Indexation considered harmful
19.2.2013 | 19:41
Mikil umræða hefur verið að undanförnu um verðtryggingu, ekki síst í kjölfar frétta af nýlegu áliti sérfræðings hjá framkvæmdastjórn ESB um skilyrði fyrir lögmæti verðtryggingar neytendalána. Þessi skilyrði virðast ekki hafa verið virt af hérlendum lánveitendum, þrátt fyrir að nákvæmlega sömu skilyrði hafi verið innleidd í íslenskan rétt árið 1993 og jafnframt gilt um húsnæðislán frá ársbyrjun 2001.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa af þessu tilefni birt ályktun þar sem lagaskilningur sá sem samtökin hafa haldið frammi og sem álit sérfræðings ESB staðfestir, er útskýrður á mannamáli, en áður höfðu samtökin jafnframt útbúið og birt opinberlega frumvarp um afnám verðtryggingar neytendalána.
Núna í dag voru svo loks gefnar út niðurstöður vísindalegrar rannsóknar á myntrænum áhrifum almennrar verðtryggingar á Íslandi. Óhætt er að fullyrða að slík rannsókn hafi aldrei verið gerð áður, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Niðurstöðurnar eru sláandi og leiða í ljós að verðtrygging er beinlínis skaðleg, en fyrirsögnin hér að ofan er einmitt vísun til spakmæla brautryðjenda í tölvunarfræði um uppfinningar sem virtust líklega ágætar í fyrstu, en með tímanum og reynslunni kom hinsvegar skaðsemi þeirra í ljós.
Abstract (helstu niðurstöður, ísl. þýð. undirritaðs):
Árið 1979 í kjölfar áratugslangrar óðaverðbólgu voru innleidd á Íslandi svokölluð verðtryggð lán, með neikvæða eignamyndun og höfuðstólstengingu sem hækkar höfuðstól lánanna til jafns við verðbólgu. Þessi tegund lána voru hluti af opinberru stefnu stjórnvalda um að koma böndum á óðaverðbólguna. Þrátt fyrir að almenn verðtrygging hafi síðan þá verið afnumin að talsverðu leyti er hún enn til staðar á fjárskuldbindingum, og meirihluti íslenskra húsnæðislána eru enn verðtryggð. Þó að því sé enn stundum haldið fram að verðtryggð lán hafi reynst gott ráð við óðaverðbólgunni, eru rökin fyrir því oftast byggð á yfirborðslegri þjóðhagfræðilegri túlkun á íslensku efnahagslífi, en aldrei hefur tekist að bera kennsl á neina sérstaka þætti í því gangverki sem styðja slíkar kenningar. Í þessari ritgerð tökum við öndverða nálgun, og setjum fram nákvæma greiningu á þeim peningalegu ferlum sem búa að baki slíkum lánveitingum eins og þær endurspeglast í tvíhliða bókhaldi bankakerfisins.
Greining þessi leiðir í ljós að engar sannanir eða orsakasamhengi eru fyrir hendi sem gætu stutt þá kenningu að verðtryggð lán hjálpi til að koma böndum á verðbólgu. Þvert á móti sýna rannsóknir okkar að sú aðferð sem notuð er við bókfærslu þessara lánveitinga innan bankakerfisins ýtir beinlínis undir myntþenslu bankakerfisins, og því hafa verðtryggð lán þau áhrif að auka verðbólguna sem þau eru tengd við, frekar en að draga úr henni. Þannig skapa þau vítahring innan bankakerfisins sem hefur bein áhrif á sjálfan gjaldmiðilinn. Þar sem þessi vítahringur útþenslu peningamagns myndast aðeins þegar verðbólga fer yfir u.þ.b. 2%, þá leggjum við til lausn sem fælist í því að festa vöxt peningamagns í umferð við 0%, og við veltum upp ýmsum aðferðum til þess að ná því fram með breytingum á svokölluðum Basel reglugerðarramma sem er grundvöllur íslenska bankakerfisins.
Þetta eru stórbrotin tíðindi:
Verðtrygging orskakar verðbólgu og er stórskaðleg krónunni!
Þar er sennilega fundin skýring á þrálátum veikindum gjaldmiðilsins.
Þau má einkum rekja til viðvarandi eitrunar sem kallast verðtrygging.
Eftir að uppgötvaðist hversu hættulegt var að nota asbest til einangrunar í húsbyggingum var notkun þess bönnuð. Það sama ætti að gilda um einhliða verðtryggingu neytendalána, enda hreint glapræði að halda svo skemmandi fyrirkomulagi óbreyttu til framtíðar.
Telja afnám verðtryggingar brýnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkar: Peningamál, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:06 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alveg hreint með ólíkindum en mann hafði svo sem grunað þetta.
Flowell (IP-tala skráð) 19.2.2013 kl. 20:35
Hef lengi haft tilfinningu fyrir þessu. Enda þarf varla gripsvit til að átta sig á verðbólguáhrifum verðtryggingar. Augljós vítahringur í þágu fjármagnsins.
Kristján H Theódórsson, 20.2.2013 kl. 09:10
Þetta er lögleidd sjálfvirk peningaprentun.
Fátt er betur til þess fallið að rýra gjaldmiðil en fölsun í stórum stíl.
Meðal þess sem Þjóðverjar vörpuðu á Bretland í seinni heimsstyrjöldinni voru ekki bara sprengjur, heldur líka heilu farmarnir af fölsuðum seðlum af pundi hennar drottningar. Afhverju ætli það hafi verið?
Þjóðverjarnir voru ekki svona góðir að gefa fólkinu pening með því að dreifa honum úr lofti. Nei þeir voru að reyna að grafa undan efnahagslífinu og valda innri óstöðugleika meðal bresku þjóðarinnar.
Hér á Íslandi er sjálfvirkt kerfi sem gerir svona mánaðarlegar peningasprengjuárásir á efnahagslíf þjóðarinnar í hverjum mánuði.
Verðtrygging.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.2.2013 kl. 13:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.