Fjölmiðlar missa boltann
23.4.2011 | 01:12
Þann 11. apríl síðastliðinn, að nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu var enn einu sinni sett í gang undirskriftasöfnun. Í þetta sinn sameinuðust margir af fjölmiðlum landsins sem áður höfðu verið andstæðingar, gegn sameiginlegum óvini sem ógnaði hagsmunum þeirra sjálfra: nýjum fjölmiðlalögum.
Þess má geta að í stuðningshóp andspyrnuhreyfingar fjölmiðla vantaði þrjá af stærri fjölmiðlum landsins: Ríkisútvarpið tók ekki afstöðu til laganna af augljósum ástæðum og lítið bar á þessu í fréttaumfjöllun stofnunarinnar. Morgunblaðið lét framtakið formlega afskiptalaust, en flutti hinsvegar af því fréttir og var enginn eftirbátur annarra í þeim efnum, og svipað má segja um DV.
Þegar tilkynnt var um undirskriftasöfnunina og að henni stæði hagsmunahópur með svo mikið aðgengi að skynfærum almennings að fyrir því eru líklega engin fordæmi í Íslandssögunni, hefði auðveldlega mátti sjá fyrir sér áróðursstríð sem hefði gert slaginn um IceSave að ljúfum forleik í samanburði. Það kom hinsvegar á óvart hversu lítið fór fyrir þessu máli, jafnvel í umfjöllun þeirra fjölmiðla sem mynduðu NEI-hreyfinguna að þessu sinni. Í rauninni má segja að þeir hafi misst boltann eins og í orðatiltækinu, tökum dæmi af vefmiðlum 365 og Vefpressunnar á því tímabili sem beiting 26. greinar stjórnarskrárinnar hefði getað komið til álita:
- 15.4 Fjölmiðlafrumvarpið samþykkt
- 16.4 Samræmd lög um alla fjölmiðla
- 19.4 Efnistökum fjölmiðla sett skilyrði með lögum
- 20.4. Undirskriftir gegn fjölmiðlalögunum valda titringi
- 22.4. Forsetinn sagður ekki eiga annan kost en að senda fjölmiðlalög í þjóðaratkvæði
Athyglisvert er að jafnvel í morgun voru sumir fjölmiðlar að fjalla um lögin eins og það væri enn opin spurning hvort þau tækju gildi, rétt eins og undirritun þeirra hefði farið algjörlega framhjá þeim. Eiríkur Bergmann stjórnlagaráðsfulltrúi bloggaði í morgun röksemdafærslu fyrir því að forseti ætti að synja lögunum, en þá voru liðnir tveir dagar frá undirritun þeirra. Pínlegt fyrir stjórnmálafræðidósentinn.
Pínlegra er samt kannski að sá sem flutti fjölmiðlunum sjálfum fréttina (óbeint) skyldi hafa verið nauðaómerkilegur kverúlant á moggablogginu (eða þannig). Atburðarásin:
- 15.4. Lög um fjölmiðla samþykkt á Alþingi
- 20.4. Lögin undirrituð og birt í stjórnartíðindum
- 21.4. Bloggari skýrir frá gildistöku laganna
- 22.4. sólarupprás: Fréttamenn reka upp stór augu við blogglestur
- 22.4. morgun: Fréttin birtist fyrst á visir.is og mbl.is
- 22.4. hádegi: Aðrir vefmiðlar taka fréttina upp
Fjölmiðlalögin staðfest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Fjölmiðlar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:07 | Facebook
Athugasemdir
Það litla álit sem fólk hafði á fjölmiðlum hvarf í undanfara kosningarinnar um icesave. Framganga þeirra fyrir þá kosningu var með þeim hætti að þeir örfáu sem enn höfðu álit á þeim, misstu það snarlega. Þetta á einkum við um Baugsmiðlana og fréttastofu RÚV.
Eiríkur Bergmann er löngu útbrunninn, reyndar kviknaði aldrei á honum. Rangfærslurnar og öfugmælin sem koma frá þeim manni eru með ólíkindum. Hvernig sá maður getur titlað sig Evrópufræðing er flestum dulið, hvað þá dósent við háskólastofnun!
Gunnar Heiðarsson, 23.4.2011 kl. 02:15
Sæll Guðmundur,
Þetta mál hefur nú bara alveg farið fram hjá mér!;) Sem "útlenskum Íslending" þá finnst mér oft að það sem birtist í vefmiðlunum vera afskaplega sérkennileg samsuða. Mikið af því sem ég hef lesið um hrunið eru fréttir sem hafa birst á mbl.is og ruv.is (les þessa tvo mest) sem hafa verið þýddar úr erlendum fjölmiðlum! Það var eins og það væru ekki fréttir á Íslandi nema þær kæmu frá AP eða Reuters, New York Times, FT, WSJ eða einhverjum öðrum málsmetandi alþjóðlegum fjölmiðlum og fréttastofum. Eins og þú segir er pínlegt að vera að krefjast þess að forseti sendi lög til þjóðaratkvæðis, sem hann hefur þegar skrifað undir - sennilega var Reuters bara ekki nógu snemma með fréttirnar;) Nei, kíkti á reuters.com og það er bara ekkert um þetta þar!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 23.4.2011 kl. 07:57
Loksins @ ruv.is 26.4.2011 11:52
"Ný lög um fjölmiðla hafa tekið gildi"
Guðmundur Ásgeirsson, 27.4.2011 kl. 02:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.