Hvenær er nauðungaruppboð löglegt?
13.8.2011 | 20:48
Það sem af er ári hafa 175 fasteignir verið seldar ofan af Reykvíkingum og vel á annað þúsund uppboða til viðbótar eru í farvatninu. En hversu mörg þessara uppboða ætli séu í raun og veru lögmæt? Í Bandaríkjunum er uppi sú fáránlega staða að lögmæti veðskuldbindinga á húsnæði er að stóru leyti í uppnámi vegna ólögmætra aðferða sem beitt hefur verið við eigendaskipi á kröfunum þegar þeim var pakkað inn í skuldabréfavafninga sem seldir voru þriðja aðila. Nauðungarsala er ekki lögleg nema á gundvelli löglegra gagna, en gögn með fölsuðum undirskriftum eru auðvitað kolólögleg.
En getur verið að eitthvað svipað sé uppi á teningnum hérlendis?
Nýlega voru mér sýnd skuldabréf sem "nýju" fjármálafyrirtækin eru að innheimta samkvæmt. Á þeim stendur nafn og kennitala "gamla" fjármálafyrirtækisins en hvergi er skráð að þau hafi skipt um hendur sem er forsenda þess að nýjum eiganda kröfunnar sé heimilt að innheimta hana. Krafan fellur að sjálfsögðu ekki niður vegna þessa formgalla en þó er ógerlegt og þar með óheimilt að leggja á hana vexti fyrir það tímabil sem bréfið er sannanlega ekki í höndum rétts aðila. Svo er "gömlu" fjármálafyrirtækjunum óheimilt að innheimta nokkurn skapaðan hlut eftir að starfsleyfi þeirra hafa verið felld úr gildi, "nýju" fyrirtækin mega þá eingöngu innheimta höfuðstólinn, að frádregnum öllum greiðslum sem þau hafa tekið við á meðan krafan er í uppnámi. Loks er með öllu óheimilt að gera aðför að eignum fólks á grundvelli svo umdeildrar kröfu.
Fyrirtæki sem lánuðu ólögleg krónulán með gengistryggingu eru jafnframt að búa til einhliða og innheimta nýja samninga á grundvelli þeirra eigin endurútreiknings á eftirstöðvum ólöglegu samninganna. Þessir nýju samningar, sem flestir eru rangt reiknaðir, hafa í mörgum tilvikum ekki komið fyrir augu skuldara hvað þá verið undirritaðir af þeim. Slík krafa hefur nákvæmlega ekkert gildi fyrir dómstólum. Fáránleikinn nær svo áður óþekktum hæðum í gögnum sem ég hef undir höndum, sem sýna hvernig tiltekið fjármálafyrirtæki heldur áfram að innheimta slíkan "samning" jafnvel eftir að það er sjálft búið að rifta honum!
Einkafyrirtæki eru enn að stunda vörslusviptingar utan dóms og laga, og traðka með því á skítugum skónum yfir harðorð tilmæli innanríkisráðherra frá því fyrr á þessu ári. Innheimtustarfsemi án starfsleyfis er refsivert athæfi, og þrátt fyrir kærur til Sýslumannsins í Reykjavík, Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóra og Sérstaks Saksóknara, hafa þessir aðilar annaðhvort neitað að aðhafast eða vísað á Fjármálaeftirlitið, sem enn þráast við að rækja eftirlitsskyldu sína á þessu sviði.
Tilhæfulaus innheimta sú sem hér hefur verið lýst felur í sér ólögmæta auðgun og gertæki sem er refsiverður glæpur samkvæmt almennum hegningarlögum. Að búa til skuldabréf á einhvern án vitundar hans er jafnframt skjalafals, sem að íslenskum lögum er álíka alvarlegt afbrot og nauðgun. Sýslumenn sem leggja blessun sína yfir brot á stjórnarskrárvarinni friðhelgi heimila með þessum hætti, hafa gert sig samseka um níðingsverk sem bitna ekki bara á skuldaranum heldur saklausum börnum og öðru heimilisfólki. Dæmi eru um að mannslíf hafi tapast í kjölfar slíks athæfis!
Og þetta kann líka að hafa bakað ríkinu (skattgreiðendum) stórfellda skaðabótaskyldu.
Fjöldi fasteigna sleginn á uppboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Gengistrygging | Facebook
Athugasemdir
Sýslumenn hafa í raun enga heimild lengur til að meta lögmæti krafna en er gert að gera það sem bjóðendur biðja um og leyfist ekki einu sinni að meta hvort upphæðir eru réttar. Lögin segja að allt sé þetta gert á '' ábyrgð'' uppboðsbeiðanda en svo er það allt á kostnað uppboðsþola. Engin úrræði eru til að kæra til dómstóla fyrr en sala hefur farið fram á eigninni sjálfri ( lokauppboð ). Er sjálfur ekki í nokkrum vafa um að Lög um Nauðungarsölu standast hvorki stjórnarskrá né mannréttindasáttmála Evrópu en er hins langsótt að láta á það reyna fyrir skuldugt fólk því andstæðingarnir eru aðilar á mikilli félagslegri aðstoð frá ríkisvaldinu, aðilar eins og bankar, sveitarfélög og tryggingarfélög. Þá er ég heldur ekki í vafa um að lög um nauðungarkaup á brunatryggingum eru í andstöðu við Mannréttindasáttmála Evrópu rétt eins og reyndist með iðnaðarmálagjaldið.
Einar Guðjónsson, 13.8.2011 kl. 21:30
Takk fyrir góða grein. Vonandi orð í tíma skrifuð.
Á málið ekki heima á borði Umboðsmanns Alþingis?
Tel að kominn sé tími til að alþingismönnum sem rjúfa þingmannsheit sitt sé gerð refsing. Samþykkt laga sem stangast á við Stjórnarskrá er eiðrof þeirra þingmanna sem samþykkja.
Ólafur Jónsson (IP-tala skráð) 14.8.2011 kl. 09:12
Guðmundur takk fyrir þetta, ég sá þátt hjá 60 mín. þar sem tekið var á þessum þætti sem þú kemur inn á, og þar kom fram hvernig þessi fjármálafyrirtæki stofnuðu félag til þess að setja nýjar undirskriftir á falsaða lánasamninga vegna þess að upphafssamningar voru ekki til lengur...
Það voru nefnir bankar meðal annars frá Þýskalandi, Danmörku, Bretlandi og USA vegna þessa, það voru nöfn sem hafa komið að Íslensku bönkunum og finnst mér gott að þú kemur með þetta vegna þess að það er ekkert eðlilegt við það hvernig fjármálafyrirtækin eru að eignast eignir Landsmanna...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 14.8.2011 kl. 10:15
Góð samantekt!
Sumarliði Einar Daðason, 14.8.2011 kl. 12:32
Almenn hegningarlög:
130. gr. Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.
Hafi verknaðurinn haft eða verið ætlað að hafa í för með sér velferðarmissi fyrir nokkurn mann, þá skal refsingin vera fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 16 árum.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2011 kl. 17:16
Heill og sæll Guðmundur; æfinlega - sem aðrir gestir, þínir !
Afar vönduð; sem eindregin samantekt, af þinni hálfu Guðmundur - eins, og vænta mátti.
Tek undir; með öðrum athugasemda skrifurum, hér að ofan, í hvívetna.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2011 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.