Nótulaus viðskipti án starfsleyfis

Ég vek athygli á afar merkilegri grein eftir Þórdísi Björk Sigurþórsdóttur sem birtist á vefmiðlinum Svipunni:

Svo virðist sem óreiðan í starfsemi kaupleigu- og fjármögnunarfyrirtækja hafi verið allt að því botnlaus, en eins og áður hefur komið fram bæði hér og víðar á blogginu virðist starfsemin hafa verið meira og minna í trássi við gildandi lög og reglur, svo jaðrar við skipulagða glæpastarfsemi. Í greininni kemur fram að svo virðist sem að í bókhald bæði Avant og SP-Fjármögnunar vanti  reikninga vegna virðisaukaskatts sem fyrirtækjunum er skylt að gefa út fyrir bifreiðar sem þau hafa keypt nýjar og/eða ónotaðar af bílaumboðum og selt áfram til viðskiptavina sinna gegn kaupleigusamningum. Við fyrstu sýn hlýtur þetta að kalla á nánari skoðun skattyfirvalda, því samkvæmt skattalögum er söluaðila nýrra bifreiða skylt að gefa út slíka reikninga vegna uppgjörs á virðisaukaskatti. Það væri nú eftir öllu ef í ljós kæmi að umrædd fyrirtæki hafi ekki einu sinni staðið í skilum með vaskinn!

Þess er skemmst að minnast þegar komst í hámæli að svo virðist sem eitt þessara fyrirtækja hafi skorið sig sérstaklega úr hvað varðar glæpsemi, en samkvæmt upplýsingum frá Fjármáleftirlitinu virðist sem SP-Fjármögnun hafi a.m.k. frá ársbyrjun 2007 hvorki haft heimild til viðskipta með gjaldeyri, né heldur gengistryggð verðbréf. Því hlýtur maður að spyrja sig hvaða heimild fyrirtækið hafði til að gefa út gengistryggða bílasamninga sem taka mið af erlendum gjaldmiðlum? Einnig má benda á að starfsleyfi Frjálsa Fjárfestingarbankans virðist eingöngu heimila gjaldeyris- og gengistryggð viðskipti fyrir eigin reikning, en ekki fyrir hönd viðskiptavina bankans. Hvaða þýðingu það hefur fyrir réttarstöðu lántakenda veit ég ekki, en það er eflaust eitthvað sem ber líka að skoða nánar. Gögnin sem ég vísa til voru þangað til nýlega aðgengileg í skjalavistunarkefi Fjármálaeftirlitsins á eftirfarandi tenglum, en virðast nú hafa verið fjarlægð ásamt fréttum á vefsíðu FME sem vísa í þau:

Frétt um útgáfu eins þessara yfirlita yfir starfsleyfi fjármálafyrirtækja var fjarlægð af vef FME skömmu eftir að undirritaður óskaði eftir afriti af einu þessara skjala sem fréttin vísaði á. Í vefsafni Internet Archive WayBack Machine má hinsvegar finna afrit af fréttinni sem tekið var áður en hún var fjarlægð. Með öðrum orðum þá eru hér fram komin óyggjandi sönnunargögn fyrir feluleik Fjármálaeftirlitsins, sem hefur fyrir löngu síðan verið tilkynnt um þetta með formlegum hætti en ekkert aðhafst til að grípa inn í  harkalega innheimtu þessara ólögmætu samninga. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvað er verið að reyna að fela? Afrit af tölvupóstsamskiptum við stofnunina sýna glöggt hverskonar undanbrögð eru þar á ferðinni, og mun þeim verða komið á framfæri við rétta aðila eftir atvikum. Í viðleitni minni til að upplýsa um þessi mál læt ég umrædd yfirlit fylgja með sem viðhengi á þessa grein, þannig að hver sem vill geti lesið þau og tekið sjálfstæða og upplýsta afstöðu til þess hvort það sé einhver ástæða fyrir FME að leyna þessum gögnum. Einnig fylgir eftirrit af starfsleyfisbréfi SP-Fjármögnunar frá 10. mars 1995, undirritað af Sighvati Björgvinssyni viðskiptaráðherra og Finni Ingólfssyni sem þá var skrifstofustjóri ráðuneytisins, en skjal þetta hefur að undanförnu verið til sýnis í afgreiðslu fyrirtækisins að Sigtúni 42 í Reykjavík.

Sigtún 42

P.S. Í grein Þórdísar er gert ráð fyrir að í kaupleiguviðskiptum teljist fjármögnunarfyrirtækið vera söluaðili gagnvart neytandanum. Reynist þetta rétt þá væri vert að skoða næst hvort þessi fyrirtæki glæpasamtök höfðu heimild til að starfrækja bílasölu, sem vel að merkja er leyfisskyld starfsemi!

Mig grunar að ferðalaginu niður þessa kanínuholu sé hvergi nærri lokið...


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Athyglisverð lesning. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.5.2010 kl. 01:34

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þetta er mögnuð lesning. Er Ísland eitt allsherjar spilavíti. Er hægt að treysta einhverjum lengur. Takk fyrir greinina.

Finnur Bárðarson, 15.5.2010 kl. 18:00

3 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Gott hjá þér að vekja athygli á þessu. Það er greinilega verið að reyna að fela ýmislegt.

Svo má benda á nótulaus viðskipti símafyrtækja með áfyllingu á símakort á netinu. Hvert fara þeir peningar sem þar skipta um hendur og er gerð grein fyrir vsk og fleiru slíku....?

Ómar Bjarki Smárason, 16.5.2010 kl. 11:23

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Guðmundur, ein ábending....Starfsleyfisbréf SP er undirritað af þáverandi viðskiptaráðherra, Sighvati Björgvinssyni og Finni Sveinbjörnssyni, sem þá var skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu. Finnur Ingólfsson tók ekki við sem viðskiptaráðherra fyrr en 23. apríl 1995.

Erlingur Alfreð Jónsson, 16.5.2010 kl. 11:23

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kærar þakkir fyrir þessa leiðréttingu Erlingur, uppbyggilegar athugasemdir eru alltaf vel þegnar. Mér til varnar þá var ég á þessum tíma rétt að komast á bílprófsaldurinn og fylgdist þá ekki eins vel með þjóðmálum og núna. Svo eru undirskriftirnar það ógreinilegar á eftirmyndinni að ég þekkti bara undirskrift Finns, en gerði ráð fyrir að hin væri fyrir hönd SP Fjármögnunar. Þessi villa hefur hér með verið leiðrétt í textanum.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.5.2010 kl. 19:29

6 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Takk fyrir. Að taka þetta saman og halda þessu til haga... Flottur.

Vilhjálmur Árnason, 17.5.2010 kl. 00:41

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég þakka jákvæðar undirtektir, en það er nú ekki bara af óeigingjörnum hvötum sem ég er að vekja athygli á þessu. Það er líklega rétt að fram komi að ég á nokkurra hagsmuna að gæta, en þó fyrst og fremst sem almennur neytandi eins og svo fjölmargir aðrir Íslendingar.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.5.2010 kl. 12:53

8 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ég heyrði fyrir nokkrum dögum sögu af því að maður sem átti í viðskiptum við eitt af þessum fyrirtækjum þar sem hann setti eldra tæki upp í nýrra frá fjármögnunarfyrirtæki og staðgreiddi mismuninn. Eftir að hafa samið um viðskiptin fór hann á staðinn til að skipta á tækjum og gera upp. Þá var hann beðinn um að samþykkja að upp yrði gefið lægra söluverð en samið hafði verið um og á móti yrði gamla tækið tekið á lægra verði en mismunur til greiðslu yrði sá sem samið var um. Ekki veit ég hvað bjó þarna að baki, eitthvað er þetta nú skrítið. Tvennt er það sem manni dettur í hug, annað er skattalegt hagræði af að hagræða tölunum, hitt er að fjármögnunarfyrirtækið hafi ætlað að svína eitthvað á fyrra eiganda tækisins sem þeir voru að selja.

Hvað sem þessu líður þá treystir enginn þessum fyrirtækjum lengur.

Jón Pétur Líndal, 18.5.2010 kl. 22:03

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Pétur, þetta kemur svosem ekki á óvart miðað við margt sem maður hefur heyrt. Ég ætla ekki að fullyrða neitt, þetta eru bara vangaveltur, en ef starfsmenn fyrirtækis eru að véla um lægra verð en eðlilegt getur talist, þá eru þeir væntanlega ekki að "hámarka virði eigna" fyrirtækisins. Það getur varla talist eðlilegt og er örugglega brot á einhverjum reglum eða starfsskyldum fjármálafyrirtækja. Ef það er hlutafélag og verður fyrir tjóni af gjörningnum þá er það brot en af hálfu viðkomandi starfsmanna eingöngu. Ef hinsvegar er verið að búa til verð á þinglýstan kaupsamning sem er úr lausu lofti gripið, þá er alveg spurning hvort það telst ekki markaðsmisnotkun því slíkir samningar eru lagðir til grundvallar viðmiðunarverðskrám og hafa þannig verðmyndandi áhrif alveg eins og gerist á hlutabréfamarkaði. Auk þess kann slíkt að hafa áhrif á rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja sem eru með útistandandi lán sín veðtryggð í ökutækjum á þessum sama markaði. Ef svona ógegnsæ og furðuleg vinnubrögð viðgangast ennþá virðist vera full þörf á "eftir-hruns" rannsóknarnefnd eins og lagt hefur verið til.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2010 kl. 07:08

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

NÝTT: Svipan segir frá því að bílalánafyrirtækin skipta um kennitölur

Guðmundur Ásgeirsson, 22.5.2010 kl. 22:02

11 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll aftur, ég ætla nú ekki að pönkast í þér með þetta en það er enn smá villa í textanum. Það er alveg rétta að undirskriftirnar eru ógreinilegar og ég varð að fara um vefinn til að staðfesta um hverja væri að ræða. Undirskriftin á starfsleyfinu er sem sagt Finns Sveinbjörnssonar fráfarandi bankastjóra Arion banka, ekki Finns Ingólfssonar eins og þú segir. :-) Mér finnst ekki mikið til hvors Finnsins koma en höfum það sem sannara reynist.

Erlingur Alfreð Jónsson, 23.5.2010 kl. 17:22

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Erlingur, við nánari skoðun sýnist mér að þetta kunni að vera rétt hjá þér. En var Finnur Sveinbjörnsson þá starfandi í viðskiptaráðuneytinu eða hvað? Mér finnst reyndar aukaatriði hver skrifaði undir plaggið, aðalatriðið fyrir mig er að svo virðist sem leyfið nái ekki yfir gengistryggð viðskipti.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.5.2010 kl. 17:36

13 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Já hann var þá í viðskiptaráðuneytinu, ég veit ekki hve lengi samt. Hann var líka í Iðnaðarráðuneytinu í kringum 1991. Svo hef ég séð nafnið hans undir reglugerðum líka, m.a. REGLUGERÐ um neytendalán nr. 377-1993.

Svo er vísað til veru hans sem skrifstofstjóra hér: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=204709

Erlingur Alfreð Jónsson, 23.5.2010 kl. 23:33

14 Smámynd: ThoR-E

Ótrúleg lesning.

Góð samantekt hjá þér Guðmundur.

ThoR-E, 3.6.2010 kl. 12:33

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Uppfært: Svo virðist sem tenglarnir á ofangreind skjöl hafi aðeins verið tímabundið gerðir óvirkir, þau eru a.m.k. aðgengileg núna beint frá FME. Hinsvegar er upprunalega fréttin sem kom okkur á sporið, ennþá merkt í vefkerfi stofnunarinnar eins og birtingartíminn sé útrunninn og hún er því ekki sjáanleg á vefsíðunni.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.6.2010 kl. 23:32

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

V'IÐBÓT: Eftir ábendingu mína til Gylfa Magnússonar á borgarafundi í lok júní þá virðist umrædd frétt sem áður hafði verið fjarlægð af vef FME, hafa verið sett aftur í birtingu. Hinsvegar virðast vera einhverjir hnökrar á skjalavistunarkerfi vefsins því það er happa og glappa hvort hægt er að nálgast skjölin sem fréttin vísar í. Miðað við það sem á undan er gengið kæmi mér ekkert á óvart ef FME ætli svo að láta sem ekkert sé, og halda því fram að ekkert hafi verið gert til að reyna að hylma yfir þetta hjá stofnuninni. Þetta er svona hegðun eins og hjá litlum krakka sem er búinn að kúka á sig og mamma kemur að honum með allt niður um sig en samt neitar krakkinn að viðurkenna að nokkuð sé að.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.7.2010 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband