Hvað með skaðleysi handa heimilunum?
22.10.2010 | 17:56
"Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði frumvarp um gengisbundin lán fram á ríkisstjórnarfundi í dag. ... beðið er skaðleysisyfirlýsinga frá fjármálastofnunum, sem tryggi að ekki verði beint kröfum á hendur ríkinu vegna löggjafarinnar. Vonir standa til að slíkar skaðleysisyfirlýsingar liggi fyrir af hálfu fjármálastofnana í næstu viku."
En hvað með skaðleysi handa þolendum þessarar glæpastarfsemi?
Í frumvarpinu er jafnframt heimild til skuldajöfnunar í stað beinnar endurgreiðslu, sem tryggir að ekki komi til þrots lánastofnana.
Afhverju er ekki frekar reynt að koma í veg fyrir þrot heimila?
Sjálfskipaðir gæslumenn fjármálaglæpasamtakanna hafa verið duglegir að nefna rök gegn flatri niðurfærslu lána, og hafa meðal annars bent á að slíkt væri ósanngjarnt gagnvart (sumum) lántakendum.
En hvað með flata uppfærslu? Var hún ekkert ósanngjörn?
Varðandi meintan kostnað við niðurfærslur lána (sem er allur ímyndaður!) hafa sömu varðhundarnir bent á að samkvæmt stjórnarskránni sé eignaupptaka óheimil nema í undantekningartilfellum og þá þurfi að koma sanngjarnt endurgjald fyrir. Þetta er vissulega rétt, en vita þeir ekki að...
Eignarréttarákvæðið er í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar!
Síðan hvenær flokkast réttindi fyrirtækja undir mannréttindi?
(Hvað þá þegar skipulögð glæpastarfsemi á í hlut?)
Afhverju töluðu þessir sömu varðhundar aldrei um verðhækkun meintra eigna glæpasamtakanna sem er þannig til komin að þeir segja fólk allt í einu skulda miklu meira en það tók að láni? Það er ekkert annað en eignatilfærsla frá lántaka til lánveitandans, sem vel að merkja lagði aldrei út fé heldur bjó til nýja "peninga" úr skuldabréfi lántakandans. (Já, það er þannig sem útlánastarfsemi virkar!) Fyrst skuldabréf útgefin af húsnæðiskaupendum eru svona góð eign sem alltaf hækkar í verðmæti og lækkar aldrei, er þá nokkuð annað sanngjarnt en að þeir fái þá sinn hlut í þeim hagnaði?
Að skila þýfi hefur ekkert með eignarrétt að gera!
Ég vil að á komandi stjórnlagaþingi verði tekin skýr afstaða til þess hvort eigi að vera ofar sett, réttindi einstaklinga eða fyrirtækja, og mun fara vel yfir það með þeim frambjóðendum sem ég hef í hyggju að greiða atkvæði mitt. Jafnframt að það verði skýrt nánar hvað teljist eign í skilningi eignarréttar og hvort það eigi jafnt við um áþreifanlega hluti eða óefnislega samninga.
Hlutafé í fyrirtækjum er ekki eign í þeim skilningi að um sé að ræða áþreifanlegt fyrirbæri, heldur eru það samningsbundin réttindi sem lúta ákveðnum lögmálum, og öllum réttindum fylgir ákveðin ábyrgð líka! Þetta er í raun svipað og happdrættismiði veitir þér réttindi til að fá greiddan út vinning en aðeins ef það kemur upp vinningur á þann miða, annars er hann verðlaus, eins og þeir fengu að komast að sem áttu hlutafé í íslensku bönkunum haustið 2008. Ég veit ekki til þess að nokkrum manni dytt í hug að líta á happdrættismiða sem eign í ljósi einhverra misvel skilgreindra væntinga um mögulegan hagnað ef það kemur upp vinningur. Flestir gera sér grein fyrir því að fram að útdrætti er hver einasti happdrættismiði ekki meira virði en kostaði að kaupa hann, og jafnvel varla það!
Frumvarp um gengislán lagt fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Viðskipti og fjármál, Gengistrygging | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.