Stjórnarskrársinnar takið eftir

Hæstiréttur Hondúras hefur ræst út herinn til að fjarlægja forseta landsins úr embætti vegna fyrirhugaðra stjórnarskrárbrota af hans hálfu. Já Hondúras, sem hefur lengi verið stimplað sem bananalýðveldi. Hér á Íslandi sjá ráðherrar og aðrir embættismenn hinsvegar ekki tilefni til að segja sig úr embætti, jafnvel þó fallnir séu dómar um brot þeirra á landslögum í starfi sínu.

Kannski það væri ekki svo vitlaust eftir allt saman ef það væri her á Íslandi. Þetta fær mann a.m.k. til að efast um sannfæringu sína í þeim efnum. Reyndar ætti lögreglan hér að vera búin að grípa til svipaðra aðgerða gegn valdhöfum fyrir löngu síðan, ef hún væri starfi sínu vaxin, og ef dómstólar landsins væru ekki það vanhæfir að slíkt hefði aldrei neitt upp á sig.

Af tvennu illu, hvort er verra? Forseti sem ætlar að brjóta þá stjórnarskrá sem hann starfar samkvæmt, eða forseti sem framfylgir ekki einu sinni stjórnarskránni eða felur öðrum að gera það í krafti embættis síns?

Jafnvel þó stærsta bananaplantekra Evrópu sé í Ölfusinu þá verðskuldar Ísland ekki einu sinni titilinn bananlýðveldi. Æska landsins þekkir heldur ekki hugtakið nema í besta falli sem vörumerki á tískufötum! Nærtækara væri að kalla stjórnarfarið sem við búum við sýndarlýðræði.


mbl.is Hæstiréttur Hondúras fyrirskipaði handtöku forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ekki beint lýðræðislegt og skil ekki af hverju þér finnst að hæstiréttur geti bara vikið lýðræðislega kosnum forseta frá

Manuel Zelaya, forseti Hondúras, var tekinn fastur af um 100 á heimili sínu í dag. Hann er nú í haldi hersins sem segir hann vera heilan á húfi. Forseti Hondúras má aðeins sitja í embætti eitt fjögurra ára kjörtímabil en Zelaya vildi efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu sem hefði gert honum kleift að sitja annað kjörtímabil. Yfirmaður hersins var mótfallinn þeim breytingum og reyndi, ásamt öðrum hershöfðingjum og varnarmálaráðherra landsins, að koma í veg fyrir framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Zelaya vék þeim flestum úr embætti í síðustu viku en aðrir sögðu af sér. Það vakti mikla ólgu meðal harðlínumanna innan hersins sem óttast að forsetinn dragi úr völdum þeirra.

Þjóðaratkvæðagreiðslan átti engu að síður að fara fram í dag þrátt fyrir að hæstiréttur landsins hafi úrskurðað þær ólöglegar og herinn hótað valdaráni.

Hæstiréttur þarna var sem sagt á móti þjóðaratkvæðagreiðslu og skipað hernum að handtaka forsetan.

Það er svona sem þið viljið hafa þetta hérna?

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.6.2009 kl. 10:52

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hæstiréttur var þarna að framfylgja stjórnarskrá landsins, í stað þess að láta valdhafann komast upp með að breyta henni eftir eigin hentugleik. Í heilbrigðu lýðræði þá koma valdhafar og fara, en stjórnarskránni má ekki breyta í hvert sinn sem einhver vill framlengja valdasetu sína.

Besta dæmið sem ég man eftir um eitthvað svipað var Vladimir Pútin fv. Rússlandsforseti sem skipti á stólum við starfsmannastjóra sinn og tók sæti forsætisráðherra við hlið hans.

Er það þannig sem þú vilt kannski hafa þetta, Magnús Helgi?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.6.2009 kl. 12:06

3 Smámynd: Héðinn Björnsson

Held að það sé ekki æskilegt að blanda hernum inn í valdaskipti og gerir herinn í raun að yfirvöldum yfir hinum lýðræðislega kjörnu einstaklingum á svipaðan hat og klerkaráðið er í Íran. En þetta skýrir af hverju það er mikilvægt að kjósa ný stjórnvöld þegar stjórnarskrá er breitt svo ekki sé ruglað saman reglubreitingunum og hagsmunum valdhafanna.

Héðinn Björnsson, 29.6.2009 kl. 12:40

4 Smámynd: Fríða Eyland

Já sýndalýðræði, þar hittir þú naglann á höfuðið

Fríða Eyland, 29.6.2009 kl. 19:32

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Héðinn: góðir punktar hjá þér. Ég er sammála að það er aldrei gott þegar her hefur afskipti af innanríkismálum, hvorki í heimalandinu né nokkru öðru ríki. En þegar valdahafarnir brjóta lögin, hver á þá að framfylgja þeim? Í þessu tilviki voru herforingjarnir þó allavegana að framfylgja lögum landsins að beiðni dómstóla, þess vegna finnst mér rangt að tala um valdarán. Það væri réttara að segja að komið hafi verið í veg fyrir valdarán.

Óskar: Hondúras er hið eina sanna bananalýðveldi þaðan sem hugtakið er upprunið, en það á m.a. rætur að rekja til hins bandarísk-alþjóðlega United Fruit Company, eða "kolkrabbans" eins og það var uppnefnt. Fyrirtækið og eigendur þess hikuðu ekki við að hafa afskipti af innanríkismálum S-Ameríkuríkja, það stóð t.d. fyrir a.m.k. tveimur valdaránum í Hondúras á síðustu öld og hefur haft aðkomu að ýmsu vopnsaskaki í Kólumbíu og víðar. Nú til dags er þetta fyrirtæki betur þekkt sem Chiquita Brands International en bananar með merki þess hafa lengi verið fáanlegir í verslunum á Íslandi. Bananar eru enn þann dag í dag önnur stærsta útflutningsvara Hondúras á eftir kaffi.

P.S. Þess má geta að á Íslandi var líka lengi vel til staðar viðskipta- og valdablokk sem gekk undir nafninu "kolkrabbinn" og var gjarnan kennd við ákveðin öfl innan sjálfstæðisflokksins. Þessar samlíkingar mínar eru því engann veginn langsóttar.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.6.2009 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband