Liðkað fyrir fullveldisafsali?
27.5.2009 | 10:46
Það hlýtur að teljast í hæsta máta vafasamt í ljósi þeirrar tillögu sem nú liggur fyrir Alþingi um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu, að það sé á sama tíma að greiða milljónastyrki til Alþjóðamálastofnunar Háskólans. Ég ætla ekki að gera því skóna að okkar ágætu fræðimenn séu óheiðarlegir, en þarna hlýtur að vera um hagsmunaárekstur að ræða hvernig sem á það er litið. Á yfirborðinu mætti allt eins segja sem svo að það líti út fyrir að verið sé að múta þeim óbeint til að mæla með aðildarumsókn Íslands og liðka þannig fyrir því að fullveldi lands og þjóðar verði afsalað til erlendra yfirvalda. En ég ítreka að það er bara þannig sem það lítur út, og ég vona að starfsfólki stofnunnarinnar sé treystandi til að láta þetta ekki hafa áhrif á sig. Ætli þeir sem taka við styrknum hafi samt gert sért grein fyrir að því að þar með er hlutleysi og trúverðugleiki stofnunarinnar fokinn út í hafsauga? Þar sem er reykur er gjarnan eldur, og yfirbragð spillingar er jafn skaðlegt hvort sem spillingin er raunveruleg eður ei!
Áfram Ísland, segjum nei við ESB!
Höfundur er stjórnarmaður í Samtökum Fullveldissinna.
Alþjóðamálastofnun HÍ fær 35 milljóna króna styrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já endilega, efast um hvata alls Eiga menntastofnanir okkar þá að hafna öllum styrkjum á þeim grundvelli að einhverjir hagsmunir gætu verið í húfi?
Páll Geir Bjarnason, 27.5.2009 kl. 23:38
Neinei, ekki ef það er algerlega uppi á borðinu og fylgir með yfirlýsingum er málið varða hvaðan styrkirnir koma, þannig að hægt sé að meta þær út frá hugsanlegri hlutdrægni ef um slíkt er að ræða. Sbr. að ég tek það sjálfur fram í lok færslunnar að ég er í stjórn samtaka sem eru allt annað en hlutlaus í málefnum er varða ESB, og eins þegar Stöð 2 fjallar um Baug og Jón Ásgeir þá er skýrt tekið fram að hann sé eigandi fjölmiðilsins. Svo lengi sem þess er gætt er það í lagi.
Persónulega finnst mér að við eigum að stjórna sjálf og þar með borga sjálf fyrir okkar eigin menntun og uppfræðslu, ekki láta aðra gera það sem kunna að hafa áhuga á að beita sér með skoðanamyndandi hætti. Ekki viljum við t.d. að kennslubækur barnanna okkar séu kostaðar af fyrirtækjum sem eiga hagsmuna að gæta, eins og ákveðið orkufyrirtæki ætlaði að gera á sínum tíma varðandi umhverfismál þegar deilur um virkjanir stóðu hvað hæst í þjóðfélagsumræðunni. Annars gætum við endað með hluti eins og "næringarfræði í boði Vífilfells" eða eitthvað álíka bogið... með fullri virðingu fyrir því ágæta fyrirtæki og nágranna mínum hér í Árbænum.
Guðmundur Ásgeirsson, 28.5.2009 kl. 02:27
"Neinei, ekki ef það er algerlega uppi á borðinu og fylgir með yfirlýsingum er málið varða hvaðan styrkirnir koma, þannig að hægt sé að meta þær út frá hugsanlegri hlutdrægni ef um slíkt er að ræða."
Það er alltaf hlutdrægni er styrkir eru til staðar. Það eru alltaf einhverjir hagsmunir einhvers staðar.
Páll Geir Bjarnason, 28.5.2009 kl. 17:47
Við erum með ákveðinn samning við ESB, sem heitir EES. Það er ekki nýtt af nálinni að menntakerfið á Íslandi fái styrk frá ESB í einhverri mynd sökum þess samnings.
Það er líka fásinna að halda því fram að með inngöngu í ESB séum við að afsala fullveldinu okkar þegar við erum nú þegar með EES samninginn og þurfum að taka við þeirri löggjöf sem kemur frá ESB án þess að hafa nokkur áhirf á hana. Auk þess, þá sýnist mér á öllu að fullveldi okkar sé endanlega farið til AGS, ef það er þá eitthvað betra!!!
Ófeigur Friðriksson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 07:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.