Opið bréf til ráðstefnugesta í Hörpu 27. okt.
24.10.2011 | 22:21
Reykjavík 23. október 2011
Kæri herra/frú
Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Ísland á batavegi: Lærdómar og verkefni framundan, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næstkomandi. Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.
Almennt
Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.
Ríkisfjármálin
Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011. Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með. Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.
Sveitarfélög
Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.
Fjármálakerfið
Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet. Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra. Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.
Almenningur
Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.
Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman. Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.
Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir. Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.
Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og af bótum á námslán. Nálægt 5.600 manns hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum, sem jafngildir 1,84% fólksfækkun eða meira en heilli fjölskyldu á degi hverjum. Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort sem er. Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli 2010.
Niðurstaðan
Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því tvímælis frá sjónarhóli almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að stuðla að raunhagvexti í samfélaginu. Byrðunum af hruninu hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsettan almenning. Ríkisstjórnin hefur staðið gegn því að bæta almenningi tjón af völdum vafasamra vinnubragða fjármálakerfisins með almennri skuldaleiðréttingu og þess í stað boðið sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum nánast sjálfdæmi um leiðréttingar í hverju tilfelli fyrir sig. Slík úrræði virðast fremur miða að því að viðhalda greiðsluþreki og hámarka endurgreiðslu, heldur en að eiga nokkuð skylt við sanngjarnar bætur fyrir þá stórfelldu eignaupptöku sem hefur átt sér stað.
Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa aðeins aukið á misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ullu hruninu, en fá svo að halda fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn þola afleiðingarnar. Hagsmunagæsla kjörinna fulltrúa í þágu fjármálageirans á kostnað almennings er orðin að raunverulegri ógn við samfélagslegan stöðugleika.
Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins.
Virðingarfyllst,
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Ásta Hafberg, nemandi í viðskiptastjórnun
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri
Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent
Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur
Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður
Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun
Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði
Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur
Helga Þórðardóttir, kennari
Indriði Helgason, rafvirki
Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur
Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir
Þórarinn Einarsson, aðgerðasinni
Þórður Á. Magnússon, framkvæmdastjóri
Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni: Iceland´s RecoveryLessons and Challenges sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október
Gríðarmikill árangur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Mótmæli, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Facebook
Athugasemdir
Frábært framtak og viðleytni til að sporna við blygðunarlausum spunanum um ástandið hér. Samfylkingin er í óða önn að varalita svínið til að kaupa sér tíma til að koma okkur í ESB. Þeir eru í hina röndina að kokka tölur um ástandið til að uppfylla skilyrði sambandsins um inngöngu, rétt eins og Grikkir gerðu og varð þeirra banabiti.
Eina tölu vil ég spyrja um, en það er talan um burtflutta, sem mér sýnist þið byggja á fólksfækkunarprósentunni. Ef svo er, þá er hún röng. Hér fæddust nokkur þusund Íslendingar, sem bæta má við þessa tölu til að fá rétta mynd af atgerfisfljóttanum.
Rétt er að minna á að hér eru enn gjaldeyrishöft. ÍESB ríkir fjórfrelsið og frjáls fjármagnsflutningur, sem gerir það að verkum að mesti fjármagnsflótti sögunnar stendur nú yfir í Grikklandi og jaðarlöndum beint inn á Bundesbank. Sama hverju er dælt inn í þessu lönd, þá flýr það allt jafn óðum, svo það nánast ekki er Evra með gati eftir í Grikklandi og mun ekki staldra þar við.
Þetta er veruleiki sem við eigum eftir að horfast í augu við þegar höftum verður óhjákvæmilega aflétt til að uppfylla skilyrði í aðlögunarferli ESB.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 23:44
Evrópusinnar eru farnir að fagna því hér, þegar lýðræið bítur í duftið fyrir ofríki embættiselítunnar. Álit 99% er pent afþakkað þar á bæ. Engin þjóðaratkvæði meir. Lissabonsáttmálinn er meira að segja svo útbúinn að menn geta sniðgengið þær framvegis, jafnvel þótt embættismenn geti tekið það upp hjá sér að breyta honum án ráðfæringa, eins og nú stendur til. Þetta er það sem bíður okkar.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 23:53
Takið eftir að ESB sinnarnir kalla tillögu mu þjóðaratkvæði "and-ESB tillögu".
Þessi atkvæðagreiðsla er kosningaloforðið sem fleytti núverandi ríkistjórn breta til valda eftir að 70% þjóðarinnar fór fram á þetta í undirskriftasöfnun. Hér var varið að svíkja það.
Kannast menn við trendinn?
Jón Steinar Ragnarsson, 25.10.2011 kl. 00:08
Eina tölu vil ég spyrja um, en það er talan um burtflutta
Ég get hæglega svarað fyrir það, talan er fengin úr gögnum Hagstofunnar um fjölda brottfluttra umfram aðflutta íslenska ríkisborgara. Fæðingar- og dánartíðni hefur engin áhrif á tölur um búferlaflutninga. Prósentan er svo reiknuð með því að deila þeirri tölu í heildaríbúafjölda. Þetta er allt hægt að finna út með því að nota vefinn og reiknivél.
Til að svara spurningunni: Nei talan er ekki röng. Nema Hagstofan hafi rangt fyrir sér, sem ég hef enga ástæðu til að ætla. Þess má geta, sem ekki kemur fram í bréfinu, að með sama áframhaldi tæki aðeins meðalævilengd núlifandi karlmanns að fækka þjóðinni um helming.
En tilgangurinn með þessu bréfi er meðal annars að vekja athygli á einmitt því hversu villandi upplýsingar stjórnvöld og fjármálafyrirtæki eru sífellt að bera á borð fyrir okkur. Ég sat sjálfur síðasta vetur á málstofu í Seðlabankanum þar sem sérfræðingar bankans viðurkenndu einfaldlega að tölur bankans væru mjög ónákvæmar. (Það var líka augljóst af kynningu þeirra að dæma.) Þeir reyndu ekki að útskýra það í þaula en bentu á hrunið sem almennan blóraböggul.
Til að lýsa þessu finnst best að nota mynd sem mér finnst bráðskemmtileg. Stundum er sagt að myndir segi meira en þúsund orð. Þessi hérna segir hundruðir milljarða króna:
Hefur þú séð þessa mynd af skuldastöðu þíns heimilis?
Guðmundur Ásgeirsson, 25.10.2011 kl. 00:48
Guðmundur. Þetta er frábært framtak hjá ykkur. Þið eigið heiður skilið fyrir ykkar dugnað og þrotlausu vinnu, við að koma í veg fyrir að langvarandi stórslys stjórnmála-svikanna geri Ísland óbyggilegt með öllu. Það er nú þegar orðið vonlaust fyrir marga að komast af nema flýja land, og fer fjölgandi og versnandi með sama áframhaldi.
Kæruleysi og afneitun stjórnvalda á ört vaxandi vandanum er vítaverður.
Utanthingstjorn.is er áskorunar undirskriftarlisti til forsetans, og það er hreinlega eina leiðin til að koma í veg fyrir algjöra útrýmingu á Íslandsbúum, og innleiðingu launalauss þrælahalds hér. Bilunin og brjálæðið er orðin algjört í stjórnun landsins.
Heimurinn verður einhvern veginn að fá að vita hverjum og hverju er fórnað fyrir þennan upplogna "góða" árangur á Íslandi.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.10.2011 kl. 09:05
Já þetta er frábært framtak og hefði ég sjálfur viljað vera með í því.
*****
En Anna, utanþingsstjórn? Hvernig ætlar þú að skýra það út að utanþingsstjórn muni geta gert eitthvað?
Förum yfir málin:
ef.......
1. Hverjir eru/væru að óska eftir utanþingsstjórn? Aðallega þeir sem eru að mótmæla er það ekki?
2. Væri ekki eðlilegt að utanþingsstjórn væru sérfræðingar hér og þar úr þjóðfélaginu? Og í því sambandi viltu tildæmis að Hagfræðingur innan slíkrar stjórnar (og/eða aðrir) væru hliðhollir skoðunum okkar (samkvæmt lið eitt hér)?
3. Öll mál sem tekin yrðu fyrir af utanþingsstjórn yrðu að fara fyrir alþingi og enda sem lög sem sett eru. Það er einfalt vegna þess að Alþingi hefur löggjafarvaldið og ekki er hægt (samkvæmt stjórnarskrá) að færa utanþingsstjórn löggjafarvaldið. Þá vaknar sú spurning hverjir þingmanna á alþingi muni samþykkja og klára þau mál sem utanþingsstjórn hefur ákveðið að leggja fyrir þingið? Hverjir þingmanna munu samþykkja? Kannski VG og Sf? Eða hinir flokkanir?
4. Stóru málin eru þannig gerð að mikill ágreiningur um. Og það er algjörlega ólíklegt að utanþingsstjórn geti yfirleitt tekið fyrir þannig stór mál.
5. Segjum tildæmis að utanþingsstjórn sýni fram vilja og óskir um að þjóðin fái að kjósa um sumu stóru málin. Mun alþingi og flokkanir samþykkja það? Sérstaklega með tilliti sem undan er gengið.
Vildi bara beina sjónum þínum og annara að þessu. Þó ég væri sjálfur fylgjandi utanþingsstjórn. Ætla ekki að draga niður í því.
Mér sýnist að það ríki algjör stjórnmálakreppa á Íslandi. En það eru aðrar leiðir til.
Guðni Karl Harðarson, 25.10.2011 kl. 12:29
Jón Steinar Ragnarsson hvað hefur ESB með þetta bréf þeirra að gera? Sennilega værum við ekki að tala um stökkbreytt lán ef við værum í ESB. Því að stór hluti hækkunarinnar er vegna falls krónuna, verðtryggingar og verðbólgu sem fylgdi hruni krónunar.
Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af þessum "Fólksflótta" . Því að þetta hefur einmitt skv. tölum hagstofnunar gerst reglulega þegar hér hefur þrengt að. Fólk kemur síður á heim úr námi strax og bíður í nokkur ár. En síðan þegar ástandið batnar þá kemur fólkið heim. Bendi á að um 20% held ég af atvinnulausum eru erlendir ríkisborgarar. Þannig að raun atvnnuleysi Íslenskara ríkisborgara er sennilega 4,5 til 5%. Það er svona svipað og 1995.
Varðandi skuldug heimili og það sem þau bera þá er það náttúrulega slæmt en minni enn og aftur að stærsti lánveitandi til íbúðakaupa er ekki bankar. Heldur við í gegnum Íbúðalánsjóð og lífeyrissjóði. Það er talað um að árið 2020 verði fjöldi lífeyrisþega verði orðinn slíkur að þá fari meira úr lífeyrissjóðum en inn í þá. Þannig að þá þurfi að ganga á eignir þeirra. Ef að við ætlum í dag að leysa vanda skuldugra heimilia með því að láta þá bera tap á Íbúðalánasjóði þar sem þeir fjármagna hann með kaupum á skuldabréfum þá erum við í raun að færa skattabombu á hendur börnum okkar og barnabörnum í framtíðinni því að ríkð þarf að tryggja framfærslu á móti skerðingum á eignum til útborgunar úr lífeyrissjóðum. Og það þýðir hærri skatta. Ef við skattgreiðendur borgum strax til íbúðalánsjóðs til að koma í veg fyrir þetta þá þýðir það hærri skatta í dag.
Um banka gildir annað mál. Þeir geta örugglega afskrifað meira og eiga sjálfsagt eftir að gera það. En hvað þá með fólkið sem er með sín lán hjá Íbúðalánasjóði. Er það ekki að gera upp á milli skuldara? Og hvað þá með menn eins og mig sem eftir að hafa misst allt mitt 1994. Á ég að fjármagna skuldaleiðréttingu fyrir alla aðra? Nú erum við kannski um 50% þjóðarinnar sem skuldum líið Þ.e. ég á eignir upp á kannski um 3,5 milljónir og skulda 2,3 milljónir. Er búinn að vera að borga niður mínar skuldir í tæp 17 ár eftir að hafa misst mínar íbúðir og það 2x. En þetta kemur aldrei fram í málflutningi fólks. Þ.e. allir tala eins og allar skuldir séu við vondu karlana í bönkunm og kröfuhafa. En gleymir því að um 70% af verðtryggðum skuldum var við Íbúðalánasjóð og 10% við lífeyrissjóði og aðeins 20% af verðtryggðum íbúðalánum voru við bankana.
Magnús Helgi Björgvinsson, 25.10.2011 kl. 18:59
Maggi tengslin mili verðtryggðra húsnæðislána og lífeyrisréttinda eru bara þjóðsaga. Stóraukin lífeyriskjör eftir óðaverðbólgu undanfarinna missera og hækkun lána eru jafn ósýnilegar og álfar og huldufólk. Þetta getur HVER EINASTI lífeyrisþegi á Íslandi sannfærst um, einfaldlega með því að kíkja í veskið sitt núna skömmu fyrir mánaðamótin.
Og svo þetta:
Binding við evru ekki lausn - mbl.is
I’m getting a lot of correspondence, in particular, about the problem of household debt... pegging to the euro would not have helped on that front, and would have led to a much worse crash in employment
- Paul Krugman hagfræðingur, 24.10.2011 (í gær)
Það skal bent á að nóbelsverðlaunahafinn er meðal viðtakenda opna bréfsins frá okkur, eins og hann er líklega að vísa til í þessari bloggfærslu.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.10.2011 kl. 21:55
Guðmundur...Samkvæmt þessum upplýsingum, þá hafa um 8000 manns yfirgefið landið umfram aðflutta frá 2008. Það er ca ein Akureyri.
Magnús, er ekki augljóst fyrir þér að ég er ekki að tengja grein Evrópusamtakanna við greinina, heldur aðeins vekja athygli á henni utan efnis. Ef þú sérð það ekki, þá ertu verri en mig grunaði.
Jón Steinar Ragnarsson, 26.10.2011 kl. 06:21
Ég held að inni í þeirri tölu séu líka erlendir ríkisborgarar. Talan mín nær bara yfir íslenska ríkisborgara.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.10.2011 kl. 12:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.