Skáldsagan um Ísland
26.9.2012 | 01:57
Er enn að reyna að jafna mig eftir Kastljós kvöldsins, og kvöldsins áður sem vildi svo til að ég horfði ekki á fyrr en af upptöku í dag og svo beina útsendingu þáttarins í kvöld skömmu seinna. Þannig er þetta þriðjudagskvöld fyrir framan skjáínn búið að vera eins og að fara i bíó á hryllingsmynd í tveimur köflum, ekki aðeins fyrir undirritaðan sem áhugamann um þjóðhagfræði heldur einnig sem fagmann í upplýsingatækni.
Allar fagstéttir eiga sér sínar hryllingssögur. Píparinn sem þurfti að endurnýja sprungna skólplögn í kafarabúning vegna þess að þá var allt komið á bólakaf í saur. Sjúkraflutningamenn sem þurftu að skafa mann upp af gólfinu sem hafði fallið ofan í vélknúna sorpkvörn. Leiðsögumaðurinn sem þurfti að bera ferðamann með opið beinbrot, á bakinu yfir fjöll og firnindi án matar og skjóls í marga daga í vetrarstormi.
Í kvöld fengum við að heyra svona sögu úr hugbúnaðargeiranum, af verkefni þar sem allt virðist hafa farið úrskeiðis sem hefði getað gert það. Svo þegar það var búið að gerast var ýmislegt fleira sem fór úrskeiðis sem engum hefði einu sinni dottið í hug að væri yfir höfuð hægt að klúðra. Með verkefninu um nýtt fjárhagskerfi ríkisins hefur Íslandi enn tekist að skrá sig á spjöld sögunnar fyrir að marka tímamót í fúski og klúðurslegum vinnubrögðum, í þetta sinn á sviði hugbúnaðarverkfræði. Fyrir fagfólk með innsýn í fyrirbæri eins og tölvuöryggi og gæðastjórnun hljómaði þetta eins og frásögn af skelfilegri martröð sem nær nýjum hæðum í óhugnaði.
Það alvarlegasta er að í hlut á ekki bara eitthvað misheppnað kerfi sem aldrei endaði með að verða tekið í notkun, heldur kerfið sem raunverulega er notað fyrir ríkisbókhaldið! Þeir sem hafa aðgang að kerfinu virðast jafnframt geta valsað um fjárreiður ríkisins nánast að vild og greitt úr ríkissjóði án þess að viðurkenndu ferli sé fylgt, og hafa óheftan aðgang að reikningum annara stofnana en þeirra sem viðkomandi starfar hjá. Þar á meðal er ótalinn fjöldi starfsmanna verktakans sem smíðaði kerfið, og hlýtur það að vekja ýmsar spurningar um hina félagslegu hlið öryggismála í kerfinu. Hversu margir þeirra ætli hafi til dæmis þurft að undirgangast bakgrunnsskoðun áður þeim var úthlutað lykilorði að ríkissjóði?
Ekki virðist kerfið einu sinni reikna rétt úr þeim upplýsingum sem það geymir, því getið var um alvarleg og enn óleyst vandamál við uppgjör og afstemmingar. Þannig virðist að ekki sé með nokkru móti hægt að treysta því að neitt sé að marka þetta kerfi, sem heldur utan um allar fjárreiður fjársýslu ríkisins. Þegar ekki er hægt að treysta bókhaldi ríkisins þá verða opinberar hagtölur um ríkisreksturinn og sjálfur ríkisreikningur, ekki merkilegri en hver önnur skáldsaga.
Við höfum í hartnær fjögur ár fengið að heyra um þá ormagryfju sem blasti við mönnum þegar farið var að kíkja í bókhald hins einkarekna fjármálakerfis sem lagði upp laupana með braki og brestum árið 2008. Við höfum komist að því hvernig stærstu fyrirtæki landsins voru gerð úr froðu, bankarnir úr lögleysu, og viðskiptalífið er allt saman eitt stórt sjónarspil þar sem áhorfendur hafa þurft að greiða hátt gjald, ekki við innganginn heldur til þess eins að komast út úr brennandi leikhúsinu að sýningu lokinni.
Nú liggur fyrir að lítt skárri viðbjóður hefur viðgengist í fjármálum hins opinbera um árabil. Af þessu leiðir að varla er hægt að halda því fram lengur að neitt sé að marka opinberar efnahagstölur á Íslandi jafnvel mörg ár aftur í tímann. Það eina sem allt þetta klúður og vitleysa undanfarinna ára hafa skilið eftir sig er mikil og ævintýraleg skáldsaga sem er óborganleg, jafnvel bókstaflega!
Skáldsagan um Ísland.
Alvarlegir gallar á bókhaldskerfinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:01 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir mjög góðan pistil Guðmundur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.9.2012 kl. 07:01
Já það er ekki laust við að þetta sé stór skellur á Þjóðfélagið og mikill áfellisdómur fyrir Stjórnsýsluna Guðmundur...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 26.9.2012 kl. 09:20
Ekki nóg með að þjóðarskútan sé höfð á sjálfstýringu í gegnum boða og brim með stefnuna á ESB, heldur eru svo allir mælar vitlausir í þokkabót.
Takk fyrir góðan pistil.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2012 kl. 12:23
Sammála við verðum að reyna að koma spillingunni frá ekki seinna en eftir næstu kosningar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.9.2012 kl. 14:43
Þetta fer á listann með gengistryggðu lánunum, iðnaðarsaltinu, gölluðu brjóstafyllingunum, kadmíumáburðinum, og fjármálaeftirlitinu.
Ísland er ónýtt! Það á bara eftir að klippa númeraplöturnar af.
Þó er huggun harmi gegn að maður hafi aldrei náð að skara fram úr í þessu samfélagi spillingar, vanrækslu, firringar og almenns aulaskapar.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.9.2012 kl. 14:58
Takk fyrir pistilinn, Guðmundur. Þar fór restin af trúverðugleikanum,það er ekkert eftir, þetta er orðið verra en tárum taki. Réttast væri að fólk yfirgæfi skerið og skildi Fjótflokkinn og allt hans hyski eina eftir.
Eyjólfur G Svavarsson, 26.9.2012 kl. 16:21
Og hver verður helsta afleiðingin af þessu hneyksli?
Jú, frumvarp til fjáraukalaga verður líklega lagt fram óendurskoðað vegna þess að meirihluti fjárlaganefndar treystir ekki Ríkisendurskoðun lengur.
Hvert erum við þá eiginlega komin í ruglinu núna?
Hvernig verður hægt að ætlast til að fólk borgi skatta eftir þetta?
Í hádegisfréttum var sagt frá því að fjársýslustjóri hafi nú fengið drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar afhent með formlegum hætti. Sá sami og hafði fengið hana afhenta með "óformlegum" hætti til yfirlestrar í maí sl. Lesturinn hlýtur samt að verða miklu betri núna fyrst hann er formlegur.
Reyndar má Ríkisendurskoðandi alveg fá prik fyrir að hafa gengist opinberlega við þessum leka eins og fjársýslustjórinn staðfesti með vitnisburði í beinni útsendingu. Rannsókn lögreglu á kærunni hlýtur þá að einfaldast mjög mikið, fyrst kærandinn hefur sjálfur viðurkennt brotið.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.9.2012 kl. 13:33
Þetta mál er komið í hring og enginn veit sitt rjúkandi ráð. Ætli það endi ekki með að springa framan í Björn Val og Steingrím?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2012 kl. 13:56
Neibb, Illuga Gunnarsson:
Horngrýtis skriða í glerhúsi sjóðs níu - bofs.blog.is
Guðmundur Ásgeirsson, 29.9.2012 kl. 17:57
Eða þá alla saman.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2012 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.