Opið bréf til þingmanna og forseta Íslands
17.12.2011 | 17:55
Á Alþingi hefur að undanförnu verið til umræðu frumvarp um tilfærslu umtalsverðra fjármuna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Við fyrstu sýn virðast það jákvæðar fréttir því vaxtaberandi skuldir Íslands við sjóðinn eru gríðarháar, 1.400 milljarðar samkvæmt greinargerð með frumvarpinu, og því hraðar sem við lækkum þær þeim mun lægri verður vaxtakostnaðurinn til lengri tíma. En ef nánar er að gáð þá er þetta alls ekki ætlunin, heldur gengur frumvarpið út á þáttöku í stofnfjáraukningu sjóðsins, sem útheimtir framlög úr ríkissjóði að jafnvirði 37 milljarða króna og þar af yrðu rúmir 9 milljarðar í erlendum gjaldeyri.
Undanfarin misseri hafa allmargir Íslendingar öðlast reynslu af stofnfjárútboðum. Þeir sem fjármögnuðu slík viðskipti með skuldsetningu segja ekki farir sínar sléttar. Forvitnilegt væri að sjá þá viðskiptaáætlun sem liggur til grundvallari fyrirhugaðri fjárfestingu íslenskra stjórnvalda. Ekkert hefur komið fram um hvernig fjármagna skuli viðskiptin, og gjaldeyrissjóður ríkisins er allur fenginn að láni hjá AGS svo vandséð er að þetta geti orðið nokkuð annað en skuldsett hringekjuviðskipti.
Það virðist þannig sem nota eigi lánsfé til að kaupa hlut í stofnfé lánveitandans. Fyrir utan að brjóta í bága við eðlilega viðskiptahætti þá er slík hugdetta í besta falli vafasöm eftir allt sem á undan er gengið og ber þess vott að þingheimur hafi lítinn sem engan lærdóm dregið af því hruni sem hér varð. Væri ekki skynsamlegra að nota þessa peninga til að lækka erlendar skuldir ríkissjóðs, eða takast á við skuldavanda íslenskra heimila? Afhverju fer engin umræða fram um úrsögn frá sjóðnum og sölu á hlut Íslands frekar en aukningu? Þannig myndu losna fjármunir sem nota mætti í ríkisrekstrinum, til að stemma stigu við niðurskurði í velferðarkerfinu svo dæmi sé tekið.
Til samanburðar þá er áætlað að hefði samningur Lee Buchheit um ríkisábyrgð vegna Icesave verið samþykktur væri áfallinn kostnaður vegna hans mjög sambærilegur núna eða um 40 milljarðar, en fyrri Svavarssamningurinn hefði kostað minnst 100 milljarða. Flestir muna líklega að íslenskir kjósendur höfnuðu þeim báðum, og skömmu síðar kom í ljós að aldrei voru raunverulega til peningar fyrir þessu hjá ríkinu. Það skyldi þó ekki vera að nú sé enn einn gúmmítékkinn á dagskrá Alþingis?
Og hliðstæðunum sleppir ekki þar, því auk stofnfjáraukningar snýst frumvarpið um lögfestingu á breyttum samþykktum sem stjórn sjóðsins ákvað fyrir liðlega ári síðan, og ekkert hefur verið fjallað um hvað fela í sér né hvaða þýðingu þær hafa fyrir okkur sem eigum að borga reikninginn. Svo virðist sem enn og aftur eigi hér að véla um stórfellda hagsmuni skattgreiðenda, á harðahlaupum í rökkri undir svefnhrotum fjölmiðla.
Við vorum aldrei spurð hvort við vildum gerast aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum enda töldu eflaust margir það vera skynsamlega ákvörðun á sínum tíma. Nú vita menn hinsvegar betur, fjármunir sem renna til AGS verða fyrst og fremst notaðir til að bjarga bönkum einhversstaðar og senda þarlendum skattgreiðendum reikninginn. Af reynslu undanfarinna missera má draga þá ályktun að slíkt kunni að stangast gróflega á við meirihlutavilja íslensku þjóðarinnar.
Ég skora því á Alþingi að láta af ofangreindum vinnubrögðum undir eins, upplýsa þjóðina um innihald frumvarpsins og þýðingu þess, og vísa þessari ákvörðun til þjóðaratkvæðagreiðslu. Taki þingmenn ekki áskoruninni og afgreiði málið engu að síður, þá nær áskorunin jafnframt til forseta Íslands, að synja frumvarpinu staðfestingar samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar. Þjóðaratkvæðagreiðslan gæti farið fram samhliða forsetakosningum á næsta ári, enda vandséð að málið sé brýnna en svo. Sjálfur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fer varla á hausinn í millitíðinni án framlagsins, eða hvað?
AGS-máli frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Peningamál, Stjórnmál og samfélag, Öryggis- og alþjóðamál | Breytt 18.12.2011 kl. 23:05 | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur. Takk kærlega fyrir þennan gífurlega þarfa pistil.
Það er eins og stór hluti þjóðarinnar þrái óbreytt þöggunar-ástand í þessu þjóðfélagi, með áhugaleysi sínu um hvernig er verið að fara með almenning á Íslandi.
Og aðalatriðið hjá ríkisfjölmiðlunum viðist vera: FJÖLMIÐLA-ÞÖGGUN um öll svikadæmin sem skipta máli fyrir heiðarlegan skattgreiðandi almúgann á Íslandi.
Hugsið ykkur: hjá ríkisfjölmiðlunum ríkisreknu og "hlutlausu"!
Þetta er ónotalega ísköld staðreynd í stjórnmála-spillingunni á Íslandi! Og þeir völdu aðdraganda jólahátíðar ljóss og friðar fyrir óhæfuverkin, þessir AGS-kúgarar, sem eru yfirmafía ESB-dótturmafíunnar!
Þeir sem reyna að standa með réttlætinu á alþingi, og með heiðarlegum almenningi eru settir í tortryggilegt ljós, vanvirtir, hæddir og lítilsvirtir, ásamt því að reynt er með öllum ráðum að fela ræður þeirra sem segja satt og standa við sína sannfæringu og réttlætis-hugsjón.
Það var t.d. ekki hægt að horfa á umræðuna frá kl. 14.00 - 20.20 í gær, á alþingisvefnum eftir hefðbundnum leiðum á netinu. Einhverjum hefur staðið ógn af málnefnanlegri umræðu um þetta gífurlega mikilvæga mál, og talið svikaklíkunni það til tekna, að hafa þessa útsendingu eftir óhefðbundnum leiðum.
Þetta var afskaplega aumingjaleg aðferð til að þagga niður í þeim sem raunverulega eru að vinna af sannfæringu og heilindum, að því að segja sannleikann um alvarleg mál á alþingi Íslands. Þetta skýra dæmi minnir okkur á það, að ríkisfjölmiðlar Íslands eru herteknir af AGS-ESB-veldinu, bæði til hægri og vinstri!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.12.2011 kl. 20:40
Svo langt sem ég man, þá hefur AGS verið gjaldþrota by default frá upphafi. Þeir eru það í dag sem aldrei fyrr. Fjárplógsstarfsemin byggir á að láta sem að allt fé sé uppurið, en þá eru þeir ekki að tala um allt féð. Þeir eru líklega stærsti lánveitandi í heimi með hæstu vexti, en einhvernvegin virðist þetta aldrei bera sig. Þeir hafa sölsað undir sig megninu af gullforða heimsins og aldrei er hann seldur til að standa undir starfseminni. Nú eru í sigtinu lönd eins og Ítalía og svo aftur Lýbía og fleiri lönd, sem eiga hvað stærstan gullforða landa. Merkilegt að hugsa sér það að þau lönd sem eru hvað auðugurst af gulli skuli vera komin á vonarvöl. Líbía var meira að segja eina skuldlausa landið í heiminum. Nú er það að breytast.
Skoðaðu hvaða lönd eiga mest af gulli. Þau lönd munu hrynja á komandi misserum og "ráðgjafar" AGS verða með tögl og hagldir þar.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.12.2011 kl. 20:45
Líklegast er þetta framlag til að kaupa frið hér heima, því AGS starfar eins og Mafían. Annað hvort borgar þú og færð vernd (fyrir mafíunni sjálfri), eða þú verður þurrkaður út. Fjárkúgun heitir þetta.
AGS er ekki alþjóðastofnun né lýtur neinum lögum. Þeir eru einhverstaðar þarna út á miðju hafi ofan við lög og rétt, klúbbur auðugustu fjársvikara heims, sem tryggja á áframhaldandi arðán. Það er bara svo einfalt.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.12.2011 kl. 20:49
Góður pistill hjá þér Guðmundur.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 18.12.2011 kl. 21:53
Is Britain About To Scuttle The Last Ditch "Plan Z" European Bailout? | ZeroHedge
IMF Loans Likely To Fall Short Of €200 Expected As UK Pulls Rescue Funding | ZeroHedge
Europe Is Now Officially Bazooko's Circus - Italy To Provide €23.5 Billion In IMF Cash To Bailout Italy | ZeroHedge
Afhverju ætti Ísland að leggja fram fjárveitingar til þess að bjarga Evrunni?
Gerum eins og David Cameron og segjum NEI við þessari svikamyllu!
Guðmundur Ásgeirsson, 20.12.2011 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.