Þá kann að vera vitglóra...
21.4.2012 | 18:06
...í því að skilja á milli viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi fyrst Arion banki virðist andsnúinn hugmyndinni. Greiningardeild bankans telur ókostinar fleiri en kostina, sem á bankamáli þýðir: "við myndum græða minna". Þar sem hagnaður banka greiðist almennt úr vasa viðskiptavina hans (og stundum á endanum skattgreiðenda) þá væri þetta líklega hið besta mál fyrir meirihluta landsmanna.
Til vitnis um hversu brýnt hagsmunamál er að ræða, hefur Arion banki séð ástæðu til að láta gera 47 blaðsíðna greiningarskýrslu og halda um hana metnaðarfullan kynningarfund þar sem teflt var fram bæði innlendum og erlendum sérfræðingum. Það verður þó að segjast að útlendingarnir sem voru fengnir til að kynna umfjöllunarefnið voru talsvert hlutlausari í umfjöllun sinni heldur en íslenskir fundarmenn, sem voru allir starfsmenn bankans og augljóslega ekkert gríðarlega spenntir fyrir fundarefninu.
Merkilegast var þó að heyra hinn breska Marc Lient segja frá því hvernig staðið hefur verið að málum í heimalandi hans þar sem óháð nefnd hefur gert úttekt á viðfangsefninu með opnum vinnubrögðum og samráði við breiðan og fjölbreyttan hóp hagsmunaaðila frekar en hina vanalegu sérvöldu aðila úr innsta hring. Þessi partur undir lok fundarins var afar hressandi.
Hér eru tenglar á ítarefni:
IFRI # 1. Aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka
Independent Commission on Banking (breska "Vickers" nefndin)
Skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins
Tillaga til þingsályktunar um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka
Arion banki: Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi
Wikipedia: DoddFrank Wall Street Reform and Consumer Protection Act
Ókostirnir fleiri en kostirnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Skemmtilega beitt röksemd hjá þér að þar sem hagnaður banka er ævinlega greiddur úr vasa viðskiptavina hans, þá sé ljóst að minnkandi hagnaður bankanna væri jafnframt hagur almennings... Augljóst þegar á það er bent.
Magnús Óskar Ingvarsson, 21.4.2012 kl. 19:37
Sammála ... aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfesingabanka er málið. Hvernig eigum við öðruvísi að koma í veg fyrir að þessir glæpamenn geti notað okkar peninga í spilavítinu sínu?
Ólafur Bergsson (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 02:47
Guðmundur, það hlýtur að verða sársaukafullt fyrir viðskiptabankann ef fjárfestingunum verður kippt út.
Því innlánin verða færð úr viðskiptabankanum til ráðstöfunar í fjárfestingabankanum.
Þú hefur kynnt þér rekstur bankakerfisins sýnist mér; er nokkur að fjárfesta í dag nema með innlánum?
Kolbrún Hilmars, 22.4.2012 kl. 17:38
Góður ;) http://www.finance-watch.org/wp-content/uploads/2012/04/Basel3eng21.pdf
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 22.4.2012 kl. 17:47
Kolbrún, já ég hef kynnt mér rekstur bankakerfa dálítið, ég er kerfisfræðingur og þetta er meðal forvitnilegri kerfa sem hægt er að komast í að greina. :) Bankarnir á Íslandi í dag eru fyrst og fremst fjármagnaðir með innlánum, og einnig að litlu leyti með útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Íbúðalánasjóður sem er stærsti lánveitandi til neytenda er að nánast öllu leyti fjármagnaður með skuldabréfaútgáfu, og hyggur til dæmis á útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa í haust til fjármögnunar óverðtryggðra íbúðalána.
Á leið minni út af fundinum hjá Arion banka tók ég auk skýrslunnar sem var fundarefnið, með mér eintak af ársskýrslu bankans 2011. Í henni eru sérstakur kafli um viðskiptabankastarfsemi og annar um fjárfestingabankastarfsemi, en báðir eru jafn stórir, tvær blaðsíður. Athygli vekur að þegar síðarnefndi kaflinn er skoðaður að þar er fyrst og fremst um að ræða eignastýringu hlutabréfa í fyrirtækjum sem bankinn hefur yfirtekið vegna skulda, og er því ekki um að ræða ný útlán heldur endurskipulagningu. Búast má við því að eftir því sem á líður endurskipulagningarferlið muni þessi liður í starfsemi þessara banka fara minnkandi.
Á Íslandi eru að mig minnir tveir bankar núna starfandi sem yfirlýstir fjárfestingarbankar, það er Saga fyrir norðan og Straumur fyrir sunnan. Jafnframt er MP banki með eignastýringasvið og rekstrarfélag verðbréfasjóða sem má hugsanlega kalla vísi að starfsemi fjárfestingabanka. Auk þess eru auðvitað flest fjármálafyrirtæki á Íslandi að fást við eignastýringu sem þessa dagana er aðallega í formi afskrifta og endurskipulagningar skulda fremur en í nýjum útlánum, sum fyrirtæki eins og Drómi, Hilda o.fl. eru meira að segja eingöngu að fást við þetta, eru eins og ruslakistur af gömlum misgóðum eignum en eru ekki að veita nein ný útlán eða aðra þjónustu til viðskiptavina.
Vegna þessara kringumstæðna hafa sumir, ekki síst þeir sem eru andsnúnir hugmyndinni um aðskilnað, bent á að ef komið yrði á aðskilnaði þessara starfsþátta myndi það hafa lítil áhrif á núverandi fjármálafyrirtæki og það hefur jafnvel verið notað sem rök gegn hugmyndinni. Með því er hinsvegar horft framhjá tilganginum með þessu, sem er ekkert endilega sá að taka banka sem fyrir eru og kljúfa þá í herðar niður, heldur þvert á móti að fyrirbyggja að slíkar aðstæður skapist í framtíðinni að til þess þurfi að koma síðar. Þess vegna er einmitt rétti tíminn til þess núna þegar lögfesting aðskilnaðar myndi krefjast lítillar eða engrar endurskipulagningar á núverandi bönkum, því það myndi vera til þess fallið að fyrirbyggja að í framtíðinni geti myndast aftur aðstæður eins og fyrir hrun þar sem t.d. Straumur átti í Landsbankum og Landsbankinn í straumi, Búnaðarbankinn var fenginn að láni í Landsbankanum og þessir aðilar voru svo með dótturfyrirtæki sem höfðu hagnað sinn öðru fremur af vaxtamunaviðskiptum og gengisbraski, og svo framvegis o.s.frv...
Fjármálakreppur síðustu 100 árin hafa sýnt að fyrirkomulag þar sem áhættusöm spákaupmennska er aðskilin frá einfaldri og ábyrgri viðskiptabankastarfsemi, er sá farvegur sem tiltölulega frjálsum fjármálamarkaði (eins og þeim vestræna) virðist vera náttúrulegt að leita í. Það er því allt eins gott að viðurkenna þetta einfaldlega og taka sá ákvarðanir útfrá þeim grundvelli. Og það sem meira er, ég ætla líka að færa skotheld rök fyrir því að svo sé:
Eftir kreppuna miklu upp úr 1930 sem byrjaði sem bankakrísa, voru sett lög í Bandaríkjunum kennd við þingmennina Glass og Steagall sem fyrirskipuðu aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka. Þessi lög voru í gildi í 70 ár og á meðan varð ekki bankakrísa í neinum mæli þar eða í öðrum löndum sem byggðu sín bankakerfi á þeirri fyrirmynd. Svo kom stutt tímabil frá því rétt fyrir aldamótin og fram til ársins 2008 hvar þessu var öllu sullað aftur saman eins og enginn væri morgundagurinn. Þegar krísan sem það framkallaði skall á af fullum þunga gerðist nokkuð merkilegt, fyrstu viðbrögð nokkurra stærstu bankanna á Wall Street voru þau að þeir breyttu sér úr fjárfestingarbanka í viðskiptabanka, gagngert til þess að eiga hægara með að leita á náðir stjórnvalda eftir "aðstoð" í formi skattpeninga. Þarna var einfaldlega um að ræða herkænsku við að staðsetja sig á markaðnum (strategic positioning) miðað við það sem þeir töldu réttilega að allt stefndi í (endless bailouts). Á Íslandi var þetta enn dramatískara þar sem það var ekki fyrr en við slitameðferð bankanna sem loks tókst að skilja á milli kjarnastarfsemi og áhættusamari þátta í starfsemi þeirra, áður en þeir voru svo endurreistir fyrir almannafé til þess beinlínis að fjármálastarfsemi yrði yfir höfuð til staðar áfram í landinu. Ég hef hér nefnt tvö dæmi þar sem aðskilnaður var ekki bara einhver kvöð sem var lögð á banka í þvingunarskyni, heldur beinlínis rökrétt ákvörðun ef þeir ætluðu að lifa af og óhjákvæmileg ef þeir gerðu það ekki. Þessi ákveðnu tilvik má með góðu móti halda fram að séu dæmigerð þar sem umræddir bankar á Wall Street eru meðal þeirra stærstu þar í landi og í heiminum, en gjaldþrot íslensku bankanna er hinsvegar með stærstu slíkum tilvikum í sögunni og í raun eitt og sér alveg ágætis rök fyrir aðskilnaði. Ef sú afleiðing yrði einfaldlega lögfest þá myndi ekki skipta máli í framtíðinni þó hér yrði annað bankahrun því þá væri búið að einangra afleiðingar þess. Þþað væri þá einfaldlega hægt að láta fjárfestingarbanka rúlla ef svo ber undir en passa upp á viðskiptabankastarfsemina í staðinn, og þá þarf ekkert að skipta þessu upp sérstaklega nokkurntíma aftur eins og menn þurftu að gera illa undirbúnir á ögurstundu haustið 2008. Með því mætti forðast mikinn sársauka, og þó það sé e.t.v. eitthvað "dýrara" í rekstri þannig, þá er það nú svo að öryggisbúnaður kostar peninga og af tryggingum þarf að borga iðgjöld, en við greiðum slík útgjöld oftast vegna þess að í staðinn fáum við af þeim ávinning í formi aukins öryggis. Kostnaðarrökin gegn aðskilnaði, þ.e. að slíkt fyrirkomulag yrði dýrara, eru því fyrst og fremst rök spákaupmannsins sem sækir í áhættu.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.4.2012 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.