Þú ert það sem þú hugsar

Þú ert það sem þú hugsar, ekkert annað skilgreinir persónuleika þinn.

Hinsvegar eru margir sem falla í þá gryfju að einbeita sér að vandamálum, með þeirri óhjákvæmilegu afleiðingu að þeir byrja að líta á sjálfa sig sem vandamálið og festast þannig í vítahring sjálfsvorkunnar. ("Ég er svo ömurlegur, það hlýtur að vera eitthvað að mér.") Þeir sem þannig hugsa eru bara ekki að fylgja þeim leiðbeiningum sem flestöll sjálfshjálparspeki gengur út á, þeir "fatta" hreinlega ekki "leyndarmálið", en lykillinn að því er svokallað aðdráttarlögmál sem talið er eiga uppruna sinn í bók William Walker Atkinson frá árinu 1906, Thought Vibration or the Law of Attraction in the Thought World. Kjarni lögmálsins er að ef maður vill eitthvað og trúir af einlægni að það sé mögulegt þá muni það verða að veruleika. Seinni tíma spekingar telja sig hafa fundið þessu lögmáli vísindalega fótfestu í skammtafræði, sem er reyndar umdeild skýring, en aðferðin við að stýra þessari hugarorku er sögð kristallast í eftirfarandi fjórum atriðum:

  1. Að vita nákvæmlega hvað maður vill.
  2. Að biðja "alheiminn" um það.
  3. Að framkvæma, vita og líða eins og það sé þegar orðið að veruleika.
  4. Vera opinn fyrir því a móttaka það sem "alheimurinn" svo færir manni
Við erum flest fær um að gera þetta ef við bara leyfum því að gerast af sjálfu sér, en staðreyndin er því miður oft sú að fólk er of fastheldið á "gamla sjálfið" til að sleppa tökunum á því sem hingað til hefur skilgreint persónuleika þess. Það er einhvern veginn ekki innbyggt í okkur að gefast svo auðveldlega upp fyrir sjálfinu og kringumstæðunum, sem er þó grundvallarforsenda þess að gera breytingar innra með sér, sem er svo aftur óbein forsenda þess að breytingar verði á ytra umhverfinu.

Allir menn sem hafa verið spurðir að því hvernig þeir hafi farið að því að ná framúrskarandi árangri eða sigrast á nánast óyfirstíganleikum hindrunum hafa gefið mjög keimlík svör. Flestir þeirra fylgdu engri nákvæmri áætlun með fyrirframskilgreindri útkomu, því lífið er síbreytilegt og engin áætlun getur staðist óbreytt frá byrjun til enda, heldur er það sem þeir eiga fyrst fremst sameiginlegt að þeir höfðu allan tímann óbilandi trú á sjálfum sér og markmiðum sínum, voru raunverulega sannfærðir um það hver væri tilgangur þeirra í lífinu, og það ekki af neinni hálfvelgju.

Dæmi um slíka menn eru bílaframleiðandinn Henry Ford sem gat af sér iðnbyltinguna með því að útfæra fjöldaframleiðslu fyrstur manna, tölvunördinn Bill Gates sem færði upplýsingatæknibyltinguna inn á nánast hvert einasta heimili í hinum vestræna heimi og var um tíma ríkasti maður heims, og íþróttaálfurinn Magnús Scheving sem hefur haft jákvæð áhrif á lífsstíl og heilsu þúsunda ef ekki milljóna barna um víða veröld sem annars hefðu líklega endað með hamborgararass og kransæðastíflu.

Það skal þó tekið fram að þessir menn er ekkert endilega neinir dýrlingar eða ofurmenni og langt frá því að þeir hafi staðið einir að verkum sínum, hinsvegar eiga þeir það sameiginlegt að hafa sameinað undir markmiðum sínum alla þá einstaklinga og krafta sem nauðsynlegir voru til að ná tilætluðum árangri. Og svo hafa þeir auðvitað líka bara verið mjög mjög duglegir og aldrei gefist upp, hvorki fyrir sjálfum sér né umhverfinu.

Hafi lesendur áhuga á að kynna sér fræðin vil ég benda á eftirfarandi bækur:
Tvær fyrrnefndu bækurnar urðu nýlega innblástur að sjónvarpsmynd, bók, og ýmsu fleira sem kallað er The Secret, og ætti að vera Íslendingum að góðu kunn.

 

The Secret


mbl.is Sjálfshjálp gerir illt verra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Hvílíkt ekkisens kjaftæði. Þetta svokallaða "Leyndarmál" byggir á sömu hættulegu hugmyndinni og bænir: ef óskin/bænin rætist ekki/er ekki svarað er það þér sjálfum að kenna. Þú trúðir ekki nógu heitt.

Svona hugmyndir eru hættulegar. Til hvers að taka lyf við lífshættulegum sjúkdómi ef það er bara hægt að biðja hann burt? Til hvers að vinna fyrir einhverju ef þú þarft bara að trúa? 

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 6.7.2009 kl. 08:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Að sama skapi mætti spyrja: til hvers að kaupa lyf sem eiga að láta manni líða betur, en virka bara vegna þess að maður trúir á það? Athugaðu Tinna, að aðdráttarlögmálið þýðir alls ekki að þú fáir "allt fyrir ekkert", heldur snýst þetta um hvernig breytingar á þinni eigin afstöðu geta haft jákvæðar breytingar á líf þitt. Til þess að það gerist þarftu samt að halda áfram að lifa lífinu, þar með talið að vinna fyrir því sem þú vilt eignast. Staðreyndin er bara sú að jafnvel það eitt og sér dugir ekki alltaf til svo að fólk nái markmiðum sínum, fræðin sem ég er að vísa í fjalla um hvernig hægt sé að auka líkurnar á því að það takist.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.7.2009 kl. 11:38

3 Smámynd: Hans Miniar Jónsson.

Þú ert ekki hvað þú hugsar. Þú hefur eitthvað misskilið þessa frétt.

Hans Miniar Jónsson., 16.7.2009 kl. 15:25

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Miniar, ég skildi fréttina prýðilega, ég held hinsvegar að í henni felist allnokkur misskilningur, eða í besta falli einföldun.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.7.2009 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband