Efnahagsþvinganir AGS/ESB
19.7.2010 | 11:57
AGS og ESB hafa frestað viðræðum við Ungverja um endurskoðun á efnahagáætlun landsins eftir að slitnaði upp úr viðræðum um helgina. Þetta þýðir að Ungverjar hafa ekki lengur aðgang að 25 milljarða dala (lánalínu) sem þeir hafa treyst á að undanförnu og er hluti af "efnahagaðstoð" AGS/ESB.
"Sérfræðingar" spáðu því að ungverska forintan myndi hrapa þegar markaðir opni á nýjan leik í dag mánudag, sökum þess óstöðugleika sem þetta skapar. (En slíkar fullyrðingar gera það ekki eða hvað?) Slíkur spádómur er til þess fallinn að uppfylla sjálfan sig enda hefur þetta nú ræst. Slæmt fyrir ungversk heimili því mikið af lánum þeirra eru í erlendum gjaldmiðlum, eins og lesa má í frásögnum erlendra fréttamiðla. Ekki fylgir sögunni hvort lögmæti téðra lánveitinga sé jafn umdeilt og var tilfellið hér á landi, enda svosem ósennilegt að lagaumgjörð og önnur málsatvik séu sambærileg.
Engu að síður koma mörg kunnugleg stef við sögu frá sjónarhóli okkar Íslendinga sem höfum líka mátt þola slíkar tafir og keimlík vandamál í tengslum við AGS/ESB. Það athyglisverðasta við þessa fréttir eru þó sennilega eftirfarandi staðhæfingar: "AGS hefur farið með efnahagsstjórn í landinu frá því skömmu eftir að fjármálakreppan skall á af fullum þunga." ... "Að sögn Reutersfréttastofunnar vildu fulltrúar sjóðsins að gripið yrði til enn frekari aðgerða til að skera niður ríkisútgjöld. Ungversk stjórnvöld vilja þess í stað leggja sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki."
Skilaboðin frá Washington og Brüssel eru einfaldlega þessi: Ef þið dirfist að skattleggja fjármálafyrirtæki til að fjármagna endurreisn kerfisins sem þau eyðilögðu, þá fáið þið enga þjónustu hjá alþjóðlegum stofnunum auðvaldsins. Þess í stað er ætlast til að þið ráðist í stórfelldan niðurskurð í ríkisútgjöldum, þ.e. löggæslu, menntakerfi, heilbrigðis- og annari velferðarþjónustu, og fjármagnið þannig endurreisnina með almannafé.
Einhverntíma hefðu slíkar augljósar hótanir verið kallaðar sínu rétta nafni: fjárkúgun.
Gengi gjaldmiðils Ungverja lækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:22 | Facebook
Athugasemdir
Einhverntíma hefðu þjóðir þá leitað annað eftir aðstoð! Kannski að við ættum að lána þeim?
Þetta er nákvæmlega það sem AGS og ESB bjóða þjóðum þ.e. að þau leggja þeim til fé ef tryggt er að áætlun þessara þjóða leiða til að þær verði sjálfbærar og geti greitt til baka.
Bendi þér á að AGS er að lána Ungverjalandi peninga ekki gefa þeim. Og Ungverjar gangast undir áætlun sem miðaðar að því að greiða til baka lánið á ákveðnum tíma um leið og tryggt er að Ungverjaland ráði við það. Og til þess þarf að beita niðurskurði. Og Ungverjar hefðu það hvort eð er því þeir voru nærri gjaldþrota. Og því heðfu þeir þurft að skera niður enn meira ef þeir hefðu ekki fengið lán.
Allar þjóðir sem fá lánað hjá AGS þurfa að sýna fram á að þær hafi áætlun sem gangi upp. Og nú er ESB eða 27 ríki sammála AGS. Þetta er eins og hjá okkur. Við fengum ekki endurskoðun á lánum AGS nema að Norðulönd og AGS væru viss um að við værum að fara eftir áætlunum.
Enda væri það mjög vitlaust að lána ríki sem væri nánast gjaldþrota og væri ekkert að gera í sínum málum annað en að fá lánað meira.
Magnús Helgi Björgvinsson, 19.7.2010 kl. 13:33
Já, það má endalaust deila um hvort AGS sé orsök eða afleiðing fjármálavandræða þjóðríkja. Ég hallast að því að sjóðurinn sé hvorttveggja.
AGS vill hlífa fjármálafyrirtækjum við að borga til samfélagsins og ráðast frekar á grunnþjónustuna, held það sé ekki umdeilanlegt.
En skoðum aðeins betur þá hugmynd að skattleggja sig út úr vandanum og þá beina skattagleðinni að fjármálafyrirtækjum.
Það merkir að ríkið hefur hagnað af því að braskarar fitni sem allra mest!
Niðurskurður er í lagi svo lengi sem honum er beitt í rétta átt. Hvernig væri að sveifla niðurskurðarhnífnum á hinn spikfeita fjármálageira sem er að verða jafnstór og hann var fyrir hrun (á Íslandi?)
Var það ekki einmitt ein ástæðan fyrir hruninu? Allt of stór bankageiri sem snerist að mestu um að telja peninga sem voru ekki til?
Það situr alltaf í mér hvernig einhver skilgreindi hugtakið geðveiki. Það var þannig að geðveiki væri að endurtaka aftur og aftur sömu mistökin þrátt fyrir að að í hvert skipti hafi þau hörmulegar afleiðingar. Sem sagt búast við þveröfugri niðurstöðu við það sem alltaf gerist í hvert sinn.
Samkvæmt þessari skilgreiningu eiga flestir þeir sem fara með stjórn fjármála hér á landi (stjórnvöld, Seðlabanki, FME og bankarnir) heima á stofnun. Þeir hafa staðið fyrir því að fjármálageirinn er orðinn að jafn stóru skrímsli og fyrir hrun.
Theódór Norðkvist, 19.7.2010 kl. 17:35
Hvernig getur AGS verið orsök fjármálavandræða þjóða? Það er enginn skyldugur að leita til sjóðsins og það leitar engin þjóð til hans nema hún sé komin í vandræði sem hún losnar ekki úr af eigin rammleik. Og hvernig er hægt að kalla það fjárkúgun þegar lánadrottinn vill ekki lána nema með ákveðnum skilyrðum? Bankar lána ekki peninga (eða ættu ekki að gera það a.m.k.) nema nokkuð góðar líkur séu til að lánið fáist endurgreitt. Eins efast ég um að þýskir skattgreiðendur hafi mikinn áhuga á að ausa peningum í ungverska hít nema þeim sýnist að Ungverjar ætli að taka sig taki. Það kemur nefnilega alltaf að skuldadögum og þjóðir sem eyða um efni fram þurfa á endanum að herða sultarólina. Það erum við að upplifa nú og getum engum um kennt nema okkur sjálfum.
Pétur (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 21:54
Pétur, AGS er orsök að efnahagsvandræðum, ef ráðin sem þeir heimta að þjóðin fari eftir sem leitaði til sjóðsins (alveg rétt, vegna efnahagsvandræða sem hún yfirleitt kemur sér sjálf í) gera illt verra.
Alveg á sama hátt og ef læknir ráðleggur manni sem hefur leitað til hans út af kvefi út að fara í göngutúr á sundskýlunni í 10 stiga frosti. Þá er læknirinn farinn að valda því að sjúklingurinn fái meira kvef.
Síðan er ekki hægt að fullyrða að þjóðin hafi lifað um efni fram. Ákveðnir einstaklingar lifðu um efni fram, aðrir ekki.
Theódór Norðkvist, 19.7.2010 kl. 22:41
Vel mælt! Auðvita eiga Ungverjar "rétt" á ótmakmörkuðu fjármagni skilyrðislaust frá AGS og ESB. Sjórnvöld í Ungverjalandi bera enga ábyrgð frekar en stjórnvöld í Grikklandi eða Íslandi. Allt eru þetta lönd sem hafa lent í klónum á AGS og ESB vegna "fjárkúgunar" þessara stofnanna! Ekki satt?
Andri Geir Arinbjarnarson, 20.7.2010 kl. 07:53
Skilyrðin sem ESB/AGS setja Ungverjum eru: almenningur á að standa undir endurgreiðslum af skuldum ríkisins vegna fjármálakreppunnar, en ekki fjármálafyrirtækin sem orsökuðu hana.
Valda kreppuráðstafanir ESB og AGS enn meiri samdrætti og miklu verri?
Segjum sem svo að þú værir að vinna í sæmilegu starfi á mannsæmandi launum, en svo vegna bankahruns hækka skuldir þína skarplega. Þú leitar til bankans um lausnir svo þú getir áfram staðið undir afborgunum, en bankinn segir bara nei, þú skalt borga í topp fyrir mistökin okkar. Þú ákveður þá að leita til alþjóðlegs banka sem samþykkir að veita þeir fyrirgreiðslu til að mæta þessum nýja vanda tímabundið. Eftir að hann hefur greitt út hluta af lánsfénu þá segir hann við þig: í stað þess að fjármagna endurgreiðslu með tekjum af núverandi starfi verður þú að gjöra svo vel og skipta um starf og fá þér vinnu við skúringar, annars riftum við samningnum. En á helmingi lægri launum gætirðu augljóslega aldrei endurgreitt nein af þínum lánum, hvað þá lifað mannsæmandi lífi, heldur yrðirðu sveltandi skuldaþræll um ókomna framtíð. Bankakerfið sem setti þjóðfélagið á hliðina mun hinsvegar innheimta stökkbreyttar skuldir þínar að fullu eða að öðrum kosti gera eignir þínar upptækar. Myndirðu fara viljugur að þessum skilmálum bankans?
Auðvitað er það ekki þessum alþjóðlega banka að kenna hvernig fyrir þér og þjóð þinni er komið, en er hann að bjóða þér upp á eitthvað sem mun raunverulega hjálpa, eða er hann bara að gera illt verra með því að standa vörð um hagsmuni "fjármálasnillinga" á kostnað almennings? Spurningunni um hvort AGS sé um að kenna er líklega best svarað þannig: Já og Nei. Vissulega kemur sjóðurinn ekki að málum fyrr en allt stefnir í óefni, og það er ekki honum að kenna þó fjármál fullvalda ríkis fari úr skorðum til að byrja með. Hinsvegar má deila um það hvort ríki sé fullvalda þegar yfirþjóðlegt vald eins og ESB/AGS er með afskipti af innanríkismálum. Allavega virðast lausnirnar sem þessir aðilar bjóða flestar vera óhagkvæmar til lengri tíma litið, og fela gjarnan í sér talsverða skerðingu fullveldis.
Þjóðríki sem er upp á náð og miskunn alþjóðlega fjármálakerfisins komið, er ekki fullvalda samkvæmt skilgreiningu hugtaksins, heldur meira í líkingu við takmarkað sjálfsstjórnarsvæði undir erlendum yfirráðum.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2010 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.