Aðildarumsókn Schrödingers

Þrátt fyrir að starfsfólk Evrópusambandsins hafi staðfest afturköllun ólögmætrar umsóknar Íslands um aðild að sambandinu frá árinu 2009 í samskiptum við undirritaðan árið 2015, halda talsmenn sambandsins því núna fram að umsóknin hafi aldrei verið "formlega" dregin til baka og sé enn í gildi. Þess má geta að umrædd tölvupóstsamskipti hafa verið varðveitt enda eru þau mikilvæg sönnunargögn um réttar og sögulegar staðreyndir.

Samt mætti halda að umsóknin sé í einhverskonar skammtafræðilegri tvístöðu líkt og hinn ímyndaði köttur Schrödingers þar sem hún er samtímis bæði afturkölluð og enn í gildi.

Kannski er það kaldhæðnislegt að í hinni ímynduðu tilraun Erwin Schrödinger kemur ekki í ljós hvort kötturinn er dauður eða lifandi fyrr en "kíkt er í kassann". Það svipar til þeirrar kenningar að einungis aðildarviðræður við Evrópusambandið geti leitt í ljós aðildarsamning sem taka megi afstöðu til en það hefur verið kallað að "kíkja í pakkann".

Ólíkt lokaða kassanum í hugarsmíðaðri tilraun Schrödingers er þó ekki neinn lokaður pakki sem þarf að "opna" með aðildarviðræðum svo hægt sé að komast að hinu rétta um skilmála hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Sáttmálarnir um Evrópusambandið og starfshætti þess sem mynda svokallaðan Lissabon-sáttmála voru undirritaðir af aðildarríkjum sambandsins 13. desember 2007 og tóku gildi 1. desember 2009. Síðan þá hefur aðild Evrópusambandinu verið háð því skilyrði að ríki sem sækja um aðild undirgangist hann og enginn annar aðildarsamningur stendur til boða.

Íslensk þýðing Lissabon-sáttmálans var gefin út árið 2012 þegar Ísland var í svokölluðum aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem lauk árið 2013. Síðan þá hefur sá pakki staðið öllum opinn sem vilja kíkja í hann og taka afstöðu til hans.

Við lestur þessa aðildarsamnings (sáttmálans) kemur í ljós að í honum er gerð ófrávíkjanleg krafa um framsal ríkisvalds til stofnana Evrópusambandsins, en það samræmist ekki 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þess vegna er eina mögulega afstaðan til hugmynda um aðild Íslands að Evrópusambandinu sú að hún komi ekki til greina.

Ekki þarf að halda neina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta því það getur engu breytt um hvað stendur skýrum orðum í stjórnarskránni. Auk þess hafa verið haldnar tvær bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur árin 2010 og 2011 á grundvelli 26. gr. stjórnarskrár og í þeim báðum höfnuðu íslenskir kjósendur með afgerandi hætti órjúfanlegum hluta aðildar að Evrópusambandinu: ríkisábyrgð á innstæðutryggingum.

Í kjölfarið var höfðað mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins var meðal nokkurra gagnaðila en tapaði málinu og Ísland hafði betur. Þrátt fyrir bindandi dóminn hefur Evrópusambandið aldrei viðurkennt niðurstöðu hans heldur virt hann að vettugi allar götur síðan með því að krefja öll aðildarríki sín um að undirgangast ríkisábyrgð á innstæðutrygginum.

Fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES nefndinni hafa aftur á móti framfylgt vilja kjósenda og niðurstöðu EFTA-dómstólsins með því að beita sér gegn því að slík ríkisábyrgð verði tekin upp í EES-samninginn. Þetta er lifandi sönnun þess að ólíkt því sem stundum hefur verið haldið fram er neitunarvald Íslands í EES samstarfinu raunverulegt og það hefur verið notað. Innan Evrópusambandsins eiga aðildarríki þess engra slíkra kosta völ.

Staðreyndir málsins eru í hnotskurn þessar:

  • Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá árinu 2009 var dregin til baka árið 2015 og sönnunargögn liggja fyrir um það.
  • Aðildarsamningurinn liggur fyrir og hver sem vill getur kíkt í þann pakka.
  • Stjórnarskráin leyfir lýðveldinu Íslandi ekki að undirgangast aðildarsamninginn.
  • Íslenskir kjósendur höfnuðu ófrjúfanlegum hluta aðildar að Evrópusambandinu í tveimur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum árin 2010 og 2011.
  • Íslenskum stjórnvöldum er hvorki heimilt að ganga gegn stjórnarskrá né bindandi niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna á grundvelli hennar.
  • Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er því útilokuð og málið útkljáð.

Íslenskir kjósendur verða réttilega að ætlast til þess að ríkisstjórnin virði stjórnarskránna og þann vilja þeirra sem var látinn í ljós með bindandi hætti í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum með því að láta af öllum áformum um að efna í heimildarleysi til þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja enn á ný tilgangslausar aðildarviðræður við Evrópusambandið.


mbl.is Aldrei formlega dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Takk fyrir Guðmundur fyri frábærlega

og skýrar upplýsingar.

Sigurður Kristján Hjaltested, 26.7.2025 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband