Hagsmunasamtök Heimilanna kjósa nýja stjórn
1.4.2011 | 08:29
Í gærkvöldi var haldin aðalfundur í Hagsmunasamtökum Heimalanna þar sem meðal annars var kjörin ný stjórn. Sá er þetta ritar hefur verið óvirkur félagi í samtökunum frá því skömmu eftir stofnun þeirra en ákvað í þetta sinn að mæta á aðalfund, og skemmst frá því að segja endaði sem 2. varamaður stjórnar að kosningu lokinni. Þetta var að sjálfsögðu ánægjulegt, ég hlakka til að fylgjast með því verðuga starfi sem þarna er unnið og leyfa tímanum að leiða í ljós hvað ég geti lagt til góðra verka þegar fram líða stundir. Fráfarandi stjórnarmönnum kann ég miklar þakkir fyrir vel unnin störf.
Ályktun um húsnæðismál, afnám verðtryggingar og leiðréttingar lána
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 31. mars 2011
Undanfarna áratugi hafa hafa heimilin í landinu liðið fyrir að fjármögnun húsnæðis hefur verið í nær stöðugu uppnámi vegna ofurvaxta og verðtrygginar sem margfalda húsnæðiskostnað almennings. Húsnæði er grunnþörf sem samfélagið verður að tryggja aðgang allra að. Skortur er á félagslegum úrræðum í húsnæðismálum og framboð leiguhúsnæðis er takmarkað á sumum svæðum.
Vegna þessa hefur fólk átt fárra annarra kosta völ en að kaupa húsnæði, mest með verðtryggðum jafngreiðslulánum. Slík kjör eru blekking frá upphafi, ógegnsætt kerfi sem fleytir ófyrirséðum kostnaði hagstjórnarmistaka og afleiðingum óábyrgrar útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja yfir á lántaka, sem einir bera áhættuna. Þannig hefur stökkbreyttur höfuðstóll, verðtrygging og okurvaxtakrafa hangið eins og fjárkúgun yfir íslenskum almenningi.
Í meira en þrjá áratugi hefur verðtrygging lána verið notuð til að halda uppi háum raunvöxtum á kostnað almennings. Verðtryggingin hefur átt þátt í að auka verðbólguna með vítahringsáhrifum og þannig aukið á kjaraskerðingu allra og stöðuga eignatilfærslu, auk þess sem eignaupptaka sem í henni felst kann að brjóta í bága við stjórnarskrá. Þetta íslenska kerfi er bein ógn við fjármálastöðuleika í landinu og verður að afnema.
Losa þarf íslenskan almenning undan þessu oki og opna leiðir fyrir fleiri valkosti í húsnæðismálum, svo sem fjölbreytt óverðtryggð lán án núverandi okurvaxtaákvæða auk fleiri möguleika til búsetu, til dæmis tryggt leiguhúsnæði, búsetahúsnæði og félagslegt húsnæði á sanngjörnu verði. Þannig hafa íslensk heimili loksins sambærilegar aðstæður og öryggi og nágrannaþjóðir okkar í húsnæðis- og lánamálum.
Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna skorar á Alþingi að tryggja afnám verðtryggingar á árinu 2011 á meðan verðbólgan er lág. Skapa þannig lífvænlegri fjármögnunarskilyrði fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu og tryggja að þeim verði mögulegt að taka þátt í enduruppbyggingu íslenska efnahagskerfisins.
Aðalfundurinn krefst þess að höfuðstóll verð- og gengistryggðra lána verði tafarlaust leiðréttur með almennum hætti, sem er öllum aðilum í samfélaginu til hagsbóta til lengri tíma litið.
Þjóðin verður að snúa vörn í sókn og knýja með samstöðu fram nýja umgjörð um fjármögnun íbúðarhúsnæðis sem ekki gengur út á að féfletta almenning á Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.