Rangfærslur leiðréttar

Utanríkisráðuneytið birti í fyrradag svohljóðandi tilkynningu:

Vegna fréttar Morgunblaðsins um bókun 35

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er fullyrt að bókun 35 krefjist þess að EES-reglur eigi að ganga framar íslenskum lögum og að það feli í sér framsal fullveldis. 

Að gefnu tilefni er það áréttað að hvorki bókun 35 né nokkuð annað ákvæði EES-samningsins felur í sér framsal á löggjafarvaldi Alþingis. EES-reglur fá einungis gildi á Íslandi þegar þær hafa verið leiddar í lög, af Alþingi eða með heimild Alþingis.  

Lagafrumvarp utanríkisráðherra snýr að forgangi þeirra EES-reglna, sem Alþingi hefur innleitt, ef til árekstrar kemur gagnvart öðrum lögum sem Alþingi hefur sett. Löggjafarvald Alþingis er eftir sem áður óskorað enda bundið í stjórnarskrá. Frumvarp utanríkisráðherra snýr einungis að því að tryggja borgurum þau réttindi sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita og Alþingi jafnframt samþykkt að innleiða. 

Jafnframt hefur því verið velt upp í umræðu undanfarna daga hvers vegna það sé núna lagt til að innleiða bókun 35 þegar það eru yfir þrjátíu ár síðan EES-samningurinn tók gildi. Tilefnið er einmitt það að nýleg dæmi hafa sýnt að borgarar eru að fara á mis við réttindi sín og úr því þarf að bæta. Þetta sannaðist í máli unglæknis sem ekki fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og rétt innleidd bókun 35 hefði tryggt henni.

Hér má nálgast upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins um bókun 35.

Við þetta má bæta að í grein Morgunblaðsins var einnig ranghermt að efnisákvæði bókunarinnar sé í beinni mót­sögn við aðfararorð hennar, sem kveði á um að löggjafarvaldið skuli ekki fram­selt. Hið rétta er að engin mótsögn er þar því ákvæðið gerir beinlínis ráð fyrir því að enginn nema löggjafi aðildarríkis, Alþingi í tilviki Íslands, geti sett lagaákvæði þess efnis að EES-reglur skuli gilda. Enda hefur enginn annar löggjafarvald í aðildarríki þar sem með EES samningnum er samningsaðila ekki gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins eins og er áréttað í aðfararorðunum.

Sama dag birtist grein í áskriftarútgáfu Morgunblaðsins eftir Ólaf nokkurn Sigurðsson með fyrirsögninni "Hvaða bókun erum við að samþykkja?". Sá ágæti maður virðist ekki vera fylgjandi málinu sem er kennt við bókun 35. Því miður byrjar greinin þó á villu í sjálfri fyrirsögninnni því "við" erum ekki að "samþykkja" neina bókun. Hið rétta er að EES samningurinn var samþykktur árið 1993 og bókun 35 með honum. Það sem er löngu búið að samþykkja þarf ekki að samþykkja aftur. Það sem er núna til umræðu er aftur á móti frumvarp sem er kennt við þessa bókun en því hefði eftir á að hyggja kannski mátt sleppa þar sem það kann að hafa stuðlað að allskonar ruglingi eins og þessum.

Við nánari lestur greinarinnar kemur einnig í ljós að höfundurinn virðist eiga erfitt með að skilja orðalagsmun á annars vegar samningsákvæði (hinni einu efnisgrein bókunar 35) sem fjallar um setningu forgangsreglu og hins vegar lagalegri útfærslu slíkrar forgangsreglu eins og þeirri sem kemur fram í frumvarpinu sem er til meðferðar á Alþingi. Eins og gefur að skilja er um tvennt ólíkt að ræða, annars vega samningsákvæði sem mælir fyrir um tiltekið markmið og svo hinsvegar lagaákvæði sem er ætlað til þess að ná því markmiði. Ekkert er óeðlilegt við að markmið og útfærsla séu ekki nákvæmlega eins orðuð.

Greininni lýkur svo á þeirri tillögu höfundar að allir lesi síðustu blaðsíðu grein­ar­gerðar með frumvarpinu og hugsi svo málið, en í þeim lokakafla greinarinnar sést því miður að hann virðist ekki sjálfur hafa lesið þann texta sem vísað er til í allri sinni heild.

Þar er vitnað til svohljóðandi setningar í greinargerðinni: "Regl­an um for­gangs­áhrif ESB-rétt­ar bygg­ist á for­dæm­um dóm­stóls ESB. Þetta á við um all­ar reglur lands­rétt­ar, þ.m.t. stjórn­ar­skrá aðild­ar­rík­is." Af þeirri setningu er svo ranglega dregin sú ályktun að "Lög­gjaf­ar­valdið vík­ur fyr­ir lög­um EES/ESB. Fram­kvæmd­ar­vald rík­is­stjórn­ar með reglu­gerðum og til­skip­un­um vík­ur fyr­ir EES/ESB. Dómsvaldið bygg­ist á for­dæm­um dóm­stóls ESB."

Vandamálið við þetta er að setningin sem er vísað til fjallar alls ekki um neina reglu í EES-rétti heldur forgangsreglu ESB-réttar sem er til staðar í aðildarríkjum ESB vegna þess að innan ESB hafa reglur sambandsins bein lagaáhrif. Engin slík bein lagaáhrif eru í EES-rétti, Ísland er ekki í ESB eins og flestir vita og ekkert af þessu á því við hér á landi.

Greinarhöfundurinn hefði einmitt getað gert sér betur grein fyrir þessu ef hann hefði farið sjálfur að sinni eigin tillögu og lesið alla síðustu blaðsíðu greinargerðarinnar. Sé allur sá texti lesinn í heild útskýrir hann nefnilega vel hið sögulega samhengi sem málið á rætur að rekja til en þar stendur strax í næstu setningu á eftir þeirri sem áður var vitnað til: "EFTA-ríkin gátu ekki fallist á að sambærileg regla myndi felast í EES-samningnum, m.a. þar sem hún var talin fela í sér framsal lagasetningarvalds til alþjóðastofnunar sem ríkin áttu ekki aðild að og var það talið ósamrýmanlegt fullveldi ríkjanna."

Þar höfum við það, í EES rétti er engin þjóðréttarleg regla sambærileg forgangsreglu ESB-réttar, einmitt af þeirri ástæðu að slík regla hefði falið í sér framsal lagasetningarvalds til erlendrar stofnunar sem EES ríkin eiga ekki aðild og slíkt væri ósamrýmanlegt fullveldi ríkjanna. Þess vegna þurfti að eftirláta EES ríkjunum sjálfum sem handhafa eigin fullveldis og lagasetningarvalds að setja í sín eigin lög reglur um forgang þeirra EES reglna sem þau myndu innleiða í sín eigin lög í krafti þess valds síns. Þetta er nákvæmlega það sem er lagt til með hinu umrædda frumvarpi og ekkert annað, beinlínis vegna þess að öðruvísi myndi það ekki samræmast fullveldi Íslands. Þegar Alþingi samþykkir frumvarpið sem lög mun það ekki afsala sér neinu löggjafarvaldi heldur nota það og ekki skerða fullveldi heldur beita fullveldisrétti Lýðveldisins Íslands í framkvæmd.

Af einmitt sömu ástæðum og hér að síðustu voru raktar er aðild Íslands að ESB útilokuð þar sem hún myndi útheimta áðurnefnt framsal lagasetningarvalds til stofnana ESB en það væri ósamrýmanlegt 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður skýrt á um að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið og engir aðrir.

Svo mörg voru þau orð: 981


mbl.is Um hvað snýst þessi bókun 35?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Það hefur verið minn skilningur að Ísland sé skyldugt 

til að samræma lög landsins  við lög evrópusambandsins með lagasetningu á alþingi. Er þetta ekki rétt.

jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 18.6.2025 kl. 08:53

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Góðan dag. Skilja má af hrifningu þinni á EES-samningnum og bókun 35, að það væri bara frábært að ganga í ESB? EES - samningurinn hefur ekki verið endurskoðaður frá gerð hans 1992.

Birgir Loftsson, 18.6.2025 kl. 09:12

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jósef.

Þetta er aðeins rétt að hluta til. Ísland er ekki skyldugt til að samræma hvorki öll sín lög né við allt regluverk Evrópusambandsins, heldur aðeins á vissum afmörkuðum sviðum sem falla undir EES samninginn. Það gerist þannig að þegar Evrópusambandið samþykkir nýjar reglur er skoðað hvort þær snerta atriði sem falla undir EES samninginn. Ef ekki þá nær það ekki lengra en ef þær gera það eru þær sendar til sameiginlegu EES nefndarinnar sem starfar á vettvangi EFTA þar sem Ísland og hin EES ríkin eiga fulltrúa. Þar er svo tekin afstaða til þess hvort taka skuli viðkomandi reglur upp í EES samninginn og ef þurfa þykir með breytingum til aðlögunar að sérstökum aðstæðum EES ríkjanna. Loks er það ekki fyrr en sameiginlega EES nefndin hefur tekið slíkar reglur upp í EES samninginn sem Íslandi ber skylda til að innleiða þær í íslensk lög samkvæmt 7. gr. EES samningsins. Svona hefur þetta verið alla tíð frá gildistöku samningsins og hefur í raun ekkert að gera með málið sem var umfjöllunarefni pistilsins hér að ofan því það hefur ekki í för með sér neina efnislega breytingu á þessari innleiðingarskyldu heldur er eini tilgangur þess að gera framkvæmd hennar skilvirkari.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.6.2025 kl. 12:59

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Birgir.

Pistillinn hér að ofan inniheldur engin lýsingarorð og fjallar ekki um skoðun eða afstöðu, heldur eingöngu staðreyndir máls og leiðréttingar á rangfærslum um hverjar þær séu í raun. Ég skil því ekki hvernig þú færð út úr því einhverja "hrifningu" og enn síður hvers vegna þú heldur að mér þætti eitthvað "frábært" að ganga í ESB. Ef þú hefur eitthvað fylgst með mér ættirðu vita vel um andstöðu mína við ESB aðild.

EES samningurinn hefur verið í gildi frá því áður en ég náði aldri til að fá kosningarrétt. Eftir að ég varð eldri og lærði allt sem þarf að vita um eðli EES samniningsins og mismuninn á honum og ESB hefur afstaða mín til hvors tveggja mótast. Ég hvorki elska né hata EES samninginn enda hefur hann bæði kosti og galla. Á að meðan hann gildir ber Íslandi þjóðréttarleg skylda til að fylgja honum en ég lít svo á að innan þess ramma ættum við að reyna að nýta okkur kostina til hins ítrasta en um leið að reyna að forðast gallana eftir fremsta megni. Því miður hefur það ekki alltaf verið reyndin en um það er helst að kenna íslenskum stjórnvöldum að hafa ekki beitt sér af nógu miklum á krafti á vettvangi EES nefndarinnar í andstöðu við gallana en hafa á sama tíma oft dregið lappirnar við að innleiða góðu kostina og jafnvel gert það með ófullnægjandi hætti, til tjóns fyrir íslenskan almenning.

Ég þekki ótal mörg dæmi um mál þar sem fólk á Íslandi hefur reynt að bera fyrir sig þeim réttindum sem það á að njóta samkvæmt EES samningnum en án árangurs vegna vankanta á innleiðingu EES reglna eða þá að séríslenskar og verri reglur hafa verið látnar ganga framar þeim. Stærstu slíku málin voru gegn bönkunum eftir hrun en í þeim voru réttindi íslenskra neytenda ítrekað fyrir borð borin sem olli tugþúsundum heimila hér á landi stórfelldum skaða sem hefur ekki enn verið bættur.

Í seinni hefur svo líka reynt á þetta í svokölluðum vaxtamálum þar sem reynir á það hvort skilmálar bankanna um breytilega vexti lána til neytenda séu samrýmanlegir EES reglum, sem EFTA dómstólinn hefur í ráðgefandi áliti látið í ljós að þeir séu ekki. Samt dæmdi héraðsdómur þvert gegn því áliti, neytendum í óhag, með þeim rökum að við innleiðingu reglna EES um fasteignalán til neytenda hefði verið laumað inn íslenskri sérreglu sem ætti sér enga hliðstæðu í EES reglum en hefði heimilað bönkunum notkun skilmála sem annars hefðu orðið að teljast ólögmætir. Þessum málum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands þar sem þau bíða úrlausnar og eina vonarglætan fyrir íslenska neytendur er að sjö dómurum í fjölskipuðum dómnum auðnist að finna leið til að dæma í samræmi við EES reglur, neytendum í hag. Takist það ekki verður íslenska ríkið skaðabótaskylt vegna rangrar innleiðingar á EES reglum og tjón neytenda verður þá að tjóni skattgreiðenda, sem að mínu mati væri versta mögulega útkoma málsins fyrir hagsmuni almennings á Íslandi.

Að lokum, varðandi afstöðu mína til hugmynda um aðild Íslands að ESB, þarf aðeins að lesa síðustu málsgreinina í pistlinum hér að ofan:

Af einmitt sömu ástæðum og hér að síðustu voru raktar er aðild Íslands að ESB útilokuð þar sem hún myndi útheimta áðurnefnt framsal lagasetningarvalds til stofnana ESB en það væri ósamrýmanlegt 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður skýrt á um að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið og engir aðrir.

Þetta er ekki skoðun heldur staðreynd. Ég lít svo á að stjórnarskránna beri að virða og þar með sé ESB aðild útilokuð. Punktur. Mér finnst ekki þurfa að rökræða það frekar en þetta var aukaatriði í pistlinum, hann snerist ekki um ESB heldur mál sem tengist EES samningnum.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.6.2025 kl. 13:36

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Smá viðbót:

Yfirlýstir andstæðingar málsins sem er kennt við bókun 35 hafa í umræðu um það sumir reynt að setja það í samband við Icesave málið. Jafnvel reynt að halda því fram að ef sú regla sem er lögð til í umræddu frumvarpi hefði verið í íslenskum lögum á þeim tíma hefði málið farið illa fyrir Ísland. Lengst hafa þeir gengið sem hafa svo reynt nota þetta til að finna EES samningnum sem slíkum allt til foráttu.

Sem einn af helstu forvígismönnum baráttunnar gegn fyrirætlunum þáverandi ríkisstjórnar um að undirgangast ríkisábyrgð á innstæðutryggingum frábið ég mér slíkan málflutning og vísa honum á bug sem tilhæfulausum. Eitt það helsta sem ég benti sífellt á í þeirri baráttu og gerði mitt besta til að reyna að halda á lofti til varnar fyrir málstað Ísland var sú staðreynd að viðkomandi EES tilskipun um innstæðutryggingar lagði beinlínis bann við fjármögnun innstæðutrygginga með ríkisábyrgð.

Svo fór að lokum að Ísland vann fullnaðarsigur í málinu fyrir EFTA dómstólnum og þykir sá dómur með þeim merkilegustu í sögu EES. Sá sigur vannst beinlínis vegna þess að Íslandi hafði fylgt EES reglum í einu og öllu, meðal annars með því að hafna ríkisábyrgð. Ef ríkisábyrgðinni hefði aftur á móti verið komið á, þá fyrst hefði Ísland gerst brotlegt við EES reglur og hefði getað tapað máli um það fyrir EFTA dómstólnum.

Sú forgangsregla sem leiðir af bókun 35 hefði engu breytt í Icesave málinu, því aldrei var um að ræða neinn árekstur á milli ólíkra laga sem hefði þurft að leysa úr samkvæmt forgangsreglum. Engin lög voru þar til staðar sem hefðu þurft að víkja eða ganga framar öðrum. Einu lögin um innstæðutryggingar voru og eru þau íslensku lög sem höfðu verið sett til að innleiða EES tilskipun um innstæðutryggingar og með dómi EFTA dómstólsins var staðfest að hún var réttilega innleidd.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.6.2025 kl. 15:23

6 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Guðmundur.

Ég verð að viðurkenna að ég hleyp í besta falli á hundavaði yfir þessar langloku útskýringar þínar varðandi ágæti samþykktar þessarar bókunar.

Þú ert reyndar ekki einn um óhóflegt málskrúðið hér á blogginu, ef það er einhver þá hughreysting.

Ef kostirnir eru augljósir, þá ættirðu að geta talið þá upp í fáum og skýrum setningum, ekki satt?

Jónatan Karlsson, 19.6.2025 kl. 01:22

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jónatan.

Pistillinn fjallaði ekki afstöðu til málsins eða skoðanir um "ágæti" hennar heldur leiðréttingar á rangfærslum og misskilningi sem hefur gætt um efni málsins, sem ég geri með því að draga fram réttar staðreyndir. Ástæða þess að leiðréttingarnar eru "langlokur" er að rangfærslurnar sem þarf að leiðrétta eru sjálfar miklar langlokur og misskilningurinn sem þær hafa valdið í hugum margra er margvíslegur.

Einn slíkur misskilningur kemur fram í athugasemd þinni þar sem þú virðist telja pistilinn fjalla um "ágæti samþykktar þessarar bókunar". Bókun 35 var samþykkt árið 1993 og það sem er löngu búið að samþykkja þarf ekki að samþykkja aftur eins og kemur fram í pistlinum. Þess vegna er ekki fjallað frekar um það í pistlinum sem snýst auk þess eingöngu um staðreyndir málsins en ekki afstöðu til þess.

Ég skal samt verða við beiðni þinn og nefna í stuttu máli helstu kostina við að lögfesta forgangsreglu eins og þá sem bókunin mælir fyrir um og er lögð til í frumvarpinu sem er til meðferðar á Alþingi.

    • Réttindi almennra borgara á Íslandi yrðu betur tryggð.

    • Dregið yrði úr líkum á að mistök við lagasetningu geti valdið skerðingu á réttindum almennra borgara á Íslandi.

    • Fyrir vikið yrði skýrara hver sé gildandi réttur hverju sinni.

    • Þar með myndi réttaröryggi almennra borgara aukast.

    • Það myndi jafnframt draga úr líkum á réttarspjöllum sem annars myndu valda almennum borgurum á Íslandi tjóni.

    • Enn fremur stæði íslenska ríkið betur við þjóðréttarlegar skyldur sínar og myndi sjaldnar en ella gerast brotlegt við þær.

    • Þar með drægi úr tíðni þess að íslenska ríkið þurfi að svara fyrir slík brot á vettvangi EES og EFTA dómstólsins.

    • Með öllu þessu myndi svo draga úr líkum á skaðabótaskyldu ríkisins og tilheyrandi kostnaði skattgreiðenda á Íslandi.

    Vonandi er þetta nógu klippt og skorið, skýrt og skorinort svar.

    P.S. Ég á enn eftir að sjá eða heyra um nokkra einustu galla á málinu (fyrir utan uppspuna sem fer gegn réttindum almennra borgara).

    Guðmundur Ásgeirsson, 19.6.2025 kl. 02:36

    8 Smámynd: Jónatan Karlsson

    Sæll Guðmundur.

    Þakka þér skjót og skorinort viðbrögð.

    Ég er persónulega nokkuð á báðum áttum, þeirri að ég óttast að erlend öfl vilji ræna okkur, þessar fáu sálir náttúruauðlindum og lykil staðsetningu landsins, en á móti kemur vantrú mín á getu og heillyndum eigin yfirvalda og leiðtoga, eins og hlýtur að teljast rökrétt, út frá augljósri vanhæfni þeirra á nær öllum sviðum.

    Ég álít reyndar að Ísland ætti að segja sig tafarlaust úr NATO, EES og Schengen og sækja um aðild að BRICS og Belti og braut Kínverja, en það er önnur saga.

    Litla Evrópa er á hraðri leið til hrörnunar í nýrri heimsmynd og við blasir hvernig ástandið er í Bandaríkjunum.

    Okkur ber enginn minnsta skylda til að sýna neinu þessara sambanda samstöðu eða stuðning byggðan á slæmri samvisku gagnvart þeim, né heldur vegna gjörða þeirra í okkar garð frá örófi.

    Jónatan Karlsson, 19.6.2025 kl. 03:59

    9 Smámynd: Birgir Loftsson

    Sæll Guðmundur,  Við almúginn, hljótum að mega að leiðrétta rangfæslur þínar.  Hér kemur staðreynd sem allir eru sammála um, bæði andstæðingar og meðmælendur: Málið er umdeilt og vafi er á hvort bókun 35 standist stjórnarskránna. Við alþýðumenn hljótum að vers með réttmætar efasemdir. 

    Birgir Loftsson, 19.6.2025 kl. 10:37

    10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Sæll Jónatan.

    Það sem kemur fram í síðustu athugasemd þinni hefur ekkert með það mál að gera sem var umfjöllunarefni pistilsins. Reyndar hefur enginn gert meira til að ræna réttindum almennings á Íslandi samkvæmt EES samningnum en okkar eigin stjórnvöld, með því að setja sérreglur í andstöðu við EES reglur sem hafa rýrt réttarstöðu einstaklinga hér á landi. Frumvarpinu sem um ræðir er ætlað að draga úr möguleikum á að gera slíkt í leyni og verði framvegis varla hægt nema það sé um leið gert kunnugt. Við myndum þá að minnsta kosti vita strax af því og gætum tekið til varna gegn slíkum skerðingum og/eða leitað réttar okkar hverju sinni.

    Engin erlend öfl eru að ræna okkur neinu með þessu frumvarpi enda er það samið af Íslendingum fyrir íslenskt ráðuneyti og til meðferðar á Alþingi Íslendinga í því skyni að efna samning frá árinu 1993. Ótti þinn við slíkt er því ástæðulaus. Ef einhvern óskilgreind ill erlend öfl hefðu í hyggju að ræna einhverjum völdum eða auðlindum á Íslandi þyrftu þau að beita allt öðrum aðferðum til þess en hér um ræðir.

    Þú segist vera þeirra skoðunar að Ísland ætti að segja úr m.a. EES. Gott og vel það er þá þín skoðun, en pistillinn hér að ofan fjallaði alls ekkert um slíkar skoðanir eða afstöðu til þessa heldur eingöngu um staðreyndir málsins sem er til meðferðar á Alþingi og leiðréttingar á misskilningi og rangfærslum um efni þess.

    Okkur ber vissulega engin skylda til að sýna neinu erlendu sambandi samtöðu eða stuðning frekar en við viljum. Engu að síður er skylt samkvæmt alþjóðalögum að standa við þjóðréttarlega samninga, að minnsta kosti þá sem enn gilda og hefur ekki verið sagt upp.

    Guðmundur Ásgeirsson, 19.6.2025 kl. 13:05

    11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Sæll Birgir.

    Ég er líka almúgamaður. Ef ég geri einhverntíma þau mistök að fara með rangfærslur má að sjálfsögðu leiðrétta þær og ég er vanur að fagna slíku því mér finnst mikilvægt að hafa réttar upplýsingar. Enginn hefur á neinum tímapunkti þurft að leiðrétta mig um staðreyndir þessa máls og ég sé ekki að í athugasemd þinni komi heldur fram nein ábending um neitt slíkt í innihaldi pistilsins hér að ofan.

    Það er alveg rétt hjá þér að málið er í umdeilt og sumir telja vafa á að "bókun 35" eða frumvarpið sem er að óþörfu kennt við hana standist stjórnarskrá, þó það sé reyndar misskilningur. Að sjálfsögðu er öllum heimilt að hafa efasemdir en þessar eru óþarfar.

    Pistillinn hér að ofan fjallaði aftur á móti alls ekki um neitt af þessu, hvorki skoðanir á málinu eða efasemdir um það né hvort það væri umdeilt, heldur eingöngu um efnislegar staðreyndir þess. Það er nefnilega forsenda upplýstrar umræðu um hvaða mál sem er að hún fari fram á grundvelli réttra staðreynda því annars er hún ekki upplýst.

    Guðmundur Ásgeirsson, 19.6.2025 kl. 13:13

    12 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

    Þegar ég verð forseti, verður EES og Nató samningunum sagt upp. Forsetinn undirritaði þær og Forsetinn getur því rift.

    Þetta einfaldar málið.

    Bestu kveðjur.

    Guðjón E. Hreinberg, 28.6.2025 kl. 11:51

    13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Sæll Guðjón.

    Hvað yrði þá um þau réttindi mín sem hefur verið samið um að ég eigi að njóta samkvæmt EES samningnum? Myndirðu afnema þau líka?

    Guðmundur Ásgeirsson, 28.6.2025 kl. 16:14

    14 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

    EES veitir þér engin réttindi sem Íslenska Lýðveldið getur ekki veitt þér.

    Til þess er jú Ríkisþingið; en ég skal skipa þig í nefndina.

    Guðjón E. Hreinberg, 28.6.2025 kl. 22:52

    15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Takk, ég myndi taka nefndarskipunni fagnandi og gera mitt besta.

    Það er alveg rétt sem þú segir að ekkert hindrar íslenska ríkið frá því að veita fólki góð réttindi, eins góð og EES veitir eða jafnvel betri. Vandamálið hefur hingað til verið að íslenska ríkið gerir það alls ekki og hefur meira að segja skert þau réttindi sem fólk hefði annars með réttu átt að njóta samkvæmt samningum sem íslenska ríkið hefur lofað að standa við en oft svikið þau loforð. Sumir hafa getað náð fram einhverju réttlæti með því að sækja sér skaðabætur fyrir slík svik en slíkt er alltaf kostnaðarsöm óvissuferð og alls ekki á allra færi.

    Ef við erum sammála um að íslenska ríkið eigi að gera betur í þessum efnum og að minnsta kosti jafn vel og í öðrum löndum, þá erum við á sömu blaðsíðu með það. Ef því markmið yrði náð þá væri mér sjálfum alveg sama hvort það hefði nokkuð að gera með EES eða hvort þeim samningi yrði sagt upp. Þar sem það er því miður ekki staðan núna verð ég á meðan svo er að taka með raunsæi mið af núverandi stöðu eins og hún er.

    Góðar stundir.

    Guðmundur Ásgeirsson, 28.6.2025 kl. 23:10

    16 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

    Við ausum sökkvandi skektuna, hvor sínu megin. Þetta hefst á næstu öldum, eikkurir taka við eftir okkar dag.

    Bestu kveðjur.

    Guðjón E. Hreinberg, 29.6.2025 kl. 21:11

    17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Ég vona a.m.k. að mínir afkomendur taki við keflinu eftir minn dag.

    Guðmundur Ásgeirsson, 29.6.2025 kl. 21:17

    Bæta við athugasemd

    Hver er summan af fjórum og sextán?
    Nota HTML-ham

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband