Alþjóðleg matsfyrirtæki o.fl.

Í erlendum fjárfestingarbönkum þar sem sýslað er með billjarða per mínútu, hafa menn stundum engan tíma til að lesa hverja einustu skýrslu eða grein sem skrifuð er um efnahagsmál, hvað þá um litla 300.000 manna "fyrirtækjasamsteypu" í N-Atlantshafi. Því taka menn gjarnan (meðvitað eða ómeðvitað) þá áhættu í slíkum tilvikum að treysta talsvert á þessi svokölluðu matsfyrirtæki. (Þið vitið þessi með skrýtnu nöfnin, og nei þau starfa ekki í matvælaiðnaði ;) Í Bandaríkjunum eru aðeins tíu svona matsfyrirtæki með starfsleyfi og af þeim eru þrjú sem ráða yfir 90-95% hlutdeild í heimsmarkaðnum á þessu sviði, en það eru Standard & Poor's, Moody's, og Fitch. Það er því óhætt að segja að þessi þrjú fyrirtæki geti haft mikil áhrif á það hvert lausafjármagn flæðir í heiminum ef þau kærðu sig um það, tilgangur þeirra er hinsvegar að veita óháða ráðgjöf og því þykir æskilegast að þau séu hafin yfir allan vafa umað hafa óhreint í pokahorninu. Starfsemi þeirra er að öllum líkindum ekki mjög frábrugðin því sem greiningardeildir bankastofnana fást við, en munurinn er sá að banki er ekki óháður aðili sé hann virkur á markaði. Banki eða deild innan hans má því ekki gefa út neinar skýrslur eða greiningarniðurstöður undir því yfirskini að um óhlutdrægar upplýsingar sé að ræða, vilji hann vernda orðspor sitt.

Það voru svo þessi sömu matsfyrirtæki sem gáfu Íslandi OG íslensku bönkunum þefalt A fram í rauðan dauðann, þrátt fyrir allar þær viðvaranir og skýrslur sem hér hafa verið taldar upp. Þetta hlýtur okkur "samsærishyggjumönnum" að þykja athyglisvert í ljósi þess að það sömu matsfyrirtækin gáfu bandarísku "undirmálslánunum" svokölluðu LÍKA þrefalt A, jafnvel þó svo að lítið væri á bak við þá pappíra annað en tvíveðsetning á bandaríska húsnæðismarkaðnum. Þau gerðu þannig fullt af fólki fólki kleift að endurveðsetja húseignir sínar gegn auðfengnu lánsfé, sem streymdu svo í kjölfarið inn á hlutabréfamarkaðina sem keyrðust upp í kapphlaupi allra um skjótfenginn hagnað. ("Nú er sko komið að mér að fjárfesta í hlutabréfum, haha!"). Þannig varð til sú bóla sem nú er sprungin, með vítahring sem hefði aldrei stoppað af sjálfu sér fyrr en eitthvað varð til þess að gripið var inn í eða bólan hefði "sprungið".

Annað sem matsfyrirtæki hafa m.a. verið gagnrýnd fyrir er að þau geti hreinlega búið til og ýtt undir slíka vítahringi. Sérstaklega í umhverfi þar sem eru litlar takmarkanir á fjármagnsflæði (eins og t.d. á Íslandi en aðeins Hong Kong leyfir meira hömluleysi skv. WEF) geta öflugir fjárfestar hæglega búið til óhagstæðar kringumstæður fyrir smærri aðila og keyrt þá inn í atburðarás sem kallast því óhugnanlega nafni "dauðaspírall", en þá er "tekin staða gegn" viðkomandi aðila eins og það hefur verið kallað og hámarkshagnaður næst ef á endanum tekst að keyra fórnarlambið algerlega í gjaldþrot. Ef matsfyrirtækin sjá ekki slíka atburðarás fyrir heldur verða aðeins vör við hana eftir á bregðast þau gjarnan við með því að lækka lánshæfismat viðkomandi, ekki síst vegna eigin orðspors sem myndi óhjákvæmilega rýrna ef fyritæki með einkunn AAA myndi skyndilega sigla í strand. Slík lækkun lánhæfismats getur aftur á móti haft þveröfug áhirf og rýrt traust annara fjárfesta enn frekar, en við það lokast fleiri "lánalínur" sem áður voru opnar, og svo koll af kolli þar til lánshæfið er raunverulega orðið ekkert.

Á mannamáli jafngildir þetta því að yfirdráttarheimildin hafi verið afturkölluð og reikningshafa gert að greiða hana upp með skömmum fyrirvara. Hringurinn þrengist og lánhæfismatið lækkar en frekar, lánadrottnar kippa hver af öðrum að sér höndum þar til allt lánsfjárframboð til viðkomandi aðila er uppþornað. Í ákvæðum sumra skuldabréfa sem fyrirtæki eins og bankar gefa út er jafnvel að finna atriði sem virkja sjálfkrafa veðköll um leið og lánshæfismatið fer niður fyrir ákveðið viðmið. Það þýðir að um leið og slíkt ferli er farið í gang stendur valið milli þess að annars vegar greiða af eigin fé bankans og rýra með því undirstöður hans, eða hinsvegar að lenda í vanskilum og standa hugsanlega frammi fyrir lagaflækjum og eignaupptöku með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir aðra viðskiptavini og orðspor bankans. Þeim mun háðara sem fyrirtækið er lausafjárstreyminu, því fyrr veslast það upp og deyr undir þessum kringumstæðum.

Hér að ofan hefur í grunnatriðum verið lýst svipaðri atburðarás og í Glitnismálinu hérna heima, sem varð svo kveikjan að þeim hörmungum sem nú hafa dunið yfir okkur. Það getur verið erfitt að segja til hvort um einhverskonar "áhlaup" hafi verið að ræða, eða einfaldlega keðjuverkun sem fór af stað á óheppilegum tímapunkti með slíkum ógnarhraða að ekki varð við neitt ráðið. Ef við hugsum okkur hinsvegar atburðarás þar sem óeðlileg tengsl eru á milli "viðurkenndra" matsfyrirtækja og stórra fjárfestingarbanka eða -sjóða, þá er hægðarleikur að spinna í kringum það brjálæðislegustu samsæriskenningar kæri maður sig um það á annað borð, hvort þarna á sér stað eitthvað samráð hef ég alla vega litla þekkingu á. Þó má þeim ljóst vera að oftar en ekki eru þessi þrjú stóru matsfyrirtæki afskaplega samstíga, svo samstíga að í raun minnir það oft eina helst á önnur þrjú "stór" fyrirtæki alltént á íslenskan mælikvarða, en þá er ég að meina "gömlu" olíufyrirtækin. Þeirri skýringu hefur verið haldið nokkuð á lofti hér heima að gjaldþrot Lehman Brothers hafi átt stóran þátt í því að koma Glitni í klípu, sem Seðlabankastjóri vill reyndar meina að hafi verið vonlaus staða en um það eru hinsvegar skiptar skoðanir. Það vakti athygli sumra að einmitt Lehman skyldi vera látinn rúlla á meðan bandarísk yfirvöld dældu fé í aðra banka sem áttu undir högg að sækja á sama tíma.

Athyglisverður punktur sem drukknaði næstum í fréttum af bönkunum sjálfum í síðustu viku, var að á sama tíma og lá fyrir að sett yrðu neyðarlög vegna yfirvofandi bankakreppu bárust fréttir af því að í Reykjavík væru útsendarar frá JP Morgan fjárfestingarbankanum og hefðu m.a. setið fund með yfirvöldum í Ráðherrabústaðnum þá örlagaríku helgi. Þeir sem lesið hafa hina frábæru bók Falið Vald ættu að kannast vel við nafnið, en J. P. Morgan er einmitt álitinn hafa verið "hönnuðurinn" að bankakreppunni 1914 og vofa hans hefur svifið yfir vötnum í öllum bankakreppum síðan. Og viti menn á fréttamannafundi daginn eftir þann fund (mánudegi) lýsir Geir H. Haarde því yfir að nú standi yfir versta bankakreppa frá árinu 1914, já hann sagði 1914 og getur því ekki hafa verið að tala um Heimskreppuna Miklu 1929! Þess skal getið að þetta var fyrsta tilvísunin í þessa bankakreppu sem ég man eftir að hafa heyrt í hringiðu undanfarinna tveggja vikna, menn hafa fyrst og fremst vísað til Heimskreppunnar en eftir að Geir hafði orð á þessu hafa reyndar aðrir étið tilvísunina upp eftir honum. Þarna spilar mögulega inn í vanþekking okkar á sögunni en flestir núlifandi Íslendingar voru hvorki fæddir 1914 eða 1929 og þeir fáu sem það voru er ekki víst að muni vel svo langt aftur í tímann. (Þið vitið, Alzheimer og það allt saman... með fullri virðingu samt.)

Lengra er ég ekki kominn í þessum vangaveltum að sinni, en ljóst er að þetta þarf að rannsaka af óháðum aðilum og fara yfir allar fléttur málsins. En miðað við hversu tamt Fjármálaeftirlitinu virðist vera að þegja yfir óþægilegum hlutum þá tel ég útilokað að það sé hæft til þess að rannsaka málið, sérstaklega þar sem það á sjálft aðild að því. Til gamans vil ég geta þess að ég hef tvisvar sinnum sótt um vinnu hjá FME en í bæði skiptin verið hafnað um starf þar. Ef Jónas hefur strax þá vitað í hvað stefndi eins og skýrsla Willem Buiter og félaga segir til um, og hann ákveðið að þegja yfir því hversu mikilli hættu við værum í, þá er ég ekki hissa þó hann hafi stoppað umsóknina mína sérstaklega ef hann hefur verið að lesa bloggið mitt! ;)

P.S. Heyrði þennan einlínubrandara (e. one-liner) í dag: "Hver er hann eiginlega þessi Triple-A sem allir eru að tala um? Er hann kannski rappari eins og hinn þarna... Nas Daq var það ekki?"

Grin

Þess má einnig til gamans geta að í Bandaríkjunum eru samtök bíleigenda (svipuð og FÍB) sem heita Automobile Association of America, en skammstöfunin á nafni þeirra er nær undantekningalaust borin fram: "Triple-A".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband