Fjármagnsflótti frá Bretlandi 2008
9.3.2009 | 03:24
The Independent segir frá því að á föstudaginn (merkileg tímasetning) hafi Englandsbanki gefið út upplýsingar um erlendar fjárfestingar og innstæður útlendinga í breskum bönkum á síðasta ári. Samkvæmt þeim hafi gríðarlega miklar fjárhagslegar eignir verið fluttar úr landinu frá því á fyrsta ársfjórðungi 2008, og talað er um "hljóðlátan fjármagnsflótta". Upphæðirnar sem um ræðir eru heldur ekkert smáræði eða £700 milljarðar sem jafngildir u.þ.b. $1 trilljón, sem er N.B. stærri upphæð en risavaxni "efnahagshvatinn" sem Obama & co. fengu samþykktan fyrir skemmstu.
En afhverju er ég að tengja þetta við grein um rússneska olígarka á barmi gjaldþrots? Jú vegna þess að í frétt Independent er haft eftir Englandsbanka sjálfum að mestur hafi fjármagnsflóttinn verið til Bandaríkjanna (Lehman Bros. tóku t.d. með sér a.m.k. £4.4 milljarða), Sviss (hmmm...), "aflandsmiðstöðva" (sic.) á borð við Jersey og Cayman eyjar (kannski Tortola og Kýpur líka??), og síðast en ekki síst: Rússlands auðvitað (þar sem Björgólfur "græddi fyrsta milljarðinn"). Olígarkarnir svokölluðu hafa lengi verið umsvifamiklir í Bretlandi, en sumir segja það reyndar alltaf hafa verið í óþökk drottningar og þjóna hennar. Vegna versnandi fjárhagsstöðu heimafyrir má telja líklegt að Rússarnir hafi leyst til sín mikið af erlendum eignum undanfarið, bæði beint heim til Rússlands og líka gegnum skattaskjólin, og það kunni að útskýra að hluta þetta "áhlaup á Bretland" eins Independent kallar það.
Í frétt Independent er að auki sterk tilvísun til Íslands og dregnar upp hliðstæður við ástandið í Bretlandi. Sem er að vissu leyti athyglisvert þegar það er sett í samhengi við fréttir af rússneskum auðkýfingum, aflandsmiðstöðvum á eyríkjum, fjármagnsflótta, fjársvikum, ásakanir um peningaþvætti og skjalafals, ásamt frystingu eigna í krafti hryðjuverkalaga. Er ég virkilega sá eini sem er nógu skringilega þenkjandi til að sjá eitthvað mynstur vera að koma í ljós hérna??? Ísland/ Bretland, aflandseyjar og rússneskir auðkýfingar, efnahagsglæpir og áhlaup á heilu hagkerfin.
Það er ekki bara maðkur í þessari mysu, heldur stór og feitur Lagarfljótsormur!
Það væri sjálfsagt efni í heila doktorsritgerð í afbrotafræði að greina hvort þetta sé allt saman skipulögð glæpastarfsemi (samsæriskenning í uppsiglingu?) eða hvort fyrirbærið fellur hugsanlega betur undir skilgreiningu afbrotafaraldurs. Eða erum við e.t.v. að verða vitni að nýrri tegund styrjaldar, eins og t.d. Kínverjar hafa verið að búa sig undir um allnokkurt skeið? Þar sem er ekki barist með hefðbundnum vopnum, heldur eftir taktískum, pólitískum og ekki síst efnahagslegum leiðum, en markmiðið er ekki að gersigra andstæðinginn með eyðileggingu heldur að ná efnahagslegum yfirráðum, jafnvel á heimsvísu. Ef (þegar?) hún byrjar munu ekki fylgja því neinar sprengingar eða beint mannfall heldur mun það gerast hljóðlega og líklega munum við í sauðsvörtum almúganum ekki taka eftir því fyrr en löngu eftir að það er of seint. Megin-"víglínurnar" myndu sennilega í grófum dráttum liggja á milli Kína/USA annars vegar og Bretlands/Rússlands hins vegar, en Evrusvæðið lendir þá milli steins og sleggju og lifir ekki lengi af slíka atburðarás.
(Tókuð þið nokkuð eftir því að meirihlutinn af þessari "ímynduðu" (?) atburðarás er þegar byrjaður eða búinn að eiga sér stað með einhverjum hætti? Og já, ég sagði líka að þetta myndi fara er þegar farið hljóðlega af stað... og ég er sko ekki að tala um plötuna með Hjálmum sem er annars prýðileg! ;)
"the first rule of unrestricted warfare is that there are no rules, with nothing forbidden."
- Qiao Liang, ofursti í kínverska Alþýðuhernum og annar höfunda bókarinnar Unrestricted Warfare
Olígarkar á barmi gjaldþrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.