Já, gengistryggð lán voru og eru bönnuð!

Til að svara þeirri spurningu sem kemur fram í fyrirsögn fréttarinnar birti ég hér samantekt af færslu frá 27.4.2009 þar sem ég vitnaði í þau lög sem verið er að vísa til.

Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 

... ... ...
VI. KAFLI
Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. [Innskot: gengistrygging er hinsvegar hvergi heimiluð!] Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað. Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir. Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. [Innskot: aftur er gengistrygging ekki heimiluð sérstaklega!]
... ... ...
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
... ... ...
Um 13. og 14. gr.

Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. 
Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). ... ... ...
Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.  ... ... ...

[Tilvitnun lýkur]

 


mbl.is Voru gengisbundin lán bönnuð samkvæmt lögum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Þarna er reyndar talað um dagsgengi. Ef mér skjátlast ekki þá miðuðu fjármálafyrirtækin (sem höfðu innan sinna vébanda snillinga í að finna holur í lögunum) alltaf við meðalgengi mánaðar.

Guðmundur Sverrir Þór, 26.8.2009 kl. 14:14

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það breytir ekki því að lögin heimila ekki beinlínis tengingu fjárskuldbindinga í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, heldur eingöngu við innlenda verðvísitölu.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2009 kl. 14:24

3 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Banna hana ekki heldur, því miður.

Guðmundur Sverrir Þór, 26.8.2009 kl. 15:03

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Rétt, því miður banna lögin ekki gengistryggingu berum orðum. Hinsvegar kemur vilji löggjafarvaldsins og þar með tilgangur laganna skýrt fram í athugasemdum með frumvarpinu. Dómstólar horfa gjarnan til þessara þátta þegar þeir þurfa að skera úr um vafaatriði.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2009 kl. 15:20

5 identicon

Passaðu þig á einu. Skuldabréfin sem liggja að baki erlendu lánunum minnast aldrei á íslenskar krónur heldur þá/þær mynt/ir sem um ræðir. Þannig skuldar þú ekki íslenskar krónur þegar þú tekur lánið heldur (t.d.) japönsk jen. Það er grundvallarmunur á þessu. Þegar þú tekur erlent lán ertu að skuldbinda þig í jenum (eða hvaða mynt/ir sem um ræðir) en ekki krónum. Þegar þú greiðir svo af láninu þarftu fyrst að kaupa jen og svo borga bankanum þau jen sem þú kaupir.

Tökum dæmi, einn gjalddagi (kúlulán ef þú vilt kalla það það) og 5% vextir: þú tekur lán upp á 1.000.000 jena þann 1. janúar 2008. Þá er gengi jensins 0,5kr þ.e. 1 JPY = 0,5 ISK. Þú greiðir svo af láninu þann 1. janúar 2009 1.000.000 JPY og vextina líka (50.000 JPY), samtals 1.050.000 JPY. En gengi jensins hefur hækkað, nú kostar 1 JPY = 1 ISK. Þú þarft, ef þú átt ekki jenin og þarft að kaupa þau með krónum, því að borga 1.050.000 ISK til að kaupa 1.050.000 JPY til að borga allt til baka en ekki 525.000 ISK eins og þú hefðir annars þurft að gera ef gengi jensins hefði verið óbreytt. 

Grunnurinn er að þú skuldar ekki krónur, þú skuldar jen. Ef þú færð epli lánuð borgarðu ekki til baka með appelsínum. Þú verður að selja appelsínurnar þínar til að kaupa eplið sem þú síðan notar til að endurgreiða skuldina.

Ólafur (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 15:25

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ólafur, það er rétt að það getur verið háð tilteknum ákvæðum lánasamninga, hvort líta beri svo á að lánaðar hafi verið krónur eða aðrar myntir. Hinsvegar í þeim tilvikum sem ég þekki best sem eru bílasamningar, þá er fjárhæð höfuðstóls í krónum, bílarnir sem voru keyptir verðlagðir í krónum, og þ.a.l. var maður að fá lánaðar krónur til að kaupa viðkomandi bíl.

Eflaust gætu einhverjir snjallir lögfræðingar reynt að snúa þessu á haus, en sem neytandi þá er ómögulegt fyrir mig að leggja í það annan skilning en að ef ég fæ lánað til til að kaupa eitthvað fyrir krónur þá er ég að fá lánaðar krónur. Hvernig lánveitandinn fjármagnar sig frá hinum endanum er aukaatriði frá sjónarhóli neytendans.

Ég hef ekki orðið var við það að menn hafi verið að selja bíla eða fasteignir hér á landi fyrir yen eða svissneska franka, enda eru þessir hlutir nær undantekningalaust verðlagðir í krónum.

Hefðir þú sem seljandi fasteignar á Íslandi tekið við erlendum gjaldmiðli sem greiðslu? Líklega ekki nema þú hefðir ætlað að nota peningana erlendis.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.8.2009 kl. 15:36

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur Sverrir Þór, það var misjafnt eftir fjármálafyrirtæki hvernig þetta var útfært.  Að miða við meðalgengi mánaðar er samt dagsgengi.  Lánið verður ekki löglegt við að miða við meðaltal tveggja daga, þriggja daga eða fjögurra.  Það er bara útúrsnúningur.  Sá sem er að greiða af láninu er að greiða miðað við gengi tiltekinn dag og sá sem fær pening í hendur fær upphæð sem reiknuð er út frá gengi á útborgunardegi.

Marinó G. Njálsson, 26.8.2009 kl. 17:13

8 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Eflaust hefur það verið eitthvað misjafnt, þekki í raun bara hvernig þetta var á þeim samningi sem við vorum með og þar var miðað við meðaltal mánaðar. Í slíkum tilvikum er hins vegar ekki um dagsgengi að ræða, hvernig sem því er snúið, enda er dagsgengi (spot rate) skýrt skilgreint fyrirbæri.

http://www.investopedia.com/terms/s/spot_rate.asp

Ég tek það fram að ég er sammála ykkur um að þessir samningar voru mjög óheppilegir en ég er ekki viss um að þeir hafi verið ólöglegir. Síðan mætti svo sem alveg segja mér að þessir samningar hafi verið flokkaðir undir afleiðusamninga en samkvæmt 2. mgr. 13. gr. falla slíkir samningar ekki undir þessi lög.

Guðmundur Sverrir Þór, 26.8.2009 kl. 19:43

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sem neytandi þá gerði ég aldrei neina afleiðusamninga. Ég gerði samning um að kaupa bíl fyrir ákveðna upphæð í íslenskum krónum, staðgreiða 10% af þeirri upphæð, og fá afganginn lánaðan með milligöngu bílaumboðsins. Ég vissi ekki þá að gengistrygging krónulána væri óleyfileg, tók bara það sem var á boðstólum. Enda er ekki við því að búast að maðurinn á götunni hafi þekkingu á því en þá kröfu er hinsvegar hægt að gera til fjármálafyrirtækja sem seljenda sérfræðiþjónustu.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.8.2009 kl. 14:58

10 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég man þegar ég var að fá greiðsluseðilinn af myntkörfuláninu áður en allt hrundi, þá fékk ég hann nánast alltaf 3 dögum fyrir mánaðarmót, en eftir kreppu þá voru þeir að berast 7 - 10 dögum fyrir mánaðarmót, þeir voru hræddir um að gengið myndi styrkjast og fá því minna til sín.

Sævar Einarsson, 3.9.2009 kl. 14:09

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í lánasamningum sem ég hef séð er reyndar yfirleitt miðað við gengi á tilteknum degi mánaðarins, og þá skiptir ekki öllu máli hvenær greiðsluseðillinn er sendur því það er alltaf eftirá.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.9.2009 kl. 14:12

12 Smámynd: Sævar Einarsson

Ekki var það þannig í mínu tilfelli, ég fékk greiðsluseðilinn óreglulega eftir að krónan hrundi, en ekki áður en hún hrundi.

Sævar Einarsson, 3.9.2009 kl. 14:25

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er sjálfsagt eitthvað misjafnt eftir samningum og fyrirtækjum.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.9.2009 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband