Frumvarp um afnám verðtryggingar
9.2.2013 | 12:04
Frá Hagsmunasamtökum heimilanna 5.2.2013:
Hagsmunasamtök heimilanna hafa tekið enn eitt skref í baráttu sinni fyrir afnámi verðtryggingar á neytendalánum, en varaformaður samtakanna Guðmundur Ásgeirsson hefur ritað "Frumvarp til laga um breytingu og afnám ýmissa lagaákvæða varðandi verðtryggingu neytendasamninga", sem tilbúið er til flutnings. Megináhrif frumvarpsins ef það yrði að lögum yrðu þau að afnema verðtryggingu neytendalána.
Auk þess eru með frumvarpinu lagðar til breytingar og afnám ýmissa lagaákvæða sem hafa með verðtryggingu að gera og hafa bein eða óbein áhrif á hagsmuni heimilanna.
Stjórn samtakanna hefur leitað til þingmanna eftir samstarfi, og óskað eftir því við einn þingmann úr hverjum flokki að gerast flutningsmaður frumvarpsins, í því skyni að mynda þverpólitíska samstöðu um málið. Má í því sambandi benda á ályktanir allra stjórnmálaflokkanna um leiðréttingu og/eða afnám verðtryggingar (samantekt hér).
Þingkonurnar Lilja Mósesdóttir og Margrét Tryggvadóttir hafa nú þegar lýst yfir áhuga á samstarfi, en Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall svöruðu neitandi. Enn hafa þingmenn Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og VG ekki gefið formlegt svar.
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hefur nú ákveðið að birta frumvarpið opinberlega og er það því aðgengilegt hér. [Frá vefsíðu HH.]
Frumvarp HH um afnám verðtryggingar neytendalána o.fl.
Gjörðu svo vel ágæti Framsóknarflokkur.
Einnig af vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna:
Útfærð tillaga í umsögn HH við frumvarp til lyklalaga:
1. gr.
Greinin orðist svo:
Lánveitanda, sem veitir neytanda lán gegn veði í fasteign sem ætluð er til lögheimilis, er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en hinu lánaða nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða brota lántaka á lánareglum. Með hinu lánaða er átt við að samsvarandi hlutfall af endanlegu uppgjörsverðmæti vegna fullnustugerðar við það hlutfall kaupverðs sem upphaflega var lánað fyrir til viðkomandi neytendakaupa. Krafa lánveitanda á neytanda skal falla niður, þó svo samsvarandi hluti af andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu eða annað uppgjör í tengslum við fullnustuaðgerðir nægi ekki til fullnaðargreiðslu hennar ásamt áföllnum lántökukostnaði og álögðum gjöldum af hálfu lánveitanda.
Og jafnframt, meðal annars til samræmis við skilyrði ESA:
Útfærðar tillögur í umsögn HH við frumvarp um afnám stimpilgjalda:
- Íbúðalán alfarið undanskilin stimpilgjöldum.
- Hlutfallslegt lántökugjald verði óheimilt.
- Uppgreiðslugjöld bönnuð á neytendalánum.
--
Það er furðulegt ef Framsóknarflokkurinn ætlar að byggja kosningastefnu sína á loforðum sem aðrir eru búnir að standa við nú þegar án þess að hafa nokkurntíma lofað neinu slíku sjálfir. Miklu betra væri ef Framsóknarflokkurinn stæði að því að leggja frumvarpið um afnám verðtryggingar fram á Alþingi nú þegar og legði jafnframt stuðning sinn við hinar tvær tillögurnar.
Fyrir þessar kosningar gefast stjórnmálaflokkum og leiðtogum þeirra áður óþekkt tækifæri til þess að standa við stóru orðin, og gera það í þetta sinn fyrir kosningar. Ofangreind mál eru þegar komin fram á Alþingi, nema frumvarpið um afnám verðtryggingar en því hefur þó verið dreift til allra þingmanna, einnig Framsóknar.
Lagt er til að kjósendur snúi nú dæminu við þannig að þeir gefi sjálfum sér kosningaloforð: að kjósa (eða kjósa ekki) fólk og flokka vegna þess sem þau hafa gert (eða hafa ekki gert), frekar en út á það sem þau segjast ætla að gera seinna. Þannig er til dæmis eftir engu að bíða heldur gæti Framsókn verið búin að uppfylla mörg helstu kosningaloforðin á morgun ef þeim sýndist.
Þess í stað stendur til að "skipa starfshóp sérfræðinga" til að "fara yfir málin". Svona svipað og sitjandi ríkisstjórn er búin að gera tíu sinnum á kjörtímabilinu. Vonandi er þetta bara tímabundið hugsunarleysi hjá Framsókn, sem þau átta sig á von bráðar og hverfa alfarið frá þessari villu vegar síns.
Og skipaðan hvaða sérfræðingum spyr maður nú bara?
P.S. Við erum í símaskránni ef því er að skipta...
Neytendalánum breytt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál, Þingmál | Breytt s.d. kl. 12:06 | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur í Guðanabænum ekki að gefast upp á að afnema verðtrygginguna, þetta síast ín smátt og smátt.
Bankarnir og auðmanna elítan hefur með góðum árangri haldið uppi áróðri sínum í gegnum árin og fengið almenning til að trúa því að allt fjármálakerfið fari á hausinn ef það er ekki verðtrygging.
Það tekur tíma að brjóta niður þessa kenningu banka og auðmanna elítunar. Jafnvel mínir ættingjar hafa gefist upp, í sumar var mér sagt, "við komum aldrei til með að eiga íbúðina skuldlausa" hvað var lánið fyrir rúmmum 20 árum 5 miljónir, hvað er lánið í dag tæpar 8 miljónir.
Keep up the good work, you will be victorious in your quest, because it is the right thing to do.
Kveðja frá Las Vegas.
Jóhann Kristinsson, 9.2.2013 kl. 23:19
Sæll Jóhann.
Ég er sko alls ekki að fara að hætta því að vinna að afnámi verðtryggingar.
Já þetta kemur allt smám saman, þó það þurfi tíma til að síast inn. Það er ekki við öðru að búast þegar maður er að reyna að brjóta á bak aftur þrjátíu og fjögurra ára gamalt kerfi. Það sem vinnur þó með okkur er hversu fúið það er orðið, en verðtryggða krónan er komin sjö ár framyfir meðallíftíma gjaldmiðla. Fyrir gervimynt er það afrek bara að hafa náð að lifa svo lengi, en nú er hún orðin svo veikluð að einungis öndunarvél heldur henni lifandi.
Ekkert er eftir nema að kippa úr sambandi, en það skal ég glaður gera. Það er engum greiði gerður sem svo er komið fyrir að framlengja slíkt ástand.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 10.2.2013 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.