Hnattræna hlýnunarkenningin

Ég birti hér viðtal tekið af Christopher Monckton en hann er breskur aðalsmaður, hugvitsmaður, og fyrrum ráðgjafi hjá Margaret Thatcher. Hann fellur tvímælalaust í flokk efasemdarmanna um hnattræna hlýnun, en viðmælandinn er kona sem mótmælir hnattrænni hlýnun í nafni Grænfriðunga. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki farið yfir allar staðreyndir sem koma fram hjá Monckton en hann virkar allavega mjög sannfærandi þegar hann rekur garnirnar úr konugreyinu.

Til að gæta jafnvægis er svo hérna smá brot sem sýnir að þrátt fyrir allt eru jöklarnir á yfirborði jarðarinnar að taka ansi hröðum breytingum. Menn greinir á um hvort þær séu meiri en dæmi eru um fyrir tíma iðnbyltingarinnar, en eftir að hafa ferðast víða um Ísland og skoðað ummerki eftir gríðarlegar hamfarir jarðsögunnar leyfi ég mér að efast um að það sem er að gerast núna sé eitthvað einstakt að stærðargráðu. Jöklarnir eru að nálgast það sem þeir voru minnstir á síðustu öld, og hvað með það ... eftir tíu ár gæti verið skollin á ísöld t.d. ef það yrði óvenjustórt eldgos einhversstaðar á jörðinni.

P.S. Ég hef mína eigin tilgátu um hvað veldur ólgunni á heimskautaísnum. Það er ekki fyrirbærið "hnattræn hlýnun af völdum koltvísýrings" og því síður af mannavöldum, í rauninni sýna mælingar (þ.e. ófalsaðar) að hitastigið í lofthjúpnum hefur ekkert verið að hækka mjög skarpt undanfarið. Hinsvegar mætti taka með í reikninginn þá virkni sem á sér stað undir yfirborði jarðar, og ekki síður sjávar. Getur verið að jörðin sé hreinlega að hitna innan frá, og að hlýnun sjávar með tilheyrandi ísbráð sé til komin vegna aukinna neðansjávareldgosa? Hlýnandi sjór getur svo haft mikil áhrif á veðurkerfi og raskað jafnvægi þeirra, gleymum ekki að veðrið samanstendur aðallega af tvennu: úrkomu sem er uppgufun frá sjónum og vindi sem orsakast af hitabreytingum á yfirborði jarðar sem er að meirihluta sjór. Auk þess leiðir vatn miklu betur hita en berglög þurrlendisins. Til þess að fá svör við þessum spurningum er gagnslaust að spyrja loftslagsvísindamenn þar sem þetta er einfaldlega ekki þeirra svið, heldur þurfum við að leita til jarðfræðinga. En ef þetta skyldi vera málið þá er líka spurningin hvað geti valdið því að jörðin hitni innan frá? Þar sem sama ferli er að eiga sér stað á sama tíma, ekki bara hér á jörðinni heldur er hnattræn hlýnun samtímis á öllum hinum plánetunum, þá grunar mig að svarið sé að finna utan okkar sólkerfis. Það vantar bara að láta stjörnufræðinga, eðlisfræðinga, jarðvísindamenn og veðurfræðinga tala saman til að fá botn í þetta. Og vinsamlegast ekki taka mig of alvarlega hérna, þetta er bara tilgáta sem mér finnst forvitnileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það var athyglisvert að sjá þetta viðtal en mér finnst Lordinn þó vera full hrokafullur þarna í þessu viðtali og skellir fram vafasömum fullyrðingum sem aumingja konan á erfitt með að snúa sér út úr.
Í sambandi við hita jarðar þá velur hann síðustu 9 ár og segir að það hafi ekki hlýnað á því tímabili heldur kólnað. Af hverju velur hann endilega síðustu 9 ár? Línurit yfir hitann skv. gervitunglum má finna hér: http://www.junkscience.com/MSU_Temps/UAHMSUglobe.html 

Ætli Lordinn viti af þeim hitatoppi sem hefur verið undanfarið. T.d. var síðasti mánuður, hlýjasti nóvember sem mælst hefur samkvæmt þessum gögnum.

Svo talar hann um að heildarhafísmagn jarðar hafi ekkert minnkað að ráði. og vísar í þessa síðu: http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/

Þar kemur fram mikil minnkun á hafísnum á norður-íshafi og þá sérstaklega að sumarlagi, en lítilsháttar aukning á suðurhveli, en þó ekki nærri eins mikil breyting á verið hefur á norðurhveli. Heildarhafísmagn jarðar hefur allavega farið minnkandi síðustu 30 ár en er ekki alltaf áberandi á svona línuritum því að Norðuríshafið mettast alltaf af hafís yfir veturinn og mun gera það áfram þótt mikil minnkun verði í útbreiðslu sumaríssins.

Það sem Lordinn segir um fellibylji getur þó alveg staðst mín vegna. 

Kenningu þína um hitnun innanfrá hef ég satt að segja ekki mikla trú á, en ég er frekar á því að innstreymi af hlýjum sjó valdi mestu um bráðnun á Norður-Íshafi. Almenn hlýnun jarðar síðustu 30 árin ætti þó líka að skipta máli.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.12.2009 kl. 17:19

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Viðbót: Vegna þeirrar tilgátu sem fram kemur í niðurlagi pistilsins vil ég benda rannsóknarskýrslu sem var verið að gefa út og ég rakst á fyrir algjöra tilviljun. Skýrslan ber heitið Galactic Tide eftir stjarneðlisfræðing að nafni J. Klacka, og fjallar hún um þyngdaráhrif Vetrarbrautarinnar á hluti innan hennar. Flestir kannast við þau áhrif sem gætir á jörðinni vegna þyngdarafls Tunglsins þ.e. sjávarföllin, en hérna erum við að tala um samskonar krafta miklu lengra utan úr geimnum. Klacka kemst í stuttu máli að þeirri niðurstöðu að þetta séu nógu sterkir kraftar til að hafa áhrif á sporbrautir halastjarna og hafi þannig spilað hlutverk í sköpun sólkerfisins okkar. Í ljósi þess hversu mikilvæg sjávarföllin og halastjörnur eru talin hafa verið fyrir þróun lífs hér á jörðinni er ekki langsótt að ætla að þyngdarsvið Vetrarbrautarinnar hafi líka spilað inn í það ferli. Þarna erum við semsagt að tala um krafta utan úr geimnum sem gætu haft umtalsverð áhrif á jörðinni. Hvort og hvernig slíkra áhrifa kunni að gæta undir yfirborði jarðar og í lofthjúpnum held ég að séu spurningar sem hin svokölluðu loftslagsvísindi hafa hingað til ekki einu sinni reynt að svara. Í ljósi þessara nýjustu uppgötvana stjarneðlisfræðinnar er þó ljóst að slíkar spurningar eiga fullan rétt á sér, og að breytingar verða ekki bara vegna innri atburða í lokuðum kerfum heldur oft vegna ytri áhrifa líka og að heimurinn sem við lifum í er ekki lokaður heldur eitt stórt opið kerfi.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.12.2009 kl. 17:32

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir athugasemdirnar Emil. Kenningin um hitnun innan frá er reyndar ekki mín uppfinning en mér þykir hún forvitnileg og verðskuldi að minnsta kosti a vera athuguð nánar. Líklegast þykir mér þó að hitabreytingar og sveiflur í veðurfari eigi sér sér stað vegna samspils margra ólíkra þátta, og hvort sem athafnir okkar mannana séu hluti af því eða ekki þá hef ég samt enga trú á því að við séum afgerandi í því samhengi. Það væri svona svipað og ef við hefðum maurabú (samlíking við jörðina) með stóran hitablásara við hliðina (samlíking við sólina) og héldum því svo fram að hitastig í búinu réðist eingöngu af athöfnum mauranna. Almenn skynsemi segir mér að það geti einfaldlega ekki passað, hvort sem er svo rétt ályktun eða ekki.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.12.2009 kl. 17:41

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Guðmundur,

Ég vissi ekki að það væru einhverjar falsaðar tölur frá þessum tug þúsunda veðurstöðva sem eru út um allan heim, svo ég er svolítið hissa á því að þú hefur "ófalsaðar" tölur um hitastig jarðar.  Ef þær koma ekki frá þessum veðurstöðvum sem eru notaðar í upplýsingaöflun um hitastig og frávik frá meðaltalinu, þá veit ég ekki hvernig þær geta verið ófalsaðar;)  Frá mínum bæjardyrum séð eru þetta ekkert sérlega flókin gögn og ætti að vera auðvelt að sjá hvert stefnir, eins og gerð hefur verið grein fyrir af vísindamönnum undanfarna áratugi.  Neðansjávareldgos ættu að vera aðveldlega kortlögð (og eru það sjálfsagt) með jarðskjálftamælingum sem gerðar eru út um allan heim.  Ég hef ekki heyrt eða séð neitt sem bendir til að jarðvísindamenn (sem einnig vinna við loftslagsmál þar sem upplýsingar þeirra um lofthjúp jarðar fyrir tugum og hundruðum milljóna ára eru nánast einu upplýsingarnar sem við höfum þegar sleppir ísborkjörnum frá Grænlandi og Suðurskautslandinu) hafi séð aukningu í neðansjávareldgosum, né heldur eldgosum á landi eða neinu því sem bendir til að jörðin sé að hitna innanfrá.  Hinsvegar bendir mjög margt til þess að hún sé að hitna utanfrá. 

Ég hef aldrei skilið af hverju menn eru svona upp á móti því að CO2 breyti hitastigi.  CO2 er gróðurhúsagas og var viðurkennt sem slíkt löngu áður en mönnum datt í hug að losun CO2 gæti verið næg til að hafa áhrif á hitastig.  Ef við skoðum Venus þar sem öfgarnar eru allar á einn veginn og andrúmsloftið er 97% CO2, þá eru áhrif CO2 algjörlega augljós þar sem yfirborðshiti þar er um 470°C sem er hærri en meðalhiti á Merkúr sem er meira en tvisar sinnum fjær sólinni.  Áhrif CO2 fara ekki á milli mála og aukning CO2 í lofthjúpi jarðar fer heldur ekki á milli mála, svo ég hef aldrei skilið þessar röksemdafærslur að 2+2=5;)

CO2 er langt því frá eina gastegundin sem er gróðurhúsagas.  Metan (CH4)er margfalt öflugri gróðurhúsagas heldur en CO2 og hefur aukist um 145% frá upphafi iðnbyltingar samanborið við um 30% af CO2.  Frá 1980 hefur metan aukist frá um 1550 ppm upp í um 1700 ppm árið 1996 og um 1840 ppm árið 2008 (1865 skv. mælingum á Írlandi, 1741 skv. mælingum í Tasmaníu við Ástralíu).  Þessi aukingin samsvarar 0,47 W/m2 aukningu í geislun á yfirborð jarðar (e. enhanced radiation to the ground).  Samkvæmt ískjörnum þá var CH4 um 700ppm árið 1750.

NiturOxíð (N2O) er líka öflugt gas sem einnig hefur farið hækkandi úr um 330ppb um 1980 upp í um 313 ppb (parts per billion) og þessi aukning veldur um 0,14 W/m2 aukningu.  Árið 2008 var N2O komið í um 330 ppb og skv. ískjörnum var það um 270 ppb árið 1750. 

Bara svona til hugleiðingar:)

Kveðja frá Port Angeles,

Arnór Baldvinsson, 19.12.2009 kl. 17:46

5 identicon

Hvaða endemis rugl er þetta í þér að hlýnun sé í gangi á öðrum reikistjörnum einnig? Veistu yfirleitt eitthvað um jarðvísindi eða náttúrufræði?? Hvernig væri að halda sig við staðreyndir í stað hugarburðar og vanþekkingar?

Vilhelm (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 18:19

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Arnór: Takk fyrir efnismikið innlegg. Þú hefur greinilega pælt mikið í þessu og það er gott að fá ólík sjónarhorn. Þú ert greinilega fylgjandi kenningunni um hlýnun af mannavöldum fyrir tilstilli koltvísýringsútblásturs. Ég er hinsvegar í flokki efasemdarmanna (sem er ekki það sama og afneitun!) en eins og fram kemur í athugasemdum mínum þá tel ég að þetta hljóti að skýrast af samspili margra ólíkra þátta, og þó mannana verk kunni að hafa einhver áhrif þá hljóti þau a.m.k. að vera hluti af stærri heildarmynd. Kannski væri löngu komin ísöld ef við værum ekki stöðugt að blása út koltvísýringi, ég bara veit það ekki og vísindin eru að mínu mati ekki nógu nákvæm (ennþá) til að taka af allan vafa um það. Kannski á annað eftir að koma í ljós seinna og þá er ég alveg tilbúinn að viðurkenna ef ég hef rangt fyrir mér.

Vilhelm: Megnið af því sem ég set fram hérna ætti að vera augljóst að eru vangaveltur. Ég tek það meira að segja fram í niðurlaginu að ekki megi taka þessar pælingar mínar of hátíðlega. Ég veit ýmislegt um jarðvísindi og náttúrufræði en er þó alls enginn sérfræðingur á þeim sviðum. Þú bendir mér á að halda mig við staðreyndir, sem er gott og blessað þegar einhverjar staðreyndir liggja fyrir. Svo er hinsvegar ekki í þessu tilviki þar sem um er að ræða kenningar en ekki staðrendir, og ný þekking verður ekki til öðruvísi en með ímyndunaraflinu. Nærtækast er að benda á að þegar Einstein setti fram afstæðiskenningu sína var hún hreinræktaður "hugarburður" sem vildi svo heppilega til að passaði við fyrirliggjandi staðreyndir, en það var svo ekki fyrr en löngu seinna sem rannsóknir leiddu í ljós að líklega stæðist kenningin. Um svipað leyti koma fram önnur kenning, skammtakenningin, sem Einstein neitaði að samþykkja. Skammtafræðinni ber ekki saman við afstæðiskenninguna en þrátt fyrir það eru á hverjum degi í þróuðum samfélögum notaðar uppfinningar sem byggja á hvorri kenningu fyrir sig, með prýðilegum árangri.

Ef við myndum byggja allar okkar hugsanir eingöngu á áður þekktum staðreyndum, þá yrðu ekki miklar framfarir í vísindum og við myndum kannski ennþá trúa því að jörðin væri flöt. Þó að meirihlutinn haldi eitthvað er ekki þar með sagt að það sé staðreynd og því er óviðeigandi að tala um "vanþekkingu" þó svo fólk hafi ólíkar skoðanir á því hvað sé rétt eða rangt. Athugið að svokölluð "loftslagsvísindi" eru meðal yngstu vísindagreina og niðurstöðurnar hingað til eru í besta falli umdeilanlegar og langt frá því að vera sannaðar. Eðlisfræðin er hinsvegar dæmi um vísindagrein sem er miklu eldri en samt eru sumar af mikilvægustu kenningunum ennþá langt frá því að vera fullsannaðar þó vísindamenn séu nokkuð vissir um ágæti þeirra.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.12.2009 kl. 17:34

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Guðmundur Ásgeirsson, 20.12.2009 kl. 17:42

8 identicon

Lordinn er frábær karakter og ætti að opna augu þeirra sem sjá viðtalið.  En því miður, þá sést það vel á myndbandinu - fólk hefur ekki bein í nefinu til að komast að eigin niðurstöðu, það fer með vísindin eins og trúarbrögð og fylgir nýjum prestum, pólitíkusum, Gorum og Grínpísum.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband