Óverðtryggð lán raunhæfur valkostur

Umræðan um afnám verðtryggingar hefur virkilega hafið sig á flug að undanförnu. Sem er vel því nú er einmitt mánuður eftir þar til Undirskriftir Heimilanna við kröfu um leiðréttingu verðtryggðra lána og afnám verðtryggingar, verða afhentar þegar haustþing kemur saman þann 1. október.

Ein helstu mótrök verðtryggingarsinna hafa verið þau að hún sé nauðsynleg vegna einhverra íslenskra séraðstæðna sem þó hefur aldrei verið útskýrt fyllilega hverjar séu. Stundum hefur því jafnvel verið slegið föstu að það sé ekki hægt að afnema verðtryggingu á Íslandi, þrátt fyrir að þjóðin hafi búið hér í landinu í yfir þúsund ár áður en fyrst voru sett lög um verðtryggingu. Aðildarsinnar hafa einnig reynt að halda því fram að Evrópusambandsaðild og upptaka evru séu einhvernveginn forsendur afnáms verðtryggingar, þó að með því sé orsök og afleiðingu snúið á hvolf. Sannleikurinn er auðvitað sá að við þyrftum fyrst að afnema einhliða verðtryggingu áður en það væri einu sinni raunhæft að reyna að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku evru.

Í þessu gleymist gjarnan mikilvægur punktur. Á Íslandi eru nú þegar tugir þúsunda óverðtryggðra lána í íslenskum krónum, bæði til íbúða- og bílakaupa, sem flest urðu til sem slík á grundvelli laga nr. 151/2010 um endurútreikning lána með ólöglega gengistryggingu. Stærsti galli þeirra eru vextir sem breytast mánaðarlega og voru á tímabili afar háir en hafa sem betur fer lækkað umtalsvert síðan þá, en lántakendur gátu valið um verðtryggingu eða ekki. Þó lög þessi hafi verið gölluð á margan hátt, sköpuðu þau engu að síður mikilvægt fordæmi og empiríska sönnun þess að lánveitingar í krónum þurfa ekki endilega að vera verðtryggðar.

Í liðinni viku hefur umræðan hinsvegar færst í mun raunsærri farveg.

Það byrjaði á sunnudaginn í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni þegar Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans sagði m.a. að í sínum huga væri "verðtryggingin hvorki forsenda þess að hér sé líf á Íslandi eða dauðadómur þess. Það þyrfti bara að vera frjálst val. Við getum að sjálfsögðu lifað án verðtryggingar eins og aðrar þjóðir"

Á mánudaginn skrifaði Ögmundur Jónasson ráðherra pistil vegna brotthvarfs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem varð tilefni umfjöllunar í vikunni og í kjölfari lýsti hann því yfir að hann hefði frá upphafi verið í meginatriðum sammála kröfu Hagsmunasamtaka Heimilanna um niðurfærslu skulda. Það var auðvitað ánægjulegt að heyra þetta, en þeirri spurningu er hinsvegar ósvarað hvers vegna Ögmundur lætur þessa skoðun svo afgerandi í ljós fyrst núna þegar AGS er farinn...

Á miðvikudag var fundur í félagsmálanefnd Alþingis undir formennsku Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingkonu Samfylkingar, þar sem til umræðu var frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál sem myndu heimila Íbúðalánasjóði að veita óverðtryggð lán. Í meirihlutanefndaráliti kemur fram skýr vilji til að slík heimild verði veitt og Íbúðalánasjóður nýti sér hana. Nefndarmenn virðast reyndar ekki tilbúnir að ganga svo langt að kveða á um fasta vexti eins og í frumvarpinu, heldur vilja fela Íbúðalánasjóði valdið til vaxtaákvarðana, en það væri engu að síður mikilvægt skref í átt til afnáms verðtryggingar.

Á fimmtudag stóð Íslandsbanki fyir málstofu um verðtryggingu þar sem Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður á hagfræðisviði Seðlabankans sagði að hægt væri að afnema verðtryggingu án mikils kostnaðar um leið og eðlilegar stöðugleikaforsendur væru fyrir hendi.

Við sama tilefni sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar og formaður efnahags- og viðskiptanefnda, alveg ljóst að hægt væri að reka hagkerfi án verðtryggingar. Víðast hvar væri málum háttað þannig.

Samdægurs tók Arion Banki af skarið og tilkynnti að frá og með 15. þessa mánaðar yrðu boðin glæný óverðtryggð íbúðalán til 25 og 40 ára með föstum vöxtum til fimm ára í senn. Það merkilega er að Ísland er ekki búið að taka upp evru og það er nákvæmlega ekkert útlit fyrir að svo verði. Lánin sem um ræðir verða veitt í krónum, samskonar krónum og því hefur verið haldið fram eins og náttúrulögmáli að sé ekki hægt að lána út án verðtryggingar. Eftirtektarvert er að lög um verðtryggingu hafa ekki einu sinni verið afnumin, en það hefur aldrei verið skylda að bjóða eingöngu verðtryggð lán, bankar hafa alltaf haft frelsi um þessar tvær meginútfærslur lánsforma.

Á föstudag birti Fréttablaðið heilsíðuviðtal við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, þar sem hann er spurður hvort hann muni beita sér fyrir afnámi verðtryggingar: "Já ég mun gera það, alveg tvímælalaust. Ég tel að það sé grundvallaratriði. Það er annað í því samhengi sem rétt er að skoða, en það er að vextir bíta ekki sem hagstjórnartæki í verðtryggðu fjármálakerfi. Hækkun vaxta á að slá á þenslu og segja fólki og fyrirtækjum að nú eigi það að fara varlega í lántökur. Það bítur hins vegar ekki þar sem afborgunarbyrðin breytist ekki, hún færist inn í framtíðina... Það virðist hins vegar ekki hafa komist til skila inn fyrir veggi Seðlabankans."

Greinarhöfundur sendir Ögmundi hamingjuóskir vegna þessarar nýjustu hugljómunar og leggur til að hann verði umsvifalaust gerður að efnahags- og viðskiptaráðherra en Árna Páli þess í stað fundin sendiherrastaða í fjarlægu landi þar sem hann gæti ef til vill bætt á sig brúnku. Ögmundi til ánægju og fróðleiks mætti hinsvegar benda á að þessi viska hefur einmitt komist til skila inn fyrir veggi Seðlabankans, hana mætti til dæmis lesa út úr niðurstöðum fræðigreinar Ásgeirs Daníelssonar forstöðumanns hagfræðisviðs bankans sem hann skrifaði í 1. tbl. Efnahagsmála í febrúar 2009. Þrátt fyrir það stendur Seðlabankinn þó ennþá varðstöðu um verðtrygginguna.

Á laugardag var svo aftur fjallað um fyrirhugaðar heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán. Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði Sigurður Erlingsson framkvæmdastjóri sjóðsins að hann teldi að hægt yrði að hefja veitingu óverðtryggðra lána á fyrri hluta næsta árs.

Allt þetta eru miklar og ánægjulegar fréttir. Hinsvegar má ekki gleyma mikilvægi þess að stíga skrefið til fulls og gera það óheimilt að velta verðlagsrýrnun fjármuna einhliða yfir á lántakandann. Það eina sem í rauninni þarf til að afnema verðtryggingu er að gera eftirfarandi breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:

14. gr. orðist hér eftir þannig: "Óheimilt er að verðtryggja lánsfé í viðskiptum við almenning."

Frá og með þeim degi teldust verðtryggingarákvæði lánasamninga ógild og skyldi þá endurreikna þau samkvæmt 18. gr. sömu laga, þeirri sem liggur til grundvallar endurútreikningi lána með ólöglega gengistryggingu. Þannig væri um leið náð fullkomnu jafnræði milli lántakenda óháð lánsformum eða viðskiptasögu. Önnur ákvæði laganna þyrfti loks að fínpússa til samræmingar við þessa fyrirætlan svo vilji löggjafans sé skýr.

Til þess að þrýsta á um þessa breytingu er meðal annars hægt að taka þátt í Undirskriftasöfnun Heimilanna, en þegar nýtt þing kemur saman þann 1. október verða þær undirskriftir sem þá hafa safnast formlega afhentar.

Með frekara undanhaldi verðtryggingar er aðeins tímaspursmál hvenær henni verður útrýmt af íslenskum neytendamarkaði, og þá verður afnám hennar með lögum aðeins formsatriði. Eins og fordæmin sanna er vel hægt að taka lánsform sem þegar hefur náð útbreiðslu og kveða með lögum um breytingu allra slíkra lána í annað lánsform. Þegar það var síðast gert hafði það heldur ekki í för með sér neinar efnahagslegar hamfarir heldur skilaði þvert á móti tugmilljarða hagnaði í ársreikningum nýju bankanna!


mbl.is Býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband