Föstudagurinn þrettándi
14.1.2012 | 01:38
Nákvæmlega 39 dagar hafa liðið frá því að matsfyrirtækið S&P setti öll evruríkin í heild sinni á athugunarlista með neikvæðum horfum. Í dag raungerðust þessar horfur þegar lánshæfismat Frakklands og Austurríkis var lækkað um eitt þrep og nokkurra annara ríkja um tvö þrep. Horfur eru samkvæmt matinu neikvæðar í öllum tilfellum, nema Þýskalands sem heldur hæstu einkunn AAA ásamt Finnlandi, Hollandi og Luxembourg.
Fyrir 38 dögum barst svo önnur fréttatilkynning frá S&P:
- Fjármálastöðugleikasjóður evrusvæðisins settur á athugunarlista með neikvæðar horfur um langtímaeinkunn (AAA).
- Helmingslíkur á lækkun lánshæfiseinkunnar innan 90 daga.
- Tekur mið af því að öll ríkin 17 sem ábyrgjast sjóðinn voru í gær sett á athugunarlista með neikvæðar horfur.
- Óhagstætt heildarendurmat á lánshæfi evrusvæðisins gæti leitt til lækkunar EFSF um eitt til tvö þrep (AA+/AA).
- Endurskoðuð einkunn EFSF mun taka mið af lægstu einkunn meðal þeirra ríkja sem áður höfðu hæstu einkunn (AAA).
- Frakkland (AAA) gæti lækkað um allt að tvö þrep (AA).
Stöðugleikasjóðurinn hlutafélagið EFSF er í raun aðeins lítt dulbúin vafningur misjafn að gæðum, sem reynt er að fá hæstu einkunn á svo hann verði veðhæfur í endurhverfum viðskiptum hjá seðlabanka gegn lausafjárfyrirgreiðslu. Reynist vafningurinn svo í reynd innihalda verðlausar eignir jafngilda slík viðskipti hinsvegar peningaprentun, sem brýtur í bága við stofnsamþykktir evrópska seðlabankans.
Veruleikinn er auðvitað sá að fjármögnun sjóðsins hvílir á sömu ríkjunum og honum er ætlað að koma til bjargar þegar á reynir, sem er álíka raunhæft og að Barón Munchhausen hafi dregið sjálfan sig upp á hárinu. Talsvert er síðan S&P áttaði sig á þessu og hóf að líta svo á að lánshæfi EFSF sé beintengt undirliggjandi lánshæfi aðildarríkjanna.
Þar sem Frakkland var meðal þeirra ríkja sem höfðu hæstu einkunn en er nú komið niður í næst efsta flokk með neikvæðum horfum, er það mat núna orðið nýtt viðmið fyrir endurskoðun lánshæfismats EFSF. Í tilkynningunni voru ekki gerðir neinir fyrirvarar við þessa nálgun, heldur einfaldlega gefið sterklega í skyn að ef lánshæfi Frakklands lækki muni stöðugleikasjóðurinn, hvers heiti er jafnframt fullkomið öfugmæli, hljóta sömu örlög.
Það skyldi enginn velkjast í vafa um að tímasetning tilkynningarinnar, við lokun markaða á föstudeginum þrettánda, sé fjarri því að vera tilviljun heldur sérvalin til þess að lágmarka skelfingarviðbrögð fjárfesta. Og í sömu andrá fréttist af því að slitnað hafi upp úr nauðasamningum Grikkja við lánadrottna sína, líklega í tuttugasta skipti sem það gerist. Þegar ný vika rennur upp verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort S&P lætur kné fylgja kviði og kveður upp dauðadóm yfir evrunni, eða fórnar leifum trúverðugleika síns til að viðhalda þessum óstöðugleika eilítið lengur.
Lánshæfismat evruríkja lækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Viðskipti og fjármál, Öryggis- og alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 01:48 | Facebook
Athugasemdir
Talandi um (ó)stöðugleika:
"Fengið að láni" frá Viðskiptablaðinu, með þökkum.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.1.2012 kl. 02:39
Með vöxtum Guðmundur?
Helga Kristjánsdóttir, 14.1.2012 kl. 05:58
Helst ekki...
Guðmundur Ásgeirsson, 14.1.2012 kl. 15:46
Ítalía var lækkuð um tvo heila flokka í BBB+
Guðmundur Ásgeirsson, 16.1.2012 kl. 05:09
Þarna kom það: Lækka lánshæfi björgunarsjóðsins - mbl.is
S&P Downgrades EFSF From AAA To AA+, May Cut More If Sovereign Downgrades Continue | ZeroHedge
Hver á svo að bjarga björgunarsjóðnum?
Guðmundur Ásgeirsson, 16.1.2012 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.