Ranghugmynd um (samfélags)banka
19.3.2025 | 21:00
Fréttakona Viðskiptamoggans ber fram spurningu sem byggir á alvarlegri ranghugmynd, í viðtali við Agnar Tómas Möller í þættinum Spursmál. Spurningin er svohljóðandi: "Er einhver lærdómur sem við getum dregið af ÍL-sjóðs málinu? Því hefur til dæmis verið velt upp að það sanni að hugmyndin um samfélagsbanka gangi ekki upp."
Þessi spurning endurómar falskenningu sem hefur því miður náð nokkurri útbreiðslu í umræðu um fjármála- og bankastarfsemi hér á landi. Fremst í flokki við útbreiðslu þeirrar falskenningar hefur verið fólk sem er andvígt hugmyndum um að koma á fót svokölluðum samfélagsbanka hér á landi.
Falskenninguna má draga saman í stuttu máli þannig: Fullyrt er, eða gengið út frá því sem gefinni forsendu, að Íbúðalánasjóður hafi verið einhverskonar "samfélagsbanki". Hann fór á hausinn með gríðarlegu tapi sem lendir á ríkissjóði á þar með almenningi. Þetta er svo notað til að finna hugmyndum um samfélagsbanka allt til foráttu.
Þessi kenning er fölsk af þeirri einföldu ástæðu að Íbúðalánasjóður var alls ekki banki hvað þá "samfélagsbanki", heldur lánasjóður. Það eru því hreinræktuð strámannsrök að halda því fram að hrakfarir sjóðsins hafi eitthvað að segja um kosti eða galla hugmynda um samfélagsbanka. Einhver gæti þá spurt í hverju munurinn liggur? Munurinn á þessu tvennu er svo sem margvíslegur en veigamestur í þessu sambandi er munurinn á því hvernig bankar veita útlán og hvernig aðrir, þar með taldir lánasjóðir, lána fé.
Lánasjóðir geta ekki lánað út neitt fé nema þeir hafi það fyrst undir höndum og til að fá fé undir hendur fá þeir það sjálfir að láni frá einhverjum öðrum (fjárfestum). Þeir lána það fé svo áfram til viðskiptavina og reikna með að þegar þeir endurgreiði lánin verði það fé notað til að endurgreiða skuldirnar við fjárfestana. Svo að þetta gangi upp þarf að vera jafnvægi á milli innkomu lánasjóðsins frá viðskiptavinum og skuldbindinga hans til að endurgreiða fjárfestum. Þetta var það sem fór gjörsamlega úr jafnvægi hjá Íbúðalánasjóði og varð honum að falli en það verður ekki rakið nánar hér.
Aftur á móti þegar banki veitir útlán þarf hann ekki að reiða fram neitt fé til að afhenda lántakandanum. Margir halda að þegar banki veitir útlán þurfi hann að taka það fé frá einhverjum öðrum stað og setja það í hendur lántakandans, en þetta er ranghugmynd. Hið rétta er að þegar banki veitir útlán þarf hann ekki fá lánsféð neinsstaðar annarsstaðar frá til að geta lagt það inn á reikning lántakandans. Það sem raunverulega gerist er að þegar lántakandinn hefur skrifað undir skuldarviðurkenningu bókfærir bankinn hana sér sem eign og býr til skuld á móti í formi (nýrrar) innstæðu á bankareikningi lántakandans. Við þetta skipta engir peningar um hendur heldur verða einfaldlega til nýir "peningar" í formi nýrrar eða hækkaðrar innstæðu á reikningi lántakandans.
Margir trúa því ekki að það sé raunverulega svona sem útlánastarfsemi banka virkar en það er nú samt staðreynd og engin kenning. Sú staðreynd hefur margítrekað verið staðfest af þar til bærum yfirvöldum bæði erlendis og hér á landi. Sem dæmi má nefna svar Katrínar Jakobsdóttur þáverandi forsætisráðherra sem fór með málefni Seðlabanka Íslands, við fyrirspurn þingmanns frá 16. janúar 2023: "Þegar innlánsstofnun veitir lán verður samtímis til nýtt samsvarandi innlán og þannig eykst peningamagn."
Þrátt fyrir að þetta liggi alveg ljóst fyrir finnst mörgum samt sem áður ótrúlegt að þetta virki í raun svona því það virðist vera eins og einhver galdur, að nýir "peningar" geti bara allt í einu orðið til í bankanum líkt og nánast úr engu. Skiljanlega, en það er samt einmitt þannig sem galdurinn virkar, peningagaldurinn sem öll bankastarfsemi byggist á. Þetta er líka það sem gerir banka að allt öðruvísi fyrirbærum en venjulegum atvinnufyrirtækjum, þar með töldum lánasjóðum hvor sem þeir eru á vegum ríkisins eða einkareknir.
Þess vegna er sú kenning að hrakfarir Íbúðalánasjóðs séu einhverskonar "víti til varnaðar" um að samfélagsbanki sé slæm hugmynd einfaldlega röng. Ekkert svar er til við spurningu fréttakonu Viðskiptamoggans því sjálf spurningin var röng.
![]() |
Misheppnuð fjármálastjórn ÍL-sjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Peningamál | Breytt s.d. kl. 21:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning