Geirfinnur er líka mjög aðgengilegur

Vinsældir feluleikja virðast óþrjótandi innan stjórnsýslunnar. Til dæmis hef ég undir höndum sönnunargögn um tilvik þar sem Fjármálaeftirlitið varð uppvíst að tilraunum til yfirhylmingar með brotlegum fjármálafyrirtækjum. Það misheppnaðist reyndar svo illa að það hafði þveröfug áhrif og vakti talsvert meiri athygli en ef ekkert hefði verið að gert.

Svipað er uppi á teningnum í Seðlabankanum eins og stjórnendur bankans hafa reyndar áréttað sjálfir og viðurkennt, að opinberar tölur á vef bankans geti verið villandi og síst til þess fallnar að skýra hina raunverulegu stöðu. Þetta er líka sama stofnun og komst að því að við skulduðum útlendingum í raun helmingi meira eftir að við höfnuðum Icesave heldur en áður hafði verið haldið fram á meðan reynt var að sannfæra okkur um að þessi ríkisstyrkur fyrir gjaldþrota fyrirtæki væri bæði viðráðanlegur og skynsamlegur.

Kristján Möller þingmaður og fyrrverandi samgönguráðherra hefur nú brugðið á það frumlega stílbragð í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér, að samtvinna þetta við leikinn (útúr)snú-snú. Tilefnið er skýrsla um veggjöld sem var unnin af Hagfræðistofnun, en virðist hinsvegar hvergi hafa verið birt. Skýringar þingmannsins eru stórkostlegar, eins og eftirfarandi tilvitnun sýnir:

Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn sumarið 2010. Í frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir var þess getið að Hagfræðistofnun væri að vinna að mati á fjárhæð veggjalda til að standa undir framkvæmdakostnaði. Þegar formlegar viðræður hófust af hálfu ríkisins um fjármögnun vegaframkvæmda við lífeyrissjóði fengu ráðgjafar ríkisins skýrsluna einnig afhenta ásamt öðrum skýrslum sem gerðar höfðu verið.

Siglfirðingurinn staðfestir sem sagt að skýrslan hafi aldrei komið fyrir augu almennings og að aldrei hafi verið gerð nein tilraun til að kynna hana almenningi. Með öðrum orðum þá svarar hann því hvort skýrslan hafi verið sýnd Pétri, með því að benda á að hún hafi verið sýnd Páli inni á klósetti bak við læstar dyr, eða svo gott sem. Orðaleikurinn nær svo áður ótroðnum hæðum í lokasetningunni: Skýrslan hefur því komið að góðum notum og verið aðgengileg á vefsvæði Hagfræðistofnunar með hjálp leitarvéla.

Sé vefur Hagfræðistofnunar skoðaður á venjulegan hátt, með því að heimsækja forsíðuna og fylgja þeim hlekkjum sem vísa á efnisinnihaldið, þá kemur jú í ljós að þar er talin upp skýrsla um veggjöld í lista yfir verkefni sem unnin hafa verið fyrir aðra. Í listanum eru tenglar á sumar af þessum skýrslum en alls ekki allar og þar á meðal ekki þessa tilteknu skýrslu. Ef maður veit hinsvegar skráarnafnið og slóðina nákvæmlega upp á staf er auðvelt að niðurhala skýrsluna til aflestrar.

Slóðin er: https://ioes.hi.is/publications/cseries/2010/C10_08.pdf

Og ef það skyldi nú ekki vera nógu augljóst þá stendur titillinn á síðunni og sé honum slegið orðrétt inn í leitarvél er þetta fyrsta leitarniðurstaðan. Auðvitað er skýrslan ekkert falin, heldur erum það við kjósendurnir sem erum svona heimsk að kunna ekki skil á þessum nýjustu framförum í aðgengismálum.

Möllerinn hlýtur svo að hafa samband við umhverfisráðuneytið til að greina frá því að olían á Drekasvæðinu sé í raun mjög aðgengileg. Aðeins þurfi að bora frá hafsbotni undir hyldjúpu úthafinu gegnum nokkur hundruð metra basalthraunlög til að komast að henni. Því næst þarf svo að láta Ríkislögreglustjóra vita að líkamsleifar Geirfinns séu í raun mjög aðgengilegar. Aðeins þurfi að fara í réttu gjótuna í rétta hrauninu og þá muni hann koma í leitirnar og málið upplýsast.


mbl.is Hagfræðistofnun birti ekki skýrsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband