Eva Joly sammála 9 mánaða gömlu bofsi
13.9.2009 | 14:10
Í desember síðastliðnum skrifaði ég bofs um fyrirbæri sem kallast Ponzi-svindl, í tengslum við frétt af máli fjársvikarans Bernards Madoff, og líkti svikum hans við erlenda innlánasöfnun íslensku bankanna í aðdraganda hrunsins. Nú hefur kjarnakonan Eva Joly sett fram svipaða samlíkingu eins og þá sem ég setti fram fyrir níu mánuðum síðan. Þessi greining mín varð ekki tilefni til frekari umfjöllunar í fjölmiðlum á sínum tíma en nú þegar Eva segir þetta þá er samlíkingin höfð eftir henni í fyrirsögnum á öllum helstu netmiðlum landsins. Það er greinilega ekki sama hvort er, Jón eða Séra Jón, og augljóst að enginn verður spámaður í sínu heimalandi. Til upprifjunar þá birtist hér á eftir megininnihaldið úr áðurnefndum pistli mínum.
--- bofs 15.12.2008
Ég las að gamni um þetta fyrirbæri sem kallast Ponzi Scheme, en það er ákveðin tegund af fjársvikum. Svindlið gengur út á að safna sífellt meiri innlánum til að standa undir útgreiðslum til annara innlánseigenda eftir að binditíma fyrri fjárfestinga þeirra lýkur. Gjarnan er lofað stuttum binditíma og himinháum vöxtum, sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum því engin verðmætasköpun á sér í raun stað. Rétt eins og í pýramídasvindli er eingöngu verið að færa (sífellt meiri) peninga úr vösum auðtrúa fjárfesta yfir í vasa annara fjárfesta. Þegar hægir á vexti innlána, t.d. þegar markaðurinn er orðinn mettaður, þá myndast misræmi þarna á milli sem ekki er hægt að brúa og spilaborgin hrynur undan eigin þunga.
Það sem sló mig helst við að lesa lýsinguna á þessu er hversu óþyrmilega aðferðafræðin minnir á hina svokölluðu "innlánasöfnun" Kaupþings og Landsbankans í gegnum erlend dótturfélög og útibú. Það skal reyndar tekið fram að ég hef ekki allar forsendur til að leggja fullt mat á það hvort þessi starfsemi hafi í raun verið eintóm svikamylla, eða hvort hún hafi beinlínis stangast á við lög. Hinsvegar finnst mér margt keimlíkt og sem leikmanni þykir það benda til að umrædd starfsemi hafi að minnsta kosti verið glannaleg. Athugasemdir um það eru mjög vel þegnar ef einhver þarna úti er betur að sér í þeim efnum.
Bankahrun líkist máli Madoffs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:11 | Facebook
Athugasemdir
Tek undir þetta heilshugar.
ThoR-E, 13.9.2009 kl. 15:17
Já,man vel eftir þessari færslu hjá þér,málið er bara það að hér á klakanum gilda aðrar reglur en í Ameriku eða Nígeríu....so sorry.!!
Kv. Björn.
Bon Scott (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 21:22
Aðalmálið er að eitthvað verði að gert, ekki hver segir hvað hverju sinni
Katrín Linda Óskarsdóttir, 13.9.2009 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.