Býð 20% af kostnaðaráætlun í verkið
24.9.2009 | 17:09
Utanríkisráðuneytið segir í svari við við fyrirspurn Bændasamtakanna að það hafi ekki í hyggju að láta þýða spurningalista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á íslensku, og ber m.a. fyrir sig kostnaði sem ráðuneytið áætlar að sé um 10 milljónir króna og verkið taki 2-3 mánuði að vinna. Samkvæmt mínum útreikningum gerir þetta u.þ.b. 5-8 bls. á dag miðað við að unnið sé á virkum dögum, eða innan við eina blaðsíðu á klukkustund sé miðað við 8 tíma vinnudag og kostnaðurinn 30 þús.kr./bls. eða 20-30 þús.kr./klst.
Af þessu tilefni býðst ég hér með formlega til að taka að mér að þýða þennan spurningalista fyrir aðeins 5.800 kr./bls. sem gerir samtals um 2 milljónir króna eða einungis 20% af kostnaðaráætlun. Eina skilyrðið sem ég set er sveigjanlegur skilafrestur, ég tel hinsvegar að efri mörkin þ.e. 3 mánuðir sé nálægt því að vera raunhæft en þá yrði verkinu skilað um næstu áramót. Það gerir rúmlega 5 bls. á dag og 3.890 kr. í tímakaup miðað við áðurnefndar forsendur. Ef einhver í utanríkisráðuneytinu eða hjá Bændasamtökunum hefur áhuga á að skoða þetta tilboð mitt nánar þá er hægt að ná í mig hér á blogginu og ég er líka í símaskránni.
Áfram Ísland!
Spurningalisti ESB ekki þýddur á íslensku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég vona að stjórnin sjái sóma sinn í því að láta þýða allann spurningalistann og líka svörin, vonandi ráða þau þig ef það er svona ódýrt. Það er grundvallaratriði að allur spurningalistinn og svörin verið aðgengileg á íslensku fyrir okkur Íslendinga.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.9.2009 kl. 01:22
Sem skattgreiðandi og almennur borgari þessa lands tek ég þessu frábæra tilboði þínu, a.m.k. fyrir mína blaðsíðu.
Júlíus Valsson, 25.9.2009 kl. 09:19
Ég þakka undirtektirnar.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.9.2009 kl. 10:00
Tók eftir því að við vorum að pósta sama verðtilboði nánast samtímis. malbein.net er síðan búinn að leggja fram sama verð.
Tilboðunum verður ekki tekið, en við vöktum a.m.k. athygli á firringu ráðuneytisins - sem vitanlega vill ekkert láta þýða þetta yfir á íslensku.
Sú þýðing myndi nefnilega vekja upp spurningar um svörin.
Þórdís Bachmann (IP-tala skráð) 27.9.2009 kl. 16:42
Þórdís, það var nákvæmlega tilgangurinn með þessari færslu, að vekja athygli á fáránleika þess að halda því fram að ekki sé hægt að þýða þetta vegna þess að það sé of dýrt og tímafrekt, sem er að sjálfsögðu bara eins og hver annar fyrirsláttur.
Guðmundur Ásgeirsson, 27.9.2009 kl. 16:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.