Sveitarfélög eða fjárfestingarfélög?

Bæjar- og sveitarstjórnir í Bretlandi eru æfar að reiði vegna hruns íslensku bankana sem þýðir að þær fái einungis brot af þeim fjármunum sem þær áttu inni á reikningum sínum.

Mikilvægustu spurningunni hefur alveg verið ósvarað í þessu máli: peningum hverra voru bresk sveitarfélög að moka inn á útlenska bankareikninga í stórum stíl og til hvers? Að þeirra eigin sögn var um tilfinnanlega háar fjárhæðir að ræða sem var augljóslega ekki verið að nýta í rekstri viðkomandi sveitarfélaga, því hávaxtareikningarnir voru sparireikningar en ekki veltureikningar.

Nú hef ég lengst af staðið í þeirri meiningu að markmið með rekstri sveitarfélaga væri samfélagslegur en ekki fjárhagslegur ávinningur. Sjálfur hef ég komið nálægt ýmsum félagsstörfum og séð um rekstur húsfélags líka sem er ekkert ósvipað og örlítið sveitarfélag þó vissulega sé það einföldun. Mín reynsla af slíku er sú að það er yfirleitt skortur á peningum sem er vandamál frekar en að það sé svo mikill afgangur að það skipti yfirhöfuð máli á hvernig reikningi hann liggur. Ennþá síður að það taki því að færa peningana í útlenskan banka, bara til þess að fá vexti sem eru broti úr prósentu hærri. Auk þess þykir mér það ekki ábyrg fjármálastjórnun að flytja almannafé út úr lögsögu heimalandsins, og geti hæglega talist vafasöm vinnubrögð í opinberum rekstri.

Svona rekstur er ekki flókinn í grunninn: þú hefur tekjur í formi gjalda sem eru lögð á félagsmenn/íbúa, og svo útgjöld vegna þeirrar þjónustu sem félagið veitir á móti eða starfsemi sem það heldur úti í þágu félagsmanna. Venjulega er það þannig að ef allt gengur upp duga tekjur fyrir gjöldum án þess að lenda í mínus, og ánægjuefni ef það er smá afgangur. Ef hinsvegar miklir peningabunkar eru að safnast upp hjá félaginu geta aðeins verið tvær skýringar á því: annaðhvort er félagið að innheimta allt of há gjöld fyrir þá þjónustu sem það veitir, eða það veitir ekki fulla þjónustu miðað við rekstraráætlun. Hvort sem er, þá eru það félagsmennirnir/íbúarnir sem eru hlunnfarnir því þeir fá ekki peninga sinna virði í formi þjónustu frá félaginu. Tilgangur svona félagslegs rekstrar á alls ekki að vera sá að safna peningum, það er hlutverk einkafyrirtækja og hver sem vill getur fjárfest í þeim fyrir eigið fé.

Því ítreka ég spurninguna: Afhverju voru bresk sveitarfélög eiginlega að beina fúlgum fjár inn á útlenska bankareikninga í stað þess að nýta þá til að veita íbúum sínum betri þjónustu?


mbl.is Hrunið á Íslandi skiptir miklu fyrir bresk sveitarfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Góð athugasemd.Annað atriði ég hélt að svona reikningar hefðu átt  að vera fyrir einstaklinga en ekki félög. ég heyrði það útundan mér en  því lítið verið haldið á lofti.

Hörður Halldórsson, 23.2.2010 kl. 12:58

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessar ákveðnu inneignir voru a.m.k. undanþegnar innstæðutryggingum, líklega einmitt vegna þess að um "heildsöluviðskipti" var að ræða en ekki einstaklingsþjónustu.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2010 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband