Viðey horfin? :-o

Íbúar við strandlengjuna í Reykjavík ráku upp stór augu í morgun þegar þeir risu úr rekkju og litu út um gluggan en áttuðu sig skyndilega á því að Viðey var horfin. Ekkert bólaði á eyjunni grænu þegar Landhelgiseftirlitið flaug sitt árlega útsýnisflug yfir sundin blá í morgun. Finnur Eyjólfsson leitarstjóri hjá almannavarnarmálastofnun sagði málið allt hið bagalegasta, eyjan sjáist hvorki úr lofti né á ratsjá og menn séu helst farnir að hallast að því að Bretar hafi komið siglandi á herskipum í skjóli nætur og hirt hana í pant vegna IceSave skulda.

Forsætisráðherra vildi ekkert láta hafa eftir sér en sagði þó að "...enginn þurfi að sæta ábyrgð vegna þessa. Enda hefði verið ómögulegt að sjá fyrir að Viðey gæti bara horfið sporlaust án nokkurs fyrirvara. Hinsvegar er ljósi punkturinn ef til vill sá að þetta gæti þegar fram í sækir skapað glæný verkefni fyrir Landmælingar Íslands, og þar með dregið úr atvinnuleysi sem fer því miður vaxandi."

Bofsið hefur það um krókaleiðir eftir ónafngreindum heimildum frá ónafngreindum aðilum innan gámalestunarteymis sem starfar við Sundabakka, að í nótt hafi sést til stórvirkra vinnuvéla að störfum við umskipun á miklu magni stórgrýtis og nokkru magni af túnþökum úr pramma eða prömmum sem heyra mátti sigla fram og til baka í kolsvörtu náttmyrkrinu. Aðspurður sagðist viðskiptaráðherra ekki geta staðfest að svo stöddu hvort Viðey kunni að hafa verið bútuð niður á laun og seld úr landi upp í skuldir. "Ef svo er þá mun það væntanlega koma í ljós við nánari skoðun útflutningseftirlitsins á farmskýrslum skipafyrirtækja sem fyrirhuguð er einhverntíma á fyrrihluta næsta áratugar."

Veðbókarvottorð sýnir að eyjan var meðal eigna sem lagðar voru að veði gegn láni frá einum gömlu bankanna til Reykjavíkurborgar. Fulltrúi aðskilnaðarnefndar bankans segir fullkomna óvissu ríkja um forræði yfir skuldabréfinu en þar togast á sjónarmið borgarinnar annars vegar og Prussische Bundesbanck hinsvegar sem er stærsti erlendi kröfuhafinn á móti áðurnefndu veði. Eins og í öllum forræðismálum bitnar þessi deila verst á skuldinni sjálfri!

Utanviðsigráðherra afþakkaði viðtal vegna málsins og sagðist vera orðin of sein á fund hjá SovétEvrópuvæðingarnefnd samsærisbandalagsins. Í tilkynningu sem hún sendi frá sér að fundi loknum segist hún lítið hafa um málið að segja á þessu stigi þar sem henni hafi ekki gefist ráðrúm til að kynna sér málavöxtu til hlítar. "Eins og aðrir Reykvíkingar hef ég ekki séð eyjuna í dag og eins og gefur að skilja get ég ekki verið að tjá mig um eitthvað sem ég hef ekki ennþá séð. Eitt er þó alveg víst, að þeir sem þetta gerðu eða gerðu ekki, það er að segja ef eitthvað hefur verið gert eða eitthvað ekki gert sem hefði átt að gera, eru örugglega ekki fulltrúar þjóðarinnar!"

Olíumálaráðh Fyrrverandi og verðandi leiðtogi jafnaðargeðsmanna sagði málið strangt til tekið ekki heyra undir sitt ráðuneyti og tók svo allhressilega í nefið af vænum rudda. "Nema ef farið verður út í prentun á nýju upplagi Íslandskorta, þá mun ég að sjálfsögðu berjast fyrir því að gríðarstórar og barmafullar olíulindir verði teiknaðar inn á hafflötinn á Drekasvæðinu og helst langleiðina upp í fjöru á Vopnafirði til að hafa siglinguna sem stysta að gullinu svarta." Með þessu móti mætti slá tvær flugur í einu og samnýta landakortin sem ginningar kynningarbæklinga, bæði fyrir olíuleitarfyrirtæki og fjárfesta sem og aðgerðaþyrsta alþjóðlega ferðamótmælendur (AAF™). "Ég sé fyrir mér útlenda náttúruverndarsinna streyma í þúsundatali til landsins og austur í Múlasýslu með tilheyrandi gjaldeyristekjum og uppbyggingu í ferðamannaiðnaði á staðnum. Þá skiptir í raun engu máli hvort það finnst olía eða ekki, við græðum á því hvort eð er. Lengi lifi byltingin!"

Wink

P.S. Við þetta má svo bæta að rétt í þessu barst yfirlýsing frá Félagi landfræðinga og kortagerðarmanna þar sem ummæli forsætisráðherra um verkefni á sviði landmælinga eru harðlega gagnrýnd í ljósi niðurskurðar fjárveitinga til málaflokksins. "Það væri í sjálfu sér einfalt mál að láta mæla upp og prenta ný kort, en gallin er sá að vegna misræmis í gjaldeyrisreglum Seðlabankans fæst hvorki flutt inn blek til verksins né gjaldeyrir fluttur úr landi til erlendrar prentsmiðju." segir í yfirlýsingunni. "Það besta sem hægt er að gera við þessar aðstæður er að taka það upplag sem við eigum á lager af gömlu kortunum og breyta þeim einfaldlega með gatara." Með hæfilegri vandvirkni gæti það reyndar sýnt nógu skýrt og greinilega hvar eyjuna vantar, en eins og gefur að skilja er það samt ekki nema nokkura daga verk fyrir nokkra vaska skrifstofumenn með háskólagráður sem ganga nú lausir í hrönnum eftir hópuppsagnir í kjölfar bankahrunsins.


mbl.is 25 milljarða króna greiðsla týnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sólný Dökkblá, 9 ½ árs hafði þetta um málið að segja: "Hvað eru 25 milljarðar eiginlega mikið af peningum? Ég vil sko ekki þurfa að útskýra það fyrir börnunum mínum þegar ég verð stór!"

Guðmundur Ásgeirsson, 14.1.2009 kl. 23:05

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Góður.

Axel Þór Kolbeinsson, 14.1.2009 kl. 23:17

3 identicon

Sólnýju Dökkblárri til fróðleiks þá ef hún hefur 250.000 kr á mánuði í laun þegar hún verður fullorðin, þa tekur það hana 8300 ár að vinna sér inn 25 milljarða.  Svona hafa nú miljarðamæringarnir okkar verðið duglegir.

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband