Drómi enn til rannsóknar Samkeppniseftirlits
21.11.2012 | 16:25
Meðfylgjandi frétt fjallar um athugun sem Fjármálaeftirlitið hefur gert á starfsháttum Dróma, og er niðurstaða eftirlitsins sú að í öllum meginatriðum séu starfshættir Dróma faglegir og í samræmi við kröfur um góða viðskiptahætti, eins segir í fréttinni.
Þetta hlýtur að vekja talsverða furðu, m.a. af eftirfarandi ástæðum:
- Drómi er ekki þinglýstur eigandi á einu einasta pappírssnifsi sem notað hefur verið til að bjóða upp húsnæði ofan af fólki af hálfu fyrirtækisins.
- Drómi stundar þessa og ýmsa aðra innheimtu fyrir þriðja aðila, án innheimtuleyfis, í trássi við skýr ákvæði innheimtulaga.
- Drómi hefur aldrei verið skráður né haft stafsleyfi sem fjármálafyrirtæki, þrátt að koma í reynd fram sem slíkt gagnvart fyrrverandi viðskiptavinum SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans.
- Drómi er fyrirtæki sem var beinlínis stofnað af FME, og þar af leiðandi getur stofnunin ekki talist hæf til að leggja neinskonar óháð mat á starfsemi þess.
- Ákvörðun FME um stofnun Dróma er sögð byggja á heimildum svokallaðra neyðarlaga. Í þeim er FME veitt heimild til að stofna fjármálafyrirtæki eingöngu, en Drómi er eins og áður segir ekki löglega starfandi fjármálafyrirtæki og fellur því ekki undir þessa heimild.
Þrátt fyrir að Drómi, hálfgert útibú Fjármálaeftirlitsins, hafi nú sent frá sér fréttatilkynningu um að það njóti blessunar höfuðstöðvanna (FME), þá er það eins og hér hefur verið rakið jafn innantómt og hver annar áróður. Af þessu tilefni er hinsvegar líklega rétt að rifja upp að Drómi er enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu fyrir meint brot á banni við nauðungarsölum og öðrum fullnustuaðgerðum sem var í gildi á tímabilinu frá 9. mars. til 27. júní á þessu ári, en rannsóknin á rætur að rekja til kæru sem Hagsmunasamtök heimilanna beindu til eftirlitsins fyrir hönd tveggja félagsmanna sem voru gerðarþolar í slíkum tilfellum.
Gagnrýnir ekki starfshætti Dróma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Fasismi | Breytt s.d. kl. 22:48 | Facebook
Athugasemdir
Annað hvort eru liðir 1-5 rangir hjá þér, Guðmundur, eða FME telur þá ekki skipta neinu máli. Sé það síðarnefnda rétt þá er ekki um annað að gera en að kæra Dróma og fá niðurstöðu í málið.
Sigurður Sigurðarson (IP-tala skráð) 21.11.2012 kl. 17:57
Sigurður:
1. Fyrsta atriðið varðar aðildarskort Dróma í fullnustumálum, sem er augljós. Drómi var stofnaður í mars 2009 og hefur því ekki veitt nokkrum manni eitt einasta lán. Aftur á móti hefur hann verið að láta bjóða upp heimili viðskiptavina SPRON, Frjálsa fjárfestingarbankans, og nú síðast fyrir hönd fyrirtækis sem heitir Hilda og er í eigu Seðlabanka Íslands. Ég hef sjálfur séð heilu bunkana af skjölum og verið viðstaddur þónokkrar fyrirtökur á nauðungarsölum sem gerðar eru þrátt fyrir ofangreinda meinbugi. Þennan vitnisburð get ég sannað með gögnum ef á þarf að halda. Þess má einnig geta að Frjálsi Fjárfestingarbankinn hafði heldur ekki starfsleyfi til að veita gengistryggð lán eða versla með gjaldeyri fyrir hönd viðskiptavina, eins og hefur áður verið skjalfest hér á þessu bloggi og stutt með gögnum sem koma frá Fjármálaeftirlitinu sjálfu: http://bofs.blog.is/blog/bofs/entry/1055341/
2. Samkvæmt innheimtulögum er innheimta fyrir þriðja aðila leyfisskyld starfsemi: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008095.html
Á heimasíðu fjármálaeftirlitsins er listi yfir aðila sem hafa starfsleyfi, og þar er að finna fjögur innheimtufyrirtæki, en engan Dróma: http://www.fme.is/eftirlitsstarfsemi/adilar/eftirlitsskyldir-adilar/
3. Á ofangreindu yfirliti FME er reyndar hvergi að finna neinn Dróma, ekki sem fjármálafyrirtæki af neinni sort. Í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra er fyrirtækið aftur á móti skráð sem eignarhaldsfélag: http://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/7103091670
Eignarhaldsfélög hafa almennt hvorki heimild til að stunda innheimtu- né fjármálastarfsemi, nema samkvæmt sérstöku starfsleyfi, sem eins og áður segir hefur aldrei verið gefið út fyrir Dróma.
4. Drómi var stofnaður samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, þann 21. mars 2009: http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/gagnsaeistilkynningar/nr/1217
Þannig var það ekki ég sem hélt því fram að Drómi væri stofnaður af FME, heldur var það Fjármálaeftirlitið sjálft. Það eina sem ég gerði var að benda á að þar með væri vafasamt hvort stofnunin teldist hæf til að leggja mat á starfsemi síns eigin sköpunarverks.
5. Með áðurnefndri ákvörðun FME um yfirtöku SPRON var vísað til heimildar á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki til að taka yfir hluthafavald SPRON, sem var vissulega gert: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2002161.html
Hinsvegar er þar hvergi að finna neina heimild til að stofna neitt SPV dótturfélag til að mynda skuldavafning utan um eignir þrotabúsins og veðsetja þær þriðja aðila. Þar var farið langt út fyrir heimildir FME sem festar voru í lög með neyðarlögunum, en í 1. gr. þeirra segir skýrum orðum að fyrirtæki stofnuð á grundvelli þeirra til að taka við rekstri fallinna banka skuli fá starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki, en augljóslega hefur Drómi ekki verið stofnaður sem fjármálafyrirtæki og því á þessi heimild ekki við um hann: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2002161.html
Það er því engin lagaheimild fyrir því að stofna fyrirtæki eins og Dróma, sem kemur fram sem innheimtuaðili fyrir hönd að minnsta kosti þriggja annara lögaðila sem vitað er um, án þess að hafa til þess leyfi.
Í ofangreindri ákvörðun FME er jafnframt að finna fyrirmæli til ýmissa aðila, um að yfirfæra skráningar á réttindum þrotabús SPRON til dótturfélagsins, þar á meðal til þinglýsingarstjóra með vísan til ákvæða þinglýsingalaga: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1978039.html
Ég hef undir höndum fleiri bunka af skjölum sem sýna að þessum fyrirmælum hefur einfaldlega ekki verið fylgt af þinglýsingarstjórum. Í veðbókum sýslumanna eru þessar kröfur flestar enn skráðar á upphaflega lánveitanda, eftir atvikum SPRON eða FF en í sumum tilvikum er um að ræða Hildu sem er dótturfélag Seðlabanka Íslands eins og áður var getið, og er aðkoma hans að þessu öll mjög dularfull og undarleg.
Sigurður. Eins og hér hefur verið rakið, þá er ekki um að ræða hvort ég kunni að hafa rangt fyrir mér, heldur hvort Fjármálaeftirlitið hafi rangt fyrir sér, þar sem þetta er allt saman byggt meira og minna á upplýsingum sem koma beint þaðan. Aftur á móti þá getur hitt komið til greina að FME telji þessi atriði ekki skipta neinu máli. Ef svo er þá segir það ýmislegt um þessa stofnun, ekki satt? Ef hún tekur ekki mark á sjálfri sér?
Afhverju voru til dæmis skipaðar tvær slitastjórnir, ein yfir SPRON og önnur yfir FF, skipaðar nákvæmlega sama fólki? Eru þau kannski á tvöföldum slitastjórnarlaunum? Afhverju skipaði FME Hlyn Jónsson starfsmann sinn sem formann slitastjórnar SPRON/FF og hver tók þá ákvörðun. Var það samstarfsmaður Hlyns og var sá aðili yfir höfuð hæfur til þess? Var það kannski Hlynur sjálfur? Hver veit? Og hvað með tímabundna setu Feldísar Lilju Óskarsdóttur samtímis í slitastjórnum SPRON og Kaupþings sem tók svo yfir innstæðurnar í dótturfélagið Arion banka? Allar þessar spurningar eiga fullkomlega rétt á sér og þeim hefur ekki verið svarað.
Sigurður. Ég hvet þig til að kynna þér málið, og mynda þér skoðun á því hvort að framferði Fjármálaeftirlitsins í þessu máli sé í lagi eða hvað?
Guðmundur Ásgeirsson, 22.11.2012 kl. 01:07
Þeir sem reyna að hafa samskipti við Fjármálaeftirlitið komast fljótlega að því að þetta batterí er því miður sú allra sorglegasta stofnunarómynd sem finnst á landi hér.
Erlingur Alfreð Jónsson, 27.11.2012 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.