Góðar endurheimtuhorfur vegna IceSave

Ein af verðmætustu eignum þrotabús gamla Landsbankans er 67% hlutur í verslunarkeðjunni Iceland Foods, og hefur söluverð hennar því allmikla þýðingu fyrir heildarendurheimtur og þar með hversu mikið fæst upp í endurkröfur vegna IceSave. Verðmat þrotabúsins hefur frá upphafi verið varfærið og smám saman endurmetið upp á við eftir því sem eignir seljast eða hækka að markaðsvirði.

Áætlaðar endurheimtur á hverjum tíma

Við byrjun síðasta árfsfjórðungs 2011 voru eignirnar metnar á 1.285 milljarða króna, og þar af var hlutabréfasafn metið á 145 milljarða. Stærsta eignin í því safni er hluturinn í Iceland, en einnig eru þar allstórir hlutir í öðrum breskum verslunarkeðjum á borð við HoF, Hamley's o.fl.

LBI 2011Q3 assets

Ef við gefum okkur að eignarhluturinn í Iceland standi að baki tveimur þriðju af hlutabréfasafninu gæti það passað miðað við að hann sé verðmetinn á 100 milljarða. Þar sem nú er kominn verðmiði samkvæmt fyrirliggjandi tilboðum er hægt að áætla áhrifin á heildarverðmatið.* Tilboð fjárfesta eru sögð nema 271 milljörðum króna, en 67% hlutur skilanefndarinnar nemur þá 181,5 milljörðum, sem jafngildir hækkun um 81,5 milljarða. Sé þeirri tölu bætt við heildareignir þrotabúsins fæst 1.285 + 81,5 = 1366,5 ma.

LBI 2011Q3 liabilities

Kröfur í þrotabúið vegna innstæðna nema eins og hér má sjá 1.319 milljörðum, sem er 47,5 milljörðum lægra en uppfært endurheimtuvirði eigna. Mismunurinn er nálægt þeirri upphæð sem áfallin væri á ríkissjóð vegna vaxta samkvæmt þeim samningi sem hafnað var í fyrra, en þess í stað munu kröfuhafar nú geta sótt vaxtakröfuna í þrotabúið og mun hún því aldrei skipta máli fyrir ríkissjóð Íslands sama hvernig málaferli fyrir EFTA dómstólnum fara. Það er nefninlega ekki hægt að dæma  tjónlausum skaðabætur.

* Þó með eðlilegum fyrirvara um að hér er um bráðabirgðamat að ræða.


mbl.is Söluferli Iceland Foods framlengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jónsson

Án þess að hafa kynnt mér þetta sérstaklega þá myndi ég halda að þarna sé ofurlítill misskilningur á ferð hjá þér.

Vextir, hvort sem þeir eru af forgangskröfum eða almennum kröfum, eru jafnan eftirstæðar kröfur, þ.e. standa aftast í kröfuröð. Landsbankinn mun aldrei geta greitt eftirstæðar kröfur.

Fyrir utan það að bresk yfirvöld gætu seint sótt vexti í búið þótt eignir fyndust fyrir öllum skuldum nema þeir vextir væru vegna kröfunnar sjálfrar eða innheimtu hennar, ekki vegna fjármagnskostnaðar breska ríkisins við að kaupa kröfurnar af innistæðueigendum.

En klárlega gott mál ef eignir duga fyrir innstæðum og öðrum forgangskröfum.

Páll Jónsson, 11.2.2012 kl. 16:55

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Páll.

Þetta er í raun afar einfalt. Ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tryggingasjóði sé skylt að bæta vextina líka þá teljast þeir vera krafa vegna innstæðna sem öðlast þá sjálkrafa forgang skv. neyðarlögunum. Ef það verður hinsvegar niðurstaðan að tryggingasjóðnum sé ekki skylt að greiða vextina, þá er hún vissulega eftirstæð krafa, en þá fellur hún líka utan tryggingarinnar og þar með skiptir ekki máli hvort ríkisábyrgð skuli vera á trygginasjóðnum hvað þennan hluta kröfunnar varðar þ.e. þann sem snýr að vöxtunum. Bretar og Hollendingar yrðu þá einfaldlega að hlíta þeirri niðurstöðu.

Ef hinsvegar samningur um ríkisábyrgð á þessu hefði nú verið staðfestur í fyrra, þá væru vextirnir þegar gjaldfallnir á ríkissjóð. Áhættan væri þá öll Íslands megin og ef dómstóll kæmist að þeirri niðurstöðu að krafan væri eftirstæð þá væri hún þar með töpuð. Á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Sem betur fer eru litlar líkur að á neitt af þessu muni nokkurntíma reyna, þar sem aldrei verður hægt að dæma tjónlausum bætur. Allir innstæðueigendur í þessu máli eru tjónlausir og varla er um ræða tjón fyrir bresk og hollensk stjórnvöld vegna kostnaðar við þeirra eigin frumkvæði að ákvörðunum um að grípa inn í eðlilega og reglubundna starfsemi frjálsra markaða og brjóta með því EES-samninginn þvers og kruss. Ef þeir þykjast svo ætla að kenna okkur um það er engin ástæða til annars en að segja samningnum upp.

Þannig að nei, það er enginn ofurlítill misskilningur á þessu af minni hálfu. Þetta er þvert á móti alveg kristaltært. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 11.2.2012 kl. 20:49

3 Smámynd: Páll Jónsson

Tjah, ég er ekki alveg sammála þessu. Tjón breska ríkisins er, eins og þú bendir réttilega á, kostnaðurinn við að fjármagna kaupin á kröfunum (að því gefnu að kröfurnar sjálfar fáist greiddar).

Ég sé engan lagalegan grunn fyrir því að þetta geti myndað kröfu í þrotabúið, hver sem niðurstaða dómstóla yrði um ábyrgð íslenska ríkisins. Við erum bara að tala um íslensku gjaldþrotalögin og þau er þekkt stærð. Jafn vel þótt neyðarlögin hafi gert vexti af innistæðum líka að forgangskröfum, sem ég held alls ekki þótt ég nenni ekki að fletta því upp, þá eru þetta ekki vextir af innistæðum.


EES dómstóllinn gæti komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn EES samningnum og héraðsdómur gæti komist að því að íslenska ríkið væri skaðabótaábyrgt. Það er fullkomlega raunhæf niðurstaða, þó ég haldi, eins og þú, að hún sé sem betur fer ekki sérstaklega líkleg.

En það væri væntanlega ótengt þrotabúi Landsbankans.

Ef samningur um ríkisábyrgð hefði verið staðfestur þá virðist ólíklegt að nokkuð hefði orðið úr EES málinu, og ómögulegt að Bretar og Hollendingar vildu höfða skaðabótamál þótt EES dómstóllinn teldi okkur hafa brotið gegn EES samningnum. En við hefðum þurft að borga býsna drjúglega fyrir það.

En ég vona bara að við sleppum alveg við þetta, bæði Icesave greiðslur og skaðabótagreiðslur.

Páll Jónsson, 11.2.2012 kl. 23:43

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Páll, ég er alveg sammála þér að vonandi verði ekkert verði dæmt þannig að íslenska ríkið þurfi að greiða háar fjárhæðir, og ólíklegt að svo fari.

En mér finnst skrýtið að þú skilgreinir inngrip Breta og Hollendinga í eðlilega starfsemi fjármálamarkaða á EES-svæðinu og brot á samningnum um það, sem "tjón". Ef það er tjón, þá er það í það minnsta nokkuð sem þeir ollu sjálfir. Ennþá furðulegt finnst mér þegar menn reyna að kenna Íslandi um þetta meinta tjón, sem var ekkert annað en afleiðing af sjálfviljugum, óþvinguðum, og eins og áður sagði ólöglegum athöfnum umkvartendanna sjálfra.

Þetta er jafn skrítið og innbrotsþjófurinn sem fór í mál við húseigandann vegna þess að hann skar sig á rúðu sem hann braut til að komast inn.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.2.2012 kl. 02:41

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Viðskiptablaðið - Malcolm Walker og félagar kaupa Iceland Foods

Iceland-keðjan seld á 300 miljarða | RÚV

Jæja, þetta var nú ánægjulegt, og hærra en ég gerði ráð fyrir.

300 ma kr. / 77 * 67 = 261 ma kr. til Landsbankans.

Það er 79,5 milljörðum hærra en fyrri ágiskun í færslunni.

Samtals 1.446 milljarðar króna miðað við nýjasta eignamat.

Það nemur 127 milljörðum umfram forgangskröfur.

Sem þýðir að endurheimtur stefna nú í um 110%.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2012 kl. 04:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband