litið niður á hrægammasjóði og þeir séðir eins og þeir eru, annars staðar en hjá meðvirkum Íslendingum. Þeir sem leggja þá að jöfnu við venjulega fjárfesta hafa bara ekki kynnt sér málin. Hvað þá að halda því fram að það að mæta þeim af festu fæli frá fjárfesta. Það er algjör þvæla.

Theódór Norðkvist, 3.5.2013 kl. 14:17

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

...geta síst varið sig...

átti að standa í fyrstu málsgrein.

Theódór Norðkvist, 3.5.2013 kl. 14:18

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er almennt litið niður á hrægammasjóði og þeir séðir eins og þeir eru, annars staðar en hjá meðvirkum Íslendingum.

...sem húka þar af leiðandi væntanlega í torfkofum?

Guðmundur Ásgeirsson, 3.5.2013 kl. 22:13

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessir eru ekki meðvirkir: http://jupiter.is/gogn/020513.pdf

Guðmundur Ásgeirsson, 3.5.2013 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband