Vilja Íslendingar sama kerfið áfram?
28.10.2010 | 02:13
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Bank of Ireland, Mike Soden, segir að Írar ættu að íhuga að segja skilið við Evrópusambandið ef þátttaka í því þýðir að þeir geti ekki tekið ákvarðanir um stjórn eigin fjármála.
Nákvæmlega sömu rök eiga vel við á Íslandi. Ef við viljum vera sjálfráð um það hverskonar fjármálakerfi við starfrækjum þá ættum við alls ekki að ganga í Evrópusambandið. Ef við gerðum það yrðum við um leið skyldug til þess að starfrækja samskonar fjármálakerfi og Evrópusambandið, sem er nákvæmlega eins kerfi og það sem hrundi hér með braki og brestum haustið 2008. Það má líka benda á að fyrirbæri eins og IceSave hefði aldrei getað orðið til nema vegna samevrópskra reglna. Þó svo að EES-samningurinn hafi á sínum tíma opnað fyrir okkur margar dyr þá er ekki víst að við viljum endilega hafa þær allar galopnar, og á sama tíma hefur hann líka vel að merkja lokað sumum öðrum dyrum.
Er það vilji Íslendinga að reynt verði að blása lífi í líkið af gamla kerfinu og halda því svo í öndunarvél um ókomna framtíð? Þetta er mikilvæg spurning sem fólk þarf að spyrja sig að. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þarf ábyrg afstaða til ESB-aðildar meðal annars að taka mið af svarinu við þessari spurningu, annars er það ekki ábyrg afstaða.
Ættu Írar að ganga úr ESB? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt s.d. kl. 02:15 | Facebook
Athugasemdir
Nei, líklega er þetta rétt hjá þér!
Íslendingar vilja halda í gamla íslenska kerfið, sem samanstendur af stjórnskipulagi frá 19. öld, nepótisma, spillingu og klíkuskap auk þess sem sérhagsmunagæslusveitir hafa völdin í landinu!
Bravó!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 28.10.2010 kl. 08:02
Ekki bara hlusta á helminginn af því sem hann segir. Hann kemur með þær vangaveltur að Írar gangi úr ESB, en að þeir gangi þá inn sem 51. ríki Bandaríkjanna. Hann virðist ekki telja það kost að litla Írland standi eitt og sér.
Einar Solheim, 28.10.2010 kl. 08:15
Guðbjörn hefur greinilega ekki kynnt sér hvernig kaupin ganga fyrir sig á Eyrinn í henni Evrópu og þá ekki sízt í stjórnkerfi Evrópusambandsins sjálfs.
Hjörtur J. Guðmundsson, 28.10.2010 kl. 08:34
Fullkomlega sammála þér Guðmundur. Spurningin er viljum við yfir höfuð hald sjálfstjórn okkar mála, eða afsala henni til útlendinga.
Vil benda Guðbirni á að "gamla íslenska kerfið" er sama kerfi og notað er erlendis þegar talað er um fjármála eða efnahagskerfi. Hvað varðar nepótisma og klíkuskap auk sérhagsmunagæslu, þá er það ekki eitthvað sem hverfur með inngöngu í ESB, það bara færist til Brussel. Klíkuskapurinn og nepóstisminn er þar alsráðandi en þetta segi ég vegna þess að ég þekki persónulega dæmi um þetta.
Einar bendir réttilega á að bankastjórinn tali um að Írar ættu í staðinn að ganga inn í USA, en bendir líka á að það sé eitthvað sem ekki væri auðvelt. Hann hins vegar bendir á rökin fyrir því að vera ekki í ESB. Það sem hann er að benda á, er að með inngöngu í ESB þá sé Írland ekki fjárráða og hann virðist því velta upp þeirri spurningu, getur landið því talist sjálfstætt? Þetta er nokkuð sem við þurfum að athuga sjálf. Ef við ráðum ekki yfir fjármagninu (fjárráða), ráðum ekki utanríkisstefnunni (rétturinn til að velja sér vini) og höfum afsalað okkur lagasetningaréttinum (mótun þess samfélag sem við byggjum), erum við þá yfir höfuð sjálfstæð?
Og annað varðandi það að taka bara helminginn, þá er þessi frétt ekkert annað en smá úrdráttur úr bók og því ekki hægt að eigna höfundi neinar hugmyndir nema lesa bókina. Hvað veit maður nema hann fari nánar út í sjálfstæði Írlands á öðrum stað.
Hvað Hjört varðar, þá hef ég svo sem ekkert við það að bæta.
Við getum rifist um hugmyndafræði hægri og vinstri. Hvort þetta eða hitt sé hinum eða þessum að kenna. Það sem við hins vegar verðum átta okkur á er að þetta ástand hefur bara með einn hlut að gera og aðeins einn. það er fjámálakerfið sem við búum við. Því verðum við að breyta til að geta hafið ferðina framávið. Ef við ætlum að viðhalda hagsmunagæslukerfinu sem stórukallarnir eru að pressa okkur til að gera, þá munum við lenda í sömu aðstæðum eftir um 10 til 20 ár. það hefur ekkert með persónur og leikendur að gera, heldur allt með kerfið að gera.
Jón Lárusson, 28.10.2010 kl. 08:50
Guðbjörn: ég er ekki alveg klár á því hvort þér er fúlasta alvara, en ég hef fulla trú á því að Íslendingar vilji einmitt ekki sama gamla kerfið áfram.
Einar: Rétt ábending, en hann virðist líka gera sér grein fyrir því að það sé ekki mjög raunhæfur möguleiki.
Ég er svo sem ekkert að taka neina séstaka afstöðu til ummæla þessa írska bankamanns, heldur að nota tækifærið til að vekja athygli á ýmsu sem mér sjálfum þykir merkilegt varðandi fjármálakerfið sem hrundi og "endurreisn" þess í samhengi við Evrópumálin. Ég held að flestir Íslendingar séu búnir að átta sig á því að frekari lífgunartilraunir eru gagnslausar og að ef við ætlum að eiga von um framtíð verðum við að jarða hræið af gamla kerfinu og gera eitthvað nýtt í staðinn. Þess vegna er ég til dæmis að vinna með öðru fólki að því þróa hugmyndir að öðruvísi kerfi en því sem við höfðum fyrir. (Vísbending: Evruhagkerfið er ekki öðruvísi myntkerfi, fyrir utan stærðina og myndskreytingarnar á seðlunum er það samskonar kerfi og flest önnur.)
Guðmundur Ásgeirsson, 28.10.2010 kl. 08:52
Sæll Hjörtur og takk fyrir innlitið.
Jón, ég sé að þú fattar alveg hvað ég er að fara, ég veit að þú ert líka áhugasamur um breytingar á fjármálakerfinu. Það sem ég er að vekja athygli á hérna er að til þess að það sé mögulegt er betra að standa fyrir utan Evrópusambandið.
Guðmundur Ásgeirsson, 28.10.2010 kl. 19:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.