Feilskot á fyrsta degi í starfi
5.7.2012 | 15:37
Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur ákveðið að settur forstjóri stofnunarinnar, Unnur Gunnarsdóttir, verði fastráðin eftir að starfið var nýlega auglýst laust. Umsóknir bárust frá tíu einstaklingum en aðeins sex þeirra var gefinn kostur á viðtali vegna starfsins. *
Á sínum fyrsta degi fastráðningar veitti hinn nýji forstjóri símaviðtal í Bítinu á Bylgjunni í morgun um úrvinnslu mála vegna ólöglega gengistryggðra lána. Hægt er að hlusta á viðtalið hér: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=12373
Í viðtalinu opinberast ýmis veigamikil grundvallaratriði sem nýráðinn forstjóri er annaðhvort að misskilja eða hreinlega að fara rangt með. Til dæmis virðist hún ekki telja það vera á verksviði Fjármálaeftirlits að sjá til þess að fjármálafyrirtæki fari að lögum. Það er þá væntanlega ekki heldur á verksviði brunavarnaeftirlits að reyna að koma í veg fyrir eldsvoða eða hvað? Eða bifreiðaeftirlits að koma í veg fyrir slys af völdum vanbúinna og hættulegra ökutækja? Svei mér þá...
Um samráðsvinnu vegna úrvinnslu mála í kjölfar dóma um gengistryggingu segir í viðtalinu að Samtökum Fjármálafyrirtækja hafi verið heimilað samráð með opinberum aðilum um úrvinnslu mála vegna gengistryggðra lána. Hið sanna er að Samkeppniseftirlitið segir skýrum orðum í ákvörðun sinni nr. 4/2012, 8.gr frá 9. mars síðastliðnum:
"Undanþága þessi veitir ekki öðrum aðilum en fjármálafyrirtækjum sem stunda útlánastarfsemi eða stunduðu slíka starfsemi fyrir bankahrunið 2008 rétt til samstarfs sem fer gegn 10. gr. samkeppnislaga. Undanþágan veitir ekki samtökum ofangreindra fyrirtækja heimild til samstarfs sem brýtur í bága við ákvæði 12. eða 10. gr. samkeppnislaga. Þó er þeim heimilt að útvega fundarritara og aðstöðu."
Þess má geta að umrædd takmörkun var sett á undanþáguheimildirnar meðal annars á grundvelli athugasemda sem Hagsmunasamtök heimilanna* lögðu fram í málinu, eins og fram kemur í ákvörðunarorðunum sem má lesa í heild sinni hér: http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2012/akvordun_0412_Undanthaga_vegna_samstarfs_i_kjolfar_doms_Haestarettar_600_2011.pdf
Það eina sem er markvert við símaviðtal forstjóra FME um þetta er að nú liggur fyrir annar af tveimur opinberum vitnisburðum embætissmanna í þá veru að Samtök fjármálafyrirtækja hafi fengið að brjóta samkeppnislög að því er virðist óáreitt af hálfu opinberra aðila sem tóku þátt í þeirri vinnu. Hinn fyrri vitnisburður kom frá Umboðsmanni skuldara í símaviðtali sem hún veitti fréttastofu RÚV um sama mál nýlega. Eina ráðgátan er í raun hvers vegna ekki er hafin opinber rannsókn af hálfu löggæsluyfirvalda á því sem virðist vera ólöglegt samráð á fjármálamarkaði.
Í máli forstjóra FME í morgun kom fram að í þeim málum sem snúast um úrvinnslu vegna ólöglegrar gengistryggingar hafi meginhlutverk FME verið að passa upp á að bankarnir væru í stakk búnir til að standa straum af þeirri "áhættu" sem dómunum fylgdi. Að mati forstjórans er semsagt áhætta fyrir fjármálafyrirtækin hvort þeim verði gert skylt að fara að lögum, og forgangsatriði sé að ríkið passi upp á að þeir fari ekki á hausinn. Er það þá "áhætta" ökumanns hvort hann fær sekt eða ekki fyrir að fara yfir á rauðu ljósi eða hvort hann veldur dauða og örkumlan við akstur undir áhrifum? Í viðtalinu minntist hinn nýji forstjóri ekki stöku orði á áhættu neytenda af því að plataðir hafi verið inn á þá ólöglegir lánasamningar og þeir notaðir til að gera eigur þeirra upptækar og reka þau af heimilum sínum!
Í ljósi þessarar stuðningsyfirlýsingar hljóta nú allir bankastjórnendur landsins að anda mun léttar, vitandi að sá aðili sem ráðinn hefur verið til þess að hafa eftirlit með þeim mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að gæta þess að þegar þeir fari á hausinn komi ríkið þeim til bjargar, og leyfi þeim að halda áfram sinni þaulskipulögðu og umfangsmiklu glæpastarfsemi.
Siðferðisblindan sem þarna er opinber, nægir til að setja venjulegan mann hljóðan.
* Þess skal getið að höfundur var meðal þeirra tíu sem sóttu um starf forstjóra Fjármálaeftirlitsins í maí síðastliðnum og hafði ekki erindi sem erfiði, en gegnir nú hlutverki varaformanns Hagsmunasamtaka heimilanna.
Unnur ráðin forstjóri FME | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fasismi | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Gengistrygging, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:07 | Facebook
Athugasemdir
Sammála. Ég hlustaði einmitt á þetta viðtal í morgun.
Og "ja hérna" segi ég nú bara. Þetta lofar ekki góðu fyrir traust almennings á FME. Heimir hefði mín vegna mátt sauma aðeins meira að henni en hann má svo sem eiga það að hann lét hana bara sjálfa um að klúðra þessu. Hún þurfti enga aðstoð við það.
Seiken (IP-tala skráð) 5.7.2012 kl. 19:21
Satt og rétt.
Magnús Óskar Ingvarsson, 8.7.2012 kl. 10:21
Sæll.
Ég hef enga trú á að fjármálaeftirlit þurfi ef hér væri almennilegur samkeppnismarkaður í fjármálageiranum. Hingað þarf að lokka nokkra erlenda banka með því að einfalda allar þessar reglur sem þarf að uppfylla til að opna banka og lækka verulega skatta. Reglur eiga ekki að mismuna stórum og litlum fyrirtækjum. Skortur á samkeppni í þessum geira er íslenskum almenningi dýr.
FME er algerlega rúið trausti, þar eru (skv. amx.is) fleiri starfsmenn hlutfallslega en í fjármálaeftirliti USA en þar er fjármálastarfsemi mun fyrirgerðarmeiri en hér. FME gaf bönkunum einnig heilbrigðisvottorð 6 vikum fyrir hrun. Er búið að sparka þeim sem komu að gerð þess vottorðs? Það efa ég stórlega.
Helgi (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 22:02
Helgi: nei þeir sitja í skilanefndunum.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.8.2012 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.