SAASÍ semja af sér ermarnar

Nýr kjarasamningur SA og ASÍ (SAASÍ) virðist innihalda margvíslegar forsendur sem eru hver annari fjarstæðukenndari og enginn samningsaðila hvorki getur staðið við, né virðist treysta því að muni halda. Umfang fáránleikans er slíkt að mér dettur engin skýring í hug nema "aðilar vinnumarkaðarins" vilji hreinlega tryggja ófrið og upplausn. Helstu skrýtlurnar eru þessar:

1. Kaupmáttur launa hafi aukist... [að X tíma liðnum] samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

Þetta hljómar kannski ágætlega, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að launavísitala mælir bara alls ekkert kaupmátt heldur einungis krónutölu launa. Kaupmáttur er hinsvegar reiknaður miðað við verðbólgu, sem Seðlabankinn hefur lofað að sjá til þess að verði að jafnaði 2,5% og hefur reyndar oftast bætt tilfinnalega um betur! Launavísitalan getur þannig hækkað umtalsvert án þess að það hafi í för með sér nokkra kaupmáttaraukningu. Var hagfræðingur ASÍ kannski sofnaður fram á samningaborðið þegar loksins var skrifað undir eða hvað?

2. Verðlag haldist stöðugt á samningstímanum og að verðbólga verði innan við 2,5% í desember 2012 m.v. sl. 12 mánuði.

Með öðrum orðum má verðlag hvorki hækka né lækka á samningstímanum, en hver vill ekki að verð lækki? Atvinnurekendur þurfa líka að versla og fyrirtæki þeirra að kaupa hráefni, ef verðlag lækkar þá hagnast allir en þess í stað á að halda okkur fátækum. Auk þess, ef Seðlabankanum tækist að ná verðbólgumarkmiðinu og halda því í eitt og hálft ár yrði það í fyrsta skipti, frá upphafi! Hverskonar bull er þetta eiginlega?

Jafnvel 2,5% markmiðið tryggir samt sem áður að öll verðtryggð lán hækka sem því nemur. Halló hvað eru menn að pæla? Afhverju gerir ASÍ ekki ófrávíkjanlega kröfu um hámark 0% verðbólgu til að stemma stigu við frekari hækkun húsnæðislána? Ef þarna væri fólk með bein í nefinu í staðinn fyrir allsstaðar annarsstaðar í höfðinu, þá væri gerð krafa um verðhjöðnun (neikvæða verðbólgu) til þess að lækka húsnæðislánin, sem er í raun það eina sem getur bjargað ástandinu fyrir heimili landsins.

3. Að gengi krónunnar styrkist marktækt frá gildistöku samningsins til loka árs 2011 og að gengisvísitala íslensku krónunnar verði innan við gildið 190 í desember 2012...

Krónan á sem sagt að hækka á einu og hálfu ári um meira en 11% og ná aftur fyrirhrunsgengi, á sama tíma og stór hluti vinnandi fólks getur ekki einu sinni séð fyrir hvort þau muni ennþá eiga heimili að þeim tíma liðnum. Ég sé fyrir mér Vilhjálm og Gylfa að setja upp vökvatjakka í Seðlabankanum...

4. Að stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu-, og félagsmálum, sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamning þennan.

Að stjórnvöld standi við... Til dæmis þann eið sem þau hafa svarið að stjórnarskránni? Skjaldborg um heimilin? Að fangelsa efnahagslega hryðjuverkamenn og gera ránsfenginn upptækan til að borga fyrir hrunið? 26 milljarða greiðslu handa Bretum og Hollendingum sem ekki var til innstæða fyrir? Aðlögunarviðræður sem eru það samt ekki? Já einmitt, vegna þess að stjórnmálamenn svíkja aldrei gefin loforð!

Eruðekkjaðfokkingkiddamig?!!!

Á mannamáli heitir þetta að semja af sér með loforðum sem er tæknilega útilokað að standa við. Til dæmis eru fyrstu þrjú atriðin einfaldlega ósamrýmanleg með þeim úrræðum sem í boði eru, það er ekki bæði hægt að borða kökuna og eiga hana. Mótsagnirnar eru slíkar að næst má allt eins búast við að jafnvel sólmiðjukenningin verði tekin til endurskoðunar. En það á hinsvegar að borga hverjum og einum launþega 75.000 kr. mútur í formi eingreiðslna fyrir að véfengja ekki þessar þversagnir svo Villi og Gylfi komist aftur í launað frí. Maður hlýtur að spyrja sig hvað var eiginlega sett út í kaffið hjá ríkissáttasemjara ef þeir héldu að þessi móðgun við heilbrigða skynsemi myndi nokkurntíma fljúga? Hvað þá í þrjú ár...

P.S. Ég flokka þessa færslu meðal annars sem "spaugilegt", bæði vegna þess að þetta er það, og líka vegna þess að ég fann hvorki efnisflokkinn "sorglegt" né "bavíanar".


mbl.is Miklir fyrirvarar í samningnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Frábær innkoma og hafðu þökk fyrir. Það sem ég segi er kaldhæðni og stór putti til handa almenningi í þessum samningum og afturendinn verður æ sárari með deigi hverjum!

Sigurður Haraldsson, 6.5.2011 kl. 08:21

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Axel Jóhann Hallgrímsson, 6.5.2011 kl. 09:09

3 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Góður!

Birgir Viðar Halldórsson, 6.5.2011 kl. 11:18

4 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Fólk er fífl. Þessar samningaforsendur hitta beint í mark  og bjartsýnin ris í hæstu hæðir Sammála þér - þetta er algert grín

Eggert Guðmundsson, 6.5.2011 kl. 16:03

5 identicon

Þetta er svo rétt hjá þér. En sorglega er, að þetta verður svo samþykkt af miklum meirhluta spilltra trúnaðarmanna, sem koma þá í vegi fyrir að hinn almenni launþegi fái eitthvða um þetta að segja, en þeir hafa sem hingað til komið í veg fyirir breytingar til betra lýðræðis og virkari þátt félagsmanna í stjórnum sinna verkalýðsfélaga. Er þetta ekki svolítið kunnulegt úr íslenskum stjórnmálum líka. ..????  Allt uppá borðum og svoleiðis, ha. Gegnsæi, kynjuð starfsmannaráðning, (úrkynjuð) skjaldborg og fleira og fleira.

Kveðja Sigurður

Sigurður Kristján Hjaltestesd (IP-tala skráð) 6.5.2011 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband