Hvað með karla?
6.7.2009 | 11:26
Í tengdri frétt er fjallað um niðurstöður úr nýrri rannsókn sem kynnt er í tímaritinu Journal of Advanced Nursing, þar sem fjallað er um ofbeldi sem konur verða fyrir af hálfu maka. Hér birtist enn og aftur angi af því misrétti sem felst í því hversu mikil áhersla er lögð á rannsóknir og forvarnir við ofbeldi gegn konum, þegar staðreynd málsins er sú að í meirihluta tilvika eru það karlar sem eru þolendur ofbeldis yfir höfuð, sé litið jafnt til allra tegunda ofbeldis og burtséð frá því af hvaða kyni gerendurnir eru. Kyn gerandans er í raun algert aukaatriði því það eru ekki þeir sem upplifa þjáningar af völdum ofbeldis heldur eru það þolendurnir. Auk þess liggur það í hlutarins eðli að þegar verið er að gera konur að sérstöku umfjöllunarefni sem þolendur ofbeldis, þá er um leið verið að stilla körlum upp sem gerendum, eins og konur geti ekki líka verið gerendur í ofbeldismálum. Þær beita hinsvegar gjarnan annarskonar ofbeldi en karlarnir, eru meira á andlegu nótunum á meðan ofeldishneigðir karlar beita líklega oftar líkamlegu ofbeldi, þetta er þó auðvitað ekki algilt en í þessu held ég að kristallist samt ákveðinn eðlismunur sem er á persónuleika karla og kvenna almennt.
Ég sendi fyrirspurn til félagsmálaráðuneytisins um akkúrat þetta málefni þann 23. júní sl. Tilefnið var hversu kynbundnu ofbeldi gegn konum er gert sérstaklega hátt undir höfði sem umfjöllunarefni ráðuneytisins ef marka má vefsíðu þess. Ég fékk svar skömmu síðar frá velferðarsviði ráðuneytisins. Í morgun sendi ég svo mótsvar þar sem hnykkt á þeim sjónarmiðum sem koma fram hér að ofan. Til fróðleiks fyrir lesendur þá kýs ég að birta þau bréfaskipti hér á eftir enda er ekki um nein sérstök trúnaðarmál að ræða:
Fyrirspurn til Félagsmálaráðuneytis 23.6.2009:
"Af tilviljun rak ég augun í fræðslurit um "ofbeldi gegn konum í nánum samböndum" sem gefin voru út um síðustu áramót og eru kynnt á vef ráðuneytisins. Þar er þess m.a. getið að frá árinu 2003 hafi verið starfandi nefnd á vegum ýmissa ráðuneyta og stofnana ríkisins sem málaflokkurinn heyri undir.
Tekið skal fram að fyrirspurnin snýst ekki eingöngu um ofbeldi í nánum samböndum heldur kynbundið ofbeldi almennt, en allt ofbeldi sem beinist að einstaklingi af hvaða kyni sem er hlýtur í eðli sínu að vera bundið við kyn viðkomandi. Bæði er átt við líkamlegt sem og andlegt ofbeldi enda sé erfitt um vik að skilja þar á milli þar sem allt ofbeldi hefur sálrænar afleiðingar en líkamleg sár gróa hinsvegar oft um síðir.
Fyrirspurnir sem ég vil beina til ráðuneytisins af þessu tilefni eru eftirfarandi.
1. Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar og skýrslur eða rit unnin á vegum Félagsmálaráðuneytisins eða annra stofnana ríkisins um ofbeldi gegn körlum í nánum samböndum?
2. Hvaða nefndir eða önnur stöðugildi á vegum ríkisins hafa verið starfandi að undanförnu og á hvaða tímabili að málefnum er tengjast ofbeldi gegn körlum í nánum samböndum?
3. Hversu miklar og hvers eðlis voru fjárveitingar á árunum 2006-2008 til slíkra rannsókna og kynningarstarfs í málum eru snúa að ofbeldi gegn konum í nánum samböndum?
4. Hversu miklar og hvers eðlis voru fjárveitingar á árunum 2006-2008 til slíkra rannsókna og kynningarstarfs í málum eru snúa að ofbeldi gegn körlum í nánum samböndum?
5. Hvernig telur Félagsmálaráðherra (eða eftir atvikum aðrir málsvarar ráðuneytisins) að það samræmist almennum sem og stjórnarskrárbundnum jafnréttissjónarmiðum, að á vef ráðuneytisins sé að finna ítarlegt kynningarefni um ofbeldi gegn konum sérstaklega, en hvergi neitt sambærilegt kynningarefni sem snýr að ofbeldi gegn körlum?
6. Má draga af þessu þá ályktun að ráðuneytið líti ekki á ofbeldi gegn körlum sem vandamál? Vita þeir sem hjá ráðuneytinu starfa ekki að karlar verða líka stundum fórnarlömb ofbeldis?
Í þessu sambandi má benda á að séu leitarorðin "ofbeldi gegn körlum" slegin inn í leitarvél á vef ráðuneytisins þá birtast 36 leitarniðurstöður, og engin þeirra virðist í fljótu bragði tengjast neinu sem snýr að ofbeldi gegn körlum sérstaklega. Hinsvegar tengist mikill meirihluti leitarniðurstaðnanna eða um 75% þeirra, efni sem fjallar beinlínis um ofbeldi karla gegn konum (og í sumum tilvikum börnum líka). Skýtur það skökku við að leitin skuli þannig í reynd skila þveröfugum niðurstöðum fyrir þann sem leitar.
Fyrirspyrjandi er karlmaður sem telur sig vera jafnréttissinnaðan."
Svar frá ráðuneytinu 25.6.2009:
"Vísað er til tölvupósts yðar til ráðuneytisins frá 23. júní 2009 þar sem fjallað er um kynbundið ofbeldi og spurst fyrir um aðgerðir og rannsóknir o.fl. á ofbeldi gegn körlum.
Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram:
Árið 2006 var samin aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem tekur til áranna 20062011 á vettvangi samráðsnefndar félagsmálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í aðgerðaáætluninni er sjónum beint að heimilisofbeldi, sem nú er nefnt ofbeldi í nánum samböndum, en ekki ofbeldi almennt. Aðgerðaáætlunin er á heimasíðu ráðuneytisins og er vísað til hennar.
Það er hluti II í áætluninni, bls. 1630, sem nú er unnið við að hrinda í framkvæmd. Eins og fyrirsögn II. hluta ber með sér tekur aðgerðaáætlunin til ofbeldis gegn konum. Ástæðan er sú að rannsóknir benda til að karlar séu lítill hluti þeirra sem verða fyrir ofbeldi af hendi nákominnar manneskju. Í aðgerðaáætluninni á bls. 26 segir að rannsóknir bendi til að um það bil 3% þolenda heimilisofbeldis séu karlar.
Bent er á að í bókinni Ofbeldi í nánum samböndum, Orsakir, Afleiðingar, Úrræði fjallar höfundurinn, Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur, um karla sem þolendur ofbeldis af hálfu nákominnar manneskju, í lið nr. 8. Þar er einnig skýrt frá könnun dómsmálaráðuneytisins frá 1997 um kynbundið ofbeldi en sú könnun tók einnig til ofbeldis gegn körlum. Þá könnun er bæði unnt að nálgast hjá dómsmálaráðuneyti og á vef Alþingis, en könnunin var gefin út sem þingskjal.
Enda þótt framangreind aðgerðaáætlun taki fyrst og fremst til ofbeldis gegn konum, kemur fram að félagsmálaráðuneytið eigi að gera þrenns konar rannsóknir á ofbeldi í nánum samböndum, þ.e. rannsókn á ofbeldi karla gegn konum, gegn ákveðnum hópi kvenna og gegn körlum. Þar sem ofbeldi gegn konum er mun algengara en ofbeldi gegn körlum, sem þýðir að það er meginvandamálið þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum, og fjármagn til rannsókna takmarkað, var ákveðið að hefja rannsóknin á ofbeldi gegn konum og stendur sú rannsókn nú yfir.
Við vinnslu á þessu svari var haft samband við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að afla upplýsinga um rannsóknir á þessu sviði. Þar kom að fram að áðurnefnd rannsókn dómsmálaráðuneytisins frá 1997 er sú eina hér á landi sem tók til ofbeldis gegn körlum. Á hinn bóginn fjölgar stöðugt alþjóðlegum rannsóknum og úttektum sem beinast að ofbeldi gegn körlum í nánum samböndum. Ekki er þó vitað hvort það þýði að slíkt ofbeldi fari vaxandi eða að sjónir manna hafi meira beinst að því viðfangsefni að undanförnu en áður var.
Að lokum skal ítrekað að í aðgerðaáætluninni kemur fram að gera eigi bæði rannsókn á ofbeldi gegn konum og körlum í nánum samböndum. Ekki er hægt að segja til um það nú hvenær mögulegt verður að ráðast í að gera rannsókn á ofbeldi gegn körlum.
Þorgerður Benediktsdóttir lögfræðingur Velferðarsvið félags- og tryggingamálaráðuneytis"
Mótsvar vegna fyrirspurnar, sent 6.7.2009:
"Sæl Þorgerður.
Ég þakka fyrir greinargóð svör við fyrirspurninni.
Eins og þú vonandi gerir þér grein fyrir þá er það staðreynd að margir karlmenn sem ekki beita ofbeldi sjálfir eru samt sem áður þolendur kyndbundins ofbeldis, oftar andlegs en líka stundum líkamlegs. Innan hins opinbera kerfis gætir ekki jafnvægis í meðferð þessa málaflokks, oftar en ekki er einblínt á konurnar sem fórnarlömb en aldrei er talað um þær sem gerendur, með því tel ég að hvorugu kyninu sé greiði gerður. Það væri t.d. verðugt verk að gera rannsóknir á því hvernig hægt væri að útrýma þeim skammarstimpli og fordómum sem ríkja gagnvart karlmönnum sem þolendum ofbeldis, en sjaldan er rætt um það á opinberum vettvangi undir þeim formerkjum. Vonandi kemur sá dagur að allir þolendur ofbeldis muni njóta jafnréttis hjá hinu opinbera sem og í almennri umfjöllun, sama hvert kyn þeirra er, og sama hvort um er að ræða líkamlegt eða andlegt ofbeldi, í nánum samböndum eða utan þeirra. Mín skoðun er sú að flest ofbeldi sé af hinu illa og beri að fordæma, án nokkurrar mismununar gagnvart þolendum þess.
Kveðja, Guðmundur Ásgeirsson"
Fjórðungur orðið fyrir ofbeldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.7.2009 kl. 02:23 | Facebook
Athugasemdir
Karlmenn sem haga sér svona við konur sínar eru VEIKIR/SJÚKIR.
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 6.7.2009 kl. 12:25
Þessi athugasemd Guðbjargar segir held ég allt sem segja þarf um "jafnréttisviðhorfið" sem ræður ríkjum í svona málum.
Gulli (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 12:46
Þetta er orðin afar þreytandi og einhæf umræða í seinni tíð. Það er bara önnur hlið peningsins sem uppi er orðið alla tíð og mjög margir hættir að hlusta að mér sýnist. Hvað með hið andlega ofbeldi, sem þó var í umræðunni hér í eina tíð og þá talið, að konur beittu því í ríkari mæli en karlar ef ég man rétt. Hið andlega ofbeldi er miklu duldara og lúmskara og getur margt lengi verið búið að ganga á áður en það snýst svo í líkamlegt ofbeldi og verður þá öllum augljóst. Beita menn það ekki ofbeldi sem þeir ráða við?
sveinn (IP-tala skráð) 6.7.2009 kl. 14:26
Guðbjörg: Hvað með konur sem beita karla ofbeldi? Eru þær semsagt algerlega heilbrigðar?
Guðmundur Ásgeirsson, 6.7.2009 kl. 14:33
Ekkert samband hefst með ofbeldi, heldur miklu tilhugalífi og ást. Það er svo eitthvað sem brestur á þeirri göngu sem svo leiðir til ofbeldis. Ég ætla ekki að dæma neinn, hvorki konur né karla í þeim málum. Við vitum oft nefnilega ekkert um hvaða ferli hefur farið af stað sem veldur þeirri sorg og angist er að lokum leiðir til andlegs og líkamlegs ofbeldis í samböndum. Því miður er mörgum konum mjög tamt að gera sig að fórnarlömbum heimilisofbeldis. Það eru fáar þær kringumstæður sem þær telja sig ekki fórnarlömb í, skelfing þeirra er alger í hinu karllæga samfélagi. Ekkert er þeim að skapi, ekkert er eins og þær vilja hafa það, draumaprinsinn var bara ein martröð þegar upp var staðið. Eymd margra kvenna er sem sagt alger í leitinni að eigingjarnri hamingju.Þær konur sem hafa haldið ofbeldisumræðunni á lofti, hafa gætt þess að kyngera ofbeldið sem þær upplifa, og í þeim efnum verið duglegar að vísa allri ábyrgðinni yfir á karlpeninginn. Reyndin er þó sú að fjölmörg sambönd leiðast út í andlegt og líkamlegt ofbeldi þar sem virðingin fyrir sambandinu víkur fyrir léttúð og ójafnvægi í hlutverkaskipan. Það ástand hefur ekkert með kynið að gera á neinn hátt. Andlega ofbeldið er í raun annað stig þeirra skylminga sem ójafnvægið veldur milli kvenna og karla, fyrsta stigið er sú röskun sem varð á því trausti sem upphaflega ríkti milli elskendanna. Þetta er eflaust mjög karlrembulegt viðhorf, en þó viðhorf frá manni sem var alin upp af góðhjartaðri konu.
DanTh, 7.7.2009 kl. 00:14
Þess má til gamans geta að brot úr þessari færslu var birt á prenti í þriðjudagsmogganum, þann 7. júní.
Þýðir það þá að ég sé orðinn "málsmetandi" einstaklingur eða hvað?
Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2009 kl. 02:21
Menn gleyma oft líffræði kvenna en þær eru margar 'unstable' og oft sagt oútreiknanlegar. Það er 28 daga tíða málið hjá þeim en það er líka annað sem gleymist en það er skjaldkirtillin en ofvirkur eða latur skjaldkirtill er hjá 1000 konum á móti 1 karlmanni. Þessi einkenni á hvorn veg sem er skapa skapgerðar einkenni ásamt mörgu öðru. Skapið verður örara og mikil ofvirkni og aftur hjá 1000 á móti einum karli.
Valdimar Samúelsson, 8.7.2009 kl. 10:45
Það er nú samt munur á örlyndi og ofbeldi. Ég er alls ekki að gefa í skyn með þessum skrifum mínum að konur séu almennt ofbeldishneigðari en karlar, og tel mig ekki hafa forsendur til að meta það. Í raun þá er ég ekki að fjalla um gerendur ofbeldis í þessum pistli heldur fyrst og fremst þolendur, sem í meirihluta tilvika eru karlar. Það eina sem ég þori að fullyrða um gerendurna er að fleiri karlar hafa tilhneigingu til að beita líkamlegu ofbeldi en konur, en það er aðeins ein af mörgum birtingarmyndum ofbeldis.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2009 kl. 12:15
Þetta er viðkvæmt mál en í dýraríkinu verja konur afkvæmi með grimmd þetta vita allir. Hér áður vöruð karlmenn fjölskildu með ofbeldi ef þeim var ógnað. Þetta eðli hlýtur að leynast í konum. Kona getur reitt mann til reiði og sumir kunna ekki annað en að verja sig nema á einn hátt. Í svona tilfelli er um líkamlegt ofbeldi gegn andlegu ofbeldi Að verða reittur til reiði er oft notað til að milda dóma svo það er ekki sómi að reita nokkurn mann til reiði.
Valdimar Samúelsson, 8.7.2009 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.