Orð skulu standa
1.11.2008 | 14:22
"...Baugur gæti notað verslanir sínar í Bretlandi til að afla gjaldeyris fyrir Ísland til að greiða með af láninu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum"
Ef þetta er rétt haft eftir Jóni Ásgeir og Gunnari Sigurðssyni, þá er eins gott að þeir standi við þetta loforð, fái þeir á annað borð sanngjarnt tækifæri til þess. Persónulega finnst mér þeir eiga skilið að fá slíkt tækifæri, þó auðvitað megi gæta þess að gefa þeim ekki allt of lausann tauminn. Tillögur þeirra virðast skynsamlegar að gefnum vissum forsendum, en miðað við alla vitleysuna sem er í gangi þessa dagana, þá er e.t.v. helst takandi mark á þeim sem virðast tala af ábyrgð en þó hreint út um sína meiningu. Ég tek það samt fram að ég er langt frá því að vera einn af svokölluðum aðdáendum Baugsveldisins, en það er hinsvegar staðreynd hvort sem okkur líkar betur eða verr að við gætum einfaldlega þurft á þeim að halda við endurreisnarstarf á næstu misserum. Það er hárrét sem bent er á að ef rétt er haldið á spilunum geta verslunarkeðjur Baugs í Bretlandi orðið mikilvægur þáttur í því að ná erlendum gjaldeyri til landsins sem brýn þörf mun verða fyrir á næstu árum. Í stað þess að flytja út fisk eða eitthvað annað til að koma með gjaldeyri til baka, þá gæti Baugsveldið sent eða einfaldlega bara millifært hagnaðinn af bresku starfseminni hingað heim og nýtt hann hér innanlands með skynsamlegum hætti. Ef þeir eru með þessu að lýsa yfir vilja til slíks samstarfs við þjóðina er það góðra gjalda vert. Væntanlega myndu þeir vilja á móti að reynt yrði að koma í veg fyrir að öll þeirra fyrirtæki hérna heima á Íslandi fari um koll, sem ætti auðvitað hvort sem er að vera partur af viðleitni hér heimafyrir til að halda atvinnulífinu gangandi. Svona er nú bara lífið...
Lifið heil.
Baugur getur staðið veðrið af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.