Úlfur! Úlfur!
23.2.2011 | 15:30
Matsfyrirtækið Moody's segir að hafni íslenskir kjósendur Icesave-samningnum muni lánshæfismat íslenska ríkisins að öllum líkindum fara í ruslflokk
Hmmm... höfum við ekki heyrt svona hræðsluáróður einhverntímann áður?
18.1.2010 S&P: Lánshæfismat íslenska ríkisins lækkar verði Icesave-lögin felld
Þar var um að ræða svokölluð IceSave-II lög um Svavarssamninginn, sem voru felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tæpu ári. En hvað gerðist raunverulega þá?
23.4.2010 Moodys hækkar mat á Íslandi. Búist við hagstæðari samningum í Icesave
Skoðum hinsvegar hvað gerðist eftir að Alþingi hafði samþykkt IceSave-I sem Bretar og Hollendingar höfnuðu, og virtist svo ætla að gefa eftir kröfum þeirra með IceSave-II:
11.11.2009 Moody's lækkar lánshæfismat ríkisins
Lítum svo á þróun lánshæfismats ríkissjóðs í erlendri mynt frá hruni: Fitch Ratings gaf Íslandi einkunnina BBB- haustið 2008. Hún var lækkuð um eitt þrep í BB+ þann 5. janúar 2010 þegar forseti Íslands neitaði að staðfesta IceSave-II en hefur síðan þá verið óbreytt þrátt synjun IceSave-II. í þjóðaratkvæðagreiðslu. Moody's gaf Íslandi einkunnina Baa1 haustið 2008. Hún var lækkuð í Baa3 þann 11. nóvember 2009 þegar Alþingi hafði IceSave-II til umfjöllunar en hefur verið óbreytt síðan. Standard & Poor's gaf Íslandi einkunnina BBB- haustið 2008. Hún hefur haldist óbreytt síðan, þrátt fyrir IceSave.
Af þessu má ráða að framvinda IceSave málsins hefur í besta falli takmörkuð áhrif á lánshæfismat. Hingað til hefur tíminn unnið með okkur og bætt samningsstöðuna, sem eykur líkurnar á betri niðurstöðu fyrir Ísland og þar af leiðandi meiri greiðslugetu. Svo eru til fleiri mælikvarðar en lánshæfismat, t.d. skuldatryggingarálag sem hækkaði alls ekki þó IceSave-II hafi verið synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra.
Látum heldur ekki ummæli matsfyrirtækja hræða okkur frá því að taka upplýsta afstöðu í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave-III. Gleymum því ekki að þetta eru þeir sömu og gáfu íslensku bönkunum fyrsta flokks einkunnir alveg fram að endalokum þeirra haustið 2008, og gáfu út greiðslumat á eitraða skuldabréfavafninga sem seldir voru um allan heim og eru gjarnan nefndir sem ein af höfuðorsökum hrunsins 2008. Að halda því fram að þessar stafrófsstofnanir séu marktækari en aðrir spámenn er í besta falli langsótt, og greiningar þeirra jaðra á köflum við öfugmæli.
Látum ekki draugasögur hræða okkur. Það er ekkert að óttast nema óttann sjálfan.
Moody's: Nei sendir ríkið í ruslflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: IceSave | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:33 | Facebook
Athugasemdir
Gott hjá þér Guðmundur ! að tína þetta saman, það er nefnilega orðin helsta rökfærsla stuðningsfólks samningsins að allt fari á hliðina ef hann ekki verður samþykktur, var að ræða þetta við einn ágætis mann (þó við séum á öndv. meiði um Icesave) Sigurð Grétar á hans bloggi þar sem hann bar saman ummæli og skoðanir forsetans fyrir rúmu ári og nú, og ég setti m.a. fylgjandi í andsvar þar:
"Stuðningsmenn samningsins hafa núna nokkrar vikur til að sannfæra okkur, sem ekki fylgjum stuðningsliðinu blint bara af því þau segja "afþvíbara" "betra en síðast", "kannski töpum við í rétti", "B/H verða kannski með andóf" (Bjarni Ben í mbl.) ofl álíka "loðið" nei við þurfum hjálp við að fá úr þessu skorið, rétt eins og við þurftum og fengum hjálp þó það tæki sinn tíma (Hafréttardómstóll Sameinuðu þjóðanna) við útfærslu landhelginnar, en við héldum velli á meðan, þrátt fyrir úrtölur og "andóf" Breta ofl. sama er með þetta mál sem er reyndar angi af miklu stærra dæmi, (það veit forsetinn fullvel) við eigum ekki og þurfum ekki að vera basla alein í þessu á móti þessum stórþjóðum, við þurfum og eigum að leita réttar okkar, hvaða dómstóll yrði fyrir valinu er reyndar ekki alveg á hreinu, en þar sem Ísland er EES land, er EFTA dómstóllinn ekki óliklegur, sbr þetta HÉR. " fannst þetta passa fínt hér líka.
Kannski kemur eithvað viturlegt fyrir atkvæðagreiðslu, kannsi (líklega) ekki ? líklega heldur hræðsluáróðurinn áfram og því miður, hann virkar, svo við verðum að standa vaktina Guðmundur og aðrir með hausinn ofar flokkaþokunni.
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 23.2.2011 kl. 19:40
Málið er afar einfalt;
Það þarf að segja hnitmiðað NEI og aftur NEI við lögleisunni Iceslave 3 og annað hintmiðað JÁ og aftur JÁ við EU aðild og það strax.
Flóknara er þetta ekki og þá mun engin geta kallað Úlfur, Úlfur meir
Kristinn J (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 09:17
Góð rök. Tíminn vinnur alltaf með okkur og gleymum ekki að við vorum í AAA flokki þegar í raun við vorum rusl.
Það sem mundi hækka hæfi okkar væri virk ríkisstjórn sem ynni í sátt við almenning. Það að við lækkum (eða hótunin) er þess efnis að hér sé í raun stjórnarkreppa. Ríkisstjórnir sem ekki njóta trausts eru taldar hættulegar í fjármálaheiminum.
Þið sjáið að óeirðir gera það nákvæmlega sama. Vegna þess að fólkið er á móti stjórn landanna þar sem óeirðir eru.
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 24.2.2011 kl. 13:54
@Kristinn J: tökum EU umræðuna seinna... ;)
Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2011 kl. 18:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.