WWIV: Nýja Stríðið
21.10.2008 | 20:17
Hugleiðingar um stríð í ljósi yfirstandandi efnahagshörmunga:
Ef við göngum útfrá því að Kalda Stríðið hafi verið heimsstyrjöld, eins og var nú eiginlega raunin, þá er henni líklega lokið þó svo að stórveldin fyrrverandi séu enn svolítið að skaka sverðum og sýna mátt sinn í vígbúnaði. Þó ekki hafi verið barist með vopnum á meginlandi Evrópu þá var þetta "þriðja" stríð alls ekki "kalt" í öðrum heimshlutum og er nærtækast að nefna dæmi á borð við Víetnam, Kóreu og Afghanistan í því sambandi, en einnig mætti vísa til Mið- og S-Ameríku og svo mætti reyndar lengi telja.
Nú er hinsvegar mögulega hafið það sem e.t.v. mætti kalla WWIV: "Nýja Stríðið" sem passar ágætlega við stóratburði sem áttu sér stað í Nýju Jórvík BNA árið 2001 og leiddu m.a. til innrása í tvö ríki í öðrum heimshluta. Í sögubókunum munu þeir atburðir hugsanlega verða látnir marka upphafið að þessu stríði en það á sér þó lengri aðdraganda. Ræturnar má að vissu leyti rekja til Kalda Stríðsins sjálfs, svipað og rætur WWII má auðveldlega rekja til fyrra stríðs og eftirmála þess. Þetta er þó ekki einhlít skýring, einnig má vísa til ýmissa smærri "átaka" hér og þar, s.s. Stríðsins Gegn Hryðjuverkum (sem var þá þegar hafið), Stríðsins Gegn Eiturlyfjum (upphaf markvissrar "fangelsisvæðingar"), þjóðernisátökum í A-Evrópu (Kosovo, Tsétsenía o.fl.), átökum trúarhópa eða gegn þeim (N-Írland, Palestína, Tíbet, ýmis lönd sem enda á -stan), og baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem eflist sífellt og heldur nú jafnvel úti litlum "einkaherjum" og/eða tölvuglæpa- og njósnadeildum (rússneska mafían, sú ítalska, Yakuza, einnig barnakláms- og mansalshringir o.s.frv.).
Í þessari nýju styrjöld er ekki endilega alltaf barist með sprengjum og byssum eða öðrum hefðbundnum vopnum, heldur einnig með tækni og áhrifamætti bæði efnahagslegum og sálfræðilegum. Markmiðið er ekki alltaf að ná völdum eða gersigra andstæðinginn eins og í fyrri stríðum, heldur að beita valdi eða áhrifamætti á sértækan hátt með afmörkuð og vel skilgreind markmið í huga, en helst án þess að það hafi mikinn efnahags- eða ímyndarskaða í för með sér. Mikilvægir þættir í þessu "nýja vopnabúri" eru t.d. njósnabúnaður og eftirlitsstarfsemi, áróður og upplýsingastjórnun, peningar og skuldir, alþjóðalög og viðskipti. Beiting slíkra aðferða hefur óhjákvæmilega í för með sér síauknar takmarkanir á ferðafrelsi og mannréttindum almennt, beggja vegna víglínunnar.
Þetta nýja stríð er í raun hafið nú þegar, en er ekki allsstaðar augljóslega sýnilegt. Hluti af taktíkinni er nefninlega að fara sem mest huldu höfði og villa fyrir um raunverulega sök á hverjum þeim verknaði sem "falda höndin" framkvæmir gegn mótaðilanum. Þar að auki á þetta nýja stríð það sameiginlegt með því þriðja að átökin fara að miklu fram í hugum almennings í öllum löndum. Þetta er með öðrum orðum barátta um hugmyndir ekki síður en vígbúnað eða landfræðileg yfirráð, sem eru meira að segja á undanhaldi sem nothæfir mælikvarðar á eiginlegan styrk þjóða og heimsvelda. Ágætt dæmi um slíkt er Ísrael sem er lítið og tiltölulega fámennt ríki með meðalstóran en þó nokkuð skilvirkan her, en lykillinn að styrk þess liggur í þeim áhrifum sem það hefur varðandi stefnu stærsta herveldisins gagnvart sínum heimshluta.
Eftir að gjaldþrotið er yfirstaðið verður svo Bandaríkjunum hugsanlega breytt í einar stórar fanga-/vinnubúðir, en rekstraraðilarnir eru nú þegar komnir á undirbúningsstig með útbreiddum einkarekstri í fangelsisgeiranum og byggingu "fjöldahjálparmiðstöðva" fyrir FEMA þar sem gaddavírinn efst á girðingunum snýr INN á við. Vopnaleitarhlið DHS við landamærin eru auk þess þannig útbúin að það er ekkert mál að snúa þeim við, til að koma í veg fyrir að óviðkomandi sleppi ÚT úr landinu. Skuldunautarnir? Aðallega Kínverjar og Rússar en líka Saudar, Sameinaðir Arabískir Furstar o.fl. Og það sem öðru fremur er barist um og mun ráða því hver sigrar í þessu nýja stríði er: almenningsálitið.
Ég vil hvetja áhugasama til að kynna sér efni bókarinnar Unrestricted Warfare frá árinu 1999 (超限战 á frummálinu), hún er skrifuð af Qiao Liang og Wang Xiangsui en þeir eru ofurstar í kínverska alþýðuhernum. Titill bókarinnar gæti útlagst bókstaflega sem "hernaður án takmarkana" en hún fjallar m.a. um hvernig þróunarland (eins og Kína) geti hugsanlega náð yfirhöndinni gagnvart þróuðu ríki (eins og Bandaríkjunum) í hátæknistyrjöld! Þar er útgangspunkturinn sá að í þessu nýja stríði munu öll óþverrabrögð verða leyfileg (og þar með nauðsynleg) þ.m.t. skæruhernaður og hryðjuverk í stórum stíl (varð að veruleika 9/11 2001), umfangsmeiri beiting fjölmiðla í áróðursskyni en áður hefur þekkst, árásir og/eða misnotkun á tölvukerfum með nethernaði (Eistland 2007, Georgia 2008), átök á grundvelli lagasetninga og dómstóla ("lawfare"), og ekki síst efnahagsleg skemmdarverk.
P.S. Þetta tvennt síðastnefnda (misbeiting lagaheimilda og efnahagsleg skemdarverk) ætti að vera orðið Íslendingum vel kunnugt nú í seinni tíð, ef ekki þrennt (nethernaður) en það gengur víst erfiðlega að millifæra erlendan gjaldeyri til og frá Seðlabankanum og flutningsleiðirnar liggja einmitt yfir netið! (Veit ekki hvort það hefur verið kannað til hlítar hvað veldur, en ef skýringin er tæknilegs eðlis þá er frekar grunsamlegt að taki marga daga að kippa því í liðinn hjá bankastofnun... hver á annars ljósleiðarastrengina til og frá landinu???)
Að lokum tilvitnun úr viðtali við Qiao Liang, annan höfunda Unrestricted Warfare: "the first rule of unrestricted warfare is that there are no rules, with nothing forbidden."
Flokkur: Öryggis- og alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Breta munu nota öll skítatrix sem hægt er að nota. Þess vegna stakk ég upp upp á að nota slátrun á hvölum til að búa til samningastöðu.
Hvalfriðunarsinnar myndu ráðast á Breta frekar enn okkur, ef þetta verður útskýrt með réttum hætti...Og svo yrði slátrun ekki hætt fyrrr enn Breta eru búnir að skila öllu sem þeir hafa stolið. Og greitt allar skaðabætur....
Óskar Arnórsson, 22.10.2008 kl. 00:03
Róttæk hugmynd, en gæti komið í bakið á okkur...
Guðmundur Ásgeirsson, 23.10.2008 kl. 10:15
Það má gera ráð fyrir því að eitthvað fleira komi í bakið á okkur. Enn erum við ekki orðnir vanir því?
Óskar Arnórsson, 23.10.2008 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.