Mál tengt bókun 35 til Hæstaréttar á ný
3.9.2025 | 15:43
Hæstiréttur Íslands hefur samþykkt málskotsbeiðni Önnu Bryndísar Einarsdóttur læknis og heimilað áfrýjun skaðabótamáls hennar gegn íslenska ríkinu beint til Hæstaréttar, fram hjá Landsrétti. Málið er í lögfræðilegum skilningi sprottið af ágreiningi um hvort skuli gilda framar, EES reglur eða séríslensk lög sem stangast á við þær.
Forsaga málsins er sú að Anna Bryndís fluttist til Íslands í september árið 2019 eftir um fjögurra ára dvöl í Danmörku þar sem hún hafði starfað. Hún hóf störf á íslenskum vinnumarkaði í september 2019 og eignaðist barn í mars 2020. Fæðingarorlofssjóður samþykkti eingöngu greiðslur í orlofi vegna vinnu á Íslandi og námu þær aðeins 184 þúsund krónum á mánuði miðað við 100% orlof. Anna Bryndís kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs.
Ákvörðunin var í kjölfarið borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem staðfesti niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Var þá sótt um leyfi til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar, sem var samþykkt með þeim rökum að dómur í því gæti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Málið var svo flutt 7. febrúar 2024 fyrir fullskipuðum Hæstarétti með sjö dómurum í stað fimm, sem er sjaldgæft og aðeins gert í málum sem eru talin sérstaklega þýðingarmikil.
Dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 24/2023 var kveðinn upp 28. febrúar 2024. Af honum má ráða að engin vafi lék á því að íslensk lög um fæðingarorlof veittu í þessu tilviki lakari réttindi en ef Anna Bryndís hefði dvalið og starfað á Íslandi allan tímann, fyrir þær sakir einar að hún hafði dvalið og starfað í Danmörku þar til skömmu eftir að hún varð ólétt þegar hún flutti heim til Íslands. Þetta stangaðist þó á við lög sem höfðu áður verið sett til þess að innleiða EES samninginn með þeim reglum hann innifelur um frjálsa för launafólks innan EES ásamt reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa.
Þar sem kominn var upp árekstur á milli mismunandi lagabálka (og reglugerðar) þurfti að leysa úr því hvor lögin skyldu ganga framar hinum. Því skal haldið til haga að hér er aðeins um að ræða íslensk lög og reglur enda dæma íslenskir dómstólar eingöngu eftir íslenskum lögum, hvort sem þau eiga rætur að rekja til EES samningsins eða ekki.
Hæstiréttur fjallaði ítarlega í dómi sínum um bókun 35 við EES samninginn en hún mælir fyrir um að í tilvikum sem þessum skuli aðildarríkin tryggja að lög sem innleiða EES reglur gangi framar öðrum lögum sem gera það ekki. Niðurstaða samkvæmt því hefði orðið Önnu Bryndísi í hag og hún átt rétt á óskertum greiðslum í fæðingarorlofi. Aftur á móti hafði slík forgangsregla ekki verið lögfest hér á landi og þess vegna þurfti að dæma málið eftir hinum yngri lögum um fæðingarorlof og staðfesta hina umræddu skerðingu á greiðslum hennar í fæðingarlofi. Þessi ósanngjarna niðurstaða var óhjákvæmileg þar sem íslensk lög innihéldu enga forgangsreglu samkvæmt bókun 35 sem hefði getað leitt til annars.
Þrátt fyrir að íslenska ríkið hefði í öndverðu innleitt reglurnar um frjálsa för launþega réttilega hafði það síðar tekið þær úr sambandi að því leyti sem hér um ræðir og haft þær að engu sem gerði innleiðingu þeirra ófullnægjandi. Þá gildir sú meginregla að þegar EES reglur hafa ekki verið innleiddar með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt verður ríkið jafnan skaðabótaskylt fyrir það tjón sem einstaklingar verða fyrir af þeim sökum. Anna Bryndís höfðaði því skaðabótamál gegn íslenska ríkinu 25. janúar 2021 til að sækja sér bætur fyrir skerðinguna að fjárhæð 2.782.238 krónur auk dráttarvaxta.
Brynjar Níelsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóm sinn í málinu 4. júní 2025 og sýknaði íslenska ríkið af kröfu Bryndísar Önnu með þeim rökum einum að hið augljósa brot ríkisins gegn umsömdum réttindum hennar hefði ekki verið nægilega alvarlegt (að mati Brynjars). Anna Bryndís sótti því 1. júlí 2025 um leyfi til að áfrýja þeim dómi beint til Hæstaréttar Íslands og sú beiðni var samþykkt 1. september 2025 (í fyrradag).
Vonandi mun Hæstiréttur Íslands snúa við því mati setts héraðsdómara að það sé léttvægt brot að svipta nýbakaða móður greiðslum í fæðingarorlofi upp á hátt í 3 milljónir króna og skerða þannig möguleika hennar til viðunandi framfærslu og til að geta nýtt þennan mikilvægasta tíma í lífi hvers barns til áhyggjulausra samvista með því. Engu að síður býr að baki gríðarlega kostnaðarsöm sex ára löng þrautaganga sem er engu nýbökuðu foreldri óskandi. Jafnframt situr íslenska ríkið uppi með þá skömm að hafa komið svo snautlega fram sem raun ber vitni við sína eigin ríkisborgara því málið er ekki einsdæmi.
Hjá allri þessari sneypu hefði auðveldlega mátt komast ef íslenska ríkið hefði einfaldlega gætt að því að uppfylla skyldur sínar til að innleiða réttilega þær EES reglur sem um ræðir, í stað þess að aftengja þær, til tjóns fyrir Íslendinga sem sækja sér nám og starfsreynslu í nágrannaríkjum, flytja þá þekkingu og reynslu með sér aftur heim til Íslands og bera með sér undir belti nýja ríkisborgara og verðandi skattgreiðendur, landi og þjóð til heilla.
![]() |
Fæðingarorlofsmál beint upp í Hæstarétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.9.2025 kl. 21:41 | Facebook
Athugasemdir
Held að Brynjar hafi haft lög að mæla.
Konan hlýtur að eiga uppsöfnuð réttindi í fyrra landi, og væri nær að ætla, rétt eins og Ríkið hefur milligöngu um innheimtu barnsmeðlaga, að ríkið sækti þau réttindi út.
Guðjón E. Hreinberg, 4.9.2025 kl. 20:04
Ef hún hefði átt uppsöfnuð réttindi í Danmörku hefði hún að sjálfsögðu sótt þau en það er ekki þannig sem þetta virkar heldur flytjast réttindin milli landa þangað sem barnið fæðist sem gerðist á Íslandi.
Málið snerist aðeins um það hvort að íslenska ríkið ætlaði sér að virða þessi samningsbundnu réttindi hennar eða brjóta þau sem það gerði eins og var staðfest með fyrri dómi Hæstaréttar.
Brynjar hafði engin lög að mæla um hvort þetta tiltekna brot hafi verið nægjanlega alvarlegt því ekkert stendur um það í lögum heldur var það einungis mat Brynjars sjálfs að brotið væri léttvægt.
Ert þú sammála því mati hans að það sé léttvægt brot að snuða nýbakaða móður um hátt í þrjár milljónir króna og ætla henni að framfæra sér og barninu í hálft ár með aðeins 184 þúsund krónum á mánuði?
Guðmundur Ásgeirsson, 4.9.2025 kl. 21:16
Einhverjir samningar og reglur eru ekki náttúruleg innistæða.
Það er löngu vitað t.d. í norðurlanda samningum (sem er mun eldra en ESB klúðrið) að pottur er brotinn í því hvernig kerfið virkar - en einhver kommúnismi um að maður eigi eitthvað inni hjá sovétríkinu, er sjálfsblekking.
Guðjón E. Hreinberg, 5.9.2025 kl. 01:13
Þetta hefur ekkert með neina Norðurlandasamninga eða ESB að gera heldur íslenska ríkið svipti nýbakaða móður réttindum sem hún hefði átt að njóta. Þú svaraðir því ekki hvort þú værir sammála því mati setts héraðsdómara að það væri léttvægt brot á þeim réttindum.
Lærdómurinn sem má draga af málinu að hjá öllu þessu hefði mátt komast ef íslensk stjórnvöld hefðu bara gert það sem þeim var skylt en ekki brotið gegn þeirri skyldu. Hvort finnst þér að hefði verið réttara?
Guðmundur Ásgeirsson, 5.9.2025 kl. 01:29
Er búinn að svara þessu.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 5.9.2025 kl. 05:03
Því miður bættu þau "svör" engu efnislega við umfjöllunarefnið.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.9.2025 kl. 22:00
Hér er annað svipað mál nema verra því þar var um ræða föður sem fékk engar greiðslur í fæðingarolofi. Kaldhæðnislega, beinlínis vegna þess að hann starfaði hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)!
Faðir féll milli skips og bryggju Fæðingarorlofssjóðs
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2025 í máli nr. E-3268/2025
Guðmundur Ásgeirsson, 26.9.2025 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning